Fréttaskýring í Morgunblaðsinu bregður ljósi á jákvæð byggðaleg áhrif af uppbyggingu fiskeldis. Sigurður Árnason sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar bendir á að á Vestfjörðum hafi fólki fækkað í langan tíma. Þetta snerist hins vegar við í fyrra. Þá fjölgaði um 100 manns og enn hefur fjölgað á Vestfjörðum um 50 til viðbótar frá áramótum. Sigurður telur að uppbygging fiskeldis og væntingar til þess séu að koma fram. Þótt greinin sé enn að byggjast upp, megi merkja verulega aukningu tekna.

Fréttaskýring Morgunblaðsins.

 

Þetta er í samræmi við það sem bent hefur verið á hér á síðunni áður. Þar sem fiskeldisuppbyggingin hefur átt sér stað hefur það gerst í senn að störfunum fjölgar, fólksfjölgun hefur orðið þar sem fólksfækkun var áður og meðaltekjur á mann sem voru um 87 af landsmeðaltali eru núna álíka og landsmeðaltalið. Það þarf ekki frekari vitnanna við.
Ástæða er til að rifja upp rannsókn Byggðastofnunar sem unnin var í tengslum við stefnumótunarskýrslu um fiskeldi og kom út í ágúst í fyrra. Af henni má sjá að um fjögur þúsund manns munu hafa afkomu af fiskeldi og afleiddum störfum þegar það verður komið upp í þau 71 þúsund tonn sem áhættumat Hafrannsóknastofnunarinnar gerir ráð fyrir. Ef burðarþolstalan er lögð til grundvallar má áætla að um 7.300 manns hefðu afkomu af þessari starfsemi. Ljóst er að lang flest þessara starfa yrðu á Austfjörðum og Vestfjörðum, á svæðum sem hafa verið vörn eða hnignun á síðustu árum.
Útsvartekjur sveitarfélaga vegna fiskeldis sem næmi 71 þúsund tonnum gætu numið 1,3 til 1,4 milljörðum króna. Yrði það 130 þúsund tonn næmu útsvarstekjurnar 2,5 milljörðum króna. Lunginn af þessum tekjum félli í í skaut sveitarfélaga á Austfjörðum og Vestfjörðum.

http://www.lf.is/oflokkad-is/fiskeldid-mun-skapa-thusundir-starfa/