DiCaprio að fjárfesta í framtíðinni – fiskeldið mun draga vagninn í prótinframleiðslu heimsins

Leikarinn Leonardo Di Caprio fjárfesti nýverið í bandaríska fiskeldisfyrirtækinu LoveTheWild.  Í viðtali við kappann, sem lesa má hér kemur fram að hann hefur þá skýru sýn að villtir stofnar munu ekki bera uppi þörf mannkyns fyrir sjávarfang heldur mun fiskeldi aðeins aukast.  Þetta er í takt við það sem fiskeldisfólk almennt hefur haldið fram.  Í greininni sem fylgir viðtalinu kemur einnig fram að almenningur í USA virðist loks vera að hætta að hlusta á áratuga gamlar bábyljur um fiskeldi og tekur nú frekar mark á staðreyndum um nútíma fiskeldi.  Ímynd þess er því á réttri leið enda fer vegur fiskeldis nú almennt vaxandi í USA sem og annarsstaðar.

Fiskeldið dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda

Fiskeldið dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda

„Í grunninn er þetta verkefni einfalt. Það snýst um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að upptöku kolefnis úr andrúmslofti. Við eigum að leitast við að standa við skuldbindingar okkar eftir þeim reglum sem gilda, en við eigum líka að stuðla að árangri hvar sem við getum, óháð því hvar loftslagsávinningurinn er færður til bókar.“
Þannig komst Björt Ólafsdóttir umhverfis og auðlindaráðherra í ræðu á Alþingi þegar hún hinn 2. mars sl. fylgdi úr hlaði skýrslu um Stöðu og stefnu í loftslagsmálum. Skýrslan var unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Fiskeldið getur orðið liður í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
Í þessu sambandi er fróðlegt að velta fyrir sér hvernig hlutur einstakra atvinnugreina getur verið í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla þannig að því að við getum staðið við skuldbindingar okkar og áform eins og birtust í undirskrift okkar á Parísasamkomulaginu í loftslagsmálum.
Tökum fiskeldið sem dæmi:
Almennt talað skilur fiskframleiðsla eftir sig mjög grunn kolefnisfótspor, sérstaklega ef borið er saman við ýmsa aðra fæðuframleiðslu. Kolefnisfótsporið til dæmis tvöfalt stærra í svínakjötsframleiðslu og margfalt meira í nautakjötsframleiðslu en í fiskeldi, svo dæmi séu tekin.
Þegar kolefnisfótspor sem afleiðing af einhverri atvinnustarfsemi er mikið eða djúpt, þýðir það að hún er mengandi og veldur hnattrænni hlýnun. Það er því ljóst að fiskeldi er umhverfisvæn starfsemi og efling þess getur því orðið liður í baráttu stjórnvalda um heim allan gegn hnattrænni hlýnun.

Fiskeldi stuðlar að grynnra kolefnisfótspori
Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi niðurstöðu skýrslu Hagfræðistofnunar sem umhverfisráðherra ræddi á Alþingi. Í ræðu sinni sagði ráðherra: „Greining Hagfræðistofnunar á stöðunni er í senn viðvörun en líka hvatning. Spá um losun sýnir mikla aukningu á komandi árum og að við munum að óbreyttu ekki standa við markmið innan Kyoto-bókunarinnar árið 2020 og Parísarsamningsins árið 2030. Hins vegar segir hún líka að við Íslendingar eigum fjölmörg tækifæri til að draga úr losun og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti.“
Þarna gegnir fiskeldi, sem er vaxandi atvinnugrein hér á landi, markverðu hlutverki. Fiskeldi er ótvírætt atvinnugrein, sem stuðlar að grynnra kolefnisfótspori og getur hjálpað okkur í baráttunni gegn þeim mikla háska sem stafar af hnattrænni hlýnun.

