Laxeldi er ekki ástæða þess að laxastofnar hafa minnkað í Norður-Atlandshafi
Laxveiði í ám hefur minnkað í öllum löndum við Atlantshafið á undanförnum áratugum. Ástæður eru ekki þekktar en eru taldar margþættar; hlýnun, súrt regn og önnur mengun s.s. efnamengun, plastagnir ofl.,virkjanir vatnsfalla, ofveiði og fleira. Norskir laxastofnar hafa einna helst haldið í horfinu eftir að laxeldi hófst þar í landi – Á Íslandi var laxveiðin árin 1991-2010 aðeins 60% af veiði sem var árin 1970-1990, laxeldi á þeim tíma á Íslandi var ýmist ekkert eða hverfandi lítið og verður seint talið af nokkurri sanngirni eiga þátt í þessari minnkun. Laxveiði í Noregi stendur í dag undir 43% af heildarveiði Atlandshafslaxsins, en veiðin þar í landi var aðeins 18% af heildarveiði í Norður-Atlandshafi árin 1980-1990.

Laxalús og sjúkdómar 

Kynslóðaskipt eldi, með hvíld eldissvæða og kaldur sjór, sérstaklega yfir veturinn, stuðla að minni laxalús á eldissvæðum við Ísland en víðast hvar annars staðar. Engir veirusjúkdómar finnast í eldislaxi á Íslandi og bólusetning gegn barkeríusjúkdómum fyrirbyggir að eldislax sýkist. Sjúkdómasmit og laxalús eru í náttúrunni.

Lítil mengun er frá laxeldi
Áður en fiskeldi er yfir höfuð leyft, sem er aðeins á svæðum fjarri öllum helstu laxveiðiám landsins, fer fram ítarleg rannsókn sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar á burðarþoli einstakra eldissvæða, sem svo gefur út varfærið mat á því hve mikið fiskeldi svæðið ber án þess að valda óæskilegum áhrifum á vistkerfi þess. Auk þess hefur farið fram strangt mat vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar á líkum þess að erfðablöndun verði af völdum slysasleppinga fiskjar í eldi sem að hluta til gæti leitað upp í laxár og makast við villtan lax. Aukinheldur eru áhrif fiskeldis í sjó endurkræf sé því hætt og allar leyfisveitingar til eldis tímabundnar og háðar ströngum kröfum og stöðugu eftirliti opinberra aðila.
Áhrif laxeldis á svifþörunga á nærsvæði eru lítil og staðbundin og virka á svipaðan hátt og áburður á tún á meðan þynningaráhrif sjávar á næringarefni eru mikil. Reglur um vöktun og hvíld eldissvæða fyrirbyggja staðbundin langtímaáhrif, sem reyndar eru endurkræf seé eldinu hætt. Grunnir firðir hafa sterkari botnstrauma en djúpir firðir og endurnýja umhverfi hratt, eins og sjá má t.d. í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi þar sem talið er að um 30.000 tonn af síld hafi drepist á einum degi árið 2012 og allt að 50.000 tonn á tveimur mánuðum. Aðeins tveimur árum síðar iðaði fjörðurinn af sjávarlífi, skv. ábúendum sem áður höfðu óttast að umhverfið yrði óbyggilegt.

Ólíkt úrgangi frá mannabyggð, sem inniheldur auk baktería sem eru hættulegar manninum alls kyns mengunarefni s.s. efnamengun t.d. þráavirk efni, olíur, leysiefni, plastagnir, lyfjaleifar, þvotta- og mýkingarefni, þá er úrgangur húsdýra, þ.m.t. laxfiska, fyrst og fremst áburðarefni sem inniheldur auk vatns, fosfór, kolefni og nitur/köfnunarefni, rétt eins og er í tilbúnum áburði. Vegna þessa er ekki þörf á hreinsun hans og fráleitt að bera hann saman við úrgang frá mannabyggð, sem reyndar er oftast bara síaður hérlendis en ekki hreinsaður. Rétt eins og þessi efni eru uppistaðan í húsdýraáburði og tilbúnum áburði, sem eru grundvöllur ræktunar ljósttillífandi plantna á landi, eru þessi efni, ásamt ljósi og súrefni, grundvallarnæring svifþörunga, þangs og þara,sem eru neðst í fæðukeðju hafsins. Þau eru því ekki sjálfkrafa mengunarefni. Án þessara næringarsalta ljóstillifa þörungar ekki og verða ekki að næringu fyrir dýrasvif sem verður svo fæða fyrir skeldýr, fisk, hvali o.sv.frv. upp fæðukeðjuna. Næringarefnin eru s.s. nauðsynleg lífi í hafinu.

