Þarf nokkuð atvinnusköpun í litlu atvinnuleysi?

Þarf nokkuð atvinnusköpun í litlu atvinnuleysi?

Meðfylgjandi grein var send Fréttablaðinu til birtingar, 2. mars, sl, eða fyrir rúmum þremur vikum. Greinin hefur enn ekki verið birt, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Hún er nú birt hér á heimasíðu LF

Jón Kaldal, talsmaður „Icelandic Wildlife Fund“, sem er sjálfseignarstofnun í 101, hvar Jón einnig býr, skrifar kostulega gegn atvinnusköpun á landsbyggðinni í Fréttablaðinu 1. mars. Það þarf ekki atvinnusköpun því atvinnuleysi er þar lítið! Jón er sem betur fer ekki ráðherra atvinnumála eða nýsköpunar. Mannfjöldaþróun á landsbyggðinni hefur lítt spurst í „Icelandic Wildlife Fund“, sem virðist sinna mest baráttu gegn sköpun nýrrar stoðar í atvinnulífi landsbyggðarinnar, fiskeldinu.

Jón óttast að fiskeldið skapi störf í útlöndum og er honum nokkur vorkunn með það, alkunna er að íslenskur fiskur skapar þegar þúsundir starfa utan landhelgi. Hann sér fyrir sér útlend verksmiðjuskip, með útlenskar áhafnir, sjúga fiskinn upp og sigla til vinnslu í útlöndum. Hann hefur frétt af norsku fiskvinnslufyrirtæki, sem vegna tolla, kostnaðar og markaðsaðstæðna hefur byggt upp vinnslufyrirtæki í Hirtshals og áformar að bjóða viðskiptavinum upp á blóðgun og slægingu á eldisfiski um borð í flutningaskipi á leiðinni þangað, en siglingin tekur einhverja klukkutíma. Þúsundir tonna norsks fiskjar eru unnin í Danmörku, enda aðstæður óhagstæðari í Noregi til vinnslu fyrir markaði EB. Á Íslandi er reyndar verið að flytja fiskvinnslu í land af verksmiðjuskipum, en það fréttist lítt í „Wildlife Fund“. Duglegir íslenskir útgerðarmenn, jafnvel í hópi veiðiréttarhafa laxveiðiáa, nýta sér kvóta erlendra ríkja, útlent vinnuafl og skip, jafnvel útlendar útgerðir í atvinnurekstri, en ólíklegt er að þeir séu jafn bjartsýnir á svona útgerð á Íslandi og Jón.

Kristján Þ. Davíðsson við veiðar í Norðurá

Það var reyndar áður talin fásinna að bílstjórar myndu leysa hestakúska af hólmi, en hver veit hvað verður í framtíðinni? Fáir hafa þó verið jafn frumlegir í hugsun og Jón að reyna að nota hugsanlega tækniþróun framtíðar gegn uppbygginu nýrra atvinnugreina, hvað þá í nafni villidýraverndar.

Frumleg er hugsunin um að byggja landeldistöðvar á Íslandi ekki heldur, það er þegar gert, þó að litlu leyti sé. Staðreynd er að kostnaðar vegna er óraunhæft að byggja atvinnugreinina alfarið á því. Fæst fyrirtæki eru tilbúin að veðja á þetta, en virðingarvert er að sums staðar eru gerðar tilraunir með landeldi o.fl. Yfirleitt er það þó í nálægð við markaði og á móti kostnaðarauka í fjárfestingu og flutningi vegur lægri flutningskostnaður. Hvergi byggir þó fiskeldisiðnaður alfarið á því, hvað sem verða kann í framtíðinni.

Fyrirsögn Jóns toppar skrif hans: „Starfasköpun og hagnaður utan landhelgi“ er honum þyrnir í augum, eins og raunar erlend fjárfesting í íslenskum atvinnurekstri og uppbygging vistvænnar atvinnu á landsbyggð með lítið atvinnuleysi, sem þó er vegna brottflutnings fólks sem ekki fékk vinnu í heimabyggð. Svona þröng rörsýn líkist mest ónefndum útlendum manni sem toppar fréttamiðla daglega með sérkennilegu tísti sínu.

Ég skora á Jón að lesa í skýrslu Byggðastofnunar um aukningu atvinnutekna á Vestfjörðum í kjölfar eflingar fiskeldis, jafnvel kíkja út á landi og heyra í heimamönnum hljóðið gagnvart atvinnusköpun þeirri sem sjávarútvegsráðherra styður með ráðum og dáð og umhverfisráðherra segir komna til að vera. Jón getur jafnvel kynnt sér íslenskt villidýralíf í leiðinni.

Kristján Þ. Davíðsson
Framkvæmdastjóri Landssambands Fiskeldisstöðva og félagi í Dýrfirðingafélaginu.

Sjókvíaeldi á laxi er mikilvæg matvælaframleiðsla

Sjókvíaeldi á laxi er mikilvæg matvælaframleiðsla

Orkukostnaður við landeldi er meiri en í sjókvíaeldi. Úrgangur frá sjókvíaeldi fellur til botns og leysist allur upp að lokum.. Strok verður æ minna með árunum og búnaðurinn betri og betri með hverju ári sem líður.Afskriftartími sjókvía er 10 til 15 ár. Net, kaðlar og kvíar eru að fullu endurnýttar.

