En kjarni málsins er þó sá að fiskeldi hér á landi er byggt á vísindalegum grundvelli. Um þetta sammæltust fulltrúar veiðiréttareigenda og fiskeldismanna, umhverfisráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis í stefnumótunarnefnd sem lauk störfum á síðasta hausti. Þar er meðal annars lagt til að fiskeldi á Íslandi verði byggt á áhættumati og atvinnugreinin geti þannig starfað í góðri sátt við íslenska náttúru, þar með talið villtu laxastofnana. Hafrannsóknastofnunin hefur sett fram áhættumat sem byggir á líkani og er markmðið, eins og segir í skýrslu stofnunarinnar, „að hámarka atvinnu og samfélagsleg áhrif laxeldis án neikvæðra áhrifa á lax – og silungsveiði í landinu“. Undir þetta taka fiskeldismenn. Stefna stjórnvalda er líka skýr um uppbyggingu fiskeldis sem vistvænnar atvinnugreinar á vísindalegum grundvelli. Varfærið burðarþolsmat og áhættumat sem Hafrannsóknarstofnun framkvæmir eru hornsteinar þeirrar stefnu.

Þannig kemst Einar K. Guðfinnsson formaður Landssambands fiskeldisstöðva að orði í grein sem hann ritaði í Fréttablaðið 28. febrúar og var svar við ritstjórnargrein blaðsins frá 22. febrúar. Greinin fer hér á eftir í heild sinni.

Fimbulfamb Fréttablaðsritstjórans

Fiskeldi á Íslandi er á grundvelli varúðarsjónarmiða. Allt frá árinu 2004 hefur stórum hluta strandlengjunnar verið lokað fyrir sjókvíaeldi á laxi, en á þeim svæðum eru helstu laxveiðiár landsins. Þetta er gagnstætt því sem gerist til að mynda í Noregi og Skotlandi,

