LÖG LANDSSAMBANDS FISKELDISSTÖÐVA, samþykkt á aukaaðalfundi í Hannesarholti að Grundarstíg 10 í Reykjavík, 23. maí 2017.

LÖG LANDSSAMBANDS FISKELDISSTÖÐVA

1. HEITI OG HEIMILI

1. grein.

Samtökin heita Landssamband fiskeldisstöðva, skammstafað LF og á ensku Iceland Aquaculture Association, með heimili og varnarþing í Reykjavík.

2. MARKMIÐ FÉLAGSINS OG TILGANGUR

2. grein

Markmið LF er að efla og styrkja fiskeldi hér á landi og gæta hagsmuna félagsmanna þess. Að þessu verði unnið m.a. á eftirfarandi hátt:

a) Marka stefnu í fiskeldi og vera opinber málsvari félaga í LF í landinu.

b) Vinna að hagsmunamálum félaga LF með nánu samstarfi við aðila sem beint eða óbeint hafa áhrif á fiskeldismál hér á landi.

c) Afla upplýsinga um markaði og miðla þeim til eldismanna.

d) Stuðla að fræðslu og miðla upplýsingum til félagsmanna og almennings m.a. með því að halda úti netmiðlun.

3. AÐILD OG SKILYRÐI AÐILDAR

3. grein.

Rétt til inngöngu í LF hafa þau félög og einstaklingar sem stunda fiskeldi og uppfylla öll skilyrði þar að lútandi samkvæmt íslenskum lögum. Umsókn um inntöku í LF skal senda skriflega til skrifstofu LF. Á vegum LF er heimilt að stofna faghópa um sjókvíaeldi, landeldi, seiðaeldi og eldi sjávardýra. Í faghópum skal vera a.m.k. einn stjórnarmaður LF.

a) Rétt til inngöngu í faghópa LF hafa allir félagar í LF auk þess sem þjónustuaðilar (fyrirtæki og stofnanir) geta fengið inngöngu í faghópa sem aukafélagar í LF. Áhugamenn um fiskeldismál geta einig með samþykki stjórnar LF fengið inngöngu í faghópa en án atkvæðisréttar.

b) Á fyrsta fundi faghóps ár hvert skal hópurinn kjósa sér forsvarsmann sem verður tengiliður við stjórn LF. Allar tillögur og samþykktir faghópanna skulu teknar til afgreiðslu hjá stjórn LF.

c) Heimilt er að fjölga faghópum með samþykkt aðalfundar eða félagsfundar.

4. grein.

Við aðild í LF er viðkomandi háður samþykktum þess eins og þau eru á hverjum tíma.

4. ÁRGJÖLD

6. grein

Félaga í LF ber að greiða árgjald til LF. Árgjald telst vera gjald byggt á veltu fyrirtækjanna frá fyrra ári, skv. eftirfarandi veltuflokkun:

 Velta mkr

 Atkvæði

 100<

 1

 100-200

 2

 200-500

 3

 500-1000

 4

 1000-2000

 5

 2000-3000

 6

 >3000

 7

Aðalfundur ákveður upphæð árgjalds í samræmi við fjárhagsáætlun næsta árs og lágmarks félagsgjald hjá fyrirtækjum með veltu upp að 100 mkr eða lægra. Fyrir veltu yfir 100 mkr eða hærra greiða félagsmenn í hlutfalli við ársveltu liðins rekstrarárs. Aðalfundur ákveður greiðsluhlutfallið í prómillum og lágmarks félagsgjald í kr.

Fyrirtæki með minna en 10 tonna árlega framleiðslu geta valið á milli aukaaðildar og greiða þá 50% af lágmarks félagsgjaldi eða fullrar aðildar innan flokksins 0-100 mkr veltu.

Aukaaðilar að LF, sbr. 3. grein 50% af lágmarks félagsgjaldi. Gjald árgjalds er tvískipt; fyrsti gjalddagi er 1. febrúar ár hvert og seinni gjalddagi er 1. september, en eindagi mánuði eftir gjalddaga. Heimilt er að innheimta lágmarks félagsgjald og félagsgjald aukafélaga í einu lagi, með gjalddaga 1. febrúar. Ef félagsgjaldið er ekki greitt á eindaga er heimilt að reikna dráttarvexti frá gjalddaga. Nýir félagsmenn greiða félagsgjald frá og með þeim árshelmingi sem er að líða þegar þeir eru teknir í samtökin. Félagsmenn bera ekki ábyrgð á skuldbindingum samtakanna umfram það sem leiðir af ákvæðum kafla þessa.

5. UMSÓKN UM AÐILD OG ÚRSAGNIR

7. grein.

Inntökubeiðnir og úrsagnir úr LF skulu vera skriflegar og berast stjórn þess. Miðast úrsögn við áramót með minnst 3 mánaða fyrirvara. Brjóti aðildarfélagi eða aukafélagi gegn ákvæðum laga þessara getur aukinn meirihluti stjórnar samtakanna vikið því úr samtökunum, enda hafi honum gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Stjórn er heimilt að má nafn aðildarfélaga af félagaskrá LF hafi hann eigi greitt árgjald sitt fyrir árslok, enda hafi ákvörðun þess efnis áður verið send í tölvupósti. Í fundargerð stjórnar skal gerð viðhlítandi bókun. Við úrsögn eða brottrekstur er ekki unnt að gera tilkall til endurgreiðslu á framlögum til LF né eigna þess.

6. AÐALFUNDUR

8. grein.

