Burðarþol Önundarfjarðar 2.500 tonn

Burðarþol Önundarfjarðar 2.500 tonn

Hafrannsóknastofnun telur að hægt sé að leyfa allt að 2.500 tonna fiskeldi í Önundarfirði. Þetta er niðurstaðan af burðarþolsmati stofnunarinnar. Í þessu mati er gert ráð fyrir að heildarlífmassi í firðinum verði aldrei meiri en 2.500 tonn og að vöktun á áhrifum eldisins fari fram.
Hvað er burðarþol?
Með breyttum lögum um fiskeldi frá árinu 2014 er mat á burðarþoli svæða skilgreint sem mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.
Fjörðurinn er fremur grunnur
Í burðarþolsmatinu varðandi Önundarfjörð kemur fram að fjörðurinn er fremur grunnur og meðaldýpið um 18 metrar. Mesta dýpi er 32 metrar í mynni fjarðarins. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um Önundarfjörð segir ma: „Niðurstöður straummælinga sýna tiltölulega veikan meðalstraum (1. og 3. mynd) vegna mikils breytileika í straumstefnu á straumsjár mælistöðvum og frekar óreglulega hringrás í firðinum. Ljóst er að vindur hefur mikil áhrif á strauma fjarðarins vegna þess hve grunnur hann er og fylgir útflæði sunnanvert oft sterkum norðaustan vindáttum (4. og 5. mynd). Miðað við meðaltal af straumi vatnssúlunnar má ætla að endurnýjunartími fjarðarins sé um 10 til 11 sólarhringar.“
Byggt á varúðarnálgun
Vegna aðstæðna í firðinum, gefur varúðarnálgun ástæðu til þess að mæla með því að hámarks lífmassi verði ekki meiri en 2.500 tonn í Önundarfirði, segir í áliti Hafrannsóknastofnunarinnar.

Sjá nánar á heimasíðu Hafrannsóknastofnunarinnar: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/mat-a-burdartholi-onundarfjardar-mtt-sjokviaeldis

17,5 milljarðar máltíða árlega úr laxeldi í heiminum

17,5 milljarðar máltíða árlega úr laxeldi í heiminum

Laxeldisframleiðslan í heiminum er nú um 2,5 milljónir tonna sem svarar til 17,5 milljarða máltíða. Laxeldið skapar um 132 til 133 þúsund bein störf í sjávarbyggðum. Er þetta aukning um 3 milljarða máltíða og 12 þúsund starfa á þremur árum. Velta laxeldisfyrirtækja i heiminum er um 15,4 milljarðar bandaríkjadala, eða um 1.600 milljarðar króna og hefur aukist um 500 milljarða króna á þremur árum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðasamtaka fiskeldisstöðva, ISFA.
Skilur eftir sig lágmarks kolefnisfótspor
„Það er hafið yfir allan vafa að laxeldisframleiðslan verður æ mikilvægari“, segir Trond Davidsen frá Noregi, sem er formaður samtakanna. Vekur hann athygli á að þessi aukning eigi sér stað á sama tíma og bent er á að úr sjónum verðum við að sækja mikilvægan hlut fæðuframleiðsliunnar í heiminum. „Framleiðsla á laxi skilur eftir sig lágmarks kolefnisfótspor“, segir hann enn fremur.
„Hvort sem þú borðar sushi, grillaðan lax eða reyktan…“
Í skýrslunni kemur fram að við nýtum lítinn hluta hafsins ( 0.00008%) hafsins til þess að framleiða þessar 17,5 milljarða máltíðir. Auk þeirra 132 þúsund beinu starfa hafi orðið til mikill fjöldi óbeinna atvinnutækifæra.
„Hvort sem þú borðar sushi, grillaðan lax eða reyktan, þá er líklegt að hann hafi verið alin á vegum aðildarfyrirtækja ISFA, segir Trond Davidsen.
500 milljarða verðmætisaukning á þremur árum
Skýrsla ISFA er sú þriðja í röðinni á jafn mörgum árum. Í fyrstu skýrslunni sem út kom árið 2015 kom fram að heimsframleiðslan á laxi svaraði til 14,8 milljarða máltíða að verðmæti 10 milljarða bandaríkjadala, sem eru rúmlega eitt þúsund milljarðar króna. Aukningin á þessum þremur árum er því nálægt 50 prósentum, eða um 500 milljarðar króna.

