Íslandsbleikja stækkar eldisstöðvar sínar í Öxarfirði og Grindavík

 

Heil bleikja mynd

Mikill uppgangur er hjá Íslandsbleikju, stærsta framleiðanda bleikju í heiminum. Verið er að stækka eldisstöðvar fyrirtækisins í Öxarfirði og Grindavík og heildarframleiðsla fyrirtækisins fer í tæp fimm þúsund tonn eftir breytingarnar.
Íslandsbleikja elur bæði lax og bleikju í þremur áframeldisstöðvum auk þess að reka eina klakstöð og þrjár seyðastöðvar en fyrirtækið er í eigu Samherja. Í eldisstöðinni í Öxarfirði standa nú yfir miklar framkvæmdir en að breytingum loknum stefnir stöðin á að einbeita sér eingöngu að laxeldi.
Arnar Freyr Jónsson, rekstrarstjóri Íslandsbleikju í Öxarfirði: Við erum að framleiða svona rúm þúsund tonn af laxi, svona 1.200 tonn kannski, og með þessari stækkun, þá förum við upp í 1.600 tonn á ári. Fyrsti áfangi er kominn af stað hérna, við ætlum að byggja fjögur ker sem eru um átta þúsund rúmmetrar samtals og erum þar af leiðandi að stækka stöðina um svona 40%.
Áframeldisstöð Íslandsbleikju í Grindavík er líka að stækka en þar er verið að stækka stöðuna um 65%. Mikil eftirspurn hefur verið eftir íslenskum laxi en stór hluti framleiðslu Íslandsbleikju fer til verslunarkeðjunnar Whole Food í Bandaríkjunum. Heildarframleiðsla fyrirtækisins er nú 3.600 tonn en verður nálægt fimm þúsund tonnum eftir breytingarnar í Grindavík og Öxarfirði.

Nýr fóðurprammi til Arnarlax

Arnarlax_prammi_drbatur_useÍ dag kom til Bíldudals nýr fóðurprammi fyrir Arnarlax. Hafist var handa strax við komuna að lesta prammann en hann tekur rúm 300 tonn af fóðri og verður þessi prammi staðsettur við Hringsdal í Arnarfirði. Dráttarbáturinn lagði strax af stað að ná í annan sem er alveg eins pramma sem býður við Hjaltlandseyjar en sá prammi verður í Tálknafirði og ætti að vera kominn um miðjan september. Er þessi fjárfesting uppá 240 milljónir íslenskra króna.  Frekari tækjavæðing íslenskra fiskeldisfyrirtækja sýnir þann metnað sem nú er í uppbyggingu greinarinnar á Íslandi.  Eigendur fyrirtækjanna leggja til tæki og búnað af bestu gerð þannig að uppbyggingin á Íslandi geti orðið sem öruggust.  Fóðurprammar eru frábær tæki sem auka öryggi bæði manna og fiska og tryggja jafna stöðuga fóðrun óháða veðri.  Það er afar ánægjulegt að sjá fagmennskuna sem einkennir nútíma fiskeldi á Íslandi, þökk sé aðkomu sterkra fjárfesta með mikla þekkingu og alþjóðlega reynslu úr greininni.

Arctic Fish fær viðbótar hluthafa og samstarfsaðila

Norska fiskeldisfyrirtækið NRS (Norwegian Royal Salmon) hefur keypt um helming hlutafjár í Arctic Fish.  Arctic Fish er með silungseldi í Dýrafirði og hyggst fara í laxeldi í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi.  Þá rekur fyrirtækið stóra seiðaeldisstöð í Tálknafirði.   Fréttatilkynning frá Arctic Fish vegna kaupa NRS birtist hér að neðan í heild sinni:

Fréttatilkynning:

