Fiskeldisfyrirtækin þrjú sem hafa undirbúið laxeldi í Ísafjarðardjúpi hafa lýst yfir óbreyttum ásetningi sínum, þrátt fyrir að áhættumat Hafrannsóknastofnunarinnar geri ekki ráð fyrir laxeldi í Djúpinu. Þá hafa þingmenn og forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi látið í ljósi eindreginn stuðning við að laxeldi verði í Ísafjarðardjúpi og hvatt til þess að áhættumatið fyrir Djúpið verði endurskoðað sem allra fyrst. Bent er á að áhættumatið taki ekki tillit til mögulegra fyrirbyggjandi aðgerða, annarrar mögulegrar eldistækni né mótvægisaðgerða sem hafi það að markmiði að draga úr hættu á slysasleppingum og þar með erfðablöndun.
Loks hafa komið fram í umræðunni upplýsingar um að laxveiðin í ánum í Ísafjarðardjúpi byggi á fiski sem ræktaður hafi verið upp úr seiðum sem flutt hafi verið að og sé því ekki um að ræða náttúrulegan stofn þessara veiðiáa.
„Við erum ekkert hættir í Djúpinu“
Fram kemur í viðtali BB.is við Víking Gunnarsson framkvæmdastjóra Arnarlax, að stjórnendur fyrirtækisins séu ekki hættir við laxeldisáform í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið hefur verið með 10 þúsund tonna eldi í Djúpinu í umhverfismati. „Við erum ekkert hættir í Djúpinu, ekki frekar en Arctic Fish eða Háafell,“ segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Víkingur segir að nú sé verið að meta stöðuna, hvort það sé hægt að fara af stað og þá með hvaða leiðum.
Háafell stefnir að fiskeldi í Ísafjarðardjúpi
Háafell ehf., dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf., ætlar heldur ekki að leggja árar í bát og stefnir enn að fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. „Við munum vinna áfram heilir og beinir að því,“ segir Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri Háafells, í samtali við bb.is.
Vinnur faglega að undirbúningi þess að hefja laxeldi í Ísafjarðardjúpi
Í tilkynningu frá Arcitc fish segir:
„Frá stofnun hefur Arctic Fish haft á stefnu sinni að byggja upp fyrirtæki þar sem áhersla er lögð á umhverfisvænt eldi með sérstöðu úr náttúrulegu íslensku umhverfi. Arctic Fish ætlar því á komandi mánuðum að vinna faglega að undirbúningi mótvægisaðgerða til þess að geta hafið eldi á laxi í Ísafjarðardjúpi. Áhættumatið er byggt á forsendum og þekkingu sem liggja fyrir á hverjum tíma og tekur því mið af breytingum sem kunna að verða.
Þrátt fyrir mögulega biðstöðu í Ísafjarðardjúpi þá mun Arctic Fish halda áfram vinnu sinni við að byggja upp öflugt eldi í Dýrafirði og á suðurfjörðum Vestfjarða. Seiðaeldið er grundvöllurinn fyrir framtíðaruppbyggingu á sjókvíaeldisstarfsemi fyrirtækisins. Þegar lokið verður uppbyggingu þeirra þriggja eldishúsa sem unnið er að í botni Tálknafjarðar er áætlað að framleiðslugetan verði í kringum 5-6 milljónir seiða og í framtíðinni verður að hluta til hægt að ala stór seiði eins og mótvægisaðgerðirnar kalla á.“

„Engar forsendur fyrir því að loka Djúpinu“
Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Norðvesturkjördæmis fyrrverandi ráðherra ritaði grein í bb.is og segir þar: „Mikilvægt er að Hafrannsóknarstofnun fái ráðrúm til þess að klára sína rannsóknar og þróunarvinnu. Í dag er ekki hægt að leggja þær rannsóknir til grundvallar ákvarðanatöku um framtíð fiskeldis.
Sé horft til þess, mögulegra mótvægisaðgerða og hinna jákvæðu samfélagsáhrifa eru engar forsendur fyrir því að loka Djúpinu.“
„Ég kvitta ekki upp á að loka Ísafjarðardjúpinu“
Teitur Björn Einarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi leggur áherslu á að framþróun fiskeldis muni alltaf byggja á vísindum. „Sú framþróun verður að vera með þeim hætti að hagsmunir veiðiréttarhafa, fiskeldisfyrirtækja og samfélagsins alls fari saman og það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að finna þann meðalveg“, segir hann í viðtali við BB.is
Teitur Björn bendir á að árið 2004 hafi verið stigið stórt skref í að friða strandlengjuna fyrir sjókvíaeldi. „Þá var nær öllu landinu lokað nema hluta Austfjarða og Vestfjarða, þar með talið Ísafjarðardjúpi og ég sé ekki að svo stöddu að þær upplýsingar sem hafa komið fram eigi að breyta því mati og ég kvitta ekki upp á að loka Ísafjarðardjúpinu,“