„Náttúran sér um sig“

„Náttúran sér um sig“

Jón Örn Pálsson: „Norskur villtur lax hefur veiðst hér við land á makrílveiðum inni í fjörðum og flóum. Það er alveg klárt að hann hafi leitað í íslenskar ár til að hrygna. En erfðaefni frá þeim stofni hefur ekki skaðað íslenska laxinn. Þannig að náttúran sér um sig,“

„Þó Norðmenn séu að ala 1,3 milljónir eldislaxa á ári, þá er villti laxastofninn þeirra sá sterkasti í Evrópu. Auðvitað hafa menn áhyggjur af erfðablöndun og áhrifum þess en sem betur fer höfum við lært af mistökum annarra og við höfum tekið upp til dæmis að vakta árnar með því að skoða erfðaefni villta laxins. En það er staðreynd að það tekur áratugi fyrir erfðabreytingu að skaða stofna og það hefur sýnt sig að þessi erfðabreyting gengur til baka.“
Þetta kemur fram í máli Jóns Arnar Pálssonar, ráðgjafa hjá fiskeldisfyrirtækinu Akvafuture í viðtali við Fréttablaðið, frettabladid.is í dag. Jón hefur langa reynslu af fiskeldi og er sjávarútvegsfræðingur að mennt.
Jón Örn segir að ekki hafi mælst marktæk neikvæð áhrif af erfðablöndun eldislaxa við villta laxa hingað til.
Höfum lært af mistökum annarra
Jón Örn segir að Norðmenn hafi stundað mælingar frá áttunda áratugi síðustu aldar og hafi yfir fjörutíu ára reynslu af því að eldislax sleppur úr fiskeldi.
„Það hafa fundist áhrif á erfðamengi fiskanna en þau hafa ekki haft þau áhrif að villti laxastofninn hnigni. Það má nefna að það hafa villtir laxastofnar í nokkrum ám í Noregi þurrkast alveg út vegna sníkjudýra og út af súru regni en eldisstofnar hafa sest þar að síðar meir og þeir stofnar una sér vel í þeim ám í dag,“ segir Jón Örn.
Jón Örn segir að menn hafi lært af mistökum annarra í þessum geira, þvert á það sem hafi komið fram í umræðunni.
„Þó Norðmenn séu að ala 1,3 milljónir eldislaxa á ári, þá er villti laxastofninn þeirra sá sterkasti í Evrópu. Auðvitað hafa menn áhyggjur af erfðablöndun og áhrifum þess en sem betur fer höfum við lært af mistökum annarra og við höfum tekið upp til dæmis að vakta árnar með því að skoða erfðaefni villta laxins. En það er staðreynd að það tekur áratugi fyrir erfðabreytingu að skaða stofna og það hefur sýnt sig að þessi erfðabreyting gengur til baka.“
Dæmið af hafbeitarlaxinum
Gott dæmi um þetta sé hafbeitarlaxinn sem sleppt hafi verið víða hér við land á sínum tíma.
„Sá lax er grimmari við að fjölga sér og sækja upp í árnar heldur en eldislax. En það sýnir sig hversu erfitt það er fyrir nýtt erfðaefni að ná fótfestu, að hann náði ekki fótfestu hér við land. Umhverfi á Íslandi er harðbýlt fyrir laxinn, miklar sveiflur og langir vetur og eldislaxinn á erfitt uppdráttar að lifa af í ánum í þrjú til fjögur ár áður en hann fer til sjávar. Það er vert að það komi fram að norskur villtur lax hefur veiðst hér við land á makrílveiðum inni í fjörðum og flóum. Það er alveg klárt að hann hafi leitað í íslenskar ár til að hrygna. En erfðaefni frá þeim stofni hefur ekki skaðað íslenska laxinn. Þannig að náttúran sér um sig,“ segir Jón Örn að lokum.

Vöxtur og verðmæti

Vöxtur og verðmæti

Utanríkisráðherra hafði orð á því í ræðustól Alþingis fyrir nokkrum vikum að til þess að viðhalda óbreyttum vexti í hagkerfinu þyrftu Íslendingar að auka verðmæti útflutnings í næstu framtíð um einn milljarð á viku. Það þarf nokkuð til en það vantar ekkert á að menn vilji svara kallinu.

Guðjón S. Brjánsson alþingismaður:: Þau fyrirtæki sem koma að laxeldi kalla eftir skýrri löggjöf, regluverki og alvöru eftirliti

Á dögunum heimsótti ég Vestfirði eins og oft áður. Lífið er þar gott og ánægjulegt að hitta mann og annan. Þó er vel merkjanlegur sá andi meðal íbúanna fyrir vestan, að staða þeirra og varnarbarátta sé ekki metin af sanngirni eða af skilningi. Í sögulegu samhengi hafa Vestfirðingar verið veitendur, verið sjálfbjarga, vilja það og geta.

Ný atvinnugrein er á hraðri uppleið á suðurfjörðum Vestfjarða. Laxeldi er nú í fjórum fjörðum allt norður í Dýrafjörð. Í Ísafjarðardjúpi stendur hnífurinn hins vegar í kúnni. Hælarnir eru settir niður. Búin eru til skyndimódel og líkön sem torvelda markmið heimamanna um að hefja hæga og markvissa uppbyggingu. Hún er þó reyndar löngu hafin, því gamalgróið útgerðarfyrirtæki hefur um árabil stundað fiskeldi á þessu svæði. Það eru umdeild, veik og óásættanleg rök sem tefja viðleitni til uppbyggingar á svæðinu.

