„Þetta á bara eftir að stækka“, segir Stefán Ingvarsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins Egersund Ísland, sem er að koma upp fullkominni þvottastöð fyrir fiskeldisnætur á Eskifirði. Stefán segir að ótrúlega margir vinni þegar við fiskeldi á Eskifirði og fyrirtækið kaupi margvíslega þjónustu á staðnum.
Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri Fjarðarbyggðar bendir á að aðaláhrif fiskeldisfyrirtækja séu í gegn um slátrun á laxinum sem nú fer fram hjá Búlandstindi á Djúpavogi í tilviki Laxa fiskeldis sem er með sitt eldi í Reyðarfirði. Þegar forsendur verði fyrir hendi gæti þetta breyst og fiskeldið orðið mikilvægur liður í atvinnulífinu í sveitarfélaginu.

Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri Fjarðarbyggðar bendir á að aðaláhrif fiskeldisfyrirtækja séu í gegn um slátrun á laxinum sem nú fer fram hjá Búlandstindi á Djúpavogi í tilviki Laxa fiskeldis sem er með sitt eldi í Reyðarfirði. Þegar forsendur verði fyrir hendi gæti þetta breyst og fiskeldið orðið mikilvægur liður í atvinnulífinu í sveitarfélaginu.

Stefán Ingvarsson: „Við getum útvegað allt fyrir fiskeldið, annað en laxinn,“

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu 3. desember. Hér á eftir fer frétt Morgunblaðsins frá 3. desember sl. í heild sinni.
Egersund Ísland er að koma upp þvottastöð fyrir fiskeldisnætur á lóð netagerðar sinnar á Eskifirði. Stutt er í að starfsemin hefjist. Auk þess að þvo næturnar þarf að hafa eftirlit, annast prófun og viðgerðir á nótunum á netaverkstæðinu.
Egersund Ísland er hluti af samstæðu Egersund hinnar norsku. Hún rekur átta nótaþvottastöðvar í nágrenni við flest helstu fiskeldissvæði Noregs. Egersund Ísland sækir í smiðju móðurfélagsins og úr verður fullkomnasta þvottastöð heims.
Þarf gæðakerfi
Þvottavélin er komin á staðinn. Það er ekki nóg því koma þarf upp miklu dælu- og hreinsikerfi. Þvottastöðin fær hreinsaðan sjó frá Eskju, samskonar sjó og notaður er við fiskvinnsluna. Að auki er þvottavatnið sótthreinsað ásamt vatninu sem lekur af nótunum og öllu regnvatni sem bætist á þvottaplanið og það endurnýtt að hluta eða skilað hreinu út í sjóinn aftur. Hreinsivirkið er sett upp í gámaeiningar hjá framleiðandanum í Þýskalandi og verður nánast hægt að stinga í samband þegar gámarnir koma á staðinn.
Barði Westin, þjónustustjóri fiskeldis hjá Egersund Ísland, segir að jafnhliða þurfi að byggja upp vottunarkerfi fyrir alla vinnu við næturnar til að tryggja að þær séu í góðu ásigkomulagi þegar lax er settur í kvíarnar á ný. Það kerfi fái þeir frá Noregi.
Mikil þörf fyrir slíka þjónustu hér á landi
Barði segir að mikil þörf sé á slíkri þjónustu hér á landi og vonast hann til að geta þjónað flestum fiskeldisstöðvum landsins. Allar stöðvarnar hvíla eldissvæðin að lokinni slátrun og þá þarf að þvo næturnar. Barði vonast til þess að hægt verði að gangsetja þvottastöðina í byrjun nýs árs og þjóna Löxum fiskeldi sem eru þessar vikurnar að slátra fyrstu kynslóð laxa úr Reyðarfirði og þurfa að láta þvo og yfirfara næturnar í byrjun næsta árs.
„Getum útvegað allt fyrir fiskeldið annað en laxinn“
Stefán Ingvarsson, framkvæmdastjóri Egersund Ísland, segir að ekki sé grundvöllur til að framleiða nótapokana hér. Þeir séu framleiddir í Noregi og Litháen. Þeir hafi þó þjónað fiskeldinu talsvert, til dæmis með því að selja fyrirtækjum fuglanet sem sett eru yfir kvíarnar.
Hann vekur hins vegar athygli á því að Egersund hafi sameinast Akva-samstæðunni sem er virtur tækjaframleiðandi fyrir fiskeldið. Hluti af fóðurprömmunum sem hér eru í notkun og myndavélabúnaður er til dæmis frá Akva. Egersund geti veitt fiskeldisfyrirtækjum heildarþjónustu. „Við getum útvegað allt fyrir fiskeldið, annað en laxinn,“ segir Stefán.
Hann segir fyrirtækið vera heppið að eiga þetta bakland í Noregi. „Við nýtum okkur reynslu Norðmanna sem eru lengst komnir í fiskeldi í heiminum,“ segir hann.