Umhverfissjóður

Sjókvíaeldifélög á Íslandi greiða í Umhverfissjóð sjókvíaeldis.  Umhverfissjóður sjókvíaeldis var stofnaður með lögum nr. 71/2008 með síðari breytingum. Meginmarkmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif af völdum sjókvíaeldis.  Helstu styrkþegar sjóðsins hafa verið Hafrannsóknastofnunin og Veiðimálastofnun þannig að fé úr sjóðnum hefur nýst vel til umhverfisrannsókna tengdum sjókvíaeldinu, þ.m.t. burðarþolsrannsóknum á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar.

 

Fjallað er um Umhverfissjóðinn í 20. gr. laga nr. 71/2008:

[20. gr. a. Umhverfissjóður sjókvíaeldis.
Umhverfissjóður sjókvíaeldis er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði ráðherra. Markmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Jafnframt er heimilt að veita veiðiréttarhöfum styrki úr sjóðnum til að mæta þeim kostnaði eða tekjumissi sem þeir hafa orðið fyrir vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar.]1)
1)L. 49/2014, 14. gr.
[20. gr. b. Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
Umhverfissjóður sjókvíaeldis lýtur fjögurra manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með umhverfismál. Ráðherra skal skipa formann sjóðsins án tilnefningar og skal atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jafnt. Varamenn skal skipa með sama hætti.]1)
1)L. 49/2014, 14. gr.
[20. gr. c. Verkefni stjórnar.
Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög þessi og reglugerð setta samkvæmt þeim. Verkefni stjórnar eru að:
a. skila ársreikningum og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra,
b. taka ákvarðanir um forgangsröðun verkefna og greiðslur úr sjóðnum,
c. taka ákvarðanir um ávöxtun eigin fjár,
d. tryggja að upplýsingar og gögn sem unnin eru á vegum sjóðsins séu aðgengileg.]1)
1)L. 49/2014, 14. gr.
[20. gr. d. Ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
Ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis er:
a. innheimt árgjald af rekstrarleyfishöfum sjókvíaeldis,
b. arður af eigin fé.]1)
1)L. 49/2014, 14. gr.
[20. gr. e. Árgjald Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
Rekstrarleyfishafi sjókvíaeldis skal greiða árlegt gjald að upphæð 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og rennur það óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
Árgjald skal endurskoðað á fimm ára fresti.]1)
1)L. 49/2014, 14. gr.
[20. gr. f. Álagning og innheimta árgjalds.
Matvælastofnun annast álagningu og innheimtu árgjalds skv. 20. gr. e. Ráðherra er þó heimilt að fela innheimtumönnum ríkissjóðs eða öðrum aðilum innheimtu þess.
Eigi síðar en 30. ágúst ár hvert skal Matvælastofnun hafa lokið álagningu á gjaldendur skv. 20 gr. e og skal gjaldendum tilkynnt bréflega um hana.
Gjöld skv. 20. gr. e vegna yfirstandandi almanaksárs falla í gjalddaga 1. október ár hvert. Ef gjöld eru ekki greidd innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af þeim skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Álagning gjalds eða úrskurður um gjaldtöku eru aðfararhæfar ákvarðanir. Matvælastofnun getur krafist fullnustu með aðfarargerð þegar liðnir eru 30 dagar frá gjalddaga.]1)
1)L. 49/2014, 14. gr.
[20. gr. g. Reglugerðarheimild. Kostnaður af rekstri.
Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, þ.m.t. um málsmeðferð og reglur um greiðslur úr sjóðnum.
Allur kostnaður af starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis greiðist af sjóðnum.]1)