Þetta kemur fram í grein eftir Jónatan Þórðarson fiskeldisfræðing í Fréttablaðinu í dag, 22. mars. Hér á eftir fer greinin í heild sinni,

Freyr Frostason arkitekt, formað¬ ur Icelandic Wildlife Fund skrifar um sjókvíaeldi í Fréttablaðið 14. mars sl. og finnur því flest til foráttu. Sjókvíaeldi á laxi er mikilvæg matvælaframleiðsla, og telur um 2,2 miljónir tonna á ári á heimsvísu, en þyrnir í augum þeirra sem telja hættu á að kynbættur stórlax úr eldi geti spillt íslenskum laxastofnum og mengað firði. Þessi umræða er oft og tíðum öfgakennd og lituð rangfærslum.
Kynbættur lax, ekki erfðabreyttur
Það skal fyrst áréttað að hinn norskættaði eldislax okkar er kynbættur en ekki erfðabreyttur, eins og Freyr heldur fram. Á þessu er reginmunur, sem öllum ætti að vera ljós, sem vilja vita.
Svo virðist sem þeir sem andmæla sjókvíaeldi séu almennt fylgjandi eldi á landi. Því er ekki úr vegi að bera saman þessa tvo valkosti, en undirritaður rak stærstu landeldisstöð heims í 16 ár og er því afar vel kunnugur málavöxtum, en hefur varið undanförnum átta árum í að endurreisa sjókvíaeldi við strendur Íslands.

 

Jónatan Þórðarson hjá Fiskeldi Austfjarða, fjallar í þessari grein um fiskeldismál og ræðir um ýmsar þær bábiljur sem oft er haldið fram í umræðu um eldið.

Horft til fjögurra þátta
Þegar horft er til vistspors laxaframleiðslu eða próteinframleiðslu almennt er gjarnan litið til fjögurra þátta.
1. Hve mikillar orku krefst framleiðslan?
2. Hvað verður um úrgang sem fellur til?
3. Hver eru áhrif hugsanlegrar genablöndunar vegna stroks kynbætts eldisfisks?
4. Hvað kostar fjárfestingin við framleiðslu á hvert kíló í vistspori og hve mikið er hægt að endurvinna af búnaðinum?
Fyrirliggjandi staðreyndir eru eftirfarandi:
Kostnaður við orkunotkun
1. Það kostar 7 kílóvattstundir af raforku að framleiða 1 kg af laxi í landeldi, þ.e.a.s. færa laxinum súrefni og fjarlægja úrgangsefni. Í sjókvíaeldi kostar þetta enga orku. Ísland á hreina orku, sem hægt er að nota til þessarar framleiðslu, en hún er takmörkuð auðlind og ekki mikið rafmagn til í kerfinu fyrir stórskala framleiðslu. Frekari virkjanaframkvæmdir eru umdeildar.

Úrgangur frá sjókvíaeldi leysist upp.

2. Úrgangsefni, sem verða til við framleiðsluna í landeldi er hægt að fanga að miklu leyti og nýta sem áburð, en eigi að síður endar seyran inni í stóra nitur- og fosfathringnum á endanum. Úrgangur frá sjókvíaeldi fellur að einhverju leyti til botns en leysist allur upp að lokum og endar með sama hætti inni í stóra nitur- og fosfathringnum. Þannig er þessi þáttur með tilliti til vistspors afar umdeilanlegur.

Strokið minnkar, búnaður batnar.

3. Strok verður æ minna með árunum og búnaðurinn betri og betri með hverju ári sem líður, með sama hætti og öll önnur tæki þróast með tímanum. Enginn framleiðandi vill að lax sleppi þannig að hvatinn er augljós. Klárlega má fullyrða að strok er minna úr strandstöðvum ef vandað er til verks. Um neikvæð eða jákvæð áhrif genablöndunar er erfitt að fullyrða og líffræðingar eru afar ósammála um þennan þátt umræðunnar. Það vegur hins vegar þungt að benda á rauntölur um afkomu norska laxastofnsins, sem afleiðu af auknu eldi. Hér er um sögulegar rauntölur að ræða en ekki framreiknaðar tölur byggðar á veikum faglegum grunni og lélegum rannsóknum. Þar er ekki hægt að merkja að aukið eldi hafi neikvæð áhrif á afkomu laxastofnsins í Noregi þar sem villilaxastofninn þar hefur vaxið hin síðari 15 ár og laxeldi á sama tíma vaxið tífalt.

Net, kaðlar og kvíar eru að fullu endurnýttar
4. Erfitt er að fullyrða að allar byggingar sem byggðar eru í landeldi séu endurnýjanlegar. Afskriftartími sjókvía er 10 til 15 ár. Net, kaðlar og kvíar eru að fullu endurnýttar. Hér hefur sjókvíaeldi klárlega vinninginn.

Jónatan Þórðarson, fiskeldisfræðingur.

Fisk­eldi getur skapað Íslendingum tugi milljarða

Fisk­eldi getur skapað Íslendingum tugi milljarða

Fiskeldi mun innan nokkurra ára geta skapað Íslendingum að minnsta kosti sextíu milljarða króna í útflutningstekjur, að mati Wenche Svoren, framkvæmdastjóra fiskeldisdeildar hjá NOREDEA banka. Fiskeldisfyrirtæki þurfi hins vegar að stíga varlega til jarðar og fylgja því regluverki sem stjórnvöld setji svo þau geti haldið áfram að vaxa og dafna. Þetta kemur fram í frettabladid.is í dag. https://www.frettabladid.is/frettir/fiskeldi-geti-skapa-islendingum-milljara

Hér fer á eftir fréttin í heild sinni:

Fiskeldi mun innan nokkurra ára geta skapað Íslendingum að minnsta kosti sextíu milljarða króna í útflutningstekjur, að mati Wenche Svoren, framkvæmdastjóra fiskeldisdeildar hjá NOREDEA banka. Fiskeldisfyrirtæki þurfi hins vegar að stíga varlega til jarðar og fylgja því regluverki sem stjórnvöld setji svo þau geti haldið áfram að vaxa og dafna.

Þetta kom fram í máli Svoren á aðalfundi Landssambands fiskeldisstöðva sem fram fór á Grand hóteli í gær, þar sem hún talaði meðal annars um þau tækifæri sem fram undan séu í íslensku fiskeldi. Bankinn sem um ræðir er stærsta fjármálafyrirtæki á Norðurlöndunum og einn stærsti banki í Evrópu með 200 ára sögu.

Wenche Svoren með Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og Einari K. Guðfinnssyni formanni LF: Svoren segir: „Með nýrri tækni þá held ég að skapist ný tækifæri til að vaxa og við getum tekið næsta skref. Fyrirtækin eru nú þegar að nota margar aðferðir til að berjast við laxalúsina og virðast hafa stjórn á því, en það kostar mikið að standa í þeirri baráttu.“

„Fyrirtækin þurfa að hafa stjórn á hverjum þætti“

„Fyrirtækin þurfa að hafa stjórn á hverjum þætti, fara varlega og nota réttu verkfærin til þess. Það þarf einnig að huga vel að umhverfisþættinum hvað varðar þennan iðnað og huga að náttúrunni. Í kjölfarið held ég að það séu mörg tækifæri í greininni í framhaldinu.“ segir Svoren í samtali við Fréttablaðið.

Að hennar sögn er hugsanlegt að fiskeldi muni færast meira og meira upp á land í framtíðinni, með aukinni tækni og tækifærum.

„Það mun taka einhvern tíma, en við munum sjá það í meira mæli í framtíðinni að fiskeldisstarfsemi færist upp á land en það mun alltaf vera eitthvað líka í fjörðum og í sjó.“ segir Svoren.

Enn möguleikar á frekari stækkunum fiskeldisfyrirtækja í Noregi

Hún bætir við að enn sé möguleiki á að fiskeldi haldi áfram að stækka í Noregi.

„Ég held að það sé möguleiki fyrir iðnaðinn að vaxa enn frekar. Auðvitað þurfum við ,eins og áður sagði, að hafa stjórn á umhverfisþáttum eins og til dæmis laxalúsinni. En með nýrri tækni þá held ég að skapist ný tækifæri og við getum tekið næsta skref. Fyrirtækin eru nú þegar að nota margar aðferðir til að berjast við laxalúsina og virðast hafa stjórn á því, en það kostar mikið að standa í þeirri baráttu,“ segir Svoren.

„Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs“

„Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs“

„Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs sem felur í sér aukin tækifæri til verðmætasköpunar.“

Þannig er komist að orði í ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var nú um helgina. Ályktunin var samykkt samhljóða.

Hér á eftir fer sá kafli ályktunarinnar, sem fjallaði um fiskeldi, í heild sinni:

Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs sem felur í sér aukin tækifæri til verðmætasköpunar. Við frekari uppbyggingu ber að leggja áherslu á góða umgengni ásamt mótvægisaðgerðum, í samræmi við vistkerfisnálgun, svo að álag á vistkerfi sé lágmarkað og réttur komandi kynslóða tryggður. Jafnframt er mikilvægt að við uppbyggingu greinarinnar verði sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi þar sem tillit er tekið til umhverfis-, rekstrar- og samfélagslegra þátta. Byggt skal á ráðgjöf færustu vísindamanna og alþjóðlega viðurkenndum aðferðum við uppbyggingu fiskeldis og verndun umhverfisins. Tryggja þarf að fiskeldi ógni ekki villtum íslenskum laxa- og silungastofnum. Þannig er mögulegt að ná sem víðtækastri sátt um frekari uppbyggingu fiskeldis til framtíðar á Íslandi.

