Heil bleikja mynd

Mikill uppgangur er hjá Íslandsbleikju, stærsta framleiðanda bleikju í heiminum. Verið er að stækka eldisstöðvar fyrirtækisins í Öxarfirði og Grindavík og heildarframleiðsla fyrirtækisins fer í tæp fimm þúsund tonn eftir breytingarnar.
Íslandsbleikja elur bæði lax og bleikju í þremur áframeldisstöðvum auk þess að reka eina klakstöð og þrjár seyðastöðvar en fyrirtækið er í eigu Samherja. Í eldisstöðinni í Öxarfirði standa nú yfir miklar framkvæmdir en að breytingum loknum stefnir stöðin á að einbeita sér eingöngu að laxeldi.
Arnar Freyr Jónsson, rekstrarstjóri Íslandsbleikju í Öxarfirði: Við erum að framleiða svona rúm þúsund tonn af laxi, svona 1.200 tonn kannski, og með þessari stækkun, þá förum við upp í 1.600 tonn á ári. Fyrsti áfangi er kominn af stað hérna, við ætlum að byggja fjögur ker sem eru um átta þúsund rúmmetrar samtals og erum þar af leiðandi að stækka stöðina um svona 40%.
Áframeldisstöð Íslandsbleikju í Grindavík er líka að stækka en þar er verið að stækka stöðuna um 65%. Mikil eftirspurn hefur verið eftir íslenskum laxi en stór hluti framleiðslu Íslandsbleikju fer til verslunarkeðjunnar Whole Food í Bandaríkjunum. Heildarframleiðsla fyrirtækisins er nú 3.600 tonn en verður nálægt fimm þúsund tonnum eftir breytingarnar í Grindavík og Öxarfirði.