Ólafur Sigurgeirsson: Það er ekki mikið meira að hafa af fiski frá veiðum og því verður öll aukin fiskneysla að koma frá eldisfiski.

Engin dýraprótíframleiðsla er með minni umhverfisáhrif en fiskeldi, ef skordýr eru undanskilin. Það þurfa gagnrýnendur fiskeldis að kynna sér. Þetta kemur fram í viðtali 200 mílna, sem Morgunblaðið gefur út, við Ólaf Sigurgeirsson lektor við Háskólann á Hólum.

Tilefni viðtalsins við Ólaf er erindi sem hann flutti á ráðstefnu Strandbúnaðar nú nýlega. Í viðtalinu segir Ólafur meðal annars:
„Ég var í námi í Noregi, árin 1987 til 1991 og um það leyti var laxeldi í Noregi 120 til 150 þúsund tonn. Þá héldu sumir einmitt að markaðurinn væri mettur; það væri ekki hægt að selja meira. Þeir voru í einhverju basli með þetta á tímabili og tóku um 30 þúsund tonn út og settu í frysti. En nú eru þeir búnir að tífalda magnið í eldinu og farnir að tala upphátt um fimm milljón tonn fyrir 2050.

Þetta leitar jafnvægis.

En almennt er fiskneysla að aukast í heiminum og fólki fjölgar hratt. Allar ráðleggingar næringarfræðinga og lækna beina fólki að því að borða meira af fiski. Feitur fiskur eins og lax, bleikja og regnbogasilungur er einmitt sérlega hollur. Þess vegna býst ég ekki við að markaðurinn sé mettur. Það er ekki mikið meira að hafa af fiski frá veiðum og því verður öll aukin fiskneysla að koma frá eldisfiski.

Og í því ljósi er kannski vert að taka fram að engin dýraprótínframleiðsla er með með minni umhverfisáhrif en fiskeldi, ef skordýr eru undanskilin. Það þurfa gagnrýnendur fiskeldis að kynna sér betur“.