Skilgreining á hugtakinu kolefnisfótspor
Þegar talað er um kolefnisfótspor í sambandi við loftslagsbreytingar, þá er fótspor myndlíking fyrir þau áhrif sem eitthvað hefur. Í þessu tilfelli má segja að kolefni sé notað sem einhverskonar samnefnari fyrir þær gróðurhúsalofttegundir sem valda hnattrænni hlýnun.
Þar af leiðandi má kannski orða það þannig að kolefnisfótspor sé einhverskonar samnefnari á áætluðum heildaráhrifum losunar gróðurhúsalofttegunda sem eitthvað veldur. Þetta eitthvað getur svo verið hvað sem er, t.d. athafnir, hlutir, lífsstíll, fyrirtæki, lönd eða jafnvel allur heimurinn.

Orð til sportveiðimanna og kvenna

Orð til sportveiðimanna og kvenna

Ég er sportveiðimaður og á marga kunningja og vini sem eru það líka. Margir í þeim hópi hafa sagt mér að þeir hafi veitt eldislaxa í ýmsum frægum laxveiðiám um land allt og telja undantekningarlaust að um strokulaxa úr eldiskvíum hafi verið að ræða. Margir hafa tekið myndir af löxunum og sent þær ásamt hreisturssýni til greiningar hjá Veiðimálastofnun sem nú er hluti Hafrannsóknastofnunar. Þegar ég hef spurt hver hafi orðið niðurstaða greininganna, þá kemur alltaf í ljós að viðkomandi hafi enn ekki borist niðurstaða. Menn gefa sér að „þögn sé sama og samþykki“ en svo er ekki í þessu tilviki.

Mismunandi stofnar
Til að útskýra málið er vert að benda lesendum á að hér á landi er starfrækt tvenns konar laxeldi. Annars vegar eru alin laxaseiði og sjógönguseiði af sk. Sagastofni sem nú er í umsjá og eigu Stofnfisks hf. Sagastofninn er afkomandi tveggja eldisstofna sem fluttir voru sem hrogn til landsins frá Noregi. Annars vegar var um að ræða stofn sem heitir Mowi sem ÍSNÓ í Kelduhverfi fékk 1984 og hins vegar stofninn Bolaks sem fór til Íslandslax í Grindavík í tveimur sendingum, 1986 og 1987. Hann er nú alinn í nokkrum landstöðvum áður en hann er settur í eldiskvíar á Vestfjörðum og sunnanverðum Austfjörðum til áframeldis. Megnið flytur Stofnfiskur þó út til áframeldis í öðrum löndum víða um heim.
Hins vegar eru líka alin laxaseiði og sjógönguseiði af íslenskum villtum stofnum í nokkrum landstöðvum til sleppingar í laxveiðiár um allt land sem veiðiréttareigendur standa fyrir og eiga. Fagfólk og þ.m.t. sportveiðifólk þekkir eldislax t.d. á því að á sumum þeirra eru uggarnir skertir og einnig sporður og tálknlok. Einstaka lax getur svo líka haft einkenni beinaskerðingar (kripplingseinkenni). Þetta á jafnt við um báða eldisstofnana. Þessi einkenni verða nánast alfarið til í landstöðvunum en sárin ágerast í mismunandi mæli eftir sleppingu í kvíar eða í á.
Sýni ekki greind
Vegna svara vina minna og kunningja í sportveiðinni og forvitni á að vita hvað hefði komið út úr greiningum Veiðimálastofnunar á hinum meintu strokulöxum fór ég og kannaði málið nánar með fyrirspurnum til stofnunarinnar. Fékk ég þau svör að ekki væri til fjármagn til að framkvæma allar greiningar sem stofnuninni bærust. Við nánari athugun kom í ljós að greind hafa verið sýni úr tveimur tilvikum, í báðum tilvikum vegna þess að sýnin og staðsetning veiðinnar gaf rökstuddan grun um að um eldislax væri að ræða úr kvíum. Var annars vegar um að ræða sleppilax úr sláturkví í Norðfirði 2003/2004 og hins vegar í Patreksfirði 2013/2014 og var í báðum tilvikum um að ræða lax af Sagastofni.

