Um fjögur þúsund íbúar munu hafa afkomu af fiskeldi og afleiddum störfum þegar það verður komið upp í þau 71 þúsund tonn sem áhættumat Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir. Ef burðarþolsmatið ( 130 þúsund tonn ) réði þá má áætla að um 7.300 manns hefðu afkomu af þessari starfsemi.

Þetta má ráða af útreikningum Byggðastofnunar, sem vann skýrslu um byggðaleg áhrif fiskeldis og gefin var út 23. ágúst sl.

Flest störfin verða á Vestfjörðum og Austfjörðum

Ljóst er að langflest þessara starfa verða til á Vestfjörðum og Austfjörðum, ekki síst á svæðum sem hafa verið í næsta viðvarandi byggðalegri vörn síðustu áratugina. Augljóst er að með auknu fiskeldi á þessum svæðum mun verða algjör viðsnúningur í byggðalegu tilliti á skömmum tíma.

Hver 10 þúsund tonn skapa 560 íbúum afkomu

Í skýrslunni er miðað við að 130 bein störf verði á hver 10.000 framleidd tonn, afleidd störf af þeirri framleiðslu séu um 100 og að 2,4 íbúar fylgi hverju starfi. Þannig má gera ráð fyrir að um 560 íbúar hefðu afkomu af 10 þúsund tonna fiskeldi og afleiddum störfum.

Í samræmi við rauntölur

Þetta er mjög nærri því sem við þekkjum þegar. Á Bíldudal eru framleidd um 10 þúsund tonn af laxi og tölurnar sem Byggðastofnun gengur út frá eru í samræmi við það.

Á næstunni verður hér á þessari síðu gerð frekari grein fyrir áhrifum fiskeldisins á byggðirnar, byggt á skýrslu Byggðastofnunar, sem má lesa í heild sinni hér:
https://www.byggdastofnun.is/is/frettir/category/1/skyrsla-um-byggdaleg-ahrif-fiskeldis