Þau fyrirtæki sem koma að laxeldi kalla eftir skýrri löggjöf, regluverki og alvöru eftirliti en á það skortir verulega eins og dæmi sýna. Enn er líka á reiki hvernig gjaldtöku verður háttað af sameiginlegri strandsjávarauðlind. Þarna eru stjórnvöld með buxurnar á hælunum og á meðan fá hindurvitni, stóryrði og rangfærslur að óma um allt samfélagið.

Útflutningsverðmæti afurða laxeldisfyrirtækja á Vestfjörðum nálgast 10 milljarða á þessu ári. Til samanburðar námu heildarverðmæti á útfluttu, hefðbundnu sjávarfangi um 110 milljörðum árið 2017. Þessi atvinnuvegur skiptir því máli. Það skiptir miklu að við sköpum trausta umgjörð um greinina, umgjörð sem byggir á fagmennsku, vísindum, óyggjandi rannsóknum, varfærni og sanngirni gagnvart fólki í byggðarlögunum. Þarna hafa stjórnvöld hlutverki að gegna og þau þurfa að taka sig á.

Guðjón S. Brjánsson alþingismaður

Deila

Leitin að landnámslaxinum

Leitin að landnámslaxinum

Það voru mannanna verk, m.a. með sleppingum utanaðkomandi seiða, sem urðu þess valdandi að lax tók að veiðast í áðurnefndum ám í Ísafjarðardjúpi svo og öðrum á þessum slóðum. Um árabil var miklum fjölda seiða frá hinum ýmsu stöðum á landinu sleppt í árnar.

Þrátt fyrir þessar ólíku tegundir er ekki að sjá, ef marka má vísindamenn, að það hafi haft nein áhrif á erfðamengi „landnámslaxsins“ í Djúpinu.

Því er ekki skrýtið að leikmaður velti fyrir sér hvort hinn náttúrulegi stofn í Ísafjarðardjúpi sé svo sterkur að allur sá utanaðkomandi lax sem sannarlega hefur verið sleppt í ár þar og í hafbeit hafi engin áhrif haft. Sé svo, er þá einhver ástæða til þess að óttast að fiskeldi með ströngustu varúðarráðstöfnum sem þekkjast geti haft þar neikvæð áhrif?

Þetta kemur fram í grein sem Halldór Jónsson, fjármálastjóri á Akranesi skrifar í Morrgunblaðið, 25. maí sl. Greinin í heild fer hér á eftir

Halldór Jónsson: “ Því er ekki skrýtið að leikmaður velti fyrir sér hvort hinn náttúrulegi stofn í Ísafjarðardjúpi sé svo sterkur að allur sá utanaðkomandi lax sem sannarlega hefur verið sleppt í ár þar og í hafbeit hafi engin áhrif haft. Sé svo, er þá einhver ástæða til þess að óttast að fiskeldi með ströngustu varúðarráðstöfnum sem þekkjast geti haft þar neikvæð áhrif?“

Leitin að landnámslaxinum

Flestum, sem komnir eru til vits og ára, og alist hafa upp við Ísafjarðardjúp þykir firn mikil þær fréttir að laxar þeir er ganga í ár í Ísafjarðardjúpi séu nú svo verðmætir að velferð þeirra og erfðamengi ráði nú hvort mannlíf við Djúp fái að þróast í takt við eðlilegt sambýli manns og náttúru líkt og verið hefur þar frá því að hinir frægu elstu menn muna. Að um sé að ræða landnámsstofn voru slík tíðindi að kunnuga setti hljóða. Slíkur arfhreinleiki er með nokkrum ólíkindum. Umræðuhefðin er orðin slík að smáatriðin eru orðin aðalatriði og rangfærslurnar að sannleika. Rétt er því að rekja nokkuð sögu laxveiða og „hreinleika“ stofna.

Lýsing Ferðafélagsins
Í gegnum aldirnar hafabæði hámenntaðir vísindamenn og aðrir farið um landið og skrásett landkosti. Ekki úr vegi að rekja skrif sumra þeirra í stuttu máli.
Jóhann Hjaltason skólastjóri skrifaði lýsingu á Norður-Ísafjarðarsýslu í árbók Ferðafélags Íslands árið 1949. Um Laugardalsá skrifar hann: „Áin er því lygn með miklum botngróðri og veiðisælt silungsvatn, en lax hefur þar eigi verið svo menn viti, fremur en í öðrum ám Vestfjarða, fram til síðustu ára, að laxaseiði hafa verið látin í ána til uppvaxtar. “ Svo mörg voru þau orð. Engum orðum fer hann frekar um laxveiði í Ísafjarðardjúpi.

