Heilbrigðismál

Heilbrigðiseftirlit með eldi lagardýra er fastsett með lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og eftirlit með þeim, lögum nr. 60/2006 um varnir gegn fisksjúkdómum og lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Nánar er svo kveðið á um eftirlitið í reglugerð nr. 403/1986 um varnir gegn fisksjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með fiskeldisstöðvum, reglugerð nr. 238/2003 um eldi nytjastofna sjávar og reglugerð nr. 1254/2008 um heilbrigðiskröfur að því er varðar lagareldisdýr og afurðir þeirra og um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum. Þá eru í gildi sértækar reglugerðir sem kveða nánar á um framkvæmd og fyrirkomulag á afmörkuðum sviðum, s.s. reglugerð nr. 665/2001 um viðbrögð við smitsjúkdómum, reglugerð nr. 527/2003 um sýnatökuáætlanir og greiningaraðferðir við greiningu og staðfestingu á fisksjúdómunum brisdrepi, iðradrepi og veirublæði og reglugerð nr. 1011/2003 um búnað og innra eftirlit í fiskeldisstöðvum.
Ástand heilbrigðismála í íslensku fiskeldi er nú mjög gott.  Engir alvarlegir sjúkdómar hafa greinst lengi og notkun sýklalyfja er nánast engin.  Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hjá MAST fór rækilega yfir þetta á málþingi um sjókvíaeldi á Ísafirði í maí 2016.  Fyrirlestur hans er að finna hér.
Þá gefur MAST út ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma, með ítarlegri greiningu á stöðu fiskeldis á Íslandi m.t.t. heilbrigðis- og dýravelferðar í eldinu.  Skýrsluna fyrir 2015 er að finna hér.