Laxar fiskeldi hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum af aukinni framleiðslu á laxi í Reyðarfirði um tíu þúsund tonn. Fyrirtækið hefur nú starfs og rekstrarleyfi fyrir sex þúsund tonna ársframleiðslu og mun hefja slátrun síðar á þessu ár. Við aukninguna verður heildarframleiðslan í Reyðarfirði samtals 16 þúsund tonn tonn. Þetta kemur ma fram í frétt Morgunblaðsins  miðvikudaginn 17. Janúar. Í frétt blaðsins segir:

 

Með tilkomu laxeldis af þessari stærðargráðu munu stoðir atvinnulífs í Fjarðabyggð styrkjast með hærra atvinnustigi og fjölbreyttara atvinnulífi

Stærðarhagkvæmni er lykilatriði
Í samantekt skýrslunnar segir að Laxar fiskeldi ehf áformi að byggja upp öflugt áframeldi í sjókvíum á Austfjörðum. Fyrirhuguð framleiðsla félagsins í Reyðarfirði og í Fáskrúðsfirði muni nema 20 þúsund tonnum. „ Í þessari grein er stærðarhagkvæmni lykilatriði. Mikilla upplýsinga hefur verið aflað um náttúru og umhverfi í Reyðarfirði á undanförnum árum og viðbótarrannsóknir hafa verið gerðar vegna þessarar framkvæmdar“, segir í útdrætti skýrslunnar.
Stoðir atvinnulífs í Fjarðabyggð munu styrkjast
Með auknu eldismagni skapist meira hagræði í rekstri, betri samkeppnisstað og traustari grundvöllur fyrir starfsemina. Með tilkomu laxeldis af þessari stærðargráðu munu stoðir atvinnulífs í Fjarðabyggð styrkjast með hærra atvinnustigi og fjölbreyttara atvinnulífi, segir í skýrslunni.
Aukið sjókvíaeldi Laxa fiskeldis verður rekið á fimm eldissvæðum, þ.e fjórum við utanverðan Reyðarfjörð og einn í innri hluta Reyðarfjarðar. Þessi eldissvæði eru Kolmúli, Vattarnes, Rifssker, Hafranes og Hjálmeyri.
Kvíar í hæsta gæðaflokki
Valdar verða kvíar í hæsta gæðaflokki sem viðurkenndar eru af norskum yfirvöldum og tryggingarfélögum, en þar í landi eru gerðar strangar kröfur til búnaðar og festinga, segir í skýrslunni. Ætlunin er að notast við kvíar sem eru 157 metrar að ummáli. Þegar framleiðsla verður komin í full afköst verða fjórtán kvíar á hverri staðsetningu.
Framleiðslan gæti náð hámarki á árinu 2020
Ráðgert er að hefja eldi á þessu ári, 2018, með útsetningu 2,1 milljón seiða. Framleiðslan nær hámarki á árinu 2020.
Opinn kynningarfundur um skýrsluna verður haldinn 25. janúar kl. 20 í Grunnskóla Reyðarfjarðar. Frummatsskýrslan er aðgengileg á skipulag.is og á bókasöfnunum á Eskifirði og Reyðarfirði, bæjarskrifstofum Fjarðarbyggðar, Skipulagsstofnun og Þjóðarbókhlöðunni. Kynningartími er til 26. febrúar.