Guðmundur Valur

Villandi málflutningur um laxeldi

Vísindamenn sérhæfa sig gjarnan í rannsóknum á alls konar hlutum og fyrirbærum og fjármagna ríkissjóðir landa oftast laun þeirra í gegnum sérstaka sjóði sem stofnaðir eru í þeim tilgangi. Rannsóknarfé fer að stórum hluta í verkefni sem lúta að því að komast hjá eða afstýra vandamálum, m.a. á umhverfissviði. Því miður er raunin sú að vísindmenn válegra tíðinda fá oftast mestan part fjármagns úr rannsóknarsjóðunum. Í þeim tilvikum er það beinlínis hagsmunamál þeirra að draga upp dökka mynd af viðfangsefnunum. Mörg hver tengjast atvinnuvegum þar sem mikið fjármagn er í umferð og mikið í húfi.

Í ákveðnum tilvikum sjá hagsmunahópar sér hag af ástundun villandi málflutnings sem byggjast á „kenningum“ þessa hóps vísindamanna fremur en viðurkenndum niðurstöðum í þeim tilgangi að skaða viðkomandi atvinnugrein. Sum viðfangsefni vísindamanna eru þess eðlis að allir vísindamenn eru sammála um eðli þess og umfang. Í öðrum greinir vísindamenn á um viðfangsefnið þar sem annar hópurunn telur hættu á ferðum á meðan hinn er því ósammála. Þá er yfirleitt um að ræða rökstuddar og rannsakaðar kenningar þar sem vísindamennirnir komast að mismunandi niðurstöðu og skýringum á eðli viðfangsefnisins.

Laxeldi gott dæmi

Laxeldi er ágætt dæmi um viðfangsefni þar sem vísindamenn greinir á um fjölmargar niðurstöður. Undirritaður hefur fylgst með þróun atvinnugreinarinnar allt frá því að hún fór að myndast upp úr 1960 í suðvestur-Noregi og fram á þennan dag. Í stuttu máli er aðeins eitt umtalsvert vandamál í norsku laxeldi sem allir vísindamenn eru sammála um að sé til staðar. Það er lúsin. Miklar framfarir hafa átt sér stað sl. ár til að stemma stigu við henni og er útlit fyrir enn meiri árangur á því sviði. Lúsasmit berst sjaldnast milli fjarða, hvað þá milli landshluta. Af því leiðir að vandamálið er hverfandi á Íslandi. Hvað varðar t.d. áhrif stokueldislaxa á villta stofna greinir vísindamenn á um afleiðingar.

Lífrænn úrgangur

Laxeldi er einnig gott dæmi um atvinnuveg sem veltir gríðarlegum fjármunum. Greinin er mikilvægt hagsmunamál í Noregi og á Íslandi, sérstaklega í strandbyggðunum, og er því brýnt að laxeldið sé sjálfbært og þróist í sátt við umhverfið. En greinin er jafnframt viðkvæm og næm fyrir áhlaupi hagsmuna- og öfgahópa. Fyrir vísindamenn er laxeldið vænleg tekjulind enda hafa fjölmargar fullyrðingar birst hér á landi og erlendis sem eiga ekki við nein rök að styðjast, en skapa atvinnu.

