Matvælastofnun hefur veitt Arctic Sea Farm og Fjarðalaxi (Arnarlax) rekstrarleyfi til fiskeldis í Patreks- og Tálknafirði í samræmi við lög um fiskeldi. Enn fremur hefur Umhverfisstofnun gefið út starfsleyfi vegna þessarar starfsemi fyrirtækjanna. Samanlögð árleg framleiðsla fyrirtækjanna tveggja verður 17.500 tonn af laxi. Fjarðalaxi er heimilt að framleiða allt að 10.700 tonn á ári og Arctic Sea Farm 6.800 tonn. Hámarkslífmassi eldisins mun ekki fara yfir 20.000 tonn sem er í samræmi við burðarþolsmat fjarðanna.
Framkvæmd fyrirtækjanna fór í gegnum sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.
Leiðbeiningar um lúsatalningu og vöktun lúsasmits
Í greinargerð Matvælastofnunar er ítarlega fjallað um ýmsar forsendur rekstrarleyfisins. Þar segir ma:
„Eftirlit með laxalús er eitt þeirra atriða sem skylt er að fylgjast með. Með þessu ákvæði er rekstraraðilum gert skylt að hafa eftirlit með laxalús, en rekstraraðilar setja fram áætlun um vöktun og viðmið í gæðahandbók.

Rekstraraðilar fara einnig eftir leiðbeiningum Matvælastofnunar um lúsatalningu og vöktun lúsasmits í sjókvíum (sbr. viðauki 10 í matsskýrslu). Einnig munu báðir rekstraraðilar vinna samkvæmt ASC vottunarstaðlinum, en samkvæmt staðlinum skal telja lús á eldisfiski vikulega á göngutíma villtra laxfiska til sjávar og hefja á slíka talningu mánuði áður en göngutími hefst. Einnig gerir ASC staðallinn
kröfur um talningar á lús á villtum laxfiskum.Varðandi viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa þá leggur stofnunin til, í samræmi við skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi, að miða ekki við hámarksfjölda laxalúsar á hvern fisk, heldur að brugðist verði við ef laxalús verður áberandi í eldi og meta þá aðstæður hverju sinni, m.t.t. árstíma, stærðar fiskar og staðsetningar. Matvælastofnun telur opinbera birtingu á niðurstöðum lúsatalningar vera jákvæða
en telur að setja þurfi lagaákvæði sem tæki til þess. Matvælastofnun telur að atriði er varða vöktun laxalúsar og sýnatöku á þeim tíma árs sem aðstæður eru hagstæðar fyrir vöxt laxalúsar samræmist áliti Skipulagsstofnunar. Stofnunin telur að ekki sé að fullu hægt að verða við áliti Skipulagsstofnunar er varðar viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa með hliðsjón af áætlaðri hættu á afföllum villtra laxfiska þar sem viðmiðin eru sett af rekstraraðilum sjálfum skv. 44. gr. reglugerðar um fiskeldi, nr.
1170/2015. Sama á við um að niðurstöður vöktunar verði gerðar opinberar, en hvorki lög um fiskeldi, nr. 71/2008, né reglugerð um fiskeldi, nr. 1170/2015, kveða á um slíkt.

 

Áhættumat hefur verið unnið

Um viðbrögð við fisksjúkdómum gilda lög um dýrasjúkdóma, nr. 25/1993, og reglugerð um viðbrögð við smitsjúkdómum, nr. 665/2001, reglugerð um heilbrigðiskröfur að því er varðar lagareldisdýr og afurðir þeirra og um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum, nr. 1254/2008, og reglugerð um varnir gegn fisksjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með fiskeldisstöðvum, nr. 403/1986.
Dýralæknir fisksjúkdóma hefur unnið áhættumat varðandi áhrif fisksjúkdóma í eldi á villta stofna og niðurstöður áhættumats voru kynntar í skýrslunni Áhrif smitsjúkdóma á vöxt og viðgang villtra laxa og silungastofna árið 2000. Með hliðsjón af því áhættumati auk gildandi laga og reglugerðar hefur Matvælastofnun sett upp viðbragðsáætlun sem notast verður við ef óæskileg sjúkdómastaða kemur upp í fiskeldi. Þar eru tilgreindar þær mótvægisaðgerðir sem gripið yrði til og hvenær aðgerða er þörf.
Einnig er útsetningu seiða stýrt af Matvælastofnun sem tryggir samræmingu útsetningar milli rekstraraðila sem lámarkar hættu á að smit frá eldinu berist milli árgangasvæða.
Matvælastofnun telur að ofangreint samræmist áliti Skipulagsstofnunar.

Vöktunaráætlun
Vöktun á ástandi sjávar, botndýralífi og uppsöfnunar lífræns úrgangs á eldissvæðum er framkvæmd samkvæmt vöktunaráætlun fyrirtækjanna sem heyrir undir starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar.
Starfsleyfisskilyrði skylda rekstraraðila til að vakta losun mengunarefna til viðtaka og dreifingu þeirra ásamt því að meta vistfræðilegar afleiðingar hennar. Taka þarf sjósýni á þriggja ára fresti á hverju eldissvæði á þeim tíma sem mesta fóðrun stendur yfir. Samkvæmt starfsleyfisskilyrðum skal vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf vera
samkvæmt staðlinum ISO 12878. Einnig getur Umhverfisstofnun, samkvæmt starfsleyfisskilyrðum, einhliða frestað útsetningu seiða bendi niðurstöður umhverfisvöktunar til þess að aðstæður í umhverfi eða náttúru séu óhagstæðar, t.a.m. þegar hafsbotn hefur ekki náð ásættanlegu ástandi eftir hvíld samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar. Matvælastofnun telur að ofangreint samræmist áliti
Skipulagsstofnunar.“