„Fiskeldi verði sterk og öflug atvinnugrein“

„Fiskeldi verði sterk og öflug atvinnugrein“

Jón Þór Ólason, formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur og lögmaður skrifar grein í Fréttablaðið 6. mars og svarar grein sem ég hafði ritað í sama blað. Greinarhöfundur hafnar því að unnt sé að stunda laxeldi í sjó í sátt við náttúruna. Þetta er skýr og afdráttarlaus skoðun og virðist fela í sér bann við atvinnurekstri sem þegar er hafinn, þar sem fjárfest hefur verið fyrir tugi milljarða, hundruðir starfa orðið til og er orðinn burðarás í atvinnulífi byggðalaga á landsbyggðinni, svo fátt eitt sé nefnt.
Meginforsenda greinarhöfundar er röng og því fellur málflutningur hans um sjálft sig.

Einar K. Guðfinnsson: Það er ljóst að fiskeldi hér á landi er komið til að vera. Um fjögur þúsund íbúar munu hafa afkomu af fiskeldi og afleiddum störfum þegar það verður komið upp í þau 71 þúsund tonn sem áhættumat Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir

Fiskeldi umfangsmeira en veiðar á villtum fiski
Hér á landi starfar fiskeldi samkvæmt mjög ströngum reglum sem byggjast á lagafyrirmælum og reglugerðum sem ætlað er að tryggja að hér megi byggja upp fiskeldi í góðri sátt við náttúruna. Fiskeldi er stundað um allan heim og er snar þáttur í fæðuframboði sem fer vaxandi með ári hverju. Þannig stefna stjórnvöld hvarvetna að því að auka fiskeldi sitt, jafnframt því að setja strangar reglur um starfsemina. Nú er svo komið að í gegn um fiskeldi í heiminum verður til meiri fiskframleiðsla en sem nemur veiðum og vinnslu á villtum fiski. Á síðasta ári nam laxeldi eitt og sér um 2,5 milljónum tonna í heiminum.
Fiskeldi á grundvelli varúðarsjónarmiða
Hér á landi höfum við byggt upp fiskeldi á grunni mikilla varúðarsjónarmiða. Árið 2004 var sett reglugerð sem bannaði í raun sjókvíaeldi á laxi í nágrenni við helstu laxveiðiár okkar. Þetta fyrirkomulag hefur sannað gildi sitt.
Til viðbótar við þetta hafa verið innleiddar strangar kröfur um búnað, sem sannað hafa gildi sitt í Noregi, þar sem búnaðurinn hefur verið í notkun um árabil. Sést það meðal annars á því að slysasleppingar á laxi eru nú brotabrot af því sem áður var.
Hér á landi er gert burðarþolsmat á fjörðum og hafsvæðum, sem felur í sér „mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið“, eins og segir í lögum um fiskeldi.
Lítil áhrif á náttúrulega stofna
Í fyrrasumar gerði Hafrannsóknastofnun áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar á milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna. Megin niðurstaða þess mats var að „líkanið gerir almennt ráð fyrir litlum áhrifum á náttúrulega stofna fyrir utan nokkrar ár“. Og í skýrslu stofnunarinnar er einmitt vakin athygli á því að vegna þess að sjókvíaeldi getur eingöngu farið fram hér við land fjarri helstu laxveiðiám sé staðan að þessu leyti allt önnur en í ýmsum öðrum löndum þar sem eldissvæðin séu „oft í mikilli nálægð við helstu laxveiðiár“.
„Lítill hluti strokulaxa nær að synda upp í ár til að hrygna“
Í sömu skýrslu segir einnig: „Það verður þó að hafa í huga að aðeins lítill hluti strokulaxa nær að synda upp í ár til að hrygna. Langflestir strokulaxar eiga í erfiðleikum með að afla sér fæðu í villtri náttúru eða forðast afræningja. Afkomumöguleikar þeirra ráðast verulega af nálægð sleppistaðar við árósa og einnig af aldri við strok. Almennt má þó segja að langflestir strokulaxar hverfi í hafi og syndi aldrei upp í ár til að hrygna“.
Vöktun við veiðiár
Til viðbótar við þetta hafa laxeldisfyrirtækin lagt til, að fram fari vöktun við laxveiðiár svo að koma megi í veg fyrir að eldislax valdi tjóni. Slíkt fyrirkomulag er þekkt til að mynda í Noregi og hefur gefist vel. Fram kom í máli Kevin Glover prófessors við Björgvinjarháskóla í Noregi á fundi Erfðanefndar landbúnaðarins nýverið, að um þetta er gott samstarf á milli laxeldisfyrirtækjanna og laxveiðiaðilanna. Því verður ekki trúað að hið sama verði ekki uppi á teningnum hér, enda fara hagsmunirnir þarna augljóslega saman.
Fiskeldi er komið til að vera
Það er ljóst að fiskeldi hér á landi er komið til að vera. Um fjögur þúsund íbúar munu hafa afkomu af fiskeldi og afleiddum störfum þegar það verður komið upp í þau 71 þúsund tonn sem áhættumat Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir, eins og sést af skýrslu sem Byggðastofnun vann um byggðaleg áhrif fiskeldis og gefin var út 23. ágúst sl.
Í sátt við náttúruna
Sannarlega þarf að standa vel að verki og vinna í góðri sátt við náttúruna, þar með talið villta laxastofna. Til þess stendur vilji laxeldismanna sem sammæltust um það með veiðiréttáreigendum og fulltrúum sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis, að „framtíð fiskeldis skuli grundvallast á vísindlegum rannsóknum, eldistilraunum og vöktun í ám“. Og ennfremur: „mikilvægt sé að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og verði þannig sterk og öflug atvinnugrein“

Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva.

