„Fiskeldið hefur haft mjög jákvæð á byggðarlögin“

„Fiskeldið hefur haft mjög jákvæð á byggðarlögin“

„Það hefur mikil uppbygging átt sér stað í fiskeldinu, einkum á svæðum þar sem tækifæri til annarrar atvinnuuppbyggingar eru af skornum skammti. Það hefur haft mjög jákvæð áhrif á byggðalögin, þar er nú kraftmikið atvinnulíf eins og á suðurfjörðum Vestfjarða og á sunnanverðum Austfjörðum þar sem mikil umskipti hafa orðið. Þessi vöxtur gerir svo að verkum að meira er um að vera hjá okkur.“ Þetta segir Gunnar Örn Kristjánsson, framkvæmdastjóri Fóðurverksmiðjunnar Laxár, sem staðsett er við Krossanes á Akureyri í viðtali við Bændablaðið, bbl.is

„Við framleiðum helmingi meira magn núna en við gerðum fyrir 10 árum og sjáum fram á að á næsta áratug munum við fullnýta alla okkar framleiðslugetu, fara upp í um 20 þúsund tonn á ári“

Úr 5 þúsund tonna framleiðslu í 20 þúsund tonn
Í viðtalinu í bbl.is kemur fram að fyrir um áratug var framleiðsla verksmiðjunnar helmingi minni nú en hin síðari ár. Undanfarin ár hefur verksmiðjan framleitt um 10 þúsund tonn af fiskafóðri, en áhersla er lögð á fóður fyrir bleikju, lax, Sole flatfisk og seiðaeldi sem alið er í landeldisstöðvum, auk þess sem í verksmiðjunni er framleitt fiskafóður fyrir regnbogasilung í sjóeldi. Öll framleiðslan fer á innanlandsmarkað og lögð er rík áhersla á gæði vörunnar. Gunnar segir að með vaxandi fiskeldi muni afkastageta versksmiðjunnar, sem er um 20 þúsund tonn, verða fullnýtt á næstu 5 til 10 árum.
Alls starfa 9 manns hjá Laxá og nam velta félagsins tæpum 2 milljörðum króna. Starfsemi er í gangi í verksmiðjunni í 12 tíma yfir veturinn en þegar framleiðslan er mest síðsumars og fram á haust er hún keyrð á tveimur 8 tíma vöktum á sólarhring. Síldarvinnslan í Neskaupstað á stærstan hluta í Laxá, eða 67%, Akureyrarbær 21% og Tækifæri og fleiri aðilar eiga 12%.

Sjáum hver þróunin í greininni verður
Þá segir í viðtali Bændablaðsins, bbl.is:
„Reksturinn hefur gengið vel undanfarin ár og helst þar í hendur við hraða uppbyggingu í fiskeldi hér á landi. Við framleiðum helmingi meira magn núna en við gerðum fyrir 10 árum og sjáum fram á að á næsta áratug munum við fullnýta alla okkar framleiðslugetu, fara upp í um 20 þúsund tonn á ári,“ segir Gunnar Örn. Verkmiðjan sé vissulega komin til ára sinna, en tæki og búnaður góð og standi fyrir sínu. Engin áform séu á þessu stigi um fjárfrekar framkvæmdir við að reisa nýja verksmiðju, staðan er sú að með núverandi tækjabúnaði verksmiðjunnar er einungis hægt að framleiða fiskeldisfóður fyrir landeldið, ekki hið fituríka fóður sem þarf fyrir laxeldi í sjókvíum. Til að framleiða fituríkt fóður fyrir laxeldi í sjó þyrfi að ráðast í 400 milljón króna fjárfestingu í verksmiðjunni. Gunnar segir að laus afkastageta hennar yrði lengi að greiða þá fjárfestingu niður.

„Við stöndum á hliðarlínunni ef svo má segja, ætlum að sjá hverju fram vindur, hver þróunin verður og að meiri stöðugleiki skapist í atvinnugreininni áður en við tökum ákvörðun um miklar fjárfestingar í nýrri verksmiðju,“ segir hann.

Aukin repjuræktun spennandi möguleiki

Öll framleiðsla Laxár fer á innanlandsmarkaði, í samkeppni við Fóðurblönduna sem framleiðir um 2 þúsund tonn og innflutt fiskafóður sem er um 18 þúsund tonn. „Hjá okkur er rík áhersla lögð á gæðin, við nýtum einungis gæðahráefni í okkar fóður sem eru náttúruleg og án erfðabreytinga. Yfir helmingur af hráefninu er innlent fiskimjöl og lýsi, en í okkar framleiðslu er mun hærra hlutfall af bæði fiskimjöli og lýsi en í innfluttu fóðri. Með því að nýta innlent hráefni er kolefnissporið einnig minna. Við sjáum mjög spennandi möguleika vera að skapast með aukinni repjuræktun hér á landi sem vel nýtist í fiskafóður á móti lýsi og að hluta á móti fiskimjöli, þannig að það er margt áhugavert að gerast í þessum geira atvinnulífsins,“ segir Gunnar Örn.

http://www.bbl.is/frettir/frettir/framleidslan-hefur-aukist-ur-fimm-thusund-tonnum-i-tiu/20327/

Aukin rekstrarhagkvæmni og umhverfisvænna eldi

Aukin rekstrarhagkvæmni og umhverfisvænna eldi

Við fóðrun fiska hjá Löxum fiskeldi ehf er notast við svokallaða „máltíðarfóðrun“ (måltidsforing) en hún er fólgin í því að fóðri er dælt markvisst í stuttum lotum inn í kví. Fylgst er með fóðruninni í neðansjávarmyndavélum og þegar fiskur er hættur að éta er hún stöðvuð.

