Eftir samtöl mín við forystufólk í sveitarstjórnum við Ísafjarðardjúp er ljóst að sú skoðun er útbreidd á meðal þeirra að leggja beri áherslu á að vernda árnar en kanna jafnframt til hlítar möguleika á að hefja eldi með þeim mótvægisaðgerðum sem duga til að þetta tvennt fari saman.

Þessi afstaða felur ekki í sér kröfu um að hagsmunum veiðiréttarhafa verði fórnað eða náttúruvernd vikið til hliðar. Hún felur það einfaldlega í sér að okkar færu vísindamenn verði spurðir að því hvort hægt sé að nýta tækifærin í eldi með mótvægisaðgerðum sem duga til að tryggja að téðum þremur laxveiðiám sé ekki stefnt í hættu. Og að sett verði tímalína um framhald málsins til að það komist í skilgreindan farveg.

Þetta er ekki ósanngjörn ósk. Við skuldum íbúum á svæðinu að kanna þetta til hlítar og láta það ekki dragast úr hófi.
Þetta segir í grein eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála, iðnaðar og nýsköpunarráðherra í Morgunblaðinu í gær. Greinin birtist hér í heild sinni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Stóru fréttirnar í nýlegu áhættumati Hafrannsóknastofnunar um laxeldi eru þær, að unnt er að auka eldi á Vestfjörðum án þess að stofna villtum laxastofnum í öðrum landshlutum í hættu. Áætluð innblöndun en nánar tiltekið vel undir öryggismörkum.

Laxeldi spilli ekki villtum nytjastofnum

Það hefur verið grunnforsenda í umræðu um laxeldi að spilla ekki villtum nytjastofnum, burtséð frá samanburði á verðmætum í krónum og aurum talið. Lög um fiskeldi eru alveg skýr um þetta, en í fyrstu grein þeirra segir: “Markmið laga þessara er að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skal í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna. Við framkvæmd laganna skal þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu.”

50 þúsund tonn – yfir eitt þúsund störf

Með niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar opnast möguleikar á að skapa mikil verðmæti. Þau 50 þúsund tonn sem samkvæmt áhættumatinu er hægt að framleiða á Vestfjörðum gætu hæglega verið um 40 milljarða virði, samkvæmt skýrslu Byggðastofnunar um byggðaleg áhrif fiskeldis. Bein og afleidd störf við eldið yrðu vel yfir eitt þúsund samkvæmt sömu skýrslu.

Um þýðingu þessa fyrir viðkomandi byggðir þarf ekki að fjölyrða. Atvinnulíf á Vestfjörðum hefur tekið stakkaskiptum á þeim svæðum sem njóta góðs af núverandi umsvifum fiskeldisfyrirtækja. Niðurstaðan gefur því væntingar um áframhaldandi jákvæðan viðsnúning í byggðum sem háð hafa varnarbaráttu árum saman.

Niðurstaðan er einnig þýðingarmikil fyrir veiðiréttarhafa og alla sem leggja áherslu á að villtum stofnum sé ekki stefnt í hættu.

Áfall fyrir byggðina við Ísafjarðardjúp

Aftur á móti var það áfall fyrir byggðina við Ísafjarðardjúp að eldi þar teldist ekki óhætt, vegna hættu á að innblöndun í þremur laxveiðiám við Djúp færi yfir öryggismörk. Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að gera sér í hugarlund höggið sem þetta var, eftir að væntingar höfðu verið uppi um álíka uppgang og orðið hefur annars staðar.

Ekki er víst að allir átti sig á að hagvöxtur á Vestfjörðum var neikvæður um 6% á árunum 2008-2015, eins og fram kemur í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um hagvöxt landshluta. Enginn annar landshluti upplifði samdrátt á þessu tímabili. Veruleiki Vestfjarða á þessu tiltekna tímabili er því einstakur á landsvísu. Það er inn í þetta samhengi sem setja þarf vonir fólks um aukin umsvif í atvinnulífi.

Aftur á móti var það áfall fyrir byggðina við Ísafjarðardjúp að eldi þar teldist ekki óhætt, vegna hættu á að innblöndun í þremur laxveiðiám við Djúp færi yfir öryggismörk.

Hefja eldi með mótvægisaðgerðum sem duga

Mikilvægt er að árétta að mögulegt laxeldi við Djúp væri samkvæmt áhættumatinu fjarri því að valda innblöndun yfir öryggismörkum í laxveiðiám annars staðar á landinu. Það eru árnar á svæðinu, við sjálft Djúpið, sem falla á matinu. Fyrirfram hefði því mátt ætla að það væri útbreidd skoðun meðal heimamanna að þessum ám bæri að fórna fyrir meiri hagsmuni í atvinnuuppbyggingu. Eftir samtöl mín við forystufólk í sveitarstjórnum á svæðinu er hins vegar ljóst að sú skoðun er útbreidd á meðal þeirra að leggja beri áherslu á að vernda árnar en kanna jafnframt til hlítar möguleika á að hefja eldi með þeim mótvægisaðgerðum sem duga til að þetta tvennt fari saman.

Ekki krafa um að náttúruvernd sé vikið til hliðar

Þessi afstaða felur ekki í sér kröfu um að hagsmunum veiðiréttarhafa verði fórnað eða náttúruvernd vikið til hliðar. Hún felur það einfaldlega í sér að okkar færu vísindamenn verði spurðir að því hvort hægt sé að nýta tækifærin í eldi með mótvægisaðgerðum sem duga til að tryggja að téðum þremur laxveiðiám sé ekki stefnt í hættu. Og að sett verði tímalína um framhald málsins til að það komist í skilgreindan farveg.

Þetta er ekki ósanngjörn ósk. Við skuldum íbúum á svæðinu að kanna þetta til hlítar og láta það ekki dragast úr hófi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra