Á íbúafundi á Flateyri þann 4. júli tilkynnti Ísfell ehf um áform sín um að opna nótaþvottastöð á staðnum, til að getað þjónustað fiskeldið enn betur.  Hefur félagið tekið á leigu húsnæði sem áður hýsti Arctic Fish og er verið að setja upp nótaþvottavél og annan búnað með það að markmiði að þjónustustöðin geti hafið starfsemi innan örfárra vikna.  Annar stærsti eigandi Ísfells, norska fyrirtækið Selstad AS er Ísfelli innan handar við þetta verkefni en Selstad rekur nokkrar sambærilegar þjónustustöðvar í Noregi.  Það er mjög ánægjulegt fyrir eldisfyrirtækin á Vestfjörðum að þessi þjónusta verði nú í boði innan svæðisins en hingað til hefur þurft að senda nætur í þvott til Reyðarfjarðar með tilheyrandi flutningskostnaði.  Þá er það uppörvandi fyrir eldismenn að stoðgreinarnar í kringum eldið séu að styrkjast, með tilheyrandi atvinnusköpun í  óbeinum störfum eldisins.

Á fundinum á Flateyri fór Gunnar Skúlason, framkvæmdastjóri Ísfells, yfir sýn fyrirtækisins á verkefnið og kynnti nýráðinn stöðvarstjóra, Bjarka Birgisson.  Þá hélt Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri LF  tölu þar sem farið var yfir stöðu og horfur í  fiskeldinu en einnig bent á frekari þjónustugreinar  sem nauðsynlegt er að huga að og hvar tækifærin til þess geta legið.  Einnig tóku til máls Gísli Gíslason bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Shiran Þórisson framkvæmdastjóri ATVEST og Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri Arctic Fish.  Voru framsegjendur allir ánægðir með komu þessarar starfsemi til Flateyrar og ljóst að eldisfyrirtækin á Vestfjörðum munu njóta þessarar þjónustu.