Fyrirtæki í fiskeldi á Íslandi

Stærstu  fyrirtækin í fiskeldi á Íslandi 2016

 

  • Arnarlax á Bíldudal er stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins eftir sameiningu Arnarlax og Fjarðalax fyrr á þessu ári en eldissaga Fjarðalax nær aftur til 2010. Arnarlax hefur leyfi fyrir 15.000 tonna eldi í Arnarfirði, Tálknafirði og Patreksfirði en unnið er að umhverfismati vegna tvöföldunar leyfa. Hjá Arnarlaxi verða í ár framleidd um 6.500 tonn af laxi og um 13.000 árið 2017. Arnarlax áformar einnig 20 þús. tonna eldisframleiðslu í Ísafjarðardjúpi sem stjórnað verður frá Bolungarvík og bíður eldisumsóknin opinberrar afgreiðslu. Arnarlax rekur eigin seiðastöð á Gileyri í Tálknafirði auk þess sem fyrirtækið rekur seiðastöðina Ísþór í Þorlákshöfn í samstarfi við Fiskeldi Austfjarða. Hjá Arnarlaxi starfa um 100 manns og hefur fyrirtækið yfir að ráða fjórum sérhæfðum fiskeldisbátum, brunnbáti og tveimur fóðurprömmum sem notaðir eru í Hringsdal og Tálknafirði.
  • Íslandsbleikja rekur fimm starfsstöðvar fyrir bleikju og lax á Reykjanesi, í Ölfusi og Öxarfirði. Á Reykjanesi er seiðastöð og áframeldi fyrir bleikju á Stað við Grindavík og áframeldisstöð fyrir bleikju á Vatnsleysuströnd. Í Ölfusi er klak- og seiðaeldisstöð fyrir lax og bleikju á Núpum og seiðastöð fyrir bleikju á Öxnalæk. Í Öxarfirði er svo landeldisstöð með áherslu á áframeldi á laxi og bleikju og er stöðin einn stærsti framleiðandi í heimi á laxi sem alinn er á landi. Unnið er að stækkun stöðvanna í Öxarfirði og á Stað. Að breytingum loknum verður árleg heildarframleiðsla Íslandsbleikju nálægt 5.000 tonnum. Hjá Íslandsbleikju starfa um 65 manns.
  • Arctic Fish hefur stundað eldi á regnbogasilungi í Dýrafirði síðan 2012 en er nú að hefja laxeldi og mun slátra um 4.000 tonnum á árinu 2018. Fyrirtækið hefur yfir að ráða leyfum fyrir um 4.000 tonna eldi en vinnur að stækkun í 9.000 tonn. Fyrirtækið hefur reist myndarlega seiðastöð í botni Tálknafjarðar þar sem laxaseiði eru nú alin. Arctic Fish vinnur að því, í samvinnu við Háafell, að koma á fót eldisfiskvinnslu á Ísafirði. Hjá Arctic Fish starfa nú um 20 manns.
  • Fiskeldi Austfjarða (FA) hefur stundað eldi á regnbogasilungi í Berufirði síðan 2013. Þar eru nú um 3.000 tonn sem verið er að slátra og vinna í vinnslutöð fyrirtækisins á Djúpavogi. FA er að færa sig yfir í laxeldið og eru laxaseiði þegar í sjókvíum í Berufirði auk þess sem félagið hyggur á uppbyggingu eldisstöðvar í Fáskrúðsfirði og Mjóafirði. FA rekur seiðastöðina Ísþór í Þorlákshöfn í samstarfi við Arnarlax. FA er með leyfi fyrir 11.000 tonna framleiðslu á Austfjörðum en fyrirtækið er að vinna að nauðsynlegum rannsóknum til að undirbúa stækkun leyfa. Hjá FA starfa nú um 50 manns.
  • Fiskeldið Haukamýri við Húsavík og eldisstöðin Rifós í Kelduhverfi eru tengd fyrirtæki sem framleiða samtals um 700tonn af bleikju á ári. Starfsmenn eru um 20 talsins.
  • Laxar Fiskeldi vinna nú að undirbúningi laxeldis í Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Berufirði. Fyrirtækið er með laxaseiði í eigin seiðastöð í Ölfusi og mun setja fyrstu seiði í sjókvíar í Reyðarfirði vorið 2017. Fyrirtækið ræður yfir leyfi til 6.000 tonna ársframleiðslu en hefur þegar hafið undirbúning stækkunar þess og hyggur á allt að 25.000 tonna framleiðslu þegar fram í sækir.
  • Náttúra Fiskirækt er með eldi og vinnslu á bleikju í landsstöð sinni í Þorlákshöfn og eldi í stöð Hólalax í Hjaltadal í Skagafirði.   Framleiðsla 2016 er rúmlega 300 tonn en gert er ráð fyrir að hún vaxi í yfir 500 tonn árið 2017.
  • Stolt Sea Farm rekur stóra landstöð á Reykjanesi þar sem alin er Senegal Flúra. Fyrirtækið er með framleiðsluleyfi fyrir 2.000 tonn en á árinu 2016 er gert ráð fyrir að slátrað verði um 500 tonnum en framleiðslan fer vaxandi. Hjá Stolt starfa um 15 manns.