Vegna frétta um að nýrnaveiki hafi greinst í seiðastöðvum á Íslandi vill LF  rifja upp nokkrar staðreyndir um nýrnaveiki og hvaðan smitið komi, þ.e. frá villtum stofnum.  Meginverkefnið er í raun að verja eldisfiskinn smiti úr náttúrunni, þar sem bakterían þrífst, en ekki öfugt.    Einnig viljum við minna á að fiskilús er ekki sama og laxalús.  Matvælastofnun er heimildin sem textinn að neðan byggir á:

Nýrnaveiki er okkar elsti sjúkdómur, fyrst greind í seiðastöð við Elliðaárnar 1968. Veikinni hefur skotið upp öðru hvoru og þá fyrst og fremst í laxeldi, en í einstaka tilfellum einnig í eldi bleikju og regnboga. Ítarleg úttekt á klakfiski hefur átt sér stað síðan 1985. Veikin er afar erfið viðureignar og ekki óalgengt að eldisstöðvar komist í rekstrarþrot eftir að smit berst í fiskinn. Engin lækning er til og bóluefni ekki fáanleg. Bakterían leynist í villtum fiski og getur þannig hæglega borist í eldisstöð með frískum smitbera.

• Laxalús (krabbadýrið Lepeophtheirus salmonis) er mjög útbreidd í náttúrunni og getur verið skaðvaldur við hagstæð umhverfisskilyrði þegar kemur að kvíaeldi. Þá þykir ljóst að lúsin getur verið ógnvaldur gagnvart villtum laxa- og silungastofnum þar sem umfangsmikið fiskeldi er stundað í nálægð viðkvæmra vistkerfa laxfiska. Sökum norðlægrar legu Íslands, og ekki síst þeirra svæða sem heimilt er að ala lax í sjókvíum frá 2004, á lúsin erfitt uppdráttar og getur á engan hátt orðið sambærilegt vandamál og hjá nágrannaþjóðum okkar. Meðhöndlun gegn lús hefur aldrei þurft að koma til álita í laxeldi á núverandi slóðum sjókvíaeldis.

• Fiskilús (krabbadýrið Caligus elongatus) er sú tegund lúsar sem fyrst og fremst er til staðar við íslenskar kvíaeldisaðstæður. Fiskilús er mun minni en laxalúsin, án hvassra tanna og veldur því ekki sambærilegum skaða á roði og laxalúsin. Fiskilúsin er þó hvimleið og getur valdið óþarfa áreiti. Fiskilús er algeng á villtum sjávartegundum, s.s. þorski og ufsa.