Aðalfundur LF hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal haldinn fyrir lok septembermánaðar ár hvert. Til aukafunda getur stjórnin boðað þegar henni þykir þess þörf. Stjórninni er skylt að boða til aukafundar ef 1/3 atkvæðabærra aðildarfélaga eða fjórir stjórnarmenn óska þess skriflega og greina efni fundar. Nú hefur stjórn LF ekki boðað til fundar innan 14 daga eftir að henni barst krafan, þá geta hlutaðeigandi aðilar sjálfir hvatt til fundar.

9. grein.

Til aðalfundar skal boða með minnst 21 daga fyrirvara, en til aukafundar með minnst 7 daga fyrirvara. Fundarboð skulu vera send í pósti eða á tölvupóstfang aðildarfélaga og fundarefni tilgreint í fundarboði. Fundur er löglegir ef löglega er til hans boðað og mættir eru fulltrúar minnst helmings atkvæðamagns innan LF. Formaður LF setur aðalfund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara. Mæti ekki fulltrúar með helmings atkvæða skal fresta fundinum, þó ekki lengur en 7 daga, og er sá fundur löglegur án tillits til fundarsóknar. Úrslitum mála ræður meirihluti atkvæða, þó þarf 3/5 (60%) greiddra atkvæða til að breytingar á lögum félagsins taki gildi. Lögum LF má aðeins breyta á aðalfundi, enda sé þess getið í fundarboði að tillögur til lagabreytinga verði lagðar fram á fundinum. Skulu tillögur um lagabreytingar hafa borist stjórn LF svo tímalega að hægt sé að senda þær með fundarboði.

Kosningarétt og kjörgengi eru skuldlausir félagar síðasta almanaksár. Fundarritari ritar fundargerð aðalfundar sem er borin upp til samþykktar á fundi stjórnar eftir aðalfund. Reglur um tilhögun á fundinum skulu settar í fundarsköpum sem stjórnin semur og aðalfundur samþykkir, ella ráða fundarsköp Alþingis.

10. grein.

Á aðal- og félagsfundum hefur aðildarfélagi atkvæðamagn í samræmi við greitt árgjald hverju sinni sbr. 6. grein.

11. grein.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1) Kjör fundarstjóra og fundarritara

2) Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár og yfirlit um störf á yfirstandandi starfsári.

3) Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.

4) Lagabreytingar.

5) Kosning formanns, meðstjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna ársreiknings.

6) Fjárhagsáætlun næsta árs og ákvörðun um lágmarks árgjald og greiðsluhlutfall í prómillum.

7) Ákvörðun um laun stjórnar og skoðunarmanns.

8) Önnur mál.

7. STÓRN OG STJÓRNARKJÖR

12. grein.

Stjórn LF skipa 7 menn, sem kosnir eru á aðalfundi til eins árs í senn og 3 til vara. Formaður er kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér störfum. Gangi maður úr stjórn getur stjórnin með einróma samþykki kjörið annan mann í hans stað til næsta aðalfundar. Formaður boðar til stjórnarfundar og er stjórnarfundur lögmætur ef fjórir stjórnarmenn eru á fundi. Fundir skulu haldnirfyrir luktum dyrum. Rita skal fundargerð og rita allir viðstaddir stjórnendur undir. Stjórnin boðar til aðalfundar og aukafundar, undirbýr fundarmálefni, framkvæmir fundarályktanir og annast störf milli funda, leggur fram fjárhagsáætlun næsta árs, innheimtir gjöld LF og sér um greiðslur á útgjöldum þess. Stjórn LF gætir í öllu hagsmuna félagsins og getur leitað réttar í málefnum þess ef þörf krefur. Stjórn LF er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og annað starfslið til þess að annast daglegan rekstur LF. Framkvæmdastjóri stýrir starfsemi LF í samráði við stjórnina. Hann ræður starfsfólk og hefur á hendi daglegan rekstur og eftirlit. Einnig gerir hann tillögur til stjórnar um rekstur LF og áherslur í starfsemi félagsins. Framkvæmdastjóri hefur rétt til setu á fundum félagsins með málfrelsi og tillögurétt.

Á stjórnarfundi skal einnig boða varamenn. Þeir skulu hafa málfrelsi og tillögurétt.

8. ENDURSKOÐUN REIKNINGA

13. grein.

Kjörinn skoðunarmaður endurskoðar reikninga LF og annar er kjörinn til vara. Aðalfundur kýs skoðunarmenn reikninga til eins árs í senn. Þeir mega hvorki vera í stjórn né varastjórn félagsins. Kjörinn skoðunarmaður skal sannprófa að reikningum LF beri saman við bækur þess, enda á hann hvenær sem er aðgang að öllum bókum þess og skjölum, og er stjórninni skylt að veita honum þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar við framkvæmd starfsins. Ef hann verður var við misfellur, er hann álítur að félaginu geti stafað hætta af, skal hann hlutast til um að bót verði ráðin á svo fljótt sem þörf krefur. Takist það ekki skal hann kveða til félagsfundar og bera málið þar til úrlausnar. Reikningsár LF eru almanaksárið.

9. ÖNNUR ÁKVÆÐI

14. grein.

Þyki rétt og nauðsynlegt að leggja félagið niður, fer um tillögu þá sem um breytingar á lögum LF, sbr. 9. grein. Fundur sá sem samþykkir slitin ákveður hvernig ráðstafa skuli eignum félagsins og greiðslu skulda.

15. grein.

Samþykkt á aðalfundi LF í Hannesarholti, Grundarstíg 10 í Reykjavík, 23. maí 2017.

Landssamband fiskeldisstöðva / Grandagarði 16 / 101 Reykjavík / Sími 618 8272