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur í dag gengið frá sölu á hlutafé til nýs hluthafa og samstarfsaðila, Norway Royal Salmon (NRS). Upphaflegu hluthafar fyrirtækisins, Bremesco og Novo ehf. munu áfram vera hluthafar og NRS mun með aukningu á eigin fé eignast helming hlutafjár móti núverandi hluthöfum. Með þessari hlutafjáraukningu er grunnur lagður að framtíðarfjármögnun félagsins og áframhaldandi vexti starfsemi félagsins á Vestfjörðum. Markaðsdeild DNB bankans var ráðgefandi að þessu samkomulagi beggja aðila.
Arctic Fish hóf starfsemi sína í silungseldi undir nafni Dýrfisks í Dýrafirði árið 2011. Þar er fyrirtækið enn með meginstarfsemi sjóeldisins sem nú er rekið undir nafni Arctic Sea Farm. Verið er að byggja upp nýja og fullkomna seiðaeldisstöð hjá systurfélaginu Arctic Smolt í Tálknafirði og er móðurfélagið einnig að undirbúa frekari vöxt, m.a. í laxeldi, sem gert er ráð fyrir að verði meginsvið félagsins í framtíðinni. Fyrsta skrefið í laxeldi Arctic Fish hefur þegar verið stigið þegar fyrstu laxaseiðin voru alin í seiðaeldisstöð félagsins og sett út í Dýrafjörð þar sem þau verða framleidd í samræmi nýja ASC umhverfisvottun félagsins.
NRS var stofnað árið 1992 þegar 34 fiskeldisfyrirtæki sameinuðust um sölu og markaðsfyrirtæki fyrir eldislax og fleiri sameiginlega hagsmuni þessara smærri eldisframleiðanda. Árið 2006 hóf félagið laxeldi undir eigin nafni ásamt því að vera áfram í sölu og stuðningi við rekstur aðildafélaga NRS. Fyrirtækið var skráð í kauphöll Oslo Stock Exchange árið 2010.

NRS er eitt af leiðandi fiskeldisfyrirtækjum í Noregi með eigin laxeldisframleiðslu á síðasta ári upp á 28 þ. tonn og sölu af um 70 þ. tonnum af laxaafurðum gegnum dreifingarkerfi félagsins til yfir 50 landa. Uppsetning félagsins gegnum eigin starfsemi og samstarfsfélaga hefur leitt til uppbyggingar á starfsemi sem nær yfir alla þætti eldisins frá seiðaeldi, sjóeldi, vinnslu, sölu og dreifingu beint til viðskiptavina. Samvinna við Arctic Fish er liður í frekari uppbyggingu á starfsemi NRS og grunnurinn að frekari vexti félagsins. NRS er nú þegar með megin hluta síns eldis í Norður Noregi þar sem eldisaðstæður eru á margan hátt sambærilegar og á Vestfjörðum. Það er markmið hluthafa Arctic Fish og nýrra samstarfsaðila að skrá félagið á hlutabréfamarkað innan næstu fimm ára. „NRS lítur til Íslands sem áhugaverðs svæðis til uppbyggingar fiskeldis og í samstarfinu við Artic Fish mun NRS gegna mikilvægu hlutverki í að styðja undir frekari vöxt starfseminnar. Arctic Fish mun geta leitað til þeirrar þekkingar og reynslu sem er innan NRS til þess að byggja leiðandi fiskeldisfyrirtæki á Íslandi“, segir Charles Høstlund, framkvæmdastjóri NRS.
„Það eru möguleg samlegðaráhrif í öllum þáttum starfsemi samstarfsfélaganna NRS og Arctic Fish, frá seiðaeldi til fullunninna afurða. Að fá NRS sem hluthafa í Arctic Fish gerir tvennt að verkum, í fyrra lagi tryggir það fjármögnun félagsins, í seinna lagi mun eiga sér stað þekkingaryfirfærsla frá aðilum sem eru starfandi í fiskeldi á norðlægum slóðum. Markmið Arctic Fish og NRS er uppbygging á Íslandi í umhverfi sem gerir það kleift að vera í sjálfbæru og vistvænu fiskeldi“, segir Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri Arctic Fish.