Frumkvöðullinn Bjarni Sæmundsson
Í bók Bjarna Sæmundssonar fiskifræðings Fiskarnir, sem kom út árið 1926 rekur hann nokkuð nákvæmlega hvar lax veiðist á Íslandi. Er kemur að Vestfjörðum í hans upptalningu stendur: „en á öllu svæðinu þaðan kringum Vestfjarðakjálkann, að Hrútafirði, verður varla vart við lax, eða menn greina hann þar tæplega frá sjóurriða.“

Varla ljúga Sóknarlýsingarnar
Í sóknarlýsingum Vestfjarða sem ritaðar voru á árunum 1839-1854 að tillögu Jónasar skálds Hallgrímssonar er nokkuð nákvæm lýsing á hlunnindum jarða í hverri sókn í Ísafjarðardjúpi. Er þar nokkrum sinnum nefnd silungsveiði en aldrei er laxveiði nefnd á nafn.

Lýsing Íslands
Í undirstöðuritinu Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen sem gefin var út árið 1881 skrifar hann: „Laxinn (Salmo salar) gengur upp í mjög margar ár bæði sunnan lands og norðan, en miklir hlutar landsins eru þó laxlausir, t.d. Vestfirðir allir milli Gilsfjarðar og Bitru, suðurströndin öll fyrir austan Þjórsá og Austfirðir norður að Héraðsflóa.“

Félagarnir Eggert og Bjarni
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru rannsóknarferðir um Ísland á árunum 1752-1757 og skildu eftir sig handrit að ferðabók er síðar út. Í henni kemur fram að hvergi veiðist lax í ám á Vestfjörðum en í nokkrum veiðist það sem þá var kallaður laxbróðir, öðru nafni sjóbirtingur. Engin þeirra áa er í Ísafjarðardjúpi. Að auki segja þeir silung veiðast víða.

Jarðabókin góða
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Ísafjarðar- og Strandasýslu, sem rituð var 1710 er nákvæm lýsing á mannlífi og staðháttum, svo mörgum þótti nóg um. Þar stendur um Laugadalsá: „Silúngsveiði lítil í Laugadalsá, þykir nú fara til rýrðar og valla með hlunnindum teljandi.“ Eðlilega er ekki minnst á laxveiði í ánni enda áttu eftir að líða tvær og hálf öld þar til hún var gerð laxgeng. Um Langadalsá segir: „Silúngsveiði gagnvæn hefur verið í Lángadalsá, en hefur nú brugðist í nokkur ár að mestu aldeilis.“ Lax ekki nefndur á nafn hér frekar en annars staðar í umfjöllun þeirra um Ísafjarðarsýslu.
Það er á grundvelli þessarar sögu sem vísindaleg ákvörðun var tekin árið 2004 að leyfa laxeldi á Vestfjörðum þegar stærstum hluta strandlengju landsins var lokað.

Frá Ísafjarðardjúpi: „Af þessum örfáum dæmum sést að laxveiðar við Ísafjarðardjúp hafa ekki verið stundaðar lengi í sögulegu samhengi. Þvert á móti. Þær hófust ekki að neinu marki fyrr en örfáir menn fóru að fikta við laxarækt rétt fyrir miðja síðustu öld. „

Laxeldi í Ísafjarðardjúpi á „gömlum merg“
Af þessum örfáum dæmum sést að laxveiðar við Ísafjarðardjúp hafa ekki verið stundaðar lengi í sögulegu samhengi. Þvert á móti. Þær hófust ekki að neinu marki fyrr en örfáir menn fóru að fikta við laxarækt rétt fyrir miðja síðustu öld. Í Langadalsá, sem er stærst þeirra áa í Djúpinu sem eru laxgengar frá náttúrunnar hendi, veiddust í fyrsta skipti 100 laxar eftir 1960. Veiði úr henni hefur ávallt verið mjög sveiflukennd og frá 1950 til 2013 var meðalveiðin aðeins 174 laxar.
Árið 1936 hófust tilraunir til þess að sprengja fiskistiga í Laugardalsá. Þær báru lítinn sem engan árangur fyrr en árið 1969 er steyptur var laxastigi í ána. Eftir það fóru laxveiðar í Laugardalsá vaxandi. Um leið og ræktun í ám í Ísafjarðardjúpi skilaði sér skiluðu árnar sér í hlunnindamat. Má þar nefna Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi eftir Lárus Ágúst Gíslason sem gefin var út árið 1982 þó skráning þar sé nokkuð ónákvæm.

