Einar K. Guðfinnsson: : Sýnt hefur verið fram á í áhættumati Hafrannsóknastofnunar að möguleg áhætta af erfðablöndun sé bundin við þrjár ár, en ekki allt landið

Hér á eftir fer grein, sem upphaflega birtist í Fréttablaðinu, föstudaginn 23. mars sl.

Pennavinur minn Jón Þór Ólason, lögmaður og formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, stritast enn við í andófi sínu gegn uppbyggingu atvinnutækifæra og verðamætasköpunar í fiskeldi á Íslandi, í grein sem hann skrifaði hér í Fréttablaðið 21. mars.
Möguleg áhætta er staðbundin
Þrátt fyrir þrákelknina verður honum lítt ágengt í málflutningi sínum. Það er athyglisvert að Jón Þór skautar bæði fimlega og samviskusamlega framhjá því að fiskeldi á Íslandi er byggt á vísindum og þekkingu. Sýnt hefur verið fram á í áhættumati Hafrannsóknastofnunar að möguleg áhætta af erfðablöndun sé bundin við þrjár ár, en ekki allt landið, eins og telja mætti af skrifum Jóns.
Viltir laxastofnar sterkastir í Noregi
Hann víkur að Noregi, þar sem fiskeldi er ma stundað í nálægð við veiðiár og árósa, ólíkt því sem hér tíðkast og Hafrannsóknastofnunin hefur bent á. Í Noregi, eru þó villilaxastofnarnir þeir sterkustu í Norður Atlantshafi, eins og sjá má á skýrslum NASCO og fleiri stofnana. Þetta er raunin á sama tíma og laxeldi hefur margfaldast í Noregi og er nú um 1,3 milljónir tonna.
Brothættur grundvöllur
Í skrifum sínum hengir Jón Þór sig á athuganir sem gerðar hafa verið í nokkrum ám á Vestfjörðum, sem eiga það ma sammerkt að vera ekki með eiginlega laxastofna og dregur af þeim athugunum ótæpilegar ályktanir. Þetta er brothættur grundvöllur að standa á.
Niðurstöður Kevin Glover
Nú nýverið hafa birst niðurstöður Kevin Glover prófessors í Bergen, sem sýna að „við litla eða nokkra blöndun, það er að segja 5 – 10% eldislaxa, sjáum við næstum engar breytingar á 50 -100 árum í stærð smárra og fullorðinna laxa, né hve mikinn fisk áin framleiðir, né heldur breytingar á endurheimtum laxa eftir sjógöngu“.
Staðreyndirnar henta ekki málstað hans
En auðvitað tekur Jón Þór Ólason ekkert mark á svona staðreyndum; þær henta ekki hans málstað. Í hans huga er þetta væntanlega bara bænaþula og prófessorinn „áróðursmeistari“.

Einar K. Guðfinnson formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva