Gríðarlega mikið er lagt í að rannsaka hvaða áhrif eldi hefur á lax – borið saman við villta stofna. Sjálfur hef ég tekið þátt í slíkum rannsóknum. Niðurstöður eru óyggjandi. Eldislax hefur glatað mikilvægustu þáttum líffræðinnar sem lúta að hæfni til að lifa villtir í umhverfinu.
Af hverju? Jú ekki ólíkt íslensku sauðkindinni þá hefur áhersla verið lögð á þætti sem eldismenn (bændur hafsins) telja mikilvæga – einkum eiginleikana að vaxa hratt, nýta vel fóður (lágur fóðurstuðull), sjúkdómaþol og seinn kynþroski. Allt þetta þýðir þar með að lax sem sleppur er ekki líklegur til að blandast villtum stofnum.
Erfitt að sjá þessa erfðablöndun
Ef litið er til Noregs – og eins og víða kemur fram – þá er mjög erfitt að sjá þessa erfðablöndun. Og ef litið er til náttúrulegs vals þá er auðvitað ljóst að einstaklingar sem eru síður hentugir til að lifa af í villtri náttúru munu deyja út. Því er það svo að þrátt fyrir yfir 50 ára eldi við strendur Noregs þá er enn góð staða á villtum löxum víðast. Hvergi er hægt að fullyrða neitt um að eldi hafi eyðilagt ár – hvergi!
Meiri áhyggjur eru af veiðum á villtum laxi í net við strendur og hann Orri Vigfússon heitinn, sá merki maður, keypti jú upp alla kvóta í kringum landið.

Þorleifur Ágústsson: Það er því sérstakt í mínum huga, sem fagmanns á þessu sviði, að þurfa endalaust að hlusta á marklausar yfirlýsingar um hættur og eyðileggingu þegar um er að ræða iðnað sem á fullan rétt á sér, sé hann stundaður eins og eldismenn gera í dag.

Iðnaður sem rétt á sér sé hann stundaður eins og eldismenn gera í dag.
En þetta þýðir auðvitað ekki að engin hætta sé til staðar og menn þurfi ekki að fara varlega. Það er því sérstakt í mínum huga, sem fagmanns á þessu sviði, að þurfa endalaust að hlusta á marklausar yfirlýsingar um hættur og eyðileggingu þegar um er að ræða iðnað sem á fullan rétt á sér, sé hann stundaður eins og eldismenn gera í dag. Arnarlax og aðrir sem eru að stunda laxeldi hafa nákvæmlega engan áhuga á, frekar en bændur við Djúp, að fara ílla með dýrin sín eða eyðileggja náttúruna.
Beinum athyglinni að því sem skiptir máli
Ég legg því til að menn beini athygli sinni að því sem skiptir máli, sem er að hér er um landbúnað (strandbúnað) að ræða sem hefur svipað í för með sér og landbúnaður hefur gert á Íslandi frá því að land byggðist. Fiskirækt er landbúnaður – framkvæmdur í fersku vatni og í sjó – hvort sem það kallast að að ala lax til manneldis eða lax til að sleppa í ár svo að veiðiáhugamenn geti spreytt sig með stangir og línu.
Fiskeldi getur verið í sátt við umhverfið
Eftir að hafa dvalið í 10 ár á Ísafirði, kynnst því góða fólki sem þar býr og fylgst með hve erfitt er að halda uppi atvinnu þá vil ég við ykkur segja: Fiskeldi getur vel verið í sátt við umhverfið – getur vel verið lyftistöng fyrir byggðir fyrir vestan og austan. Svo nú ráðlegg ég ykkur að vinna saman að góðum lausnum – sem verða ykkur og landinu til góðs.
Þorleifur Ágústsson, rannsóknarstjóri hjá norska rannsóknafyrirtækinu  IRIS