Sleppingar og stórfelld hafbeit
Eins og áður sagði voru það mannanna verk, m.a. með sleppingum utanaðkomandi seiða, sem urðu þess valdandi að lax tók að veiðast í áðurnefndum ám svo og öðrum á þessum slóðum. Um árabil var miklum fjölda seiða frá hinum ýmsu stöðum á landinu sleppt í árnar. Voru gerðar talsverðar tilraunir við þessar sleppingar og fóru fram talsverðar rannsóknir á því hvar best væri að sleppa fiskinum. Var honum meðal annars sleppt utarlega í Ísafjarðardjúpi en niðurstöður rannsókna voru á þann veg að sá fiskur skilaði sér síst í árnar aftur. Það er athyglisverð staðreynd með hliðsjón af umræðum að undanförnu. Fjöldi þessara fiska er sleppt hefur verið telst í hundruðum þúsunda og frá ýmsum stöðum á landinu og þar af leiðandi með hinum ýmsu erfðamengjum.
Þrátt fyrir þessar ólíku tegundir er ekki að sjá, ef marka má vísindamenn, að það hafi haft nein áhrif á erfðamengi „landnámslaxsins“ í Djúpinu.
Í umræðum undanfarið hefur lítt eða ekki verið getið um umtalsvert seiðaeldi og hafbeit sem stunduð var frá áttunda til tíunda áratugs síðustu aldar í Ísafjarðardjúpi. Seiði í eldi voru af ýmsum stöðum á landinu og voru seld víða um land og einnig til Noregs um tíma. Þá hófst einnig umtalsverð hafbeit eins og áður sagði. Endurheimtur til stöðvanna voru minni en vonast hafði verið til en laxagengd á Vestfjörðum öllum jókst mjög á þessum árum. Mátti víða veiða lax í ám þar sem hans hafði ekki orðið vart áður. Af laxveiðiám má nefna að veiði í Hvannadalsá fór í 304 fiska árið 1991. Þrátt fyrir þessa miklu laxagengd „óhreinna“ eldislaxa sjást þess engin merki í erfðamengi laxastofnsins í Ísafjarðardjúpi í dag, ef marka má vísindamenn.

Er genamengið óbreytanlegt?
Því er ekki skrýtið að leikmaður velti fyrir sér hvort hinn náttúrulegi stofn í Ísafjarðardjúpi sé svo sterkur að allur sá utanaðkomandi lax sem sannarlega hefur verið sleppt í ár þar og í hafbeit hafi engin áhrif haft. Sé svo, er þá einhver ástæða til þess að óttast að fiskeldi með ströngustu varúðarráðstöfnum sem þekkjast geti haft þar neikvæð áhrif?

Halldór Jónsson
Höfundur er fjármálastjóri búsettur á Akranesi.

Umtalsverð búbót í íslensku atvinnulífi

Umtalsverð búbót í íslensku atvinnulífi

Fiskeldisútflutningur nemur núna um 7 prósentum af útflutningsverðmæti sjávarútvegsins. Verðmæti hans var í fyrra lítið eitt minna en samanlagt útflutningsverðmæti síldar og kolmunna. Útflutningsverðmæti í fiskeldi gæti orðið, innan ekki svo margra ára, svipað og jafnvel meira en af þorski, okkar lang mikilvægasta fiskistofns.

Þetta kemur fram í grein eftir Einar K. Guðfinnsson formann Landssambands fiskeldisstöðva í Viðskiptablaðinu 17 mai sl. Greinin birtist hér í heild sinni:

Fiskeldi á Íslandi er þegar orðið umtalsverð búbót í íslensku atvinnulífi. Þó greinin sé enn á fyrstu árum framleiðslu sinnar, hvað laxinn áhrærir, þá munar greinilega um útflutningsverðmætið. Í ársskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur fram að fiskeldisútflutningur nemur núna um 7 prósentum af útflutningsverðmæti sjávarútvegsins. Verðmæti fiskeldisútflutningsins var í fyrra lítið eitt minna en samanlagt.útflutningsverðmæti síldar og kolmunna.

Ætla má að útflutningsverðmæti 71 þúsund tonna af laxi, sem rúmast innan áhættumats Hafrannsóknastofnunarinnar, sé á núgildandi markaðsvirði um 60 milljarðar króna

Ábyrgð og gætni
Fiskeldismenn hafa ætíð lagt áherslu á ábyrgð og gætni í uppbyggingu fiskeldis. Hvatt hefur verið til þess að fylgt sé ströngustu lögum, stöðlum og reglum. Stórum hluta landsins hefur verið lokað fyrir fiskeldi í varúðarskyni frá árinu 2004. Hafrannsóknastofnun hefur bent á, að gagnstætt því sem er til að mynda Noregi og Skotlandi, séu eldissvæðin hér á landi í mikilli fjarlægð frá helstu laxveiðiám og eldi bannað á stórum hluta strandlengjunnar. Fyrir vikið leiðir áhættumat stofnunnarinnar til þeirrar niðurstöðu að lítil innblöndun eldisfiska verði í öllum helstu laxveiðiám landsins.

