Nokkrar staðreyndir um fiskeldi á Íslandi

Landssamband fiskeldisstöðva

Landssamband fiskeldisstöðva (LF) eru hagsmunasamtök framleiðenda á eldisfiski hér á landi. Aðild að LF eiga 23 eldisfyrirtæki auk 10 þjónustu- og stoðfyrirtækja atvinnugreinarinnar. Fyrirtækin framleiða seiði, lax, silung, bleikju, senegalflúru og hrogn. Megninmarkmið Landssambands fiskeldisstöðva er að gæta hagsmuna atvinnugreinarinnar og vera opinber málsvari hennar. Landssambandið gætir hagsmuna aðildarfélaganna m.a. með mörkun sameiginlegrar framtíðarstefnu, öflun og greiningu á gögnum sem varða greinina og með fræðslu um fiskeldi og mikilvægi þess fyrir þjóðarbúið.

 

Framleiðslan 2016

Á árinu 2016 verður alls slátrað um 15.000 tonnum af eldisfiski sem er aukning um 80% frá fyrra ári. Þetta er mesta magn frá upphafi fiskeldis hér á landi. Fyrra met er frá árinu 2006 þegar slátrað var um tíu þúsund tonnum. Mest er framleitt af laxi, alls um 8.000 tonn en bleikjan kemur þar á eftir með 4.000 tonn. Öll framleiðsla fiskeldisins fer fram á landsbyggðinni. Framundan er mikill vöxtur í atvinnugreinni og ljóst að framleitt magn á Íslandi verður um 40 þúsund tonn á ári árið 2020. Samkvæmt því verður fiskeldið umfangsmeiri atvinnugrein en landbúnaður innan tveggja til þriggja ára.

 

Fimmtíu milljónir máltíða

Framleiðsla fiskeldisfyrirtækjanna á þessu ári samsvarar um 50 milljónum máltíða. Með áframhaldandi vexti og miðað við það seiðamagn sem nú er alið mun framleiðslan fara fram úr innlendri kjötframleiðslu þegar á árinu 2017. Samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu Þjóðanna (FAO) mun heimsbyggðin þurfa að tvöfalda matvælaframleiðslu sína fyrir árið 2050 til að mæta mannfjöldaaukningu jarðarinnar en nú þegar koma meira en 50% af framleiddum fiskafurðum í heiminum frá fiskeldi.

 

Alþjóðlegar gæðavottanir

Íslensku fiskeldisfyrirtækin framleiða eftirsóttar afurðir samkvæmt ströngustu umhverfiskröfum fyrir erlenda markaði sem greiða hátt verð fyrir gæðaafurðir. Sá árangur sem náðst hefur í þessum efnum hefur skilað flestum eldisfyrirtækjum eftirsóttum vottunum, þar á meðal IMO frá Whole Foods, Aquagap, Global Gap, BAP (Best Aquaculture Practice), og  ASC (Aquaculture Stewardship Council) .

 

Helstu markaðir

Markaðir eldisfyrirtækjanna eru fjölbreyttir í takt við tegund framleiðslunnar. Þannig fer meginhluti laxaafurðanna á markaði Bandaríkjanna og Evrópu þar sem þær eru seldar í dýrum matvælaverslunum og á veitingastöðum. Hluti framleiðslunnar er seldur á innlendum markaði, til fiskbúða og veitingastaða og má geta þess að allur lax sem notaður er í sushi hér á landi kemur frá innlendum eldisfyrirtækjum. Stór hluti siliungs- og bleikjuafurða er seldur til Evrópulanda.   Að lokum má geta senegalflúrunnar en öll framleiðsla hennar er seld á mörkuðum í Bandaríkjunum og Evrópu og þá einkum Benelúxlöndunum.