Þetta kemur fram á fésbókarsíðu fyrirtækisins Laxar fiskeldi.
Laxar fiskeldi leggur mikla áherslu á umhverfisvænt fiskeldi. Notast er við nýjustu tækni, viðurkenndan búnað, hágæða hráefni og reglubundið eftirlit sem er um fram þær starfsleyfiskyldu kröfur sem gerðar eru. Fóður sem notað er í sjókvíaeldinu er sérstakt laxafóður frá viðurkenndum söluaðila. Á undanförnum áratugum hefur verið unnið öflugt þróunarstarf á sviði fóðurgerðar og fóðrunar.
Það er fullt og óskipt starf ákveðinna starfsmanna félagsins að fóðra og fylgjast með kvíum í eftirlitsmyndavélum. Í sérhverri kví er ein myndavél sem er hreyfanleg og fer staðsetning hennar eftir því hvar fiskurinn heldur sig á meðan verið er að fóðra.
Kostir þessarar fóðrunartækni eru ótvíræðir. Með henni er tryggt lágmarks fóðurtap sem leiðir til aukinnar rekstrarhagkvæmni en jafnframt því er slík stýring þáttur í umhverfisvænna eldi þar sem losun lífrænna efna er minni.

Svo má ker fylla að út af flói

Svo má ker fylla að út af flói

Það er til að æra óstöðugan að elta ólar við allar rangfærslur illra upplýstra veiðileyfasala og „meðreiðarsveina þeirra sem gaufa á hliðarlínunni“ í umræðunni um laxeldi. Sumt er þó svo arfavitlaust að það er ekki hægt að láta óátalið.

Kristján Þ. Davíðsson:: Um laxeldi hérlendis gilda ströngustu lög og reglugerðir og bæði fjárfestar og starfsmenn fyrirtækjanna, eftirlitsstofnana og löggjafans eru heiðarlegt fólk.

Eitt slíkt lak af lyklaborði tónlistarmannsins Pálma Gunnarssonar í Fréttablaðinu 19. þ.m. Hann er frábær tónlistarmaður og mikill náttúruunnandi, mörgum kunnur fyrir hvorutveggja.

Þekking hans á laxeldi er hins vegar ekki upp á marga fiska. Þótt næstum 100% alls laxeldis í heiminum sé í sjókvíum, sem reyndar er í stöðugri framþróun, eru til fjárfestar sem vilja spreyta sig á fiskeldi á landi, m.a. bæði hérlendis, í Noregi, Danmörku og Bandaríkjunum og er það vel. Þótt hingað til hafi gengið misjafnlega að fá það til að ganga upp fjárhagslega er óskandi að það gangi sem best. Hvergi er það enn „í stórum stíl“, né er slíkt fyrirsjáanlegt, eins og Pálmi heldur fram, væntanlega af vanþekkingu, því ekki er hann svo spilltur að skrökva?

Að laxeldi sé „hernaður gegn náttúru landsins“ og að Einar Kristinn Guðfinnsson og Kristinn H. Gunnarsson séu meðreiðarsveinar spilltra stjórnvalda og fjárfesta eru hins ekki bara vanþekking heldur líka svikabrigsl sem dæma sig sjálf og eru höfundi til vansa. Slík skrif eru álíka og að brigsla Pálma um að hann fái frí veiðileyfi fyrir skrif sín.

Um laxeldi hérlendis gildar ströngustu lög og reglugerðir og bæði fjárfestar og starfsmenn fyrirtækjanna, eftirlitsstofnana og löggjafans eru heiðarlegt fólk. Ávirðingum um annað er rétt að fylgi nafngreiningar, rökstuðningur og kærur til lögreglu um spillingu, sé viðkomandi manneskja til að standa fyrir máli sínu. Rökræður um fiskeldismál er greinin reiðubúin að taka en þessi grein á því miður ekkert skylt við þær. Svo flýgur hver sem hann er fiðraður.

Kristján Þ. Davíðsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldistöðva.

http://www.visir.is/g/2018180729172/svo-ma-ker-fylla-ad-ut-af-floi

Sjókvíaeldi og landeldi á laxi

Sjókvíaeldi og landeldi á laxi

Það eru ranghugmyndir ríkjandi hérlendis um erfðafræðilega hættu, sem að íslenzkum laxastofnum steðja af völdum takmarkaðs laxeldis í sjókvíum hér við land undir eftirliti íslenzkra stofnana. Það liggur við, að segja megi, að fullpúrítanskra sjónarmiða gæti varðandi sambýli hins norskættaða eldisstofns á Íslandi og villtu íslenzku stofnanna í íslenzkum laxveiðiám. Eldisstofninn er þó orðinn svo háður sínu kvíaumhverfi og fóðrun þar, að hann á mjög erfitt uppdráttar í náttúrulegu umhverfi, ef hann sleppur. Hann er í raun orðinn svo úrkynjaður, að útilokað er, að hann geti sett mark sitt á íslenzka stofna eða valdið tjóni á erfðamengi þeirra.
Sá norskættaði eldisstofn, sem hér er notazt við, er ekki erfðabreyttur, heldur þróaður í margar kynslóðir til skilvirks búskapar í sjókvíum. Almennt eru varúðarmörk erfðablöndunar sett við stöðugt 8 % hlutfall aðskotalax af villtum hrygningarlaxi í á, en á Íslandi eru þessi varúðarmörk þó sett við 4 %. Út frá sleppilíkum og fjölda villtra laxa í nærliggjandi ám er leyfilegt eldismagn á tilteknu svæði ákvarðað, að teknu tilliti til burðarþols viðkomandi fjarðar.

Bjarni Jónsson: Stjórnvöld verða að sníða greininni sanngjarnan stakk og leyfa henni að vaxa, eins og hún kýs, innan ramma núverandi svæðistakmarkana og „lifandi“ burðarþolsmats og áhættumats innan þessara leyfðu svæða

Ákvörðun Hafrannsóknastofnunar olli vonbrigðum
Sumir vísindamenn á þessu sviði halda því fram, að hætta verði fyrst á skaðlegum áhrifum erfðablöndunar við yfir 30 % eldislax af villtum laxi stöðugt í á í meira en áratug samfellt. Miðað við, hversu langt innan hættumarka íslenzka laxeldið verður alltaf, jafnvel þótt núverandi burðarþolsmörkum Hafrannsóknarstofnunar verði náð, þá stappar það nærri móðursýki, hvernig sumir gagnrýna og vara við eldi á þessum norskættaða stofni í sjókvíum við Ísland. Rekstrarleyfin þarf að ákvarða í ljósi áhættu, þ.e. líkindum og afleiðingum, og ávinnings. Nýleg ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar um frestun endurskoðunar á áhættumati fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi og óljós hugmynd um tilraunaeldi þar ollu vonbrigðum í þessu ljósi.