Fréttatilkynning frá Arctic Fish 24. ágúst 2016.
Frekari upplýsingar veitir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish, í síma 777 3123 og netfang: sp@afish.is og Shiran Þórisson, fjármálastjóri félagsins í síma 893 2617 og netfang: nst@afish.is

Fagmennska í sjókvíaeldinu

 

 

eyglo_þoka

Í Morgunblaðinu í gær er viðtal við Víking Gunnarsson hjá Arnarlax vegna komu vinnubáts til fyrirtækisins.  Þá eru þrír nýir fóðurprammar á leið til fyrirtækisins.  Ljóst er að auknum umsvifum í sjókvíaeldinu fylgir aukin fagmennska, ekki síst með erlendri fjárfestingu.  Nútíma sjókvíaeldi á lítið skylt við kotbúskap fyrri tíma og allur búnaður verður að vera af bestu og öflugustu gerð.  Það er sérlega jákvætt fyrir íslenskt atvinnulíf að stjórnvöld á Íslandi hafi sett upp regluverk sem tryggir að fyrirtækin sem fyrir uppbyggingunni standa starfa eingöngu eftir ströngustu viðmiðum og nota besta mögulega búnað þannig að öryggi stöðvanna og umhverfi þeirra sé hámarkað.  Þannig er stuðlað að því að uppbygging atvinnugreinarinnar sé langtímaverkefni sem styður við atvinnulífið á landsbyggðinni með fjölbreytileika sínum.   Uppbyggingin á Vestfjörðum og Austfjörðum ber þessu vitni.

Viðtalið við Víking í Morgunblaðinu má lesa hér.

Uppbygging fiskeldisstöðvar Matorku í Grindavík að hefjast

bleikja_matur

Það eru spennandi tímar framundan hjá Matorku en uppbygging landstöðvar fyrirtækisins í Grindavík er nú að hefjast.  Árni Páll Einarsson framkæmdastjóri Matorku er í athyglisverðu viðtali við vefmiðilinn kvotinn.is og segir m.a:   „Nú loksins eftir mikinn undirbúning er fjármögnun fiskeldisfyrirtækisins Matorku til verulegar uppbyggingar fiskeldisstöðvar í Grindavík lokið.  Búið er að bjóða út verkið og verið er að vinna í verksamning við verktaka um mannvirkin.  Stefnt er að því að byrja framkvæmdir á næstunni. Hin nýja eldisstöð mun fullbyggð búa til 40 ný störf og afla um 20 milljóna dollara í erlendum gjaldeyri fyrir þjóðarbúið,“

Viðtalið við Árna í heild sinni má lesa hér.

Uppbygging í stoðgreinum fiskeldisins – prótínverksmiðja á Tálknafirði

eyglo_þoka

 

Fyrirtækið Arctic protein er að undirbúa flutning verksmiðju sinnar á Tálknafjörð.  Þar verður framleitt próteinduft og laxaolía úr laxaslógi enda framleiðsla á laxi á sunnanverðum Vestfjörðum í miklum vexti.  Hér er komin enn ein aukabúgreinin sem þrífst í kringum laxeldið og skapar fjölbreytt störf á þeim svæðum sem heimilt er að stunda eldi.  Nú þegar eru rekin þjónustufyrirtæki í kringum eldið, fyrirtæki sem sinna þrifum á nótum í kvíum og köfunarþjónusutu.  Þá er nótaþvottastöð á vegum Ísfells að hefja starfsemi á Flateyri.   Það er ljóst að atvinnuuppbyggingin í kringum eldið heldur áfram og tækifærin í kringum eldið eru fjölmörg.

Villtur lax í Noregi í mjög góðu standi í ár – frábærar fréttir fyrir íslenska stangveiðimenn

Samkvæmt héraðsblaðinu Nationen í Noregi er ástand norskra áa í ár mjög gott, laxveiðin sýnir vöxt á milli ára upp á 30-50%.   Sumar hverjar eru að upplifa sitt besta tímabil í 15 ár og þurfa að fara aftur til ársins 2002 til að finna viðlíka tölur.  Þetta eru frábærar fréttir fyrir hin áhyggjufullu veiðifélög á Íslandi sem hafa verið dugleg að spá eyðingu villtra stofna samhliða auknu sjókvíaeldi við Ísland.  Norðmenn hafa nefnilega alið yfir milljón tonn af laxi í sjókvíum á ári undanfarin ár, margtugfalt það sem nokkurn tíma verður alið á Íslandi.   Og ekki er að sjá það hafi „eytt villtum stofnum í hundruðum áa í Noregi“ eins og talsmenn veiðifélaga á Íslandi hafa látið hafa eftir sér.

