Við kvíarnar hjá Steinanesi. Talið frá vinstri: Víkingur Gunnarsson, Matthias Garðarsson, Ásthuldur Sturludóttir og Lilja Sigríður Hafþórsdóttir, Jón Gunnarsson, Halla Ragnarsdóttir og Sigrún J. Þórisdóttir.

Jón Gunnarsson ráðherra samgöngu og sveitarstjórnarmála heimsótti fiskeldisfyrirtækið Arnarlax á Bíldudal nú fyrr í vikunni. Hann skoðaði vinnslu fyrirtækisins, skrifstofur og stjórnstöð, jafnframt því að sigla út að kvíunum við Steinanes í Arnarfirði.
Jón er gjörkunnugur fiskeldismálunum. Hann var formaður atvinnuveganefndar Alþingis þegar gerðar voru miklar breytingar á lögum um fiskeldi, en þær lagabreytingar tóku gildi í ársbyrjun árið 2015.
Byggðamálin heyra undir ráðuneyti Jóns Gunnarssonar og öllum er ljóst að mikil jákvæð byggðaleg áhrif hafa þegar orðið með uppbyggingu á fiskeldi, jafnt á Vestfjörðum og á Austfjörðum.
Sannkallaður þekkingariðnaður.

Fóðrun í laxeldiskvíunum er stýrt úr landi og fer hún fram með nær alveg sjálfvirkum hætti frá stórum fóðurbátum. Á þjónustubátum fylgist mannskapurinn með því að allt gangi eðlilega fyrir sig.

Eins og kunnugt er, krefst þróað nútíma fiskeldi margvíslegra starfskrafta og mikillar þekkingar. Fiskeldi er því í raun sannkallaður þekkingariðnaður. Mörgum hefur komið á óvart sú mikla fjölbreytni starfa sem er í fiskeldinu, jafnt til sjós og lands.
Háþróaður íslenskur búnaður
Í vinnslunni er háþróaður búnaður, hannaður og smíðaður í íslenskum fyrirtækjum á borð við Skaginn 3X technology, Marel, Vaka og Völku svo dæmi séu tekin. Fóðrun er stýrt úr landi og fer hún fram með nær alveg sjálfvirkum hætti frá stórum fóðurbátum. Á þjónustubátum fylgist mannskapurinn með því að allt gangi eðlilega fyrir sig.
Margvísleg afleidd starfsemi
Það vakti athygli ráðherrans að sjá hvernig margvísleg afleidd starfsemi hefur orðið til í kring um fiskeldið. Allt frá beinni þjónustu á borð við köfun, flutningastarfsemi og fjölda mörgu öðru. Þá hafa aukin umsvif í atvinnulífinu sem stafa af fiskeldisstarfseminni lyft undir margs konar aðra þjónustu, svo sem ferðaþjónustu á svæðinu.
Öflugra skólastarf
Með tilkomu fiskeldisins hefur nemendum á báðum skólastigunum sem sveitarfélögin starfrækja, leikskóla og grunnskóla fjölgað mikið. Og á Patreksfirði er starfrækt framhaldsskóladeild í samvinnu við Fjölbrautaskóla Snæfellinga,svo dæmi séu nefnd.
Mikil tekjuaukning sveitarfélagsins
Á fundi ráðherra með Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra Vesturbyggðar kom fram að tekjuaukning sveitarfélagsins vegna umsvifa fiskeldisins nemur tugum prósenta og sömu sögu er að segja um hafnarsjóðinn.
Fiskeldismenn ánægðir
Fiskeldismenn voru að vonum ánægðir með komu ráðherrans og þann áhuga og skilning sem hann sýndi á þörfum og mikilvægi fiskeldisuppbyggingar og þess hlutverks sem hún gegnir í eflingu byggðanna.
Með í för ráðherrans voru Halla Ragnarsdóttir eiginkona hans, Einar K. Guðfinnsson formaður LF og kona hans Sigrún J. Þórisdóttir, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og níu mánaða dóttir hennar Lilja Sigríður, auk Víkings Gunnarssonar framkvæmdastjóra Arnarlax og Matthías Garðarsson frumkvöðull að stofnun Arnarlax.