Laxeldisverðmætið álíka og í þorskútflutningi?
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir: „Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar“.
Þetta eru orð að sönnu og við getum áttað okkur vel á með því að skoða möguleikana í samhengi við þekktar stærðir. Ætla má að útflutningsverðmæti 71 þúsund tonna af laxi, sem rúmast innan áhættumats Hafrannsóknastofnunarinnar, sé á núgildandi markaðsvirði um 60 milljarðar króna. Stofnunin telur að þeir firðir sem metnir hafa verið geti borið um 130 þúsund tonna eldi. Útflutningsverðmæti þess gæti numið, miðað við þau verð sem nú fást fyrir laxinn á alþjóðamörkuðum, vel ríflega 100 milljörðum króna.
Skoðum þetta í samhengi við sjávarútveginn. Útflutningsverðmæti alls uppsjávarfisks á Íslandi, síldar, loðnu, kolmunna og makríls, nam 44,5 milljörðum króna árið 2017. Það er 15 milljörðum lægra útflutningsverðmæti en ætla má að fengist fyrir 71 þúsund tonna ársframleiðslu á laxi miðað við núgildandi markaðsverð. Útflutningsverðmæti á þorski var 83 milljarðar í fyrra og hafði lækkað um 17 prósent frá fyrra ári, meðal annars vegna lægra verðs, sjómannaverkfalls, sterkara gengis og fleiri þátta.
Með öðrum orðum. Það sýnist raunhæft að útflutningsverðmæti í fiskeldi gæti orðið, innan ekki svo margra ára, svipað og jafnvel meira en af þorski, okkar lang mikilvægasta fiskistofns, séu núverandi markaðsaðstæður lagðar til grundvallar.

Einar K. Guðfinnsson

Dæmisaga frá Vestfjörðum
Sem dæmi um þýðingu laxeldisins á einstökum svæðum má nefna, að útflutningsverðmæti lax frá Vestfjörðum var í fyrra álíka og frá þorskafurðum og fyrirsjáanlegt að það verður meira þegar á þessu ári. Þetta er athyglisvert í ljósi þess hve sjávarútvegur hefur verið algjörlega ráðandi í verðmætasköpun í atvinnulífi á Vestfjörðum og þá þorskveiðar og vinnsla alveg sérstaklega. Oft er sagt – og það með réttu – að Vestfirðir séu þorskveiði og -vinnslu samfélag. Með uppbyggingu fiskeldisins, má segja að smám saman sé að verða til ný stoð atvinnulífs á Vestfjörðum, sem geti orðið þar jafn gild sjávarútvegi innan fárra ára. Þetta hefði einhverju sinni þótt mikil tíðindi. Og sannarlega eru þetta góð tíðindi.

Mikil tækifæri – en strangar kröfur eru sjálfsagðar
Af öllu þessu má ráða að það felast mikil tækifæri í fiskeldi hér á landi, líkt og svo víða annars staðar. Laxeldi í heiminum nam í fyrra um 2,5 milljónum tonna sem er talið samsvara 17,5 milljörðum máltíða. En til þess að vel takist til þarf bæði gætni og ábyrgð. Ríkar kröfur á að gera til starfseminnar og stjórnenda hennar. Lög og reglur þurfa að vera skýrar og veita aðhald. Opinbert eftirlit þarf að vera bæði strangt og skilvirkt. Gagnsæi á að ríkja um alla upplýsingagjöf. Fiskeldisfyrirtækin eiga að stefna að vottun alþjóðlegra viðurkenndra umhverfisstaðla. Og íslenskt fiskeldi á að að vera í fremstu röð, líkt og íslenskur sjávarútvegur.

Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva.

Hvað þýðir 40 þúsund tonna fiskeldi á Austfjörðum?

Hvað þýðir 40 þúsund tonna fiskeldi á Austfjörðum?

Útflutningsverðmæti 40 þúsund tonna fiskeldis á Austfjörðum gæti farið upp í 37 milljarða  króna og orðið helmingi meira en í loðnu. 900 manns fengju vinnu við eldið og launagreiðslur yrðu um 5,6 milljarðar. 2.250 manns hefðu afkomu sína af þessum atvinnurekstri og útsvarstekjur sveitarfélaganna fyrir austan næmu 770 milljónum króna. Þetta er byggt á útreikningum Byggðastofnunar. Burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar vegna fiskeldis á Austfjörðum er 50 þúsund tonn af laxi.

Ofurkælikerfi við slátrun á laxi á Djúpavogi

Ofurkælikerfi við slátrun á laxi á Djúpavogi

60 manns vinna hjá Búlandstindi og Fiskeldi Austfjarða á Djúpavogi, 460 manna sveitarfélagi. Búlandstindur  sem slátrar og pakkar laxinum fyrir Fiskeldi Austfjarða, hefur tekið í notkun nýtt kerfi, svokallað ofurkælikerfi frá Skaganum 3X, við slátrun á laxi.

Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag. Hér á eftir fer fréttin í heild sinni:

„Þetta gerir okkur kleift að pakka laxinum í kassa við einnar gráðu frost árið um kring. Með því tryggjum við mestu mögulegu gæði og fiskurinn fær 3-5 daga aukageymsluþol,“ segir Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða. Búlandstindur á Djúpavogi sem slátrar og pakkar laxinum fyrir fyrirtækið hefur tekið í notkun nýtt kerfi, svokallað ofurkælikerfi, við slátrun á laxi.