Of mikið magn úrgangs á of litlu svæði, veldur ójafnvægi í vistkerfinu með ofvexti sumra lífvera, gjarnan þörunga, auk þess sem mikil uppsöfnun getur valdið staðbundnum bakteríuvexti og gasmyndun. Dreifing/þynning og flutningur með straumum og sjávarföllum auk upptöku svifþörunga á svæðinu hefur á ákveðnu svæði ákveðna getu til að nýta næringarefnin. Þetta ákveður burðarþol svæðisins, þ.e. hve mikið er óhætt að ala af fiski án þess að valda ójafnvægi í lífríkinu eða skaða það. Sá sem tapar mest á of mikilli áburðargjöf er bóndinn sem á túnið; hann hendir peningum í of mikið af næringu og getur skemmt bletti á túninu, sem tíma tekur að græða upp á ný. Það sama gildir um laxeldi, fiskeldisfyrirtækið tapar peningum á fóðri sem fer til spillis og getur tapað vexti, heilsu og jafnvel lífi eldisdýranna ef ekki er sýnd aðgæsla. Það eru því hagur allra og fjárhagslega á fiskeldið mest undir því að farið sé með gát gagnvart mengunarhættu. Enda er það svo við vettvangskannanir eftirlits- og rannsóknaraðila að mælanleg áhrif frá fóður- og úrgangslosun við kvíastæði eru yfirleitt sáralítil um 100 metrum frá kvíunum og ekki merkjanleg í um 350 metra fjarlægð. Burðarþolsmat Hafrannsóknunarstofnunar er frumforsenda í leyfisveitingum fiskeldis hér við land og er varfærið mat vísindamann á áhrifum fiskeldis gagnvart hinum ýmsu umhverfisþáttum, þ.m.t. á ofangreindu. Sem dæmi má nefna að burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnunar fyrir Ísafjarðardjúp 30.000 tonn, sem þýðir að varfærið mat vísindamanna stofnunarinnar sé að í Ísafjarðardjúpi sé hægt að ala um 30.000 tonn af fiski árlega án þess að það hafi merkjanleg áhrif á umhverfið.

Sem dæmi um ofangreint má nefna að fyrir hvert tonn af laxi berast um 40 kíló af köfnunarefni í sjó á tveimur árum, um 20 kg árlega. Fráveitukerfi skila um 5 kg af köfnunarefni fyrir hvern mann árlega til sjávar. 1000 tonna laxeldi skilar því árlega í sjó köfnunarefni sem nemur um 4.000 íbúa byggð, vel að merkja án hættulegra baktería og efnamengunar mannsins. Á íslensk tún er árlega borin 12-15.000 tonn af köfnunarefni í formi tilbúins áburðar, auk þess sem húsdýrin skila frá sér. Sé miðað við varfærið burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnunar skilar 130.000 tonna laxeldi því rúmum þriðjungi þess magns sem landbúnaður gerir, með margfalt meiri framleiðslu matar, í margfalt stærra hafið sem umlykur landið.

Aðeins um 1% eldisstaðsetninga í Noregi, sem þó hefur stundað laxeldi með góðum árangri í meira en hálfa öld, hafa valdið óásættanlegri staðbundinni mengun og við henni er brugðist með flutningi kvía og hvíld eldissvæða. Úrgangsefni við framleiðslu á laxi samsvarar ekki klóakkrennsli frá mönnum að öðru leyti en því að það er hvorutveggja saur dýra; laxasaur er án allra aukaefna og aðskotahluta (sápur, olíur, þvottaefni, lyfjaleifar, plastagnir, pappír o.s.frv…) og þar að auki án bakteríuflóru sem er skaðleg mönnum (E. coli og álíka).

