Norska fiskeldisfyrirtækið NRS (Norwegian Royal Salmon) hefur keypt um helming hlutafjár í Arctic Fish.  Arctic Fish er með silungseldi í Dýrafirði og hyggst fara í laxeldi í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi.  Þá rekur fyrirtækið stóra seiðaeldisstöð í Tálknafirði.   Fréttatilkynning frá Arctic Fish vegna kaupa NRS birtist hér að neðan í heild sinni:

Fréttatilkynning:

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur í dag gengið frá sölu á hlutafé til nýs hluthafa og samstarfsaðila, Norway Royal Salmon (NRS). Upphaflegu hluthafar fyrirtækisins, Bremesco og Novo ehf. munu áfram vera hluthafar og NRS mun með aukningu á eigin fé eignast helming hlutafjár móti núverandi hluthöfum. Með þessari hlutafjáraukningu er grunnur lagður að framtíðarfjármögnun félagsins og áframhaldandi vexti starfsemi félagsins á Vestfjörðum. Markaðsdeild DNB bankans var ráðgefandi að þessu samkomulagi beggja aðila.
Arctic Fish hóf starfsemi sína í silungseldi undir nafni Dýrfisks í Dýrafirði árið 2011. Þar er fyrirtækið enn með meginstarfsemi sjóeldisins sem nú er rekið undir nafni Arctic Sea Farm. Verið er að byggja upp nýja og fullkomna seiðaeldisstöð hjá systurfélaginu Arctic Smolt í Tálknafirði og er móðurfélagið einnig að undirbúa frekari vöxt, m.a. í laxeldi, sem gert er ráð fyrir að verði meginsvið félagsins í framtíðinni. Fyrsta skrefið í laxeldi Arctic Fish hefur þegar verið stigið þegar fyrstu laxaseiðin voru alin í seiðaeldisstöð félagsins og sett út í Dýrafjörð þar sem þau verða framleidd í samræmi nýja ASC umhverfisvottun félagsins.
NRS var stofnað árið 1992 þegar 34 fiskeldisfyrirtæki sameinuðust um sölu og markaðsfyrirtæki fyrir eldislax og fleiri sameiginlega hagsmuni þessara smærri eldisframleiðanda. Árið 2006 hóf félagið laxeldi undir eigin nafni ásamt því að vera áfram í sölu og stuðningi við rekstur aðildafélaga NRS. Fyrirtækið var skráð í kauphöll Oslo Stock Exchange árið 2010.

NRS er eitt af leiðandi fiskeldisfyrirtækjum í Noregi með eigin laxeldisframleiðslu á síðasta ári upp á 28 þ. tonn og sölu af um 70 þ. tonnum af laxaafurðum gegnum dreifingarkerfi félagsins til yfir 50 landa. Uppsetning félagsins gegnum eigin starfsemi og samstarfsfélaga hefur leitt til uppbyggingar á starfsemi sem nær yfir alla þætti eldisins frá seiðaeldi, sjóeldi, vinnslu, sölu og dreifingu beint til viðskiptavina. Samvinna við Arctic Fish er liður í frekari uppbyggingu á starfsemi NRS og grunnurinn að frekari vexti félagsins. NRS er nú þegar með megin hluta síns eldis í Norður Noregi þar sem eldisaðstæður eru á margan hátt sambærilegar og á Vestfjörðum. Það er markmið hluthafa Arctic Fish og nýrra samstarfsaðila að skrá félagið á hlutabréfamarkað innan næstu fimm ára. „NRS lítur til Íslands sem áhugaverðs svæðis til uppbyggingar fiskeldis og í samstarfinu við Artic Fish mun NRS gegna mikilvægu hlutverki í að styðja undir frekari vöxt starfseminnar. Arctic Fish mun geta leitað til þeirrar þekkingar og reynslu sem er innan NRS til þess að byggja leiðandi fiskeldisfyrirtæki á Íslandi“, segir Charles Høstlund, framkvæmdastjóri NRS.
„Það eru möguleg samlegðaráhrif í öllum þáttum starfsemi samstarfsfélaganna NRS og Arctic Fish, frá seiðaeldi til fullunninna afurða. Að fá NRS sem hluthafa í Arctic Fish gerir tvennt að verkum, í fyrra lagi tryggir það fjármögnun félagsins, í seinna lagi mun eiga sér stað þekkingaryfirfærsla frá aðilum sem eru starfandi í fiskeldi á norðlægum slóðum. Markmið Arctic Fish og NRS er uppbygging á Íslandi í umhverfi sem gerir það kleift að vera í sjálfbæru og vistvænu fiskeldi“, segir Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri Arctic Fish.

Fréttatilkynning frá Arctic Fish 24. ágúst 2016.
Frekari upplýsingar veitir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish, í síma 777 3123 og netfang: sp@afish.is og Shiran Þórisson, fjármálastjóri félagsins í síma 893 2617 og netfang: nst@afish.is