Þrjár vel unnar skýrslur eru til um þessar tvær slysasleppingar sem unnar voru af sérfræðingum Veiðimálastofnunar. Málið varð strax að fréttaefni sem fór um alla fjölmiðla eins og eldur í sinu svo vart fór fram hjá nokkrum manni. Af öðrum sýnagreiningum segir fátt. Sem fagmaður á þessu sviði tel ég litlar líkur á því að sérfræðingar Veiðimálastofnunar þekki ekki muninn á þeim mismunandi laxastofnum sem hér eru ræktaðir. Vitað er að eldislaxar veiðiréttareigenda eru í þessum ám í miklum mæli og það ætti engum að koma á óvart að það veiðist einn og einn lax með einkennum eldislaxa í þessum ám.
Eldislax veiðiréttarhafa
Það er mikilvægt að Hafrannsóknastofnun greini alla laxa sem veiðimenn hafa grun um að sé eldislax, óháð uppruna. Eldislax af Sagastofni hefur aldrei svo vitað sé veiðst í íslenskum ám utan Vestfjarða og sunnanverðra Austfjarða. Um það vitna opinberar upplýsingar. Að mínu mati er augljóst að þegar sportveiðimenn fullyrða að eldislax frá sjókvíafyrirtækjunum veiðist „í ám um allt land“ sé um að ræða eldislax frá sjálfum veiðiréttarhöfunum sem þeir sleppa í stórum stíl, beint í árnar. Það er mikilvægt að fjallað sé um þessi mál eins og þau eru í stað þess að leitast sífellt við að hengja bakara fyrir smið. Einhverra hluta vegna virðist það þó ekki forgangsmál að veita almenningi upplýsingar um eldislax veiðiréttarhafa í íslenskum laxveiðiánum.

Æðarvarpi stendur ekki ógn af sjókvíaeldi utan netlaga

Æðarvarpi stendur ekki ógn af sjókvíaeldi utan netlaga

Af saur sem drepur æðavörp

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, gerði stefnumörkun í fiskeldi að umræðuefni á Alþingi þann 9. febrúar síðastliðinn og beindi fyrirspurn til umhverfisráðherra.
Æskilegt er að málefni laxeldis séu tekin til umfjöllunar í þingsölum í ljósi þess að hér er um að ræða uppbyggingu nýs og öflugs atvinnuvegar á Íslandi sem þegar er farinn að skapa mikil verðmæti og fjölda starfa í dreifðum byggðum landsins.
Mikilvægt er að umræða sé upplýst og ígrunduð eigi hún að skila árangri. Í grunnstefnu lýðræðishreyfingarinnar Pírata sem þingmaðurinn tilheyrir er einmitt lögð áhersla á „gagnrýna hugsun“, „vel upplýstar ákvarðanir“ og að „móta stefnu í ljósi gagna og þekkingar“.
Það kom hins vegar fljótlega fram í máli þingmannsins að hann var ekki að fylgja grunnstefnu hreyfingarinnar hvað þessi lykilatriði varðaði. Þingmaðurinn hafði ekki kynnt sér grundvallarstaðreyndir um eðli greinarinnar, gildandi regluverk við veitingu leyfa né fyrirkomulag rekstrarumhverfisins.
Ætla mátti af orðum þingmannsins að upplausnarástand ríkti varðandi leyfamál og reyndist fyrirspurn hans uppfull af merkingarhlöðnum rangfærslum og órökstuddum hræðsluáróðri gegn laxeldi.
Upphafsorð þingmannsins voru: „Frú forseti. Ríkisstofnanir hafa verið að gefa út starfs- og rekstrarleyfi til fiskeldisstöðva án þess að framtíðarstefna liggi fyrir eða mat á fyrirliggjandi náttúrunytjum …“
Þessi fullyrðing er röng. Stjórnvöld hafa skapað framtíðarstefnu sem meðal annars er fólgin í því að laxeldi skuli aðeins leyft á afmörkuðum svæðum við landið. Gerðar eru ríkar kröfur í gildandi lögum og reglugerðum til undirbúnings framkvæmda sem og til starfseminnar sjálfrar.