Lyf eru ekki notuð í fiskeldi hérlendis og innihald fóðursins er, auk fiskimjöls og lýsis, sem gjarnan á uppruna sinn í fiski úr hafinu umhverfis landið, næringarefni úr jurtaríkinu. Öll fóðurframleiðsla er vottuð og hráefni til fóðurgerðar eru einnig vottuð og mengunarefni jafnan langt innan viðmiðunarmarka. Enda hefur komið í ljós í rannsóknum að eldislax inniheldur minna af mengunarefnum en villtur lax, sem sækir fæðu sína alla í opnu vistkerfi hafsins. Fiskeldisfyrirtæki á Íslandi selja kröfuhörðustu kaupendum fiskafurða og þurfa að uppfylla ströng skilyrði þeirra til að komas í hillur verslana þeirra. Sem dæmi má nefna að íslenskur lax og íslenskt lambakjöt tróna „hlið við hlið“ íhillum Whole Foods, einnar virtustu matvörukeðju Bandaríkjanna.

Laxeldi er umhverfisvænsta matvælaframleiðslan
Fiskeldi er akuryrkja til sjávar, það sem heimsbyggðin kallar gjarnan bláu-byltinguna. Kolefnisspor á hvert kg framleitt af laxi er um 2,5 kg kolefnistvíildis (CO2) á hvert framleitt kjötkíló, sem er innan við tíundi hluti þess sem er við kjötframleiðslu með nautgripaeldi (30 kg CO2/kg kjöts). Laxfiskar nýta fóður sitt mun betur en landdýr, eða frá tvisvar (hænsnfuglar) til tíu sinnum (nautgripir) betur, auk þess sem nýtingarhlutfall (ætilegur hluti dýrsins) þyngdar hans er mun hærra, svo munar um allt að 60%. Vegna þessa er nýtanlegt kjöt af eldislaxi er um 60 kíló á hver 100 kíló af fóðri en í eldi húsdýra á landi er hlutfalllið frá 4 – 20 kíló. Vatnsnotkun laxeldis er um tonn á kíló af nýtanlegu kjöti á meðan landdýrakjöt krefst fra 4 – 15 tonna á kíló. Landnotkun er á sama veg, eldi laxfiska notar brot af þeim svæðum sem þarf til tilsvarandi matvælaframleiðslu á landi.

Áður en eldisleyfi er gefið út og rekstur hafinn hefur leyfisferillinn staðið í mörg ár og Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Skipulagsstofnun, auk Hafrannsóknarstofnunar, rannsóknaraðilar á vegum umsækjenda og margvíslegir aðrir umsagnaraðilar komið að málum og að endingu gefið út tímabundin leyfi háð ströngum skilyrðum. Auk þess hafa allir sem telja sig hlutaðeigandi eða haghafa fengið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að og það hefur verið gert í ríkum mæli. Svokallaðir hagsmunaaðilar og ekki síst veiðiréttareigendur hafa nýtt alla sína möguleika til að kæra niðurstöður framangreindra opinberu aðila, yfirleitt með heldur snautlegum árangri, enda oft miðað hátt yfir markið. Það er því af og frá að leyfisferillinn sé ekki vel ígrundaður og ekki hafi verið opnað fyrir sjónarmið veiðiréttareigenda. Leyfisferillinn hefur einmittt verið gegnsær og ítarlegur og lögleg rökstudd niðurstaða fengin.

Hætta á genablöndun eldislaxa og villtra laxa.
Fram hefur komið í mati vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar að hætta á erfðablöndun laxa við Ísland er sáralítil og staðbundin. Þannig eru aðeins 3 – 4 laxveiðiár, allar utan bannsvæða laxeldis og með samtals innan við 1% af heildarveiði laxa, með meira en 4% líkur á erfðablöndun sé laxeldi leyft í nágrenni þeirra (sem það ekki er í dag), en það er sú tala sem Hafrannsóknarstofnun leggur til að verði notuð sem hámarksviðmið. Allar aðrar laxveiðiár á Íslandi eru með um eða innan við 1% líkur á erfðablöndun. Til samanburðar má nefna að í Noregi er ekki miðað við 4% líkindi sem hámark heldur 10% og yfir þá tölu færi engin laxveiðiá á Íslandi, jafnvel þótt eldi á laxi væri leyft í Ísafjarðardjúpi.