Áhættugreining á erfðablöndun verður gerð reglulega
Tæknilegar kröfur til fiskeldisins vaxa stöðugt og eftirlitið verður jafnframt strangara samkvæmt lögum í bígerð. Í umræðum á Alþingi 10. apríl 2018 um frumvarp sitt, sem þá var til umræðu, sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Það er alveg rétt, að hér er verið að gera grundvallar breytingu, ef svo mætti að orði komast, á starfsemi fiskeldisfyrirtækja og því, sem snýr að eldi í íslenzkum sjó.“
Með frumvarpi ráðherra eru meginbreytingarnar þær, að áhættugreining á erfðablöndun verður gerð reglulega og ráðlegt eldismagn endurskoðað í kjölfarið, eldissvæði verður skilgreint og því úthlutað samkvæmt hagstæðasta tilboði frá eldisfyrirtæki, auk þess sem gæðastjórnunarkerfi með innra eftirlitskerfi verður skylda í hverju starfræktu fiskeldisfyrirtæki á og við Ísland. Norski gæðastjórnunarstaðallinn NS 9415, sem er sá strangasti á sínu sviði í heiminum, verður hafður til viðmiðunar. Í húfi fyrir eldisfyrirtækin, ef þau standa sig ekki, er starfsleyfið. Þetta fyrirkomulag girðir fyrir fúsk og knýr eldisfyrirtækin til stöðugra umbóta.
Með frumvarpinu er Hafrannsóknarstofnun falið að áhættumeta starfsemina á hverju svæði með mest 3 ára millibili. Í júlí 2017 gaf Hafrannsóknarstofnun í fyrsta skipti út áhættumat vegna erfðablöndunar laxa. Þá réð stofnunin frá veitingu starfs- og rekstrarleyfa í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði vegna nálægðar við laxveiðiár. Í heildina taldi stofnunin þá óhætt að ala 50 kt/ár af frjóum laxi á Vestfjörðum og 21 kt/ár á Austfjörðum og til viðbótar alls 61 kt/ár af ófrjóum laxi, alls 132 kt/ár.

„Áfall fyrir byggðir landsins“
Í Morgunblaðinu 6. júlí 2018 var fjallað um nýtt áhættumat Hafrannsóknarstofnunar frá júlí 2018 undir fyrirsögn á bls. 2:
„Áfall fyrir byggðir landsins“:
„“Þetta kemur okkur auðvitað í opna skjöldu. Við höfum unnið í góðri trú með Hafrannsóknarstofnun í hér um bil eitt ár, þar sem settar voru fram hugmyndir, sem gætu leitt til aukinna framleiðsluheimilda“, segir Einar [K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva], en hann telur, að allar efnislegar forsendur hafi verið fyrir hendi til endurskoðunar.
„Þetta er mikið áfall fyrir atvinnugreinina og fyrirtækin, en ekki síður fyrir þær byggðir, sem höfðu bundið vonir við endurskoðun áhættumatsins vegna þess, að fiskeldismenn höfðu lagt til nýjar eldisaðferðir til að draga úr hættu á erfðablöndun“, segir hann.

„Hundalógikk“
Í tilkynningu á vef Hafrannsóknarstofnunar segir um ákvörðunina, að í lögum sé ekki heimild til að draga úr eldi, sem leyft hafi verið á grunni áhættumats, reynist leyfilegt eldi vera of mikið. Því sé ekki ráðlegt að breyta áhættumatinu.““
Þetta er hundalógikk hjá stofnuninni, og hún virðist hér komin út í orðhengilshátt gagnvart fiskeldisfyrirtækjunum. Rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á einum stað má einfaldlega aldrei fara yfir burðarþolið eða niðurstöðu áhættumats á tilteknu svæði, eftir því hvor talan er lægri. Hafi fiskeldisfyrirtækið þegar greitt fyrir starfs- og rekstrarleyfi samkvæmt fyrri úthlutun, fær það einfaldlega endurgreiddan mismuninn á grundvelli nýrra vísindalegra niðurstaðna, um leið og það dregur úr framleiðslu samkvæmt áhættumati. Það er einhvers konar skálkaskjól fyrir Hafrannsóknarstofnun að neita að hækka áhættumatið á grundvelli beztu þekkingar, af því að Alþingi hafi ekki beinlínis fyrirskipað, að fyrirtækin skuli jafnan breyta eldismagni í kjölfar nýrra niðurstaðna áhættumats.
Hér er Hafrannsóknarstofnun komin út fyrir vísindalegan ramma sinn. Stjórn stofnunarinnar ber að rýna þessa ákvörðun gaumgæfilega og óska eftir útgáfu nýs áhættumats í stað óljósra fyrirætlana stofnunarinnar um tilraunaeldi í Ísafjarðardjúpi. Hagur fólksins, sem býr í viðkomandi byggðum, skal njóta vafans, auk þess sem um þjóðhagslega mikilvægan vaxtarbrodd í atvinnulífinu er að ræða. Þetta á ekki sízt við, þar sem líkurnar eru 0 á óafturkræfum breytingum á einstæðu íslenzku lífríki (það eru engir sértækir íslenzkir laxastofnar í viðkomandi þremur ám í Ísafjarðardjúpi, þeir eru aðfluttir).