Langt og strangt ferli
Að baki útgáfu starfs- og rekstrarleyfa vegna sjókvíaeldis er langt og strangt ferli þar sem fjöldi hámenntaðra náttúrufræðinga og vísindamanna sem starfa hjá fagstofnunum ríkisins fjalla um eðliseiginleika framkvæmda. Ferlið hefst hjá Skipulagsstofnun á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106 frá 2000. Skila þarf inn ítarlegum gögnum um náttúru fjarðanna og möguleg áhrif framkvæmda á lífríki, samfélag, aðra starfsemi og fleira. Þetta er gagnsætt ferli þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir eru kynntar opinberlega og öllum gefst kostur á að koma með athugasemdir bæði almenningi sem og fagaðilum.
Það er því fjarri lagi að verið sé að gefa út starfs- og rekstrarleyfi til fiskeldisstöðva án þess að framtíðarstefna liggi fyrir eða mat á fyrirliggjandi náttúrunytjum.
Í ræðu sinni sagði þingmaðurinn: „Nú hafa landeigendur, veiðifélög, æðarbændur, ferðaþjónusta og fuglaverndarfólk miklar áhyggjur af áformum um fiskeldi á Vestfjörðum og sunnanverðum Austfjörðum og telja að umhverfisráðuneytið hafi brugðist skyldu sinni með því að hafa hvorki látið fara fram óháð áhættumat né mat á verndargildi náttúrunnar á áðurgreindum svæðum.“
Það eitt að einhverjir aðilar telji að umhverfisráðuneyti hafi brugðist skyldu sinni er í sjálfu sér enginn dómur yfir ráðuneytinu eða rök í málinu. Við sem manneskjur verðum oftlega vitni að því að aðilar upplifi atvik þannig að þeim finnist á sér brotið þó að ekkert gefi tilefni til að ætla að svo sé. Þetta er hluti af litrófi mannlífsins og má sem ágætt dæmi nefna afstöðu nýkjörins Bandaríkjaforseta Donalds Trump sem telur að fjölmiðlar hafi með óréttmætum hætti brugðist sér.
Í ljósi þess regluverks sem gildir og verklags við undirbúning og veitingu leyfa verður ekki séð að umhverfisráðuneyti eða umhverfisyfirvöld hafi með nokkrum hætti brugðist skyldum sínum.
Á einum stað sagði þingmaðurinn: „Verði af áformum fjárfesta er tekin áhætta með stórfellda lífræna mengun af saur sem drepur æðarvörp …“
Það er nokkuð ljóst að æðarvarpi stendur ekki ógn af sjókvíaeldi sem rekið er utan netlaga í fjörðum landsins. Hins vegar væri upplýsandi og í anda grunnstefnu Pírata ef þingmaðurinn gæti vísað til tölfræðilegra upplýsinga um fjölda æðarvarpa sem orðið hafa fyrir skaða af völdum saurs frá fiskeldi í sjó.
Það er mikilvægt að þingmenn sýni ábyrgð og fjalli um málefni af þekkingu og innsæi. Ræðustóll þingsins er vettvangur ólíkra skoðanaskipta en á ekki að nýtast sem tæki í áróðursstríði þar sem órökstuddum og röngum fullyrðingum er miðlað.

Einar Örn Gunnarsson, stjórnarmaður í Löxum Fiskeldi ehf.

100 þúsund hágæða máltíðir á dag frá Bíldudal

100 þúsund hágæða máltíðir á dag frá Bíldudal

„Nú í ár slátr­um við 10.000 fisk­um á dag og flytj­um út 5-6 daga vik­unn­ar um 100 þúsund hágæða máltíðir að vest­an á dag, eða á bil­inu 40-50 tonn af slægðum laxi,“ seg­ir Kjart­an Ólafsson stjórnarformaður fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax á Bíldudal í sam­tali við ViðskiptaMogg­ann í gær.

Arn­ar­lax slátraði 6.000 tonn­um af laxi á síðasta ári, en á þessu ári er stefnt að 10.000 tonna fram­leiðslu. Á næstu þrem­ur til fimm árum er stefnt að því að tvö­falda þá tölu og fram­leiða ná­lægt 20.000 tonn­um.

