Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra: „Það er mjög jákvætt að fiskeldi á Íslandi er að verða öflugt og skapar bæði verðmæti og störf, en þróun næstu ára þarf að grundvallast á vísindalegum rannsóknum og áhættumati“.

„Það er mjög jákvætt að fiskeldi á Íslandi er að verða öflugt og skapar bæði verðmæti og störf, en þróun næstu ára þarf að grundvallast á vísindalegum rannsóknum og áhættumati“. Þetta segir Kristján Þór Júlíusson nýr sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra í samtali við ViðskiptaMoggann í dag.
Í viðtalinu fer hinn nýi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra yfir ýmis verkefni sem við blasa á málefnasviði ráðuneytis hans. Meðal þess sem ráðherrann ræðir er samhengi sjávarútvegsins, landbúnaðarins og hinna dreifðu byggða landsins.
Fjöldi starfa hefur orðið til í kring um eldið
Í framhaldi af því er í viðtalinu í ViðskiptaMogganum vikið að málefnum fiskeldisins með eftirfarandi hætti:
Talandi um eflingu byggðanna þá hefur fiskeldi verið að styrkjast mikið á undanförnum árum og fjöldi starfa orðið til í kringum eldið. Reikna má með að fiskeldi haldi áfram að vaxa og óttast sumir möguleg skaðleg umhverfisáhrif af fjölgun eldiskvía.
Um þetta segir Kristján Þór Júlíusson í viðtalinu: „Eðlilega eiga sér stað átök þegar uppbygging af þessum toga fer af stað og við höfum vítin til að varast og læra af“.
Höfum góðan grunn til að byggja á“
Í viðtalinu víkur ráðherrann einnig að þeirri stefnumótunarvinnu sem unnin var á þessu ári og leit dagsins ljós síðast liðið haust. Að þeirri vinnu komu fulltrúar þeirra ráðuneyta sem fara með mál er lúta að málaflokknum, sem og fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga og skilaði nefndin sameiginlegu áliti.
Um það atriði segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherraí viðtalinu: „Núna liggur fyrir samkomulag á milli hagsmunaaðila sem var þó ekki þrautalaust að ná fram, en með því höfum við góðan grunn til að byggja á“.