Spurt og svarað um landeldi
Jónatan Þórðarson, fiskeldisfræðingur, ritaði merka grein í Fréttablaðið 22. marz 2018, sem hann nefndi:
„Frey Frostasyni svarað vegna vistspors sjókvíaeldis“:
„Svo virðist sem þeir, sem andmæla sjókvíaeldi, séu almennt fylgjandi eldi á landi. Því er ekki úr vegi að bera saman þessa tvo valkosti, en undirritaður rak stærstu landeldisstöð heims í 16 ár og er því afar vel kunnugur málavöxtum, en hefur varið undanförnum 8 árum í að endurreisa sjókvíaeldi við strendur Íslands.
Þegar horft er til vistspors laxaframleiðslu eða próteinframleiðslu almennt, er gjarnan litið til 4 þátta:
1. Hve mikillar orku krefst framleiðslan ?
2. Hvað verður um úrgang, sem fellur til ?
3. Hver eru áhrif hugsanlegrar genablöndunar vegna stroks kynbætts eldisfisks ?
4. Hvað kostar fjárfestingin við framleiðslu á hvert kg í vistspori, og hve mikið er hægt að endurvinna af búnaðinum ?
Fyrirliggjandi staðreyndir eru eftirfarandi:

1. Það kostar 7 kWh af raforku að framleiða 1 kg af laxi í landeldi, þ.e.a.s. að færa laxinum súrefni og fjarlægja úrgangsefni. Í sjókvíaeldi kostar þetta enga orku. Ísland á hreina orku, sem hægt er að nota til þessarar framleiðslu, en hún er takmörkuð auðlind og ekki mikið rafmagn til í kerfinu fyrir stórskala framleiðslu. Frekari virkjanaframkvæmdir eru umdeildar. [Fyrir t.d. 50 kt/ár þyrfti 350 GWh/ár af raforku, sem er tæplega 2 % af núverandi raforkunotkun landsins. Raforkukostnaðurinn við landeldið er hár og nemur um 15 % af söluandvirði framleiðslunnar, sem dregur að sama skapi úr framlegð starfseminnar-innsk. BJo.]
2. Úrgangsefni, sem verða til við framleiðsluna í landeldi, er hægt að fanga að miklu leyti og nýta sem áburð, en eigi að síður endar seyran inni í stóra nítur- og fosfathringnum á endanum. Úrgangur frá sjókvíaeldi fellur að einhverju leyti til botns, en leysist allur upp að lokum og endar með sama hætti inni í stóra nítur- og fosfathringnum. Þannig er þessi þáttur m.t.t. vistspors afar umdeilanlegur [og sennilega sambærilegur að stærð-innsk. BJo].
3. Strok verður æ minna með árunum og búnaðurinn betri og betri með hverju ári, sem líður, með sama hætti og öll önnur tæki þróast með tímanum. Enginn framleiðandi vill, að lax sleppi, þannig að hvatinn er augljós. Klárlega má fullyrða, að strok er minna úr strandstöðvum, ef vandað er til verks. Um neikvæð eða jákvæð áhrif genablöndunar er erfitt að fullyrða, og líffræðingar eru afar ósammála um þennan þátt umræðunnar. Það vegur hins vegar þungt að benda á rauntölur um afkomu norska laxastofnsins sem afleiðu af auknu eldi. Hér er um sögulegar rauntölur að ræða, en ekki framreiknaðar tölur, byggðar á veikum faglegum grunni og lélegum rannsóknum. Þar er ekki hægt að merkja, að aukið eldi hafi neikvæð áhrif á afkomu laxastofnsins í Noregi, þar sem villilaxastofninn þar hefur vaxið hin síðari 15 ár og laxeldi á sama tíma vaxið tífalt. [Hræðslusögur hérlendis af slæmu ástandi villtu norsku laxastofnanna, sem gríðarlegu laxeldi meðfram strönd Noregs hefur verið kennt um, eru algerlega á skjön við þessar staðreyndir Jónatans Þórðarsonar. Stóryrtar og innihaldslausar fullyrðingar ásamt hrakspám um afleiðingar aukins sjókvíaeldis á laxi hérlendis styðjast ekki við annað en neikvæðar getgátur og þaðan af verra-innsk. BJo.]
4. Erfitt er að fullyrða, að allar byggingar, sem byggðar eru í landeldi, séu endurnýjanlegar. Afskriftartími sjókvía er 10-15 ár. Net, kaðlar og kvíar eru að fullu endurnýttar. Hér hefur sjókvíaeldi klárlega vinninginn.
Af þessu má ráða, að með nútímatækni við laxeldið sé sjókvíaeldi hreinlega vistvænna en landeldi. Kostnaður við sjókvíaeldi er mun lægri en við landeldi á hvert framleitt tonn. Landeldi laxins er þannig ekki samkeppnishæft við sjókvíaeldið. Það verður þó ljóslega valkostur í framtíðinni, t.d. þar sem jarðhita er að hafa, þegar þolmörkum í leyfðum eldisfjörðum verður náð.

Geldlax á rannsókna og tilraunastigi

Gelding eldislax er á rannsóknar- og tilraunastigi. Geltur lax hefur hingað til þrifizt illa og orðið mikil afföll við eldið. Óvíst er, hvernig markaðurinn tekur slíkri matvöru. Það er tómt mál að tala um slíkt sjókvíaeldi við Ísland í umtalsverðum mæli á næstu 5 árum.

Áberandi tortryggni gætir víða hérlendis í garð sjókvíaeldis á laxi, mest þó á meðal veiðiréttarhafa og laxveiðimanna. Fortíð fiskeldis á nokkra sök á þessu. Með miklum norskum fjárfestingum í greininni hérlendis hefur hins vegar eldisþekkingu vaxið fiskur um hrygg og búnaður, tækni og gæðastjórnun, tekið stakkaskiptum til hins betra. Þá hefur lagaumhverfi greinarinnar skánað. Strokhlutfall úr eldiskvíum og upp í íslenzkar laxveiðiár er einfaldlega orðið svo lágt, að óþarfi er að hafa áhyggjur af skaðlegum áhrifum erfðablöndunar, enda mun Hafrannsóknarstofnun endurskoða áhættumat sitt á mest þriggja ára fresti til lækkunar eða hækkunar á grundvelli fenginnar rekstrarreynslu á hverjum stað.