Vilja stórauka fiskeldi í ríkjum Evrópusambandsins

Vilja stórauka fiskeldi í ríkjum Evrópusambandsins

Fiskeldisframleiðsla í ríkum Evrópusambandsins gæti aukist um fjórðung, eða um 25 prósent,árið 2020, ef hrint væri í framkvæmd fyrirliggjandi tillögum sem miða að því að örva fiskeldi í löndum sambandsins. Þetta kemur fram í drögum að tillögu sem unnin hefur verið í sjávarútvegsnefnd þings Evrópusambandsins og var lögð fram til kynningar í meðlimaríkjunum nú í febrúar.

20% allrar fiskframleiðslu í Evrópu kemur frá fiskeldi

Í greinargerð tillögunnar kemur fram að frá fiskeldi komi sem svarar 20 prósentum allrar fiskframleiðslu í Evrópu og bein störf í fiskeldi séu 85 þúsund. Í greinargerðinni kemur fram að afurðir fiskeldisins séu af miklum gæðum, framleiðslan sé sjálfbær og mæti kröfum neytenda um örugga fæðuframleiðslu.

Í Skotlandi er mikið og vaxandi fiskeldi. ESB ríkin vilja nú auka framleiðsluna innan sambandsins og segja:“Fiskeldi hefur grundvallarþýðingu í samfélagi okkar“,

Enginn vöxtur hefur verið í fiskeldi í ESB
Fram kemur enn fremur að enginn vöxtur hafi orðið í fiskeldinu í ríkjum ESB frá aldamótum, en á sama tíma hafi heimsframleiðslan aukist um sjö prósent á ári. Vegna efnahagssamdráttarins í kjölfar bankakreppunnar hafi orðið samdráttur í fiskeldi innan ESB frá árinu 2009 til 2013.

„Fiskeldi hefur grundvallarþýðingu í samfélagi okkar“
Vakin er athygli á því að fiskeldi sé á meðal þeirra atvinnugreina sem hafi mestu sjálfbæru vaxtarmöguleikana og þar séu tækifæri til atvinnusköpunar hvað mest sé litið á atvinnulífið í heild sinni. „Fiskeldi hefur grundvallarþýðingu í samfélagi okkar“, segir þar einnig.

Fiskeldi gegnir lykilhlutverki þegar kemur að matvælaöryggi
Vísað er í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins þar sem segir að fiskeldi gegni lykilhlutverki þegar kemur að matvælaöryggi, þar með talið fæðuframboði, jafnframt því að stuðla að atvinnusköpun fyrir íbúa Evrópusambandsins og mæta vaxandi eftirspurn í heiminum eftir sjávarafurðum.

Flókið fyrirkomulag
Í tillögu fiskveiðinefndarinnar er vakin athygli á og gagnrýnt að leyfafyrirkomulagið fyrir fiskeldi innan ríkja ESB sé flókið og ógagnsætt af ýmsum ástæðum.

Fjárhagslegur stuðningur – efnahagslegir hvatar
Í tillögunni er að finna ýmsar leiðir til þess að greiða fyrir uppbyggingu fiskeldis innan ríkja ESB. Auk þess sem snýr að leyfum og fyrirkomulagi þeirra, eru einnig lagðar fram ýmsar tillögur til þess að auðvelda vöxt greinarinnar, svo sem með fjárhagslegum stuðningi og efnahagslegum hvötum til þess að greiða fyrir því að ná megi markmiði um aukið fiskeldi í aðildarríkjunum.

„Mjög spennandi verkefni á Kópaskeri“

„Mjög spennandi verkefni á Kópaskeri“

Uppbygging eldisstöðvar fyrir laxaseiði á Röndinni á Kópaskeri er háð því að Fiskeldi Austfjarða fái leyfi til framleiðsluaukningar í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Fiskeldinu gæti fylgt 10 til 15 störf, segir Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða, í samtali við Fréttablaðið.
„Þetta verkefni á Kópaskeri er mjög spennandi; mikil þekking á svæðinu og góðar aðstæður,“ segir Guðmundur.

Kópasker. Fiskeldinu gætu fylgt 10 til 15 störf

Uppbygging eldisstöðvar fyrir laxaseiði á Röndinni á Kópaskeri er háð því að Fiskeldi Austfjarða fái leyfi til framleiðsluaukningar í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Þetta segir Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða.
Stefnt að 21 þúsund tonna árlegri slátrun

Áætlun er um að árleg slátrun úr fiskeldi Fiskeldis Austfjarða verði 21 þúsund tonn. Í Berufirði er ætlað að ala 10 þúsund tonn, þar af 4 þúsund tonn af geldlaxi og í Fáskrúðsfirði er áætlað að ala 11 þúsund tonn af laxi, þar af 5 þúsund geldlax.
„Mjög spennandi verkefni“

Guðmundur segir að umhverfismat sé langt komið og hann á von á niðurstöðu á næstu mánuðum. Leyfi til aukinnar framleiðslu þurfa að liggja fyrir til að hægt sé að hefjast handa á Kópaskeri, en Rifós í Öxarfirði hefur séð fiskeldinu fyrir fiski, en afkastageta framleiðslunnar var tvöfölduð í fyrra. „Þetta verkefni á Kópaskeri er mjög spennandi; mikil þekking á svæðinu og góðar aðstæður,“ segir Guðmundur við Fréttablaðið.

