Í meginbyggðinni í sveitarfélaginu er lítil táknmynd alls þessa sem er ákaflega grípandi. Sveitarstjórnin lét setja niður skífu sem sýndi íbúaþróunina frá árinu 2006 þegar uppbygging laxeldisins var að komast á skrið. Það ár bjuggu um 4.100 manns í sveitarfélaginu. Núna, einum áratug síðar hefur íbúunum fjölgað um meira en 20 - 25% og eru að slá í fimm þúsund manns. Það ríkir bjartsýni.

Í meginbyggðinni í sveitarfélaginu er lítil táknmynd alls þessa sem er ákaflega grípandi. Sveitarstjórnin lét setja niður skífu sem sýndi íbúaþróunina frá árinu 2006 þegar uppbygging laxeldisins var að komast á skrið. Það ár bjuggu um 4.100 manns í sveitarfélaginu. Núna, einum áratug síðar hefur íbúunum fjölgað um meira en 20 – 25% og eru að slá í fimm þúsund manns. Það ríkir bjartsýni.

Eftirfarandi grein eftir Einar K. Guðfinnsson formann LF birtist 15. desember sl í Fiskifréttum:

Froya er sjálfstætt sveitarfélag, vestasti hluti Syðri Þrændarlaga í Noregi ekki langt frá Þrándheimi; Niðarósi sem kemur mjög við sögu í fornsögunum. Ólíklegt er að margir Íslendingar þekki þar staðhætti. En örnefni og ýmislegt annað hljómar þó kunnuglega í eyrum Íslandsmanns sem þangað leggur leið sína. Nafnið Froya hefur skírskotun í norræna goðafræði. Froya er kvenmannsnafn; hið sama og Freyja, tvíburasystir Freys sem var frjósemisgoðið í norrænni goðafræði.
En hin norræna skírskotun er kannski ekki í dag það sem fyrst kemur upp í hugann, hvorki í Noregi eða Íslandi. Heldur miklu fremur hitt að þarna fer fram gríðarlega öflugt laxeldi sem hefur haft mikil og jákvæð áhrif á byggðina á eyjabyggðinni. Það blasti við mér eins og öðrum, þegar ég heimsótti Froya fyrir skemmstu.

Vörn snúið í sókn

Líkt og margar sjávarbyggðir háði Froya sína varnarbaráttu. En fyrir um áratug snerist dæmið við svo um munaði með uppbyggingu laxeldisins. Beinum störfum fjölgaði. Mikil fjárfesting átti sér stað með öllum þeim umsvifum sem því fylgja. Upp spruttu nýjar og áður óþekktar atvinnugreinar sem leiddu af uppbyggingu í eldinu. Ungt fólk tók að streyma til eyjarinnar. Fólkinu fjölgaði og sveitarfélagið varð æ eftirsóttara til búsetu.
Í meginbyggðinni í sveitarfélaginu er lítil táknmynd alls þessa sem er ákaflega grípandi. Sveitarstjórnin lét setja niður skífu sem sýndi íbúaþróunina frá árinu 2006 þegar uppbygging laxeldisins var að komast á skrið. Það ár bjuggu um 4.100 manns í sveitarfélaginu. Núna, einum áratug síðar hefur íbúunum fjölgað um meira en 20 – 25% og eru að slá í fimm þúsund manns. Það ríkir bjartsýni. Ný opinber þjónusta hefur sprottið upp til að sinna þörfum unga fólksins flust hefur til eyrjarinnar og annarra þeirra sem þar búa. Framhaldsskóli, menningarsetur, þróunarsetur, þekkingarklasi – og fyrir fáeinum vikum var tekin í notkun yfirbyggð knattspyrnuhöll í fullri stærð. Þessi uppbygging er í flestum tilvikum samstarfsverkefni sveitarfélagsins og laxeldisfyrirtækjanna.

Spáð áframhaldandi vexti í laxeldi í Noregi

Það ríkir bjartsýni í byggðinni. Nýverið er komin út í Noregi skýrsla sem unnin var af þverfaglegum hópi sem áætlar áframhaldandi vöxt í laxeldinu í fyrirsjánlegri framtíð. Er því spáð að magnið muni aukast og verðin hækka. Þetta er gagnstætt því sem reynt er skrökva að fólki í i umræðu gegn fiskeldinu hér á landi. Í Noregi ættu menn örugglega örðugt með að skilja orð eins og þau sem féllu af vörum ábyrgs aðila nýverið í útvarpinu að lax væri illa fallinn til eldis !! Reynslan sýnir nefnilega hið gagnstæða. Laxeldi í Noregi nemur um 1,4 milljónum tonna, hefur tvöfaldast á síðustu átta árum, fer vaxandi og spáð að svo verði áfram.

Hliðstæð dæmi blasa við á Íslandi

En dæmið frá Freyja gæti vel eignast hliðstæðu á Íslandi. Sú uppbygging laxeldis sem er hafin á Vestfjörðum og Austfjörðum fer fram í byggðum sem hafa átt undir högg að sækja. Reynslan frá litlu eyjabyggðinni í Syðri Þrændarlögum sýnir okkur hin jákvæðu byggðarlegu áhrif sem öflugt fiskeldi getur haft í för með sér. Við sjáum þegar áhrifin af uppbyggingunni á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem byggðin hefur áratugum saman verið í vörn sem nú hefur verið snúið í sókn. Hið sama mun gerast á Austfjörðum og á norðanverðum Vestfjörðum. Þeir sem reyna að bregða fæti fyrir nýja sókn þessara byggða eru að vinna óhæfuverk sem við látum ekki yfir okkur ganga.

Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva.