Að borða fisk, kjöt, egg, baunir, hnetur og fræ

Fiskur, kjöt, egg, baunir, hnetur og fræ veita ýmis næringarefni, s.s. prótein, vítamín og steinefni. Fiskur, kjöt og egg eru t.d. góðir B-vítamíngjafar (B1-vítamín, B2-vítamín, níasín, B6-vítamín, B12-vítamín). Feitur fiskur er auðugur af D-vítamíni og E-vítamín er að finna í fræjum, möndlum og hnetum. Kjöt er góður járn-, sink- og selengjafi og fiskur inniheldur selen auk joðs. Í fiski, sérstaklega feitum fiski, og mörgum tegundum af hnetum og fræjum eru einnig heilsusamlegar olíur á borð við ómega-3 fitusýrur.

faeduhringurmynd.eps

Í feitu kjöti, t.d. lamba-, nauta- og svínakjöti, er hlutfallslega mikið af mettaðri fitu. Mataræði sem er ríkt af mettaðri fitu getur hækkað LDL-kólesteról í blóði (vonda kólesterólið) en það eykur hættu á kransæðasjúkdómum. Bjúgu, beikon og ýmsar pylsur eru bæði feitar og saltar en mikil saltneysla getur hækkað blóðþrýsting. Til að halda blóðfitu og blóðþrýstingi innan heilsusamlegra marka ætti fólk að neyta feitra og saltaðra kjötvara í miklu hófi. Mikil neysla á rauðu og unnu kjöti er talin ýta undir krabbamein í ristli. Ef fólk borðar oft feitan mat er erfitt að koma í veg fyrir að orkan, sem það innbyrðir yfir daginn, verði meiri en sem nemur orkuþörf og þá aukast líkurnar á ofþyngd og offitu.

Landlæknir.is