Laxeldið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki

Laxeldið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í atvinnulífi og byggðaþróun á Vestfjörðum og Austfjörðum. Starfsemin er þegar farin að gegna þjóðhagslegu hlutverki, og hún hefur burði til að verða einn af vaxtarbroddum gjaldeyrisöflunar á næstu árum. Til að viðhalda hagvexti og jákvæðum viðskiptajöfnuði þurfa útflutningstekjur landsins að aukast um 50 miaISK/ár í næstu framtíð. Útflutningstekjur laxeldis eru nú um 15 miaISK/ár og geta hæglega aukizt upp í 100 miaISK/ár að landeldi meðtöldu á einum áratugi. Til þess verða stjórnvöld þó að sníða greininni sanngjarnan stakk og leyfa henni að vaxa, eins og hún kýs, innan ramma núverandi svæðistakmarkana og „lifandi“ burðarþolsmats og áhættumats innan þessara leyfðu svæða.

Bjarni Jónsson, rafmagnsverkefræðingur. Greinin birtist á bloggsíðu hans 18. júlí sl. Sjá: https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2219693/

Af fiskeldi og einhverju öðru

Af fiskeldi og einhverju öðru

 „Ég þekki það af eigin raun hvernig samfélög njóta góðs af fiskeldi. Ég er ekki hlutlægur þar sem ég starfa innan geirans og þekki hann vel, frá ígulkerjarækt, sjókvíaeldi og seiðaeldi. Ég sé það jákvæða sem fylgir fiskeldi; Þetta er ansi gott eitthvað annað.“ Þannig kemst Sigmar Arnarson, sem er stöðvarstjóri seiðaeldis í Noregi að orði í grein í Austurfrétt, 18. júlí sl. Hjálagt birtist greinin í heild sinni

Er fiskeldi eitthvað annað? Mér verður oft hugsað til þess þegar ég fylgist með uppbyggingu á fiskeldi á Íslandi. Fyrir ekki svo löngu síðan var talað um að styrkja þyrfti byggð á landsbyggðinni með atvinnusköpun og þá var stóriðja helst fyrir valinu.

En þegar leið og beið, þá var stóriðja ekki nægilega góð og hentaði ekki öllum landsvæðum. Þá átti að finna eitthvað annað, eitthvað sem myndi styrkja atvinnu á landsbyggðinni, ekki stóriðju, bara eitthvað annað. Sjálfur var ég hrifinn af einhverju öðru, vandamálið var bara að enginn gat sagt til um, hvorki ég né aðrir, hvað þetta annað var.

Sigmar Arnarson:“Fiskeldi er og verður umdeild atvinnugrein en þetta er eitthvað annað sem kemur mörgum byggðum til góða, sérstaklega þeim sem eru í námunda við eldissvæðin, hvort sem þau eru í sjó eða á landi. Virðiskeðjan er löng í fiskeldi, frá fóðurframleiðslu, seiðaræktun, eldi í sjó, afurðavinnslu og markaðssetningu. Það eru mörg handverk bakvið hvert framleitt kíló og það skilur eftir sig spor í samfélaginu.“

Lítið fer fyrir opinberum störfum á landsbyggðinni og sömuleiðis hefur dregið úr bakvinnslu ýmissa stórfyrirtækja. Hvað situr þá eftir? Ferðamennskan hefur vissulega hjálpað mikið til en hún er að nokkru leiti bundin við ákveðin svæði á landinu, jaðarsvæðin sitja samt sem áður jafn mikið eftir. Meira að segja sjávarútvegurinn getur brugðist byggðum landsins þrátt fyrir tilraunir með byggðakvóta og strandveiðar. Það þarf að hafa fleiri stoðir, eitthvað annað, eitthvað annað sem er ásættanlegt. En hvað er það? Hvað er ásættanlegt?

Fiskeldi er og verður umdeild atvinnugrein en þetta er eitthvað annað sem kemur mörgum byggðum til góða, sérstaklega þeim sem eru í námunda við eldissvæðin, hvort sem þau eru í sjó eða á landi. Virðiskeðjan er löng í fiskeldi, frá fóðurframleiðslu, seiðaræktun, eldi í sjó, afurðavinnslu og markaðssetningu. Það eru mörg handverk bakvið hvert framleitt kíló og það skilur eftir sig spor í samfélaginu.

Hvað varðar umhverfisáhrif, þá fellur frá úrgangur frá fiskirækt sem og annari dýrarækt. Því miður er hann ekki nýttur sem áburður beint, en hann getur virkað sem slíkur á nærliggjandi svæði á hafsbotninum. Áhrifin eru þar af leiðandi lítil og ekki þarf meira en nokkra mánuði til að hvíla svæði þangað til hægt sé að taka þau í notkun aftur.

Hvað varðar slysasleppingar, þá er næstum óhjákvæmilegt að þær gerist, því miður. Áhrif erfðarblöndunar á eldisfiski eru hins vegar mun minni en talað er um í fjölmiðlum.

Það eru fylgikvillar á fiskeldi eins og með alla aðra dýrarækt og framleiðslu, það þarf því að velja og hafna. Það eru kostir og það eru gallar. Engu að síður hef ég þá skoðun að fiskeldi hafi meira jákvætt fram að bera en neikvætt. Ég þekki það af eigin raun hvernig samfélög njóta góðs af fiskeldi. Ég er ekki hlutlægur þar sem ég starfa innan geirans og þekki hann vel, frá ígulkerjarækt, sjókvíaeldi og seiðaeldi. Ég sé það jákvæða sem fylgir fiskeldi; Þetta er ansi gott eitthvað annað.