10 til 15 ný störf á Kópaskeri
Áætlanir eru uppi um að framleiðslugeta fiskeldisins á Kópaskeri verði allt að tvö þúsund tonn af laxi á ári. Gert er ráð fyrir allt að 16 útikerjum auk tvö hundruð fermetra þjónustuhúss og borholum. Enginn fiskur verður alinn í sjó við Kópasker.

Fiskeldinu gæti fylgt 10 til 15 störf en atvinnutækfæri á Kópaskeri hafa verið af skornum skammti um árabil.

Fimbulfamb Fréttablaðsritstjórans

Fimbulfamb Fréttablaðsritstjórans

En kjarni málsins er þó sá að fiskeldi hér á landi er byggt á vísindalegum grundvelli. Um þetta sammæltust fulltrúar veiðiréttareigenda og fiskeldismanna, umhverfisráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis í stefnumótunarnefnd sem lauk störfum á síðasta hausti. Þar er meðal annars lagt til að fiskeldi á Íslandi verði byggt á áhættumati og atvinnugreinin geti þannig starfað í góðri sátt við íslenska náttúru, þar með talið villtu laxastofnana. Hafrannsóknastofnunin hefur sett fram áhættumat sem byggir á líkani og er markmðið, eins og segir í skýrslu stofnunarinnar, „að hámarka atvinnu og samfélagsleg áhrif laxeldis án neikvæðra áhrifa á lax – og silungsveiði í landinu“. Undir þetta taka fiskeldismenn. Stefna stjórnvalda er líka skýr um uppbyggingu fiskeldis sem vistvænnar atvinnugreinar á vísindalegum grundvelli. Varfærið burðarþolsmat og áhættumat sem Hafrannsóknarstofnun framkvæmir eru hornsteinar þeirrar stefnu.

Þannig kemst Einar K. Guðfinnsson formaður Landssambands fiskeldisstöðva að orði í grein sem hann ritaði í Fréttablaðið 28. febrúar og var svar við ritstjórnargrein blaðsins frá 22. febrúar. Greinin fer hér á eftir í heild sinni.

Fimbulfamb Fréttablaðsritstjórans

Fiskeldi á Íslandi er á grundvelli varúðarsjónarmiða. Allt frá árinu 2004 hefur stórum hluta strandlengjunnar verið lokað fyrir sjókvíaeldi á laxi, en á þeim svæðum eru helstu laxveiðiár landsins. Þetta er gagnstætt því sem gerist til að mynda í Noregi og Skotlandi,

