Óraunsætt að bera saman gjaldtöku vegna eldisleyfa á Íslandi og í Noregi

Óraunsætt að bera saman gjaldtöku vegna eldisleyfa á Íslandi og í Noregi

Fyrirtækið Laxar fiskeldi á Reyðarfirði birti á heimasíðu sinni fróðlega samantekt í tilefni
af umræðu sem hefur orðið um gjaldtöku í fiskeldi á Íslandi og í Noregi. Þar kemur ma eftirfarandi fram:

1. Norðmenn framleiða 1,3 milljónir tonna af eldislaxi, Íslendingar 15 þúsund tonn
2. Eldisleyfi í Noregi eru varanleg, á Íslandi eru þau tímabundinn afnotaréttur.
3. Sala á eldisleyfum í Noregi hófst ekki fyrr en fiskeldi hafði byggst upp
4. Fyrstu 40 árin greiddu fyrirtæki í Noregi aðeins fyrir starfs og rekstrarleyfi.
5. Mikill kostnaður er við kaup á sérfræðivinnu og gagnaöflun hér á landi.
6. Fyrirtækjum á Íslandi er skylt að kaupa tryggingar fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða.
7. Umsóknarferli Laxa vegna 10.000 tonna framleiðsluaukningar í Reyðarfirði hefur staðið yfir frá því árið 2012.

Frá fiskeldi Laxa í Reyðarfirði: Eldisleyfi í Noregi eru varanleg, á Íslandi eru þau tímabundinn afnotaréttur. – Sala á eldisleyfum í Noregi hófst ekki fyrr en fiskeldi hafði byggst upp

Hér á eftir fer samantekt Laxa fiskeldi í heild sinni:
Í tilefni af umfjöllun um gjaldtöku vegna starfs- og rekstrarleyfa í laxeldi í Fréttablaðinu laugardaginn, 25. ágúst sl. vilja Laxar fiskeldi koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem dregin er upp einföld og röng mynd af kostnaði og gjöldum varðandi laxeldi á Íslandi og hún borinn saman við rekstrarumhverfi laxeldisfyrirtækja í Noregi.
Óraunsætt að bera saman gjaldtöku vegna eldisleyfa á Íslandi og í Noregi