Senegal Flúra

Senegalflúra er einn verðmætasti matfiskur í heiminum.  Senegalflúran er flutt til landsins sem seiði frá Spáni og alin í landeldisstöð Stolt Sea Farm  á Reykjanesi sem er ein sú stærsta sinnar tegundar  í heiminum.  Er byggingin rúmlega tuttugu þúsund fermetrar að stærð og á eftir að verða enn stærri. Fiskurinn er seldur óunninn úr landi eftir slátrun, mest sjóleiðis en einnig flugleiðis. Markaður fyrir  senegalflúru er jafnt í Ameríku sem Evrópu, mest í Benelux-löndunum.  Senegal-flúran þykir bragðgóð og selst einkum í dýrari veitingahús Evrópu.

 

Ástæðan fyrir staðsetningu eldisstöðvarinnar á Reykjanesi er aðgangur þar að hreinum og góðum jarðsjó. Á grundvelli samnings við HS Orku fær stöðin aðgang að volgu kælivatni sem rennur frá Reykjanesvirkjun til sjávar.
Vatnið er 35 gráður og er sjálfrennandi inn í stöðina. Það er blandað með köldum jarðsjó úr borholum fyrirtækisins þannig að það er 21 gráða þegar fiskurinn svamlar í því. Það þykir vera kjörhitastig fyrir senegalflúru. Senegalflúran er flutt út óunnin því að margir vilja fá fiskinn heilsteiktan á diskinn. Þá  skiptir útlitið miklu máli. Til dæmis þarf sporðurinn að hafa rétta lögun.  Slátrað var tæplega 300 tonnum á  árinu 2015 og reiknað er með að ársframleiðsla eldisstöðvarinnar verði um 500 tonn á árinu 2016  en síðan er stefnt að frekari stækkun og aukningu á framleiðslu upp í 2.000 tonn.