„Íslensku fiskeldisfyrirtækin mjög móttækileg fyrir nýjungum“

„Íslensku fiskeldisfyrirtækin mjög móttækileg fyrir nýjungum“

Fyrirtækið Vaki er með búnað í örugglega 90% seiðastöðva laxeldis um allan heim, að sögn forstjórans Hermanns Kristjánssonar.Hann nefnir að íslensku laxeldisfyrirtækin hafi reynst Vaka afar vel og samstarfið við þau verið mikilvægt, en næstum allar vörur Vaka hafa verið þróaðar í samvinnu við íslenska jafnt sem erlenda fiskeldismenn. „Íslensku fiskeldisfyrirtækin hafa verið mjög móttækileg fyrir nýjungum en einnig leitað til okkar og greint frá sínum þörfum og beðið okkur að koma með hugmyndir, þannig að það samstarf hefur gengið glimrandi vel“.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu nú á dögunum. Hér á eftir fer fréttin og frásögnin í heild sinni.

Iðnvætt fiskeldi er sá markaður sem við vinnum á, höfum náð forystu þar og höldum henni með öflugri vinnu við þróun. Það er fyrst og fremst mannauðurinn sem skilaði okkur þessu forskoti og að við höldum því,“ segir Hermann Kristjánsson rafmagnsverkfræðingur, forstjóri hjá Vaka, en fyrirtækið hefur hannað og framleitt búnað til að telja, og mæla fisk í sjókvíum ásamt öðrum búnaði til fiskeldis. Hjá fyrirtækinu starfa sjötíu starfsmenn, þar af 32 á Íslandi, fimm í Noregi, þrír í Skotlandi og um tuttugu í Síle. Af starfsmönnum Vaka eru um 90% háskólamenntaðir í verkfræði, tæknifræði, tölvunarfræði, sjávarlíffræði og viðskiptafræði. Vaki hefur átt í góðu samstarfi við háskóla landsins og er alltaf með augun opin fyrir góðu fólki.

„Íslensku fiskeldisfyrirtækin hafa verið mjög móttækileg fyrir nýjungum en einnig leitað til okkar og greint frá sínum þörfum og beðið okkur að koma með hugmyndir, þannig að það samstarf hefur gengið glimrandi vel“.

Selja víða um heim

Hermann segir að Vaki hafi verið öflugur í nýsköpun í tæknibúnaði fyrir fiskeldi allt frá því fyrirtækið var stofnað árið 1986 og selji búnað fyrir u.þ.b. 1,6 milljarða 2018 til yfir sextíu landa en Noregur, Skotland, Síle, Kanada og Færeyjar séu stærstu markaðir. „Þá erum við með búnað í örugglega 90% seiðastöðva laxeldis um allan heim.“ Hann nefnir að íslensku laxeldisfyrirtækin hafi reynst Vaka afar vel og samstarfið við þau verið mikilvægt, en næstum allar vörur Vaka hafa verið þróaðar í samvinnu við íslenska jafnt sem erlenda fiskeldismenn. „Íslensku fiskeldisfyrirtækin hafa verið mjög móttækileg fyrir nýjungum en einnig leitað til okkar og greint frá sínum þörfum og beðið okkur að koma með hugmyndir, þannig að það samstarf hefur gengið glimrandi vel.“

Flestar af vörum Vaka hafa algjöra sérstöðu á markaði og má nefna sem dæmi um verkefni innan fyrirtækisins stærðarmælingu á eldisfiski með innrauðu ljósi, talningu á eldisrækju með línumyndavél, tölvusjón og myndgreiningu, vöktun á villtum fiski og tegundagreiningu þar sem stuðst er við gervigreind. Hermann segir jafnframt margt fram undan. „Við erum til dæmis að vinna með að telja lús á fiskum neðansjávar og telja og fylgjast með lús í laxeldi og hvernig hún þróast. Þá er hægt að grípa inn í á réttum tíma. Það eru heilmikil tækifæri sem felast í þróunarvinnu okkar, ekki síst við tegundagreiningu og að þekkja lýs og greina þær á fiskinum.“

Orðið stórt alþjóðlegt fyrirtæki

Miklu skipti Vaka þegar alþjóðlega fyrirtækið Pentair Aquatic Systems keypti öll hlutabréf í Vaka. Pentair ætlaði sér stóra hluti á fiskeldismarkaði og voru kaupin á Vaka ætluð til þess að tryggja framgang á þeim mörkuðum þar sem fyrirtækið hefur haft góða markaðsstöðu en rúmlega 95% af tekjum Vaka eru vegna útflutnings.

Þá eykst vöruúrval Vaka til muna með nýjum eigendum en til viðbótar við fiskiteljara, stærðarmæla, flokkara og fiskidælur býður fyrirtækið upp á Point4 súrefnissteina og eftirlitsbúnað margs konar, UV filtera, vatnsdælur af öllum stærðum, hreinsikerfi, loftun, ljós, ráðgjöf og hönnun á heildarlausnum í endurnýtingarkerfum í fiskeldi.

Vilja nýta lífvirk efni úr blóði laxfiska til manneldis

Vilja nýta lífvirk efni úr blóði laxfiska til manneldis

Blóð í laxfiskum er 7-10% af þyngd hvers fisks og áætla má að við laxfiskaeldi hér við land falli til hátt í 2 þúsund tonn af blóði á ári við blóðgun. Samkvæmt reglugerðum á að farga blóðinu með urðun en það hefur fram til þessa verið losað í sjóinn með ærnum tilkostnaði. Matís hefur nú í samstarfi við Arnarlax, Arctic Protein og Háskóla Íslands hafið rannsókn á því hvernig best er staðið að blæðingu laxfiska og því að skilja blóð frá vinnsluvatni með það að markmiði að nýta lífvirk efni í blóðinu til manneldis.

Þríþætt vandamál

Þetta kemur fram í viðtali í nyjasta tölublaði Fiskifrétta við Gunnar Þórðarson verkefnastjóra, sem rekur útibú MATÍS á Ísafirði. Hér á eftir fer viðtal og frásögn Fiskifrétta í heild sinni

Segja má að vandamálið sé þríþætt; kostnaður við förgun, neikvæð umhverfisáhrif og að verðmæti fari í súginn. Mikilvægt er að hægt sé að leysa umhverfisvandamál og skapa verðmæti um leið.