Síðasta ár var hagfellt

Fram kemur í viðtalinu að fyrirtækið hafi hagnast á síðasta ári um 2,7 millj­arða ís­lenskra króna fyr­ir skatta, þó svo að laxaslátrun hafi ein­ung­is haf­ist hjá fyr­ir­tæk­inu á fyrsta fjórðungi síðasta árs. Hagnaðartal­an er feng­in með svo­kallaðri „Fair Value“-út­reikniaðferð, en þar er líf­mass­inn í kví­um fyr­ir­tæk­is­ins met­inn á markaðsvirði. Þetta er í sam­ræmi við alþjóðlega reikn­ings­skil­astaðla, IFRS, og kem­ur fram í upp­gjöri norska eld­is­fyr­ir­tæk­is­ins Salm­ar AS, sem er hlut­hafi í Arn­ar­laxi og skráð í kaup­höll­inni í Ósló.

Spurður að því hvort grein­in sé kom­in á beinu braut­ina, eins og í Fær­eyj­um og Nor­egi til dæm­is, seg­ist Kjart­an vilja fara var­lega í slík­ar full­yrðing­ar. „Grein­in hef­ur átt erfitt upp­drátt­ar. Í Fær­eyj­um tóku menn tvær kollsteyp­ur áður en þeir komust á beinu braut­ina. Það eina sem ég get sagt er að síðasta ár var mjög hag­fellt hjá okk­ur, aðstæður á mörkuðum voru góðar, verð á laxi er hátt, og það er fátt sem bend­ir til ann­ars en að það muni hald­ast þannig.“

Búum að traustri grunngerð

Kjart­an seg­ir að Íslend­ing­ar búi að traustri grunn­gerð í fisk­in­um, sölu­ferl­ar, dreifi­leiðir, starfs­fólk og annað sé til staðar. „Það er þó margt óunnið í upp­bygg­ingu grein­ar­inn­ar og í þessu sam­tali við sveit­ar­fé­lög og sam­fé­lagið. Það eru áskor­an­ir eins og laxal­ús­in og gena­blönd­un ef fisk­ar sleppa úr kví­um. Núna fyrst eru að verða til tekj­ur til skipt­anna úr rekstr­in­um til að nota til að byggja upp ytra um­hverfið, eins og gott eft­ir­lit og aðhald, og ná sátt um grein­ina“, segir Kjartan Ólafsson í samtali við ViðskiptaMoggann.

Arctic Fish fær nýjan vinnubát

Í vikunni kom til Íslands nýr vinnubátur fyrir Arctic Fish.  Báturinn er smíðaður í Póllandi og er 16 metra langur og 9 metra breið tvíbytna.  Hann hefur fengið nafnið Hafnarnes og verður með heimahöfn á Þingeyri.  Hafnarnes er afar vel búinn vinnubátur og er koma hans til marks um þá fagmennsku sem einkennir uppbyggingu fiskeldisins á Íslandi.  Þátttaka erlendra fiskeldisfyrirtækja í uppbyggingunni hér á landi leiðir til þess að fyrirtækin á Íslandi fá æ betri búnað og verkfæri og eykur það á öryggi í kringum eldið, bæði fyrir fiska og menn.

Meðfylgjandi myndir voru teknar af Hafnarnesinu í Reykjavíkurhöfn í dag.  LF óskar eigendum og starfsmönnum Arctic Fish til hamingju með nýja bátinn og vona að hann reynist happafley hið mesta.

Hafnarnes2Hafnarnes1

Það styttist í ráðstefnu Strandbúnaðar 2017 – Takið frá 13. og 14. mars!

Strandbúnaðarráðstefnan fer fram á Grand Hótel í Reykjavík 13.-14. mars nk.  Þar verða  fjölmörg fróðleg erindi í nokkrum málstofum þar sem til umfjöllunar verða fiskeldismál, kræklingarækt, þörungavinnsla og menntunarmál þessa atvinnugeira.  Allir sem áhuga hafa á uppbyggingunni við strendur landsins ættu ekki að láta þennan viðburð framhjá sér fara.

