• Það er útilokað að byggja laxeldi eingöngu uppi á landi.
  • Aðgengi að vatni, hita og plássi eru takmarkaðndi fyrir uppbyggingu.
  • Ísland stendur vel að vígi í samanburði við önnur lönd.
  • Það eru bæði kostir og gallar við landeldi.
  • Kostnaðarlega er landeldi ekki samkeppnishæft við kvíaeldi.
  • Laxeldi hvort heldur sem er á sjó eða á landi er umhverfisvæn framleiðsla.
  • Vöxtur í landeldi á heimsvísu er háður árangri í endurnýtingu vatns.

Framleiðsla á laxi í landeldi er af miklum gæðum. Ekki er þó sjáanlegur mikill munur á fiski sem tekinn er beint upp úr sjókví og fiski sem tekinn er upp úr keri hjá honum á landi.

Þetta voru meginniðurstöður Arnars Freys Jónssonar rekstrarstjóra Íslandsbleikju í Öxarfirði, í erindi sem hann flutti á Strandbúnaðarráðstefnunni í mars sl.
Fiskifréttir tóku þessi mál til umfjöllunar í nýjasta tölublaðinu og ræddu ma við Arnar. Þar áréttar hann að landeldi geti aldrei komið í staðinn fyrir sjóeldið.
„En þá fer allt forskot okkar Íslendinga út í hafsauga…“
„Stórskala landeldi kallar á gríðarlegt magn af vatni og það er bara ekkert í boði alls staðar. Þetta mun alltaf verða takmarkandi þáttur. Eins og staðan er í dag eru menn ekkert að ná árangri nema með mikilli vatnsnotkun. Bendir Arnar á að til þess að komast af með minni vatnsnotkun þyrfti að vera hægt að endurnýta vatnið en margra ára vinna við að þróa aðferðir við endurnýtingu vatnsins hefur ekki skilað þeim árangri sem þyrfti.
„Sjálfsagt verður auðvitað einhver framtíð í því þegar menn ná tökum á þessu. En þá fer allt forskot okkar Íslendinga út í hafsauga því þá verða menn með framleiðsluna nær mörkuðunum, þar sem ekki þvar neinar vatnsauðlindir.“
Viðkvæm fyrir verði á mörkuðum
Um rekstrarþáttinn segir Arnar Freyr:
„Ég myndi segja að það sé ekki eins mikill afgangur af þessu í rekstrinum eins og þyrfti að vera miðað við áhættuna sem er í svona rekstri. Það geta alltaf orðið einhver óhöpp og svo erum við líka mjög viðkvæm fyrir verði á mörkuðum. Það þarf til dæmis ekki mikið að breytast í gengismálum til að við séum komnir öfugu megin við núllið. Þetta verður líka alltaf mannaflsfrekari rekstur en sjóeldið.
Enginn stór munur á gæðunum
Varðandi gæðin segir Arnar í viðtalinu við Fiskifréttir að landeldið hafi vinninginn. Hann segist hins vegar ekki telja að neinn stór munur sé sjáanlegur á fiski sem tekinn er beint upp úr sjókví og fiski sem tekinn er upp úr keri hjá honum á landi.