Kristín Þorsteinsdóttir ritstjóri Fréttablaðsins skrifar ótrúlega yfirborðskenndan leiðara í makalausum sleggjudómastíl í blað sitt 22. febrúar og leggur með þeim hætti orð í belg um fiskeldi á Íslandi. Í skrifum hennar er persóna mín gerð að umtalsefni en nákvæmninni ekki fyrir að fara; ég er kallaður framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva þó hið rétta sé að ég er formaður stjórnar þeirra ágætu samtaka. Þetta er ekki aðalatriði í sjálfu sér, en er hins vegar lýsandi fyrir þá ónákvæmni sem einkennir téðan leiðara. Og þegar undirstaðan er byggð á sandi, eins og leiðari ritstjórans, þá hrynur röksemdafærslan. Það eru örlög skrifanna í Fréttablaðinu að þessu sinni.
Ályktanir dregnar af röngum forsendum
Ritstjórinn gerir að umtalsefni atvik þegar kví í Tálknafirði í eigu fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax skemmdist. Þrátt fyrir að fréttir hafi verið sagðar af þessu, megnar ritstjórinn ekki einu sinni að fara rétt með lýsingu á atburðinum. Innri flothringur kvíarinnar brotnaði, hún sökk ekki, eins og ritstjórinn heldur fram, staðið var að tilkynningu um atvikið skv. reglum og engin hætta var á að fiskur slyppi, en út af því er þó lagt í leiðaranum. Og þegar ályktanir eru dregnar af röngum forsendum – eins og ritstjórinn gerir ótæpilega – er ekki við góðu að búast.
Fráleit samlíking
Ritstjórinn reynir að búa til samlíkingu laxeldis við það ef fluttar yrðu til landsins norskar kindur !! – Þetta er auðvitað fráleit samlíking og getur varla hafa verið ætluð til annars, en að vera einhvers konar málfundaæfing. Hér er verið að bera saman ósamanburðarhæfa hluti, sem blasir við hverjum manni sem kynnir sér málin.
„Látum þá neita því“
Fullyrt er í leiðaranum að ég hafi engar áhyggjur af verndun laxastofnsins og íslenskri náttúru. Bull er þetta; innihaldslaus staðleysa, sem er ekki í nokkru einasta samhengi við sannleikann. Þetta er ómerkilegur málflutningur í anda alræmds bragðs; „látum þá neita því – let them deny it“. Dapurlegt er auðvitað að ritstjórinn skipi sér í þá sveit. Vildi hún ganga veg sannleikans, gæti hún auðveldlega séð að ég hef ætíð mælt fyrir varúðarsjónarmiðum og sagt að stærsta áskorunin í fiskeldi hér á landi sé einmitt sú að stunda þennan mikilvæga atvinnurekstur af fullri virðingu við náttúru landsins, þar með talið íslensku laxastofnana.
Fiskeldi á grundvelli varúðarsjónarmiða
Fiskeldi á Íslandi er á grundvelli varúðarsjónarmiða. Allt frá árinu 2004 hefur stórum hluta strandlengjunnar verið lokað fyrir sjókvíaeldi á laxi, en á þeim svæðum eru helstu laxveiðiár landsins. Þetta er gagnstætt því sem gerist til að mynda í Noregi og Skotlandi, þar sem eldið er mjög þétt og oft nálægt árósum, eins og fræðimenn við Hafrannsóknastofnun hafa bent á. Því eru aðstæður hér og í þessum tilgreindu löndum ekki samanburðarhæfar.
Á siðustu árum hefur orðið mikil þróun í öllum búnaði er lýtur að fiskeldi og hefur það valdið því að slysasleppingar á laxi, tam í Noregi, eru brot af því sem áður var, eins og opinber gögn sýna. Hér á landi er stuðst við besta fáanlega búnað, sem hefur reynst vel og skilað miklum árangri.
Fiskeldi byggt á vísindalegum grundvelli
En kjarni málsins er þó sá að fiskeldi hér á landi er byggt á vísindalegum grundvelli. Um þetta sammæltust fulltrúar veiðiréttareigenda og fiskeldismanna, umhverfisráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis í stefnumótunarnefnd sem lauk störfum á síðasta hausti. Þar er meðal annars lagt til að fiskeldi á Íslandi verði byggt á áhættumati og atvinnugreinin geti þannig starfað í góðri sátt við íslenska náttúru, þar með talið villtu laxastofnana. Hafrannsóknastofnunin hefur sett fram áhættumat sem byggir á líkani og er markmðið, eins og segir í skýrslu stofnunarinnar, „að hámarka atvinnu og samfélagsleg áhrif laxeldis án neikvæðra áhrifa á lax – og silungsveiði í landinu“. Undir þetta taka fiskeldismenn. Stefna stjórnvalda er líka skýr um uppbyggingu fiskeldis sem vistvænnar atvinnugreinar á vísindalegum grundvelli. Varfærið burðarþolsmat og áhættumat sem Hafrannsóknarstofnun framkvæmir eru hornsteinar þeirrar stefnu.
Staðbundin áhrif af erfðablöndun
Áhættumat Hafrannsóknastofnunarinnar leiðir í ljós að áhættan af erfðablöndun er staðbundin, vegna þess fyrirkomulags sem við höfum á fiskeldi hér við land og áður hefur verið lýst. Er þessi áhætta bundin við fjórar ár, á Vestfjörðum og Austfjörðum. Áhættumatið gengur út frá því að fiskeldi sé stundað þannig að það komi í veg fyrir áhættuna, þmt í þessum tilgreindu ám.
Fsikeldi er unnt að stunda í góðri sátt við náttúruna
Af þessu má ráða að vel er unnt að stunda fiskeldi í góðri sátt við náttúruna. Fiskeldismenn hafa hvatt til þess að eftirlit með fiskeldi verði gott og skilvirkt. Hefur þetta sjónarmið komið rækilega fram í málflutningi okkar. Ef ritstjóri Fréttablaðsins hefði ómakað sig til að kynna sér það og stautað sig í gegn um stefnumótunarskýrslu þá sem við stóðum ma að ásamt fulltrúum veiðiréttareigenda og ráðuneyta, eða lesið gögn Hafrannsóknastofnunar, hefði hún getað sparað sér fimbulfambið í leiðara sínum. En það er ekki of seint fyrir ritstjórann að bæta úr því. Betra er seint en aldrei.
Einar K. Guðfinnson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva.