Landssamband fiskeldisstöðva hefur komið á samstarfi um tilraun til að ala ófrjóan lax  (þrílitna) í sjókvíum við Ísland, í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og Háskólann á Hólum. Aðilar að verkefninu eru, auk framangreindra, Stofnfiskur sem framleiða mun ófrjó hrogn fyrir verkefnið og Arctic Fish sem mun ala seiðin í samvinnu við Hólaskóla í seiðastöð sinni í Tálknafirði og síðar í sjókvíum í Dýrafirði. Nýr eignaraðili Arctic Fish, Norway Royal Salmon (NRS) hefur stundað rannsóknir á eldi á ófrjóum laxi með hrognum frá Stofnfiski í Noregi og mun tilraunin hér á landi byggja á þeirri reynslu þó að umhverfisskilyrði við Ísland séu önnur en í Noregi.

Um er að ræða spennandi tilraun sem ætlað er að varpa ljósi á hvort aðstæður við Ísland séu fýsilegar til eldis ófrjórra laxfiska. Tilraunin verður samanburðartilraun þar sem ófrjói laxinn verður alinn samhliða frjóum laxi við sömu aðstæður og á sama tímabili.  Með aðkomu vísindamanna Hafró og Hólaskóla og þátttöku eldisfyrirtækjanna tveggja er hægt að koma þessu verkefni á og verður athyglisvert fyrir atvinnugreinina og hagsmunaaðila að fylgjast með framvindu þess.

Samstarfið á sér langan aðdraganda og var í vikunni gengu ofangreindir aðilar frá samkomulagi um verkefnið. Undirbúningur er þegar hafinn og verið er að undirbúa hrogn sem klakin verða í byrjun næsta árs þannig að ef allt gengur samkvæmt óskum ættu fyrstu ófrjóu laxaseiðin að vera tilbúin til sjósetningar sumarið 2018. Fyrir hönd Hafrannsóknarstofnunar hefur Agnar Steinarsson verið skipaður verkefnastjóri í tilrauninni.

Ljóst er að margar áskoranir eru við eldi ófrjórra laxfiska umfram eldi frjórra samkvæmt reynslu erlendis, m.a. vegna mikilla affalla á eldistímanum og annarra þátta. Til dæmis er vansköpun nokkuð algeng á ófrjóum laxi auk þess sem reynslan sýnir að hann er bæði viðkvæmari fyrir súrefnisskorti og hærri sjávarhita. Vonir standa þó til að síðast talda atriðið falli réttum megin á vogarásnum með eldinu á Vestfjörðum þar sem sjór er kaldari en víðast hvar annars staðar þar sem sjókvíeldi er stundað. Það ásamt mati á eldi ófrjórra laxa við íslenskar umhverfisaðstæður eru meginrannsóknarþættir tilraunarinnar.

Af þessum ástæðum er mikilvægt að tilraun af þessu tagi fari fram hér á landi til að afla reynslu út frá raunverulegum aðstæðum. Þá er ósvarað mörgum spurningum um hærri fóðurkostnað auk siðferðis- og markaðsfræðilegra spurninga sem vakna við þessa framleiðslu.  Því er engan veginn ljóst á þessari stundu hvort eldi ófrjórra laxfiska við Ísland sé framkvæmanlegt, óháð því hvernig þessari tilraun reiðir af.

 

Reykjavík 27. október 2016.

Nánari upplýsingar veitir Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri LF, í síma 699 2691, netfang Hoskuldur@lf.is.