Guðmundur Gíslason: „Þetta gerir okkur kleift að pakka laxinum í kassa við einnar gráðu frost árið um kring. Með því tryggjum við mestu mögulegu gæði og fiskurinn fær 3-5 daga aukageymsluþol,“

Sparar flutningskostnað og umbúðir nýtast betur
Kerfið er hannað af fyrirtækinu Skaginn 3X. Það afkastar allt að 13 tonnum á sólarhring. Ekki þarf að setja nema lítið af ís í kassana til kælingar við útflutning. Það sparar flutningskostnað og umbúðirnar nýtast betur. Þá er það mikilvægt að ofurkælingin lengir geymsluþol fisksins. Guðmundur segir að það komi sér vel vegna þess að Ísland er lengra frá mörkuðum en helstu samkeppnislönd.
Slátra fyrir bæði fyrirtækin
Laxar fiskeldi sem er að byggja upp laxeldi í Reyðarfirði og víðar á Austfjörðum hefur keypt þriðjungshlut í Búlandstindi á móti Fiskeldi Austfjarða og hlutafélagi heimamanna. Búlandstindur mun slátra fyrir bæði fyrirtækin og mun nýja kerfið auðvelda það.
Slátra um 100 tonnum á viku
„Þetta gengur mjög vel. Við erum að slátra um 100 tonnum á viku. Markaðir eru einstaklega góðir, hátt verð og mikil eftirspurn,“ segir Guðmundur.
60 manns í vinnu í 460 manna sveitarfélagi
Fiskeldið hefur mikil áhrif í Djúpavogshreppi. Um 40 starfsmenn eru hjá Búlandstindi og 20 við sjókvíaeldi Fiskeldis Austfjarða þannig að bein störf við eldið eru 60 í um 460 manna sveitarfélagi.
Bæði fiskeldisfyrirtækin eru í stækkunarferli og bíða eftir nýjum leyfum. Fiskeldi Austfjarða hefur leyfi fyrir eldi á 11 þúsund tonnum í Berufirði og Fáskrúðsfirði og hefur sótt um stækkun í báðum fjörðunum og nýtt eldissvæði í Stöðvarfirði.

Útflutningsverðmæti fiskeldis  er 7 prósent útflutningstekna sjávarútvegsins

Útflutningsverðmæti fiskeldis er 7 prósent útflutningstekna sjávarútvegsins

Útflutningsverðmæti eldisfiskjar nam 14 milljörðum í fyrra og samsvarar 7 prósentum af útflutningstekjum í sjávarútvegi. Þorskurinn er verðmætasta tegundin með 83 milljarða útflutningsverðmæti. Þá loðna 18 milljarðar, en í þriðja sæti er fiskeldið með 14 milljarða. Útflutningur héðan á sjávarafurðum til Noregs nam í fyrra um 18,6 milljörðum króna. Lang mestur hluti þess er fiskimjöl og lýsi, sem fer í framleiðslu á fóðri til fiskeldis og sem er meðal annars selt hingað til lands.
Á þessu ári er áætlað að laxeldisframleiðslan  hér á landi geti numið um 15 milljörðum og á næsta ári nálægt 23 milljörðum króna. Er þá ótalin framleiðsla á öðrum tegundum, svo sem bleikju, regnbogasilungi, senegalflúru og hrognkelsaseiðum.

Þetta kemur fram í grein eftir Einar Kristinn Guðfinnsson, formann stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva í Morgunblaðinu í gær laugardag. Hér á eftir fer greinin í heild sinni:

Komið til að vera

„Laxeldi er komið til að vera og er mikilvægur atvinnuvegur fyrir Vest- og Austfirðinga“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra nýlega í blaðaviðtali. Þessi orð ráðherrans eru í samræmi við yfirlýsingar fjölmargra stjórnmálamanna af ólíku pólitísku litrófi að undanförnu og endurspeglar það sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, líkt og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hefur oftsinnis áréttað.
Það er að vonum. Þrátt fyrir að fiskeldið sé enn að stíga fyrstu skrefin í framleiðslu, hefur fjárfesting í greininni þegar numið tugum milljarða króna, skapað störf og útflutningstekjur sem um munar og í rauninni snúið við byggðaþróun á svæðum, sem hafa verið í krappri vörn síðustu áratugina.

Einar K. Guðfinnsson: Við þurfum að auka útflutninginn um 50 milljarða á ári, eða um einn milljarð á viku. Fiskeldið getur orðið mikilvægur hluti af þeirri vegferð.