Þetta er vandamál fiskeldis um allan heim, en blóðvatn úr villtum fiski er losað aftur í sjóinn. En í eldi getur þessu fylgt sýkingarhætta og þannig valdið miklu tjóni fyrir eldisfyrirtækin og eins haft neikvæð umhverfisáhrif, sem og stuðlað að sjónmengun við sláturhús/-báta.

Með nýjum aðferðum við blæðingu ætti ennfremur að opnast tækifæri til að auka enn frekar gæði aðalafurðanna, þ.e.a.s. flakanna. Matís hefur um áraraðir stundað rannsóknir á blæðingu þorskfiska og þróað aðferðir til að tryggja sem besta blæðingu. Litið er á blóðleifar í flökum sem gæðavandamál, bæði veldur það þránun við geymslu og styttir geymsluþol afurðanna. Í verkefninu verður farið í að þróa bestun blæðingar með líkum hætti og gert hefur verið við villtan fisk.

Gunnar Þórðarson hjá MATÍS, en Matís hefur nú í samstarfi við Arnarlax, Arctic Protein og Háskóla Íslands hafið rannsókn á því hvernig best er staðið að blæðingu laxfiska og því að skilja blóð frá vinnsluvatni með það að markmiði að nýta lífvirk efni í blóðinu til manneldis

Þurrblæðing
Gunnar segir að tvær leiðir séu einkum til skoðunar. Sú fyrri er þurrblæðing sem felst í því að fiskurinn er látinn blæða án þess að vera í vatni. Talið er að 70% blæðing geti farið fram með þessari aðferð. Í framhaldi af þurrblæðingunni er fiskurinn settur í vatnsblæðingu og látinn klára sig þar.

„Við þurfum líka að negla það niður hvaða hlutfall fisks og vatns gefur bestu blæðinguna og hversu oft þarf að skipta um vatn. Þarf að vera sírennsli eða hvenær er best að skipta um vatn? Einn mikilvægasti þáttur verkefnisins verður þó að þróa búnað til að hreinsa blæðingar- og vinnsluvatn þannig að engin lífræn losun sé út í náttúruna, og á sama tíma verða til tækifæri til nýsköpunar í framleiðslu og verðmætasköpun,“ segir Gunnar.

Samstarf við fiskeldið
Umhverfissjóður sjókvíaeldis veitir fjármuni til rannsóknarinnar og verður verkefnið unnið í nánu samstarfi við Arnarlax á Bíldudal, enda leggja þeir mikla áherslu á umhverfisvæna framleiðslu. Einnig kemur Arctic Protein í Borgarnesi að verkefninu en Arctic Protein sérhæfir sig í framleiðslu á fóðri fyrir gæludýr. Vörurnar eru alfarið unnar úr slógi og afskurðum af íslenskum laxfiskum.

Í verkefninu verður blóðið efnagreint og skimað fyrir verðmætum eiginleikum þess. Þetta verður grunnur fyrir frekari rannsóknir og hugsanlega vöruþróun á verðmætum afurðum úr blóðinu. Gunnar segir að horft sé til þess að nýta blóðið til framleiðslu á vörum til manneldis. Mikill markaður er omega fitusýrur og eins fyrir ensím í blóði takist að einangra þau. Þar gætu kaupendur verið snyrtivöru- og lyfjaframleiðendur og framleiðendur hollustufæðu. Járn er bundin við blóðrauðann og hægt er að einangra það og framleiða. Gunnar segir vinnslu af þessu tagi og vöruþróun vera óplægðan akur.

Umfang fiskeldis í Noregi er mikið á heimsvísu og þar er allt blóð og blóðvatn urðað í jörðu. Þetta er stórt vandamál þar í landi því kostnaðurinn við urðina er mikill. Norðmenn eru því með svipaðar rannsóknir í gangi. Gunnar kveðst eiga von á því að frekari frétta af verkefninu megi vænta á vormánuðum 2019.

Burðarþol Önundarfjarðar 2.500 tonn

Burðarþol Önundarfjarðar 2.500 tonn

Hafrannsóknastofnun telur að hægt sé að leyfa allt að 2.500 tonna fiskeldi í Önundarfirði. Þetta er niðurstaðan af burðarþolsmati stofnunarinnar. Í þessu mati er gert ráð fyrir að heildarlífmassi í firðinum verði aldrei meiri en 2.500 tonn og að vöktun á áhrifum eldisins fari fram.
Hvað er burðarþol?
Með breyttum lögum um fiskeldi frá árinu 2014 er mat á burðarþoli svæða skilgreint sem mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.
Fjörðurinn er fremur grunnur
Í burðarþolsmatinu varðandi Önundarfjörð kemur fram að fjörðurinn er fremur grunnur og meðaldýpið um 18 metrar. Mesta dýpi er 32 metrar í mynni fjarðarins. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um Önundarfjörð segir ma: „Niðurstöður straummælinga sýna tiltölulega veikan meðalstraum (1. og 3. mynd) vegna mikils breytileika í straumstefnu á straumsjár mælistöðvum og frekar óreglulega hringrás í firðinum. Ljóst er að vindur hefur mikil áhrif á strauma fjarðarins vegna þess hve grunnur hann er og fylgir útflæði sunnanvert oft sterkum norðaustan vindáttum (4. og 5. mynd). Miðað við meðaltal af straumi vatnssúlunnar má ætla að endurnýjunartími fjarðarins sé um 10 til 11 sólarhringar.“
Byggt á varúðarnálgun
Vegna aðstæðna í firðinum, gefur varúðarnálgun ástæðu til þess að mæla með því að hámarks lífmassi verði ekki meiri en 2.500 tonn í Önundarfirði, segir í áliti Hafrannsóknastofnunarinnar.

