Bleikjueldi

Klak og seiðaeldi

Á árinu 1989 hófst samanburður á bleikjustofnum þar sem markmiðið var að finna hentuga stofna til kynbóta. Skipulagðar kynbætur hófust hjá Hólaskóla 1992. Þá hefur Stofnfiskur hf. einnig stundað kynbætur á bleikju síðan 1991. Bleikjuhrogn eru framleidd í kynbótastöðvum Hólaskóla og Stofnfisks sem eru jafnframt einu fyrirtækin sem selja hrogn úr vor– og hausthrygningu. Lítil hrognaframleiðsla er ennþá hjá öðrum fyrirtækjum og þá einkum til eigin nota. Lítil viðskipti eru með seiði og miða flest fyrirtækin við að kaupa hrogn. Stærsti bleikjuframleiðandinn, Íslandsbleikja kaupir hrogn og elur seiðin allt upp í 100 g stærð í seiðaeldisstöðum og flytur þau síðan í strandeldisstöðvar fyrirtækisins á Vatnsleysu og Stað við Grindavík á Reykjanesi. Minni landeldisstöðvar kaupa hrogn eða smá seiði (5- 15 g).

Matfiskeldi

Artic-char-Salvelinus-alpinusÁ síðustu árum hefur framleiðsla á bleikju aukist mikið og nam um 3.000 tonnum árið 2008. Þar af framleiðir Íslandsbleikja um tvo þriðju og er jafnframt stærsti bleikjuframleiðandi í heimi. Í dag er matfiskeldi á bleikju stundað í rúmlega 15 fiskeldisstöðvum. Flestar þessara stöðva eru litlar og aðeins þrjár með yfir 200 tonna ársframleiðslu en þar á meðal eru strandeldisstöðvar Íslandsbleikju og Rifós . Bleikja þolir ekki fulla seltu til lengri tíma og er hún því alin í fersku eða ísöltu vatni í landog strandeldisstöðvum. Flestar minni stöðvanna eru með landeldi oft með sjálfrennandi ferskvatni. Strandeldisstöðvar Íslandsbleikju ala bleikjuna í ísöltu vatni. Rifós er eina eldisfyrirtækið sem elur bleikju í kvíum en eldið er staðsett í Lóni í Kelduhverfi en þar er ferskvatn í yfirborði og sjór niður við botn. Eldistíminn er mjög breytilegur á milli fyrirtækja allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Hjá stærri fyrirtækjunum með strandeldi og kvíaeldi eru seiðin um 100 g þegar þau eru tekin inn í eldið, þau alin upp í um 1,5 kg á rúmu ári og er eldistíminn um tvö ár frá klaki. Landeldistöðvar taka yfirleitt minni seiði (5-15 g) og tekur um 1-2 ár að ná þeim upp í markaðsstærð (< 1 kg) sem ræðst að mestu af hitastigi eldisvatnsins og tekur það lengstan tíma hjá þeim fyrirtækjum sem nýta eingöngu lindarvatn (4-5°C).

Slátrun, vinnsla og sala

Á vegum Íslandsbleikju í Grindavík er rekin öflug bleikjuvinnsla. Bleikjan er flutt lifandi frá Stað og Vatnsleysu í vinnslustöðina í Grindavík þar sem henni er slátrað, en megnið af henni er pakkað ferskri og þar er einnig hægt að frysta afurðir. Aðstaða til að pakka ferskri bleikju er einnig að finna hjá Rifósi í Kelduhverfi, Fiskeldinu Haukamýragili á Húsavík, Silfurstjörnunni í Öxarfirði, Hólalaxi á Sauðarkróki og Glæði á Kirkjubæjarklaustri sem jafnframt sér um slátrun og gæðaeftirlit fyrir minni framleiðendur á Suðurlandi. Stærsti hluti framleiðslunnar er fluttur út en mun minna magn fer á innanlandsmarkað. Það er einkum minni stöðvarnar sem selja að öllu eða að mestu leyti sínar afurðir á innanlandsmarkaði. Í sumum tilvikum er öll framleiðslan seld sem reyktur fiskur.