 

Ársverk í fiskeldi

Ársverk í fiskeldi hér á landi eru nú um 560, sem skiptast í 360 bein störf í land- og sjókvíaeldi og 200 við afleidd þjónustustörf, svo sem við afurða- og fóðurflutninga, eftirlit og margt fleira. Beinum störfum við greinina hefur fjölgað um nær 20% frá árinu 2014. Þeim mun fjölga enn frekar á næstu árum í takt við aukna framleiðslu, einkum í sjókvíaeldi. Gert er ráð fyrir að í árslok verði bein störf í greininni í heild orðin um 400. Til samanburðar má geta þess að árið 2009 störfuðu um 40 manns við sjókvíaeldi.

 

Atvinnuuppbygging í brothættum byggðum

Fiskeldisfyrirtækin eiga stærstan þátt í fjölgun atvinnutækifæra á þéttbýlisstöðum sem staðið hafa höllum fæti vegna stöðugrar fólksfækkunar. Á  þeim stöðum þar sem fiskeldisfyrirtækin starfa hefur tekist að snúa þróuninni við. Nægir þar að nefna sunnanverða Vestfirði og Djúpavog.

 

Framlag til þjóðarbúsins

Fiskeldisfyrirtækin afla þjóðarbúinu umtalsverðs gjaldeyris þar sem allt að 90% afurðanna eru seld á erlendum mörkuðum. Árið 2015 skilaði sala afurða þjóðarbúinu um 8 milljörðum króna í gjaldeyri. Fyrir árslok 2016 má gera ráð fyrir að þessi tala verði á bilinu 13 til 15 milljarðar króna.

 

Fjölbreytt störf

Störf við fiskeldi krefjast fjölbreytts bakgrunns og reynslu. Fjölbreytnin hefur þann kost m.a. að greinin getur fullnægt þörfum bæði þeirra sem ekki hafa gengið langskólaveginn og þeirra sem það hafa gert. Þannig veitir fiskeldið t.d. þeim atvinnu sem starfa við slátrun og pökkun þar sem fiskvinnslumenntaðir starfsmenn fyrirtækjanna þjálfa óvana til þeirra vandasömu verka. Þá starfa einnig hjá fyrirtækjunum fiskeldisfræðingar, sjávarútvegsfræðingar, líffræðingar, skipstjórar, vélstjórar, sölu- og markaðsfræðingar auk iðnaðarmanna og viðskiptamenntaðra starfsmanna.

 

Afleidd þjónustustörf

Meðal fyrirtækja og stofnana sem þjóna fiskeldisfyrirtækjunum eru fóðurfyrirtæki, flutningafyrirtæki í lofti, láði og legi, netagerðir, verkfræðistofur, tæknifyrirtæki, vél- og blikksmiðjur, ráðgjafafyrirtæki af ýmsu tagi, sölu- og markaðsfyrirtæki, eftirlitsstofnanir, dýralæknar auk sérfræðinga í háskólasamfélaginu.

 

Í sátt við umhverfið

Íslensk stjórnvöld hafa skilgreint sjókvíaeldissvæði við Ísland með tilliti til hagsmuna villtra laxfiskastofna. Er þar um að ræða ábyrga afstöðu sem gerir fiskeldinu kleift að starfa í sátt við umhverfi sitt. Þá hafa verið innleiddir afar strangir búnaðarstaðlar á Íslandi til að undirstrika hversu alvarlega stjórnvöld taka umhverfismál í fiskeldi. Þær ströngu kröfur voru innleiddar í mikilli sátt við fiskeldisfyrirtækin enda eiga þau allt sitt undir því að svæðin þar sem eldið fer fram verði ekki fyrir óæskilegum áhrifum frá starfseminni heldur tryggi að þau haldist hrein og nýtanleg til framtíðar. Þess má geta að lokum að sjókvíaeldisfyrirtækin fylgja s.k. kynslóðaskiptu eldi sem felur í sér að kvíasvæðin eru hvíld í 5-6 mánuði eftir hverja slátrun. Á þeim tíma hreinsa hafstraumar svæðin af áhrifum eldisins.

Gefið út í september 2016.