Dagskrá ráðstefnunnar er að finna á heimasíðu Strandbúnaðar.

Framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva

Landssamband fiskeldisstöðva auglýsir eftir framkvæmdastjóra.

Helstu viðfangsefni og ábyrgð:
Ábyrgð og rekstur samtakanna.
Ráðgjöf og samskipti við félagsmenn.
Samskipti við stjórnsýslu.
Úrvinnsla, framsetning gagna og öflun upplýsinga.

Menntunar og hæfniskröfur:
Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
Þekking á atvinnulífi.
Sjálfstæði í hugsun og vinnubrögðum.
Góð hæfni í mannlegum samskiptum.
Frumkvæði og metnaður í starfi.
Skipulagshæfileikar og öguð vinnubrögð.
Gott vald á íslensku í ræðu og riti og önnur tungumálakunnátta.
Reynsla og þekking af áætlanagerð og eftirfylgni.

Umsóknarfestur er til og með 28. febrúar 2017.
Umsóknum sé skilað, ásamt ferilskrá og kynningarbréfi á skrifstofu Landssambands fiskeldisstöðva, eða í tölvupósti á netföngunum: ekg@ekg.is eða hoskuldur@lf.is

Landssamband fiskeldisstöðva

Norðmenn gefa út ný laxeldisleyfi og stefna að aukinni framleiðslu

Norðmenn gefa út ný laxeldisleyfi og stefna að aukinni framleiðslu

Það er rangt sem stundum er haldið fram að útgáfa nýrra leyfa til laxeldis hafi verið bönnuð eða stöðvuð í Noregi. Laxeldi í Noregi, sem fer að lang mestu leyti fram í sjókvíum hefur vaxið mikið undanfarin ár. Jókst til dæmis um 4,5% frá árinu 2014 til 2015 og er nú um 1,3 milljónir tonna. Gefin eru út ný leyfi í Noregi, aukin framleiðsla leyfð í núverandi kvíum og sérstök leyfi veitt, svo kölluð græn leyfi og tilraunaleyfi.

Norðmenn ætla að auka fiskeldi og gefa út margvísleg leyfi
Norsk stjórnvöld hafa sett fram skýr markmið um aukna laxeldisframleiðslu í sjókvíum á komandi árum. Unnið er að setningu nýrrar reglugerðar þar sem markmiðið er að auka laxeldi um 5% annað hvert ár. Í nýlegri skýrslu um framtíðarstefnumótun atvinnugreinarinnar er markið sett á framleiðslu allt að 5 milljóna tonna af laxi.

Margs konar leyfi gefin út
Leyfi sem út hafa verið gefin í Noregi síðustu árin hafa verið af ýmsum toga. Í fyrsta lagi má nefna ný leyfi á nýjum stöðum. Í annan stað leyfi til þess að auka framleiðslumagn í kvíum sem fyrir eru. Í þriðja lagi hafa verið gefin út tilraunaleyfi og græn leyfi. Þau leyfi geta verið af ýmsum toga. Um getur verið að ræða leyfi til laxeldis í lokuðum sjókvíum, sem einkum er ætlað að draga úr skaðsemi laxalúsar á framleiðsluna. Einnig hafa verið gefin út leyfi vegna tilraunaeldis á geldfiski. Þessi vinna er enn á tilrauna og þróunarstigi, en við hana eru þó bundnar vonir. Og svo má nefna að rannsóknarstofnanir og skólar hafa fengið sérstök leyfi, sem meðal annars standa undir rekstrarkostnaði þeirra.

Af þessu má sjá að mikil þróunarvinna á sér stað innan laxeldisins í Noregi í góðri samvinnu við þarlend stjórnvöld. Þetta er liður í því að auka laxaframleiðsluna.

Hið sama uppi á teningnum á Íslandi
Hið sama hefur gerst hér á landi. Eldisframleiðslan hefur aukist mjög undanfarin ár, undir ströngu eftirliti stjórnvalda og samkvæmt reglum og stöðlum eins og best þekkjast. Fiskeldisfyrirtækin hafa greitt verulegar upphæðir í Umhverfissjóð sem settur var á laggirnar samkvæmt lögum frá Alþingi og veitti sjóðurinn  um 80 milljónum til rannsókna og þróunarverkefna í fyrra og hitteðfyrra.