Til dæmis hefur verið fullyrt að ein fiskeldisstöð með sjókvíar mengi  álíka mikið og borg á borð við Reykjavík eða Osló. Orðið „mengun“ er mikið notað af aðilum sem stunda villandi málflutning vegna þess hversu neikvætt það er í huga fólks. Það er því vænlegt til að vekja neikvæð viðbrögð. Í tilfelli laxeldis á Íslandi er „mengunin“ í raun „lífrænn áburður“ sem hefur jákvæða merkingu. Sjaldnast er því talað um lífrænan áburð af andstæðingum eldisins. Berum aðeins saman „mengun“ frá sjókvíum við mengun frá Reykjavíkurborg. Hversu margar uppþvottavélar og tauþvottavélar eru í kvíunum og hversu mikinn klósettpappír, sápu og allskonar önnur efni nota laxarnir? Augljóslega er þetta fáránlegur samanburður sem tekur engu tali. Nær væri að bera saman lífrænan úrgang frá kvíum við lífrænan úrgang frá t.d. kúabúi. Fjóshaugurinn mengar jörðina sem hann liggur á, en hún er það lítil að flatarmáli að það er ekki talið vandamál. Þegar bóndinn dreifir mykjunni á túnið breytist mengunin í lífrænan áburð sem veldur aukinni sprettu af hollu og vítamínríku grasi. Sama má segja um laxinn, hann kúkar og pissar eins og aðrar skepnur og eini munurinn í þessum samanburði er sá að mykjudreifarinn í laxeldinu er hafstraumurinn sem dreifir þessum lífræna áburði út í umhverfið sem notar hann til að framleiða holla fæðu fyrir lífríkið í viðkomandi firði og jafnvel víðar. Það verður enginn mykjuhaugur undir kvíunum því burðarþolsmatið segir til um hversu miklum úrgangi hafstraumurinn getur dreift og við það mat takmarkast leyfileg framleiðsla.

Genamengun

Genamengun er annað dæmi sem ákveðnir vísindamenn nota þegar rætt er um hugsanlegar afleiðingar af erfðablöndun eldislaxa og villtra. Þá er fullyrt að afkvæmi laxa sem eiga forfeður frá Noregi og laxa sem eiga íslenska forfeður séu genamengaðir. Á sama hátt eru þá Íslendingar genamengaðir sem eiga erlenda forfeður. Norskur lax og íslenskur lax eru sama tegund, (Salmo salar) og Norðmenn og Íslendingar eru báðir sama tegund (Homo sapiens). Það er óeðlilegt að búin séu til hugtök sem gilda bara yfir eina tegund dýra en ekki aðrar. En það hentar sumum hagsmunahópum til að villa um fyrir fólki.

Ólíku saman að jafna

Annað dæmi um villandi málflutning er þegar sagt er að norski laxastofninn muni stórskaða íslenska laxastofninn á sama hátt og minkurinn gerði þegar hann slapp úr eldishúsum til skaða fyrir íslenska vistkerfið. Munurinn er hins vegar sá að minkurinn (Mustela vison) var ekki til í vistkerfinu hér áður en minkabúin hófu rekstur. Laxinn (Salmo salar) er hins vegar hluti íslenska vatnavistkerfisins. Minkurinn er nýbúi á Íslandi en laxinn ekki og þess vegna um óhæfan samanburð að ræða.

Einnig er fullyrt að reynslan frá Noregi sýni að eldislaxar sleppi reglulega úr kvíum og fari í laxveiðiár. Fundist hafi mikið magn eldislax í þekktum laxveiðiám og hið sama muni gerast á Íslandi. Þetta er einnig villandi málflutningur vegna þess að norska laxeldið hófst beinlínis við ósa helstu laxveiðiánna og enginn hafði neitt við það að athuga fyrstu 20 – 30 árin. Í Noregi fer enn fram eldisframleiðsla nálægt helstu búsvæðum villtra laxastofna. Þessu er þveröfugt farið á Íslandi þar sem hér er beinlínis bannað að ala lax í sjókvíum nálægt náttúrulegum villtum laxastofnum. Þess vegna er aðeins heimilt að ala lax í kvíum á Vestfjörðum, í Eyjafirði og á sunnanverðum Austfjörðum. Yfirfærsla á aðstæðum í Noregi til Íslands er því mjög villandi.

Málsóknarfélag

Fólk myndar sér skoðanir út frá umræðunni og ýmsir eru á móti sjókvíaeldi á laxi á Íslandi. Nú hefur hópur hagsmunaaðila stofnað málssóknarfélag sem ætlar að krefjast þess fyrir dómi að starfsleyfi Arnarlax verði ógilt. Þetta er árás á atvinnugreinina í heild og hefði, gangi það eftir, ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér fyrir alla þá sem byggja lífsafkomu sína á greininni, einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög sem barist hafa í bökkum. Verði sú raunin munu þeir vinna sem stunda villandi málflutning og rökleysu í áróðursskyni í þágu eigin sérhagsmuna.

 

Guðmundur Valur Stefánsson, Cand scient í sjávar- og fiskalíffræði.