Hafrannsóknastofnun telur að hægt sé að leyfa allt að 2.500 tonna fiskeldi í Önundarfirði. Þetta er niðurstaðan af burðarþolsmati stofnunarinnar. Í þessu mati er gert ráð fyrir að heildarlífmassi í firðinum verði aldrei meiri en 2.500 tonn og að vöktun á áhrifum eldisins fari fram.
Hvað er burðarþol?
Með breyttum lögum um fiskeldi frá árinu 2014 er mat á burðarþoli svæða skilgreint sem mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.
Fjörðurinn er fremur grunnur
Í burðarþolsmatinu varðandi Önundarfjörð kemur fram að fjörðurinn er fremur grunnur og meðaldýpið um 18 metrar. Mesta dýpi er 32 metrar í mynni fjarðarins. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um Önundarfjörð segir ma: „Niðurstöður straummælinga sýna tiltölulega veikan meðalstraum (1. og 3. mynd) vegna mikils breytileika í straumstefnu á straumsjár mælistöðvum og frekar óreglulega hringrás í firðinum. Ljóst er að vindur hefur mikil áhrif á strauma fjarðarins vegna þess hve grunnur hann er og fylgir útflæði sunnanvert oft sterkum norðaustan vindáttum (4. og 5. mynd). Miðað við meðaltal af straumi vatnssúlunnar má ætla að endurnýjunartími fjarðarins sé um 10 til 11 sólarhringar.“
Byggt á varúðarnálgun
Vegna aðstæðna í firðinum, gefur varúðarnálgun ástæðu til þess að mæla með því að hámarks lífmassi verði ekki meiri en 2.500 tonn í Önundarfirði, segir í áliti Hafrannsóknastofnunarinnar.

Sjá nánar á heimasíðu Hafrannsóknastofnunarinnar: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/mat-a-burdartholi-onundarfjardar-mtt-sjokviaeldis