ATHUGASEMDIR VIÐ RANGÆRSLUR

ATHUGASEMDIR VIÐ RANGÆRSLUR

Í ályktun sem Landssamband veiðifélaga (LV) samþykkti í gær (Grænir heima en ekki hér), þriðjudaginn 7. febrúar, og sagt er frá í fjölmiðlum í dag, gætir margvíslegra rangfærslna og eftir atvikum misskilnings sem undirritaður, f.h. Arctic Sea Farm hf., telur nauðsynlegt að gera athugasendir við og leiðrétta:

Í ályktun LV er fullyrt að í matsáætlun Arctic Sea Farm vegna umsóknar um eldi í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði óski fyrirtækið leyfis til notkunar á norskum laxastofni. Staðreyndin er sú að hingað til lands hafa ekki verið flutt seyði til laxeldis í meira en 30 ár. Laxeldisfyrirtækin nota eingöngu seiði af SAGA-stofni frá íslenska hrogna- og kynbótafyrirtækinu Stofnfiski hf. sem notuð hafa verið á Íslandi áratugum saman þótt uppruni seiðanna sé upphaflega norskur.

Skilja má á ályktun LV að meginstarfsemi Norway Royal Salmon (NRS) felist í eldi á ófrjóum laxi í Noregi. Það er alrangt. Vissulega er NRS leiðandi aðili á þessu sviði í Noregi. Hér er þó enn sem komið er aðeins um tilraunaverkefni að ræða sem NRS hefur metnað til að kanna til hlítar, einnig hér á landi í verkefni sem nú er í burðarliðnum á vegum Arctic Sea Farm, NRS og fleiri aðila. NRS fékk úthlutað grænum eldisleyfum (green license) í Noregi og var framleiðsla fyrirtækisins á ófrjóum laxi innan við 1% af heildarframleiðslu fyrirtæksins í fyrra. Í norsku laxeldi nam framleiðslan á síðasta ári af ófrjóum laxi innan við 0,2 prósentum. Að notkun geldstofna ryðji sér nú mjög til rúms í Noregi eins og fullyrt er í ályktun LV virðist því einungis ætlað að afvegaleiða umræðuna.

Þekking NRS mikill akkur fyrir íslenskt eldi
Það var mikil viðurkenning fyrir Arctic Fish að fá til liðs við sig fyrirtæki á borð við Norway Royal Salmon sem hefur hvað mesta reynslu af laxeldi í Noregi og þá sérstaklega á norðlægum slóðum í sambærilegu umhverfi og á Íslandi. Arctic Fish hefur byggt upp mikilvæga atvinnugrein á Vestfjörðum og á og rekur sjóeldisfyrirtækið Arctic Sea Farm, seiðaeldið Arctic Smolt og eldisvinnslufélagið Arctic Odda. Arctic Sea Farm er handhafi vottunar samkvæmt hinum virta umhverfisstaðli eldisafurða ASC (Aquaculture Stewardship Council) sem er hliðstæð staðli MSC, þekktasta og virtasta umhverfisstaðli heims á sviði sjávarafurða.

Við lítum svo á að með NRS sem kjölfestueiganda að Arctic Sea Farm verði unnt að standa eins vel að verki og nokkur kostur er fyrir uppbyggingu atvinnugreinarinnar í heild hér við land enda er dýrmæt sérfræðiþekking stjórnenda NRS óumdeild á alþjóðavísu. Með aðstoð NRS byggist upp enn frekari þekking á því hvernig best er að byggja upp sjálfbæra atvinnugrein í sátt við samfélag og umhverfi.

Ísafirði 8. febrúar 2017.

F.h. Arctic Fish,

Sigurður Pétursson,
framkvæmdastjóri Arctic Sea Farm

Síða 20 af 25« Fyrsta...10...1819202122...Síðasta »