Fiskeldið í þriðja sæti
Í nýrri ársskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur fram að útflutningsverðmæti eldisfiskjar hér á landi nam á síðasta ári um 14 milljörðum króna. Samsavarar þessi upphæð rúmum 7 prósentum af útflutningstekjum í sjávarútvegi. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að fiskeldið er enn á fyrstu stigum framleiðslunnar og ljóst að á næstu árum mun það aukast með hliðsjón af þegar útgefnum rekstrar og starfsleyfum.
Ef við berum þetta saman við aðrar fisktegundir árið 2017, sjáum við að þorskurinn var eins og áður verðmætasta tegundin og nam útflutnginsverðmætið um 83 milljörðum króna. Þar á eftir kemur loðnan, 18 milljarðar króna. Útflutningsverðmæti fiskeldis kemur síðan þar á eftir með 14 milljarða króna, en þess ber að geta að á bak við það eru lax, bleikja, regnbogasilungur, Senegalflúra, hrognkelsaseiði og fleiri tegundir.
Til viðbótar við útflutningsverðmætið, er umtalsverð sala innanlands, keypt ráðgjöf og þjónusta sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi meta á um tvo til fjóra milljarða.
Getum enn aukið vinnsluvirðið
Því bæta við að útflutningur héðan á sjávarafurðum til Noregs nam í fyrra um 18,6 milljörðum króna. Lang mestur hluti þess er fiskimjöl og lýsi, sem fer í framleiðslu á fóðri til fiskeldis og sem er meðal annars selt hingað til lands. Þarna getum við enn aukið vinnsluvirðið, því með vaxandi fiskeldi mun innlend fóðurframleiðsla aukast og íslensk verðmætasköpun að sama skapi. Ætla má að innan tíðar fari öll fóðurframleiðsla til íslensks fiskeldis fram hér á landi og gæti jafnframt orðið uppspretta útflutnings.
Þurfum að stórauka útflutningsverðmætið
Samtök atvinnulífsins hafa bent á að eigi íslenska efnahagslífið að vaxa áfram á sama hraða og að meðaltali síðustu áratugi, og útflutningsgreinar að halda sínu vægi í verðmætasköpuninni, þurfi útflutningsverðmæti að vaxa um 1.000 milljarða á næstu 20 árum. Það gerir um 50 milljarða á ári eða 1 milljarð á viku. Af þessu leiðir að við þurfum mjög á því að halda að auka útflutningsverðmæti okkar og fjölga stoðum útflutningsins til þess að bæta lífskjörin.
Fiskeldið getur orðið mikilvægur þáttur í þeirri vegferð og hefur allar forsendur til þess. Á þessu ári er áætlað að laxeldisframleiðslan ein og saman hér á landi geti numið um 15 milljörðum og á næsta ári nálægt 23 milljörðum króna. Er þá ótalin framleiðsla á öðrum tegundum, svo sem bleikju, regnbogasilungi, senegalflúru og hrognkelsaseiðum.
Þetta skiptir ekki síst miklu máli núna í ljósi þess að útflutningsverðmæti sjávarútvegs minnkaði á síðasta ári og horfur virðast á að vöxtur ferðaþjónustunnar fari minnkandi.
„Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein“
Það eru því orð að sönnu, að fiskeldi sé komið til að vera líkt og áréttað er með þessum orðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar: „Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar, en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað.“
Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva

Laxaverð í sögulegum hæðum – nálgast nú þúsund krónur á kíló

Laxaverð í sögulegum hæðum – nálgast nú þúsund krónur á kíló

Mikil eftirspurn er nú eftir laxi og laxaafurðum á alþjóðlegum mörkuðum. Verð á laxi er í hæstu hæðum og framboð heldur ekki í við eftirspurn. Á mörkuðum hafa sést sölutölur fyrir lax á allt að 8,29 evrum, sem samsvarar um þúsund krónum á kíló. Verð á laxi hefur verið hátt undanfarin ár, lækkaði þó aðeins undir lok síðasta árs, en það hefur heldur betur snúist við.
Þetta kemur fram í fagtímaritum um fiskeldi,á borð við salmonbusiness.com og ilaks.no.

Þessi mikla hækkun kemur vitaskuld fram í stórauknu verðmæti á útflutningi laxi og laxaafurðum frá Noregi, stærstu fiskeldisþjóð í heimi. Í aprílmánuði einum jókst útflutningur á laxi frá Noregi um fjögur prósent og nam um 74 þúsund tonnum. Verðmætið var hins vegar sem svarar um 66 milljörðum og hafði hækkað um níu prósent.

Til samanburðar var útflutningsverðmæti á þorski frá Íslandi allt árið í fyrra um 83 milljarðar.

Ef litið er til fyrsta ársfjórðungs þessa árs ( janúar til mars) fluttu Norðmenn út um 320 þúsund tonn af laxi, sem er aukning um 16 þúsund tonn frá sama tíma í fyrra. Verðmæti þessa var 2,2 milljarðar evra, eða um 264 milljarðar króna, sem er umtalsvert meira en sem svarar öllum útflutningi á íslenskum sjávarafurðum í heild í fyrra. Að því er fram kemur í ársskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi nam útflutningsverðmæti 197,1 milljarði króna og hafði lækkað um 15 prósent frá árinu á undan, meðal annars vegna lægra verðs, sjómannaverkfalls, sterkara gengis og fleiri þátta

Síða 1 af 2112345...1020...Síðasta »