Íslendingar eru stærstu framleiðendur á bleikju í heiminum og ráðandi á flestum útflutningsmörkuðum. Bleikjan er flutt út sem fersk flök, heill slægður fiskur með haus og einnig er um að ræða frosna afurð. Útflutningsverðmæti á bleikju námu rúmum 1,3 milljörðum króna á árinu 2008. Stærsti markaðurinn fyrir bleikju er Bandaríkjamarkaður með um 70% af heildarútflutningsverðmætum. Á Bandaríkjamarkað fer aðallega stór bleikja (1-2 kg) en á Evrópumarkað fer smærri bleikja (300-800 g). Undanfarin fjögur ár hefur Landssamband fiskeldisstöðva ásamt samstarfsaðilum staðið að markaðsverkefni til að auka og stækka markaði fyrir bleikjuafurðir. Í dag gengur sala á bleikju vel og staðan er góð, ekki aðeins vegna þess hve gengið er hagstætt fyrir útflutningsgreinarnar, heldur einnig vegna eftirspurnar á mörkuðum í Bandaríkjunum og nágrannaþjóðunum á Norðurlöndunum.

Rannsókna- og þróunarstarf

Á árinu 2009 eru 14 R&Þ verkefni innan bleikjueldis. Einnig er tvö norræn netverkefni sem hafa m.a. það að markmiði að efla samstarf í R&Þ starfi og miðla upplýsingum. Flest R&Þ verkefnanna eru til þriggja ára sem hófust á árunum 2007 og 2008. Stærsta og mikilvægasta einstaka verkefnið er kynbótaverkefni fyrir bleikju. Á þessu ári gerði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið fimm ára samning við Hólaskóla (2010-2015) og hljóðar hann upp á árlegt 14 milljón króna framlag til kynbóta á bleikju. Átak í markaðssetningu á bleikju hófst 2007 og eru fimm verkefni í gangi en flestum þeirra lýkur fljótlega. Þrjú fóðurverkefni sem einnig á lokastigi. Jafnframt eru rannsóknaverkefni á nýrnaveiki og kýlaveikibróður hjá bleikju. Í fjórum verkefnum er verið að skilgreina kjöreldisaðstæður og bæta eldistækni. Framtíðarsýn Gera má ráð fyrir áframhaldandi aukningu í bleikjueldi og að vöxturinn verði að jafnaði um 10% á ári fram til 2015. Á árinu 2010 er áætlað að framleiðslan verði um 3.500 tonn og komin upp í 5.000-6.000 tonn árið 2015. Til að þetta gangi eftir þarf að halda áfram öflugu markaðsstarfi, efla sjúkdómavarnir og tryggja að skortur á hrognum verði ekki hamlandi þáttur á vöxt greinarinnar. Stærsti hluti framleiðslunnar hefur komið úr stóru strandeldisstöðvunum sem í dag hafa eldisrými til að auka framleiðsluna enn frekar. Ekki er gert ráð fyrir nýbyggingum hjá strandeldisstöðvum en framleiðslan mun aukast með betri nýtingu eldisrýmis í þeim stöðvum sem eru í bleikjueldi og einnig hugsanlega í þeim stöðvum sem ekki eru í rekstri í dag. Gera má ráð fyrir að í strandeldisstöðvum verði að mestu leyti framleidd stór bleikja (um 1,5 kg) og að framleiðslan verði að mestu flutt út til Bandaríkjanna. Í landeldi eru margar smáar stöðvar og þær munu stækka með því að nýta betur vatn sem er til ráðstöfunar á svæðinu og enn frekari vöxtur mun eiga sér stað með endurnýtingu vatns. Gert er ráð fyrir að stærsti hluti framleiðslu landeldisstöðva verði fluttur út sem smáfiskur (< 1 kg) til Evrópu. Miðað við fulla nýtingu og hugsanlegri stækkun á bleikjueldisstöðvum er áætlað að framleiðslugetan gæti numið að hámarki 7.000 tonn fyrir strandeldisstöðvar (jafnframt ein kvíaeldisstöð) og 3.000 tonn fyrir landeldisstöðvar. Desember 2009.