Fyrirtækið Laxar fiskeldi á Reyðarfirði birti á heimasíðu sinni fróðlega samantekt í tilefni
af umræðu sem hefur orðið um gjaldtöku í fiskeldi á Íslandi og í Noregi. Þar kemur ma eftirfarandi fram:

1. Norðmenn framleiða 1,3 milljónir tonna af eldislaxi, Íslendingar 15 þúsund tonn
2. Eldisleyfi í Noregi eru varanleg, á Íslandi eru þau tímabundinn afnotaréttur.
3. Sala á eldisleyfum í Noregi hófst ekki fyrr en fiskeldi hafði byggst upp
4. Fyrstu 40 árin greiddu fyrirtæki í Noregi aðeins fyrir starfs og rekstrarleyfi.
5. Mikill kostnaður er við kaup á sérfræðivinnu og gagnaöflun hér á landi.
6. Fyrirtækjum á Íslandi er skylt að kaupa tryggingar fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða.
7. Umsóknarferli Laxa vegna 10.000 tonna framleiðsluaukningar í Reyðarfirði hefur staðið yfir frá því árið 2012.

Frá fiskeldi Laxa í Reyðarfirði: Eldisleyfi í Noregi eru varanleg, á Íslandi eru þau tímabundinn afnotaréttur. – Sala á eldisleyfum í Noregi hófst ekki fyrr en fiskeldi hafði byggst upp

Hér á eftir fer samantekt Laxa fiskeldi í heild sinni:
Í tilefni af umfjöllun um gjaldtöku vegna starfs- og rekstrarleyfa í laxeldi í Fréttablaðinu laugardaginn, 25. ágúst sl. vilja Laxar fiskeldi koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem dregin er upp einföld og röng mynd af kostnaði og gjöldum varðandi laxeldi á Íslandi og hún borinn saman við rekstrarumhverfi laxeldisfyrirtækja í Noregi.
Óraunsætt að bera saman gjaldtöku vegna eldisleyfa á Íslandi og í Noregi
Að bera saman gjaldtöku vegna eldisleyfa á Íslandi og í Noregi er óraunsætt og lýsir mikilli vanþekkingu á leyfaumhverfi og stöðu greinarinnar hérlendis og erlendis. Í Noregi er hefð fyrir laxeldi þar sem öflugir innviðir hafa byggst upp á áratugum en Norðmenn framleiða um 1,3 milljónir tonna af eldislaxi á ári á meðan u.þ.b. 15.000 eru framleidd á ári á Íslandi.
Í Noregi eru eldisleyfi varanleg en ekki tímabundin afnotaréttur eins og á Íslandi
Í Noregi geta fyrirtæki með auðveldum hætti leigt margvíslegan búnað tímabundið af sérstökum þjónustuaðilum. Á Íslandi er veruleikinn allt annar þar sem fyrirtæki þurfa helst að eiga allan búnað eða sækja þjónustu til annarra landa með tilheyrandi umframkostnaði. Jafnframt má benda á að leyfafyrirkomulag er annað í Noregi þar sem eldisleyfi eru varanleg en ekki tímabundinn afnotaréttur líkt og gerist hér. Að jafna saman eldisleyfum í Noregi og á Íslandi án þess að taka inn í grundvallarforsendur er líkast því að bera saman fasteignaverð á Langanesi við það sem tíðkast í miðborg Óslóar
Sala eldisleyfa hófst ekki í Noregi fyrr en iðnaðurinn hafði byggst upp
Mikilvægt er að halda því til haga í umræðunni að norsk yfirvöld hófu ekki sölu eldisleyfa fyrr en á þessari öld þegar iðnaðurinn hafði byggst upp og sannað sig þar í landi eftir áratuga þróun. Fyrstu fjörutíu árin greiddu fyrirtæki í Noregi aðeins fyrir starfs- og rekstrarleyfi. Hérlendis hefur hins vegar strax verið lagt á gjald sem rennur til umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Gríðarlega kostnaðarsamt verkefni bíður íslenskra eldismanna við að byggja upp trausta innviði greinarinnar.
Mikill kostnaður vegna sérfræðivinnu og greiðslur í Umhverfissjóð sjókvíaeldis
Kostnaður eldisaðila við kaup á sérfræðivinnu og gagnaöflun vegna leyfisumsókna hleypur á tugum milljóna króna. Verði niðurstaða Skipulagsstofnunar á leyfisumsókn sú að framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, þá fyrst opnast leið til að sækja um starfs- og rekstrarleyfi. Í rekstrarleyfi er gerð krafa um að leyfishafi kaupi tryggingu, kr. 3.000 fyrir hvert tonn, sem heimilt er að framleiða. Fyrirtæki með stór leyfi þurfa því að greiða umtalsverðar fjárhæðir. Að auki er gerð sú krafa í starfsleyfum að framkvæmdaraðili kaupi tryggingar vegna starfsemi sinnar. Þar með er ekki öll sagan sögð því rekstrarleyfishafa ber að greiða árlegt gjald að fjárhæð 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og rennur það óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Þetta þýðir að greiddar eru tæplega tvær milljónir króna fyrir hver þúsund tonn árlega. Laxar Fiskeldi ehf., greiðir 11,5 milljónir króna fyrir rekstrarleyfi félagsins á ári. Gjaldið er innheimt burt séð frá því hvort rekstur sé hafinn eða ekki.
Umsóknarferli Laxa hefur staðið yfir frá árinu 2012
Þá er nauðsynlegt að benda á þann málsmeðferðarhraða sem er á afgreiðslu leyfisumsókna. Ferlið er gríðarlega tímafrekt og kostnaðarsamt, t.a.m. hefur umsóknarferli Laxa vegna 10.000 tonna framleiðsluaukningar í Reyðarfirði staðið yfir frá því árið 2012. Það krefst þolinmóðs fjármagns að miða fjárfestingar við mögulega framleiðsluaukningu sem háð er svo tímafreku umsóknarferli.
Fögnum opinberri umræðu
Við fögnum opinberi umræðu um rekstrarumhverfi og starfsemi laxeldisfyrirtækja. Mikilvægt er þó að umræðan sé byggð á staðreyndum og taki mið af því rekstrarumhverfi sem við störfum í en ekki gjörólíku umhverfi eins og er í Noregi.