„Aldrei sátt með Ísafjarðardjúp lokað“
Elsa Lára Arnardóttir þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi segir í viðtal við BB.is: „Mér finnst mikilvægt að fiskeldið sé byggt upp á rannsóknum og vísindum og fagna því aðkomu Hafrannsóknastofnunar að málinu. Hins vegar er þetta ný aðferðafræði sem er verið að beita með áhættumatinu, það þarf að fá að þróast og standa á sterkum vísindalegum grunni áður en það er gert að stjórntæki,“ segir Elsa Lára.
Hún kallar eftir að fleiri þættir verði teknir inn í jöfnuna. „Eins og til dæmis mótvægisaðgerðir sem eru byggðar á því sem best þekkist erlendis til að fyrirbyggja mögulegan skaða en mér sýnist sem þær hafi ekki verið inn í forsendunum fyrir matinu.“
Elsa Lára segir það verkefni stjórnmálamanna að sætta ólík sjónarmið í þessu máli. „En það verður aldrei sátt með Ísafjarðardjúp lokað.“

„Þannig að byggja megi upp sjókvíaeldi við Djúp“
Guðjón Brjánsson þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi segir í aðsendri grein í BB.is: Krafan er sú að áhættumatið verði endurskoðað strax. Með öflugum og raunhæfum mótvægisaðgerðum er næsta víst að draga megi verulega úr þeirri áhættu sem menn skelfast þannig að byggja megi upp sjókvíaeldi við Djúp eins og stefnt hefur verið að.
Þingmenn kjördæmisins hafa ákveðið að koma saman á næstu dögum og fara yfir þessa stöðu sem uppi er og ég spái því að þessi málefni muni taka drjúgan tíma af starfinu á vettvangi þingsins, bæði atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar á næstunni því mikið er í húfi.“
„Djúpið opni fyrir laxeldi strax á næstu árum“
Gylfi Ólafsson sem var fyrsti maður á lista Viðreisnar fyrir síðustu alþingiskosningar og aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra og formanns Viðreisnar segir í grein á BB.is: „Krafan er því einföld: að áhættumatið verði uppfært eins fljótt og auðið er, og löngu áður en árin þrjú eru úti. Þegar hagrænu áhrifin liggja fyrir geta ráðherra og stjórnvöld önnur litið til þeirra einnig.
Hafandi skoðað áhættumatið og helstu hagrænu þætti er augljóst að uppfært áhættumat og formlegt mat á hagrænum áhrifum muni hvort tveggja verða til þess að Djúpið opni fyrir laxeldi strax á næstu árum.“
„Vekur upp spurningar hvort áhættumat Hafró þurfi ekki endurskoðunar við“
Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi segir í stöðuuppfærslu á facebook: „Áhættumatið fyrir fiskeldi í Ísafjarðardjúpi tekur ekkert mið af mótvægisaðgerðum þar sem uppræktaðar ár eiga í hlut. Þegar virkjanarkostir í Neðri Þjórsá voru settir í nýtingarflokk þar sem stærstu og sérstæðustu íslensku laxastofnar eru þá var tekið tillit til mótvægisaðgerða eins og seiðafleytna. Þar hafa vistfræðingar varað við hruni stofnsins ef af virkjunum verður sem er óafturkræft. Þetta vekur spurningar um hvort nýtilkomið líkan um áhættumat sem Hafró byggir á þurfi.ekki endurskoðunar við þar sem fleiri þættir eru vegnir inní og fengin er rýni og álit fleiri vísindamanna miðað við boðaðar mótvægisaðgerðir og möguleika á að endurheimta með nýjum seiðum ef slysaslepping verður og hugsanleg kynblöndn í afmörkuðum uppræktuðum ám í Djúpinu.“