Mikil viðurkenning felst í því fyrir íslenska fyrirtækið Stofnfisk, að eitt stærsta fiskeldisfyrirtæki í heimi, Grieg seafood, ætlar að kaupa verulegt magn af geldhrognum, alls 22 milljónir hrogna, til þess að þróa eldi á geldum laxi í laxeldisstöð sinni á Nýfundnalandi. Þó framleiðsla á ófrjóum laxi sé enn á þróunarstigi, taka Íslendingar, fræðasamfélagið jafnt og fiskeldisfyrirtækin, virkan þátt í þróuninni og Stofnfiskur fékk nú nýverið styrk til þessa verkefnis úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis, sem íslensku fiskeldisfyrirtækin fjármagna.

Jónas Jónasson: „Þetta nær yfir fimm ár þannig að þetta er eitthvað um fimm til tíu prósent af ársframleiðlsunni hjá okkur. En það sem fylgir þessu er ákveðin viðurkenning fyrir okkur hjá Stofnfiski vegna þess að okkar laxastofn er svo heilbrigður. Hann er allur alinn á landi og laus við sjúkdóma sem eru þekktir í eldi annars staðar. Þess vegna vilja þeir gjarnan kaupa hjá okkur.“

Ánægjulegt er til þess að vita að íslenskir aðilar, jafnt fræðasamfélagið sem og fiskeldisfyrirtækin taka nú með virkum hætti þátt í því að þróa framleiðslu á geldifiski til að nota við laxeldi. Erlendis er víða unnið að þessum málum og ljóst að Íslendingar eru engir eftirbátar og leggja sitt af mörkunum við þetta merkilega þróunarstarf. Í þessu felast mikil tækifæri, þó ennþá sé þróunin ekki komin svo langt að hægt sé að ræða um framleiðslu á geldlaxi í miklum mæli.
Stuðningur frá Umhverfissjóði sjókvíaeldis
Fyrirtækið Stofnfiskur tekur þátt í þessu starfi með virkum hætti og athyglisvert er að eftirspurn er erlendis frá eftir geldhrognum sem fyrirtækið framleiðir og er meðal þeirra vara sem þeir eru með til staðar á sínum vegum. Stofnfiskur ásamt Háskóla Íslands fékk styrk til þessarar þróunarvinnu úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis, en þennan sjóð fjármagna íslensku fiskeldisfyrirtækin að öllu leyti.
Gæti falið í sér möguleika á auknu eldi
Í margumræddu áhættumati Hafrannsóknastofnunar felst skilgreining á því hversu mikið magn af frjóum laxi megi ala á tilteknum svæðum. Fram kemur hins vegar í áhættumatinu að unnt sé að auka þessa framleiðslu enn frekar með notkun á ófrjóum laxi. Í nýju frumvarpi til fiskeldislaga sem nú er til meðferðar á Alþingi, er innbyggður hvati til fiskeldisfyrirtækjanna til notkunar á ófrjóum laxi. Það er því ljóst að ef vel tekst til, er unnt að auka framleiðslu á laxi, umfram það sem áður hefur verið um rætt.
Hefur vakið athygli á alþjóðavísu
Framleiðsla Stofnfisks á geldhrognum hefur vakið athygli á alþjóðavísu og hefur verið um hana fjallað meðal annars í fjölmiðlum sem sérhæfa sig í umfjöllun um fiskeldi, svo eftir er tekið.
22 milljónir geldhrogna
Í nýjasta tölublaði Fiskifrétta er að finna frásögn af því að norska fiskeldið Grieg seafood hafi gert stóran samning við Stofnfisk um kaup á 22 milljónum geldhrogna, til afhendingar á árunum 2019 til 2024, sem notuð verða í nýrri fiskeldisstöð fyrirtækisins í Nýfundnalandi. Í þessu felst mikil viðurkenning á starfi Stofnfisks, sem hefur árlega selt nokkrar milljónir hrogna til Noregs og áunnið sér traust og virðingu þar og annars staðar fyrir framtak sitt.
Fá aukin fiskeldisleyfi út á að nota geldfisk
„Við höfum verið að þróa þessa vörulínu til Noregs, segir Jónas Jónasson framkvæmdastjóri Stofnfisks. „Það eru ákveðin fyrirtæki sem hafa fengið auka fiskeldisleyfi út á það að nota geldfisk“, segir hann ennfremur.
„Það er sett skilyrði að nota geldfiska á þessu svæði á Nýfundnalangi því fyrir er eldi þar sem notaður er frjór lax til eldisins. Þeir leita þá til okkar. Þeir vita að við getum framleitt þetta og vilja láta okkur sjá um þetta í sinni uppbyggingu“, segir Jónas í viðtlai við Fiskifréttir.
Fimm til tíu prósent af ársframleiðslu Stofnfisks
„Þetta nær yfir fimm ár þannig að þetta er eitthvað um fimm til tíu prósent af ársframleiðlsunni hjá okkur. En það sem fylgir þessu er ákveðin viðurkenning fyrir okkur hjá Stofnfiski vegna þess að okkar laxastofn er svo heilbrigður. Hann er allur alinn á landi og laus við sjúkdóma sem eru þekktir í eldi annars staðar. Þess vegna vilja þeir gjarnan kaupa hjá okkur“, segir Jónas Jónasson framkvæmdastjóri Stofnfisks í samtali við Fiskifréttir.