Orri heitinn Vigfússon benti á að genamengun taki áratugi og það sama hefur komið fram hjá forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, þ.e. að til þess að erfðablöndun verði þurfi mikið álag í langan tíma, nokkuð sem ekki er tilfellið í einstakri slysasleppingu. Í þessu samhengi má benda á að íslensk laxeldisleyfi eru gefin út til 10 ára, með endurskoðun eftir 4 ár. Því fer þess vegna víðsfjarri að íslenskum laxi stafi bráð hætta af hugsanlegri genamengun við hugsanlegar slysasleppingar. Skv. áhættumatsskýrslu Hafrannsóknarstofnunar sjást þess t.d. ekki merki í genum laxastofa landsins að laxaseiðum frá Kollafjarðarstöðinni, sem framleidd voru úr seiðum ættaðum úr ám víðsvegar á landinu, hafi verið sleppt í miklu magni og um langt árabil í hinar ýmsu laxveiðiár – og eiga raunar laxastofnar sumra þeirra uppruna sinn úr þessum seiðasleppingum veiðiréttarhafa.

Laxastofninn sem notaður er á íslandi er svokallaður Saga Stofn sem var fluttur til Íslands frá Noregi fyrir um þremur áratugum síðan. Hrogn úr laxi af þessum stofni eru eftirsótt og eru seld héðan til margra landa; Skotlands, Írlands, Færeyja, Noregs, Kanada, Chile, Kína og víðar. Laxinn er að sjálfsögðu ekki genabreyttur, en eins og við matvælaframleiðslu með húsdýrum almennt eru stundaðar kynbætur á eldislaxinum, þ.e. valdir eru úr bestu einstaklingarnir til undaneldis, rétt eins og gert er við annan bústofn, svo sem t.d. hrúta og ær. Það sama er einnig gert í langflestum laxveiðiám á Íslandi þar sem menn velja stórlaxa í kistur og nota til undaneldis fyrir seiðaframleiðslu ánna. Til eru laxveiðiár þar sem lítil eða engin laxveiði væri án þessara seiðasleppinga s.s. Rangárnar og Breiðdalsá.

Skaðleg áhrif af erfðablöndun hafa ekki verið staðfest með rannsóknum
Sterkt náttúrulegt úrval (yfir 99%) hamlar að stök tilfelli erfðablöndunar berist milli kynslóða – Auknar kröfur um búnað og verklag hafa dregið stórleg úr slysasleppingum í Noregi undanfarin ár á sama tíma og magn og umfang eldis hefur stóraukist – Langtímarannsóknir munu kortlegga hvort og hvernig erfðablöndun skaðar stofna – Mikilvægt að fyrirbyggja slysasleppingar með öllum tiltækum ráðum.

Fiskeldi er komið til að vera.
Fiskeldi og rannsóknum hefur fleygt mikið fram síðustu ár og tilraunir með bæði geldfisk, landeldi á laxi, úthafskvíar sem og lokaðar kvíar eru í gangi og verður spennandi að sjá hverju þær tilraunir skila, þótt enn sem komið er séu þær ekki arðbærar. Enn eru þessar hugmyndir á tilraunastigi og öruggasta leiðin er einmitt þeir staðlar sem innleiddir hafa verið á laxi á Íslandi. (NS9415)

Nágrannar okkar Norðmenn, Færeyingar, Skotar, Írar og Kanadamenn hafa allir þróað umfangsmikið laxeldi síðustu áratugi og ætla allar þjóðirnar að auka það í framtíðinni, enda er fiskeldi ein umhverfisvænsta leiðin til framleiðslu próteinríkra matvæla. Leyfisferlar hérlendis hafa verið í gangi mörg undanfarin ár, undir ströngustu reglum og í umsjón Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar og Hafrannsóknarstofnunar. Sjálfsagt er að umræða um framtíð fiskeldis eigi sér stað á Íslandi, en æskilegt er að það sé gert með rökrænum hætti, án sleggjudóma, upphrópana og staðhæfinga uppfullum af gildishlöðnum tilfinningum einstaklinga, hálfsannleika eða beinna ósanninda.