„.Ég fer reglulega á suðurhluta Vestfjarða vegna starfsemi okkar þar. Það hefur orðið gífurleg breyting á þessum byggðum á stuttum tíma vegna fiskeldisins. Þetta er flott vinna og gott fyrir fólk að eiga möguleika á ágætlega launuðum störfum“.
Þetta segir Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Grundarfirði í samtali við Morgunblaðið, sl fimmtudag, 25 október sl.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga er með framhaldsdeild á Patreksfirði og það var að áeggjan Vesturbyggðar og Arnarlax, stærsta laxeldisfyrirtækis landsins, að farið var að huga að fiskeldisbraut. Samstarf er einnig við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað um þróun námsins en þar er annað framtíðarfiskeldissvæði. Þessir tveir skólar starfa saman að fjarkennslu ásamt fleiri minni framhaldsskólum.

Hér á eftir fer frétt Morgunblaðsins í heild sinni:
Fjölbrautaskóli Snæfellinga í Grundarfirði býður nú upp á nám í fiskeldisfræðum á framhaldsskólastigi. Byrjað var í haust en skólameistarinn segir að fáir nemendur séu byrjaðir enda sé eftir að fá verknámshlutann samþykktan. Vonast hún til að kennsla hefjist fyrir alvöru eftir áramót.
Samstarf framhaldsskóla á Austfjörðum og Vestfjörðum
Fjölbrautaskólinn er með framhaldsdeild á Patreksfirði og það var að áeggjan Vesturbyggðar og Arnarlax, stærsta laxeldisfyrirtækis landsins, að farið var að huga að fiskeldisbraut. Samstarf er einnig við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað um þróun námsins en þar er annað framtíðarfiskeldissvæði. Þessir tveir skólar starfa saman að fjarkennslu ásamt fleiri minni framhaldsskólum.
Tveggja ára nám
Nám á fiskeldisbraut er tveggja ára nám, 120 eininga, með námslokum á öðru hæfnisþrepi. Meginmarkmið námsins er, samkvæmt upplýsingum Sólrúnar Guðjónsdóttur aðstoðarskólameistara, að undirbúa nemendur undir sérhæfð störf á sviði fiskeldis og er lögð áhersla á að þjálfa nákvæmni í vinnubrögðum, áreiðanleika og hæfni til að vinna sjálfstætt undir stjórn yfirmanns. Að loknu námi á nemandi að geta skipulagt og forgangsraðað störfum sínum, veitt jafningjum ráðgjöf og leiðbeiningar í samvinnu við yfirmann.
Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari segir að skólinn muni útskrifa sérhæfða fiskeldisstarfsmenn sem geti hafið störf við eldið eða haldið áfram námi til stúdentsprófs og farið í háskólanám í fiskeldi við Háskólann á Hólum.
Námsbrautin er í staðfestingarferli
Námsbrautin er í staðfestingarferli hjá Menntamálastofnun og segir Hrafnhildur að leyfi sé komið fyrir bóklega hlutanum. Verknámið sé í vinnslu hjá starfsgreinaráði.
Einn nemandi hóf nám í haust og sjö til viðbótar sem lokið hafa bóklega hlutanum sóttu um verknámið en það verður væntanlega hafið um áramót. Þá verður einnig bætt við nemendum.
„Gífurleg breyting á þessum byggðum vegna fiskeldisins“
Hrafnhildur segir að það taki tíma að byggja upp nýja námsbraut og kynna hana. Hún nefnir að ekki hafi verið mikil spurn eftir starfsnámi en vonandi sé það að breytast. Þá hafi óvissan sem vofði yfir fiskeldisfyrirtækjunum á sunnanverðum Vestfjörðum fyrr í vetur ekki hjálpað. Nemendur hafi haldið að sér höndum.
„Ég fer reglulega á suðurhluta Vestfjarða vegna starfsemi okkar þar. Það hefur orðið gífurleg breyting á þessum byggðum á stuttum tíma vegna fiskeldisins. Þetta er flott vinna og gott fyrir fólk að eiga möguleika á ágætlega launuðum störfum“.