Fiskeldi Austfjarða fær nýjan fóðurpramma

Fiskeldi Austfjarða fær nýjan fóðurpramma

Í síðustu viku kom til hafnar á Djúpavogi nýr fóðurprammi í eigu Fiskeldis Austfjarða.  Pramminn sem fengið hefur nafnið Úlfsey ber tæplega 400 tonn af fóðri og er þegar kominn í notkun á nýrri eldisstaðsetningu fyrirtækisins í Berufirði.  Úlfsey er smíðuð 2008 og er afar vel búið og glæsilegt verkfæri.  Að sögn Jónatans Þórðarsonar, eldisstjóra FA, er um byltingu að ræða fyrir starfsmenn fyrirtækisins og mikil ánægja er með komu Úlfseyjar en hún er stærsti sérsmíðaði fóðurprammi sem notaður hefur verið á Íslandi.  Koma Úlfseyjar markar enn frekar þá miklu uppbyggingu sem er að verða í íslensku fiskeldi um þessar mundir og þá fagmennsku sem einkennir hana.

Ísfell setur upp nótaþvottastöð fyrir fiskeldið á Flateyri

Á íbúafundi á Flateyri þann 4. júli tilkynnti Ísfell ehf um áform sín um að opna nótaþvottastöð á staðnum, til að getað þjónustað fiskeldið enn betur.  Hefur félagið tekið á leigu húsnæði sem áður hýsti Arctic Fish og er verið að setja upp nótaþvottavél og annan búnað með það að markmiði að þjónustustöðin geti hafið starfsemi innan örfárra vikna.  Annar stærsti eigandi Ísfells, norska fyrirtækið Selstad AS er Ísfelli innan handar við þetta verkefni en Selstad rekur nokkrar sambærilegar þjónustustöðvar í Noregi.  Það er mjög ánægjulegt fyrir eldisfyrirtækin á Vestfjörðum að þessi þjónusta verði nú í boði innan svæðisins en hingað til hefur þurft að senda nætur í þvott til Reyðarfjarðar með tilheyrandi flutningskostnaði.  Þá er það uppörvandi fyrir eldismenn að stoðgreinarnar í kringum eldið séu að styrkjast, með tilheyrandi atvinnusköpun í  óbeinum störfum eldisins.

Á fundinum á Flateyri fór Gunnar Skúlason, framkvæmdastjóri Ísfells, yfir sýn fyrirtækisins á verkefnið og kynnti nýráðinn stöðvarstjóra, Bjarka Birgisson.  Þá hélt Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri LF  tölu þar sem farið var yfir stöðu og horfur í  fiskeldinu en einnig bent á frekari þjónustugreinar  sem nauðsynlegt er að huga að og hvar tækifærin til þess geta legið.  Einnig tóku til máls Gísli Gíslason bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Shiran Þórisson framkvæmdastjóri ATVEST og Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri Arctic Fish.  Voru framsegjendur allir ánægðir með komu þessarar starfsemi til Flateyrar og ljóst að eldisfyrirtækin á Vestfjörðum munu njóta þessarar þjónustu.

Nýting sóknarfæra í laxeldi á Íslandi

Í Vísi þann 23. júní birtist athyglisverð grein eftir Gunnar Davíðsson, sjávarútvegsfræðing M. Sc. og deildarstjóra atvinnu­þróunardeildar fylkisstjórnar Tromsfylkis í Norður-Noregi.  Í greininni fjallar Gunnar m.a. um þær áskoranir sem norðmenn standa frammi fyrir samhliða áætlunum um aukningu framleiðslu á eldisfiski.  Þá fer hann jákvæðum orðum um það regluverk sem Ísland hefur sett og telur það fela í sér tækifæri til skynsamlegrar uppbyggingar fiskeldis á Íslandi.  Grein Gunnars má nálgast hér.

Síða 24 af 25« Fyrsta...10...2122232425