Landeldi

Eldi í landstöðvum hefur verið stundað á Íslandi áratugum saman, saga þess nær alveg aftur til fyrri hluta síðustu aldar þegar tilraunir hófust með seiðaeldi til styrkingar stofn í veiðiám.  Í gegnum tíðina hefur um að ræða minni verkefni í tengslum við landbúnað  en árið 1951 var fyrst reynt að ala silung í landstöð til manneldis.  Á 9. og fram á 10. áratug síðustu aldar voru í gangi stórhuga verkefni sem sneru að seiðaframleiðslu fyrir sjókvíaeldi sem reyndar dróst svo saman eftir 1990.   Eftir 2000 óx sú uppbygging  og er nú talsvert framleitt af bleikju og laxi í landstöðvum, auk seiðaframleiðslunnar fyrir sjókvíaeldið sem nú er í mikilli sókn.  Þá hefur Stolt Sea Farm nú reist stóra landstöð fyrir eldi á Senegal Flúru á Reykjanesi og Matorka undirbýr byggingu á stórri stöð sem mun framleiða bleikju og lax.   Í Tálknafirði er síðan í byggingu stór seiðastöð á vegum Arctic Smolt  sem mun væntanlega þjónusta fyrirtækin á Vestfjörðum.

Stærstu landstöðvarnar voru reistar á níunda áratugnum og er þær að finna á Reykjanesi, í Þorlákshöfn og í Öxarfirði.   Þær eru nú allar í fullum rekstri annaðhvort við að framleiða bleikju og lax eða sem seiðastöðvar að þjónusta sjókvíaeldið.  Staðsetning landstöðva ræðst af því hvernig aðgengi er að vatni og varmaorku, enda hitastjórnun á vatni lykilatriði við vel heppnaða landstöð.  Tækni við landeldi hefur fleygt mikið fram á undanförnum árum og ljóst er að þær eiga mikla framtíð fyrir sér í matvælaframleiðslu fyrir heiminn.

Landstöðvar búa við strangt eftirlit heilbrigðiseftirlita á sínum starfssvæðum.  Starfsleyfi þeirra byggja á því hversu mikinn lífrænan úrgang þær láta frá sér í frárennsli sínu en gerðar eru miklar kröfur til frágangsmála þess.