Kristín Þorsteinsdóttir ritstjóri Fréttablaðsins skrifar ótrúlega yfirborðskenndan leiðara í makalausum sleggjudómastíl í blað sitt 22. febrúar og leggur með þeim hætti orð í belg um fiskeldi á Íslandi. Í skrifum hennar er persóna mín gerð að umtalsefni en nákvæmninni ekki fyrir að fara; ég er kallaður framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva þó hið rétta sé að ég er formaður stjórnar þeirra ágætu samtaka. Þetta er ekki aðalatriði í sjálfu sér, en er hins vegar lýsandi fyrir þá ónákvæmni sem einkennir téðan leiðara. Og þegar undirstaðan er byggð á sandi, eins og leiðari ritstjórans, þá hrynur röksemdafærslan. Það eru örlög skrifanna í Fréttablaðinu að þessu sinni.
Ályktanir dregnar af röngum forsendum
Ritstjórinn gerir að umtalsefni atvik þegar kví í Tálknafirði í eigu fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax skemmdist. Þrátt fyrir að fréttir hafi verið sagðar af þessu, megnar ritstjórinn ekki einu sinni að fara rétt með lýsingu á atburðinum. Innri flothringur kvíarinnar brotnaði, hún sökk ekki, eins og ritstjórinn heldur fram, staðið var að tilkynningu um atvikið skv. reglum og engin hætta var á að fiskur slyppi, en út af því er þó lagt í leiðaranum. Og þegar ályktanir eru dregnar af röngum forsendum – eins og ritstjórinn gerir ótæpilega – er ekki við góðu að búast.
Fráleit samlíking
Ritstjórinn reynir að búa til samlíkingu laxeldis við það ef fluttar yrðu til landsins norskar kindur !! – Þetta er auðvitað fráleit samlíking og getur varla hafa verið ætluð til annars, en að vera einhvers konar málfundaæfing. Hér er verið að bera saman ósamanburðarhæfa hluti, sem blasir við hverjum manni sem kynnir sér málin.
„Látum þá neita því“
Fullyrt er í leiðaranum að ég hafi engar áhyggjur af verndun laxastofnsins og íslenskri náttúru. Bull er þetta; innihaldslaus staðleysa, sem er ekki í nokkru einasta samhengi við sannleikann. Þetta er ómerkilegur málflutningur í anda alræmds bragðs; „látum þá neita því – let them deny it“. Dapurlegt er auðvitað að ritstjórinn skipi sér í þá sveit. Vildi hún ganga veg sannleikans, gæti hún auðveldlega séð að ég hef ætíð mælt fyrir varúðarsjónarmiðum og sagt að stærsta áskorunin í fiskeldi hér á landi sé einmitt sú að stunda þennan mikilvæga atvinnurekstur af fullri virðingu við náttúru landsins, þar með talið íslensku laxastofnana.
Fiskeldi á grundvelli varúðarsjónarmiða
Fiskeldi á Íslandi er á grundvelli varúðarsjónarmiða. Allt frá árinu 2004 hefur stórum hluta strandlengjunnar verið lokað fyrir sjókvíaeldi á laxi, en á þeim svæðum eru helstu laxveiðiár landsins. Þetta er gagnstætt því sem gerist til að mynda í Noregi og Skotlandi, þar sem eldið er mjög þétt og oft nálægt árósum, eins og fræðimenn við Hafrannsóknastofnun hafa bent á. Því eru aðstæður hér og í þessum tilgreindu löndum ekki samanburðarhæfar.
Á siðustu árum hefur orðið mikil þróun í öllum búnaði er lýtur að fiskeldi og hefur það valdið því að slysasleppingar á laxi, tam í Noregi, eru brot af því sem áður var, eins og opinber gögn sýna. Hér á landi er stuðst við besta fáanlega búnað, sem hefur reynst vel og skilað miklum árangri.
Fiskeldi byggt á vísindalegum grundvelli
En kjarni málsins er þó sá að fiskeldi hér á landi er byggt á vísindalegum grundvelli. Um þetta sammæltust fulltrúar veiðiréttareigenda og fiskeldismanna, umhverfisráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis í stefnumótunarnefnd sem lauk störfum á síðasta hausti. Þar er meðal annars lagt til að fiskeldi á Íslandi verði byggt á áhættumati og atvinnugreinin geti þannig starfað í góðri sátt við íslenska náttúru, þar með talið villtu laxastofnana. Hafrannsóknastofnunin hefur sett fram áhættumat sem byggir á líkani og er markmðið, eins og segir í skýrslu stofnunarinnar, „að hámarka atvinnu og samfélagsleg áhrif laxeldis án neikvæðra áhrifa á lax – og silungsveiði í landinu“. Undir þetta taka fiskeldismenn. Stefna stjórnvalda er líka skýr um uppbyggingu fiskeldis sem vistvænnar atvinnugreinar á vísindalegum grundvelli. Varfærið burðarþolsmat og áhættumat sem Hafrannsóknarstofnun framkvæmir eru hornsteinar þeirrar stefnu.
Staðbundin áhrif af erfðablöndun
Áhættumat Hafrannsóknastofnunarinnar leiðir í ljós að áhættan af erfðablöndun er staðbundin, vegna þess fyrirkomulags sem við höfum á fiskeldi hér við land og áður hefur verið lýst. Er þessi áhætta bundin við fjórar ár, á Vestfjörðum og Austfjörðum. Áhættumatið gengur út frá því að fiskeldi sé stundað þannig að það komi í veg fyrir áhættuna, þmt í þessum tilgreindu ám.
Fsikeldi er unnt að stunda í góðri sátt við náttúruna
Af þessu má ráða að vel er unnt að stunda fiskeldi í góðri sátt við náttúruna. Fiskeldismenn hafa hvatt til þess að eftirlit með fiskeldi verði gott og skilvirkt. Hefur þetta sjónarmið komið rækilega fram í málflutningi okkar. Ef ritstjóri Fréttablaðsins hefði ómakað sig til að kynna sér það og stautað sig í gegn um stefnumótunarskýrslu þá sem við stóðum ma að ásamt fulltrúum veiðiréttareigenda og ráðuneyta, eða lesið gögn Hafrannsóknastofnunar, hefði hún getað sparað sér fimbulfambið í leiðara sínum. En það er ekki of seint fyrir ritstjórann að bæta úr því. Betra er seint en aldrei.
Einar K. Guðfinnson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva.

„Laxeldi er komið til að vera“

„Laxeldi er komið til að vera“

„Laxeldi er komið til að vera og er mikilvægur atvinnuvegur fyrir Vest- og Austfirðinga“. Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra umhverfis og auðlindamála, í ítarlegu viðtali í Fréttablaðinu í dag.

Í viðtalinu segir ráðherrann ennfremur:

„Við þurfum hins vegar að passa mjög vel upp á villta laxastofna sem eru mjög mikilvægir líffræðilega og þróunarfræðilega séð og ólíkir norska eldislaxinum. Þetta er spurning um langtímaáhrif á erfðafræði íslenska laxins og við megum ekki gleyma að laxveiði er gríðarlega efnahagslega mikilvæg víða um land.

Þarna þurfum við að vera með kerfi sem tryggir til framtíðar að sem allra, allra minnst og helst engin erfðablöndun verði. Það er stóra málið í þessu. Það er spurning hvort það sé hægt og þá hvernig. Fiskeldi heyrir ekki undir mig, en mengunin af því gerir það“

Öll eggin – eða hvað?

Öll eggin – eða hvað?

Ánægjuleg er fréttin um mannfjöldaþróun á Vestfjörðum á bls. 6 í Fréttablaðinu þann 18. febrúar. Hundruð nýrra starfa, hundruð milljóna í auknar skatttekjur, ungt fólk flytur til baka í fjölbreytt störf, skólar og leikskólar fyllast af börnum og áfram mætti telja.

Sérkennilegt er að Magnús Guðmundsson, menningarritstjóri blaðsins, sér ástæðu til að vara við orsökinni undir fyrirsögninni „Öll eggin“, sem er raunar þvert á leiðarstef höfundar: „Þó svo að laxeldi hafi haft jákvæð áhrif á atvinnulíf og byggðir Vestfjarða“ er ekkert víst að „hið sama þurfi að henta öðrum svæðum,“ segir hann.

Ekki verður annað séð en að hann vilji halda óbreyttu ástandi, öll eggin í þá körfu sem þegar er til staðar, varar við fiskeldi sem nýjum atvinnuvegi og skiptir engu þótt það hafi þegar sannað sig annars staðar.

Kristján Þ. Davíðsson:: Hvernig á  að skýra það uppbygging vistvæns fiskeldis, sem er opinber stefna stjórnvalda að framkvæma í sátt við náttúruna, í samræmi við ströngustu kröfur og ráð vísindamanna, undir stöðugu eftirliti sérfræðinga skipulags-, matvæla- og umhverfisyfirvalda, gangi gegn fjölbreyttum atvinnuháttum og skynsamlegri nýtingu náttúrunnar?

Annar tónn
Í grein Gauta Jóhannessonar, sveitarstjóra Djúpavogshrepps, í Fréttablaðinu 15. ágúst sl. er annar tónn, enda höfundur nær vettvangi og fróðari um aðstæður fyrir austan. Hann telur áhrifin verða gríðarleg á mannlíf og atvinnuuppbyggingu í Fjarðabyggð og Djúpavogshreppi. Enda ungt fólk og vel menntað þegar farið að flytja heim á ný, rétt eins og fyrir vestan.

„Hófsemi og stöðugleiki“ eru heillavænlegri dreifbýlisbúum en þessi atvinnuuppbygging að mati leiðarahöfundar. Að fiskeldi bætist við sem ný stoð í atvinnulífi brothættra byggða er honum þyrnir í augum.

Hann lætur liggja á milli hluta að fiskeldi er þegar útilokað við meginhluta strandlengjunnar. Einnig það að áhættumat sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar sýnir að erfðablöndunarhætta eldis- og villtra laxa er sáralítil og staðbundin og langt innan marka í öllum ám við allt að 71.000 tonna árlegt eldi á Vestfjörðum og Austfjörðum. Og einnig það að varfærið burðarþolsmat sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar segir að þau fáu svæði þar sem laxeldi er leyft þoli a.m.k. 130.000 tonna árlegt eldi, án þess að náttúran láti á sjá.

Að útreikningar Byggðastofnunar sýni þúsundir starfa og milljarða tekjuaukningu einstaklinga og sveitarfélaga með uppbyggingu fiskeldis vegur heldur ekki þungt í huga leiðarahöfundar.

Að fiskeldiskvíar er ekki hægt að færa burt eins og kvóta telur heldur ekki mikið, þótt margir íbúar þorpa á landsbyggðinni kannist vel við það.

Andstæðinga eldis segir hann benda á að næga og fjölbreytta atvinnu sé að hafa á laxeldissvæðunum; sjómennska, fiskverkun og jafnvel hótel, hvað viljiði meira? Og ekki þarf að hafa áhyggjur af atvinnu fyrir brottflutta, eða hvað? Magnús kallar sjálfan sig og aðra andstæðinga laxeldisáforma náttúruunnendur en við hin, sem erum fylgjandi einni vistvænstu matvælaframleiðslu sem völ er á, leiðum huga hans að olíukóngum og banksterum. „Framfarir eru fallegt orð. En breytingar eru hvati þeirra og breytingar eiga sér óvini.“

Í alls óskyldum leiðara fyrir skömmu vitnar Magnús í þessi orð Roberts F. Kennedy.

Það skyldi þó aldrei vera skýringin á því að umfjöllunin er jafn sorglega einhæf og raun ber vitni. Eða hvernig á annars að skýra það að hann telji uppbyggingu vistvæns fiskeldis, sem er opinber stefna stjórnvalda að framkvæma í sátt við náttúruna, í samræmi við ströngustu kröfur og ráð vísindamanna, undir stöðugu eftirliti sérfræðinga skipulags-, matvæla- og umhverfisyfirvalda, ganga gegn fjölbreyttum atvinnuháttum og skynsamlegri nýtingu náttúrunnar?

Kristján Þ. Davíðsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva

Síða 7 af 25« Fyrsta...56789...20...Síðasta »