Sjá nánar á heimasíðu Hafrannsóknastofnunarinnar: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/mat-a-burdartholi-onundarfjardar-mtt-sjokviaeldis

17,5 milljarðar máltíða árlega úr laxeldi í heiminum

17,5 milljarðar máltíða árlega úr laxeldi í heiminum

Laxeldisframleiðslan í heiminum er nú um 2,5 milljónir tonna sem svarar til 17,5 milljarða máltíða. Laxeldið skapar um 132 til 133 þúsund bein störf í sjávarbyggðum. Er þetta aukning um 3 milljarða máltíða og 12 þúsund starfa á þremur árum. Velta laxeldisfyrirtækja i heiminum er um 15,4 milljarðar bandaríkjadala, eða um 1.600 milljarðar króna og hefur aukist um 500 milljarða króna á þremur árum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðasamtaka fiskeldisstöðva, ISFA.
Skilur eftir sig lágmarks kolefnisfótspor
„Það er hafið yfir allan vafa að laxeldisframleiðslan verður æ mikilvægari“, segir Trond Davidsen frá Noregi, sem er formaður samtakanna. Vekur hann athygli á að þessi aukning eigi sér stað á sama tíma og bent er á að úr sjónum verðum við að sækja mikilvægan hlut fæðuframleiðsliunnar í heiminum. „Framleiðsla á laxi skilur eftir sig lágmarks kolefnisfótspor“, segir hann enn fremur.
„Hvort sem þú borðar sushi, grillaðan lax eða reyktan…“
Í skýrslunni kemur fram að við nýtum lítinn hluta hafsins ( 0.00008%) hafsins til þess að framleiða þessar 17,5 milljarða máltíðir. Auk þeirra 132 þúsund beinu starfa hafi orðið til mikill fjöldi óbeinna atvinnutækifæra.
„Hvort sem þú borðar sushi, grillaðan lax eða reyktan, þá er líklegt að hann hafi verið alin á vegum aðildarfyrirtækja ISFA, segir Trond Davidsen.
500 milljarða verðmætisaukning á þremur árum
Skýrsla ISFA er sú þriðja í röðinni á jafn mörgum árum. Í fyrstu skýrslunni sem út kom árið 2015 kom fram að heimsframleiðslan á laxi svaraði til 14,8 milljarða máltíða að verðmæti 10 milljarða bandaríkjadala, sem eru rúmlega eitt þúsund milljarðar króna. Aukningin á þessum þremur árum er því nálægt 50 prósentum, eða um 500 milljarðar króna.

„Náttúran sér um sig“

„Náttúran sér um sig“

Jón Örn Pálsson: „Norskur villtur lax hefur veiðst hér við land á makrílveiðum inni í fjörðum og flóum. Það er alveg klárt að hann hafi leitað í íslenskar ár til að hrygna. En erfðaefni frá þeim stofni hefur ekki skaðað íslenska laxinn. Þannig að náttúran sér um sig,“

„Þó Norðmenn séu að ala 1,3 milljónir eldislaxa á ári, þá er villti laxastofninn þeirra sá sterkasti í Evrópu. Auðvitað hafa menn áhyggjur af erfðablöndun og áhrifum þess en sem betur fer höfum við lært af mistökum annarra og við höfum tekið upp til dæmis að vakta árnar með því að skoða erfðaefni villta laxins. En það er staðreynd að það tekur áratugi fyrir erfðabreytingu að skaða stofna og það hefur sýnt sig að þessi erfðabreyting gengur til baka.“
Þetta kemur fram í máli Jóns Arnar Pálssonar, ráðgjafa hjá fiskeldisfyrirtækinu Akvafuture í viðtali við Fréttablaðið, frettabladid.is í dag. Jón hefur langa reynslu af fiskeldi og er sjávarútvegsfræðingur að mennt.
Jón Örn segir að ekki hafi mælst marktæk neikvæð áhrif af erfðablöndun eldislaxa við villta laxa hingað til.
Höfum lært af mistökum annarra
Jón Örn segir að Norðmenn hafi stundað mælingar frá áttunda áratugi síðustu aldar og hafi yfir fjörutíu ára reynslu af því að eldislax sleppur úr fiskeldi.
„Það hafa fundist áhrif á erfðamengi fiskanna en þau hafa ekki haft þau áhrif að villti laxastofninn hnigni. Það má nefna að það hafa villtir laxastofnar í nokkrum ám í Noregi þurrkast alveg út vegna sníkjudýra og út af súru regni en eldisstofnar hafa sest þar að síðar meir og þeir stofnar una sér vel í þeim ám í dag,“ segir Jón Örn.
Jón Örn segir að menn hafi lært af mistökum annarra í þessum geira, þvert á það sem hafi komið fram í umræðunni.
„Þó Norðmenn séu að ala 1,3 milljónir eldislaxa á ári, þá er villti laxastofninn þeirra sá sterkasti í Evrópu. Auðvitað hafa menn áhyggjur af erfðablöndun og áhrifum þess en sem betur fer höfum við lært af mistökum annarra og við höfum tekið upp til dæmis að vakta árnar með því að skoða erfðaefni villta laxins. En það er staðreynd að það tekur áratugi fyrir erfðabreytingu að skaða stofna og það hefur sýnt sig að þessi erfðabreyting gengur til baka.“
Dæmið af hafbeitarlaxinum
Gott dæmi um þetta sé hafbeitarlaxinn sem sleppt hafi verið víða hér við land á sínum tíma.
„Sá lax er grimmari við að fjölga sér og sækja upp í árnar heldur en eldislax. En það sýnir sig hversu erfitt það er fyrir nýtt erfðaefni að ná fótfestu, að hann náði ekki fótfestu hér við land. Umhverfi á Íslandi er harðbýlt fyrir laxinn, miklar sveiflur og langir vetur og eldislaxinn á erfitt uppdráttar að lifa af í ánum í þrjú til fjögur ár áður en hann fer til sjávar. Það er vert að það komi fram að norskur villtur lax hefur veiðst hér við land á makrílveiðum inni í fjörðum og flóum. Það er alveg klárt að hann hafi leitað í íslenskar ár til að hrygna. En erfðaefni frá þeim stofni hefur ekki skaðað íslenska laxinn. Þannig að náttúran sér um sig,“ segir Jón Örn að lokum.

Síða 4 af 25« Fyrsta...23456...1020...Síðasta »