Ekkert skiptir okkur íbúa norðanverða Vestfjarða meira máli og nauðsynlegt að sveitarstjórnarmenn leggist á árarnar og rói lífróður með laxeldi. Við verðum að berjast, öll sem eitt! Við megum ekki láta stjórnmálamenn komast upp með að koma sér undan ábyrgri afstöðu og þeir hafi kjark og þor til að standa með okkur í þessum mikla hagsmunamáli. Að málið sé unnið af fagmennsku en ekki byggt á tilfinningum einum, og meiri hagsmunir teknir fram fyrir minni. Að gríðarlegum hagsmunum okkar sé ekki hent fyrir róða vegna óverulegrar áhættu á erfðamengun í laxveiðiám í Djúpinu. Ég myndi vilja horfa í augu ráðarmanna þegar þeir segja okkur Vestfirðingum að þeir þori ekki að ganga gegn ósanngjörnum kröfum laxveiðimanna.

Þannig kemst Kristín Hálfdánsdóttir bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ að orði í meðfylgjandi grein sem birtist í Morgunblaðinu 15. ágúst sl. Greinin birtist hér í heild sinni.

Fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum er ekkert mál stærra eða mikilvægara en hvort laxeldi í Ísfjarðardjúpi fái brautargengi. Engin önnur atvinnu- og verðmætasköpun er sjáanleg til að byggja upp nýjar meginstoðir í atvinnulífi á þessu svæði til framtíðar. Skapað vel launuð og fjölbreytt störf sem munu hafa úrslitaáhrif á byggðaþróun og snúa áratuga langri hnignun í sókn fyrir íbúana.

Kristín Hálfdánsdóttir: Fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum er ekkert mál stærra eða mikilvægara en hvort laxeldi í Ísfjarðardjúpi fái brautargengi.

Laxeldi er byggðavæn atvinnugrein
Laxeldi er umhverfisvænsta próteinframleiðsla sem til er í öllum samanburði. Reynslan í Noregi og Færeyjum sýna að laxeldi er hálaunagrein, þar sem kallað er eftir sérfræðingum af öllum toga, vísindamönnum og tæknimenntuðu fólki. Mikil tækifæri hafa skapast í kringum laxeldið fyrir alls kyns verktakastarfsemi sem gefur ungu dugmiklu fólki tækifæri á að blómstra við uppbyggingu á eigin rekstri. Í báðum þessum löndum er reynslan sú að stór sem smá sveitarfélög fá tækifæri á aðkomu aðkomu að seiðaeldi, laxeldi eða laxavinnslu. Þar fyrir utan eru afleidd störf og verðmætasköpun um 40% ofan á umfang greinarinnar sjálfrar. Ólíkt sjávarútvegi þar sem aðgengi að auðlindinni hefur auðveldlega getað færst til og skilið byggðalög berskjölduð eftir, er laxeldið ekki að fara neitt og verður alla tíð í Ísafjarðardjúpi. Reynsla laxeldismanna er einmitt að illa hefur gengið að fjarstýra rekstrinum og menn sjá hag sinn í að byggja starfsemina alla upp þar sem eldið er. Það má einmitt sjá í verki hjá Arnarlax sem hefur byggt alla sína starfsemi upp á Bíldudal, og nýlega flutti Arctic Fish alla sína starfsemi, stjórnunar og skrifstofustörf, í Ísafjarðarbæ.
Meiri hagsmuni fyrir minni
Það er því þyngra en tárum tekur að sjá viðbrögð manna við þessu sóknarfæri Djúpmanna og síðast nú þegar forstjóri Hafrannsóknarstofnunar kom fram og kynnti skýrslu þess efnis að laxeldi verði ekki leyft í Ísafjarðardjúpi. Skýrslan gengur út á að sett eru miklu strangari viðmiðunarmörk en notuð eru í Noregi og því niðurstaðan fyrirséð. Það getur ekki verið að þegar hagsmunir eru metnir að laxar sem veiddir eru í litlum ám í Djúpinu, og skila nánast engum verðmætum fyrir svæðið, séu einvörðungu hafðir til hliðsjónar en ekki meginhagsmunir íbúa á svæðinu. Sem dæmi má nefna að með aukinni verðmætasköpun og fleiri vel borgandi störfum mun fasteignaverð hækka umtalsvert og hér gætu menn upplifað stórfellda uppbyggingu á íbúðarbyggingum vegna hagvaxtar á svæðinu.
Ósanngjörn umræða
Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með áróðri laxveiðimanna þar sem hafa grímulaust gripið til sí endurtekinna ósanninda í málflutningi. Ekki hefur verið hægt að fá þetta fólk að borðinu til að ræða efnislega hvernig hægt væri að lágmarka hættu á tjóni, og eina niðurstaða þeirra er að algjört bann við laxeldi. Engar málamiðlanir þrátt fyrir að mjög langt hafi verið gengið undanfarin ár til að koma til móts við kröfur þeirra, m.a. lokun á stærstum hluta landsins til laxeldis.
Þá hafa laxeldisfyrirtækin lagt fram ítrarlegar tillögur um fyrirbyggjandi aðgerðir og mótvægisaðgerðir til þess að sporna gegn mögulegri erfðablöndun. Hér á landi verður aðeins notaður besti búnaður sem til er og þróun er ör í þessari grein og innan einhverra ára verður hægt að tala um 100% öryggi. Þangað til verður eigendum laxveiðiáa gefinn kostur á að fylgst með ám í Djúpinu með myndavélum og um leið og eldislax gengur í ána verður hægt að bregðast við, jafnvel sækja hann áður en skaði er skeður. Hér verður að hafa hugfast að enginn skaði er af eldislaxi í ánni fyrr en hann makar sig við laxinn sem fyrir er.
Vestfirðingar standi saman
Ekkert skiptir okkur íbúa norðanverða Vestfjarða meira máli og nauðsynlegt að sveitarstjórnarmenn leggist á árarnar og rói lífróður með laxeldi. Við verðum að berjast, öll sem eitt! Við megum ekki láta stjórnmálamenn komast upp með að koma sér undan ábyrgri afstöðu og þeir hafi kjark og þor til að standa með okkur í þessum mikla hagsmunamáli. Að málið sé unnið af fagmennsku en ekki byggt á tilfinningum einum, og meiri hagsmunir teknir fram fyrir minni. Að gríðarlegum hagsmunum okkar sé ekki hent fyrir róða vegna óverulegrar áhættu á erfðamengun í laxveiðiám í Djúpinu. Ég myndi vilja horfa í augu ráðarmanna þegar þeir segja okkur Vestfirðingum að þeir þori ekki að ganga gegn ósanngjörnum kröfum laxveiðimanna.

Ísafirði 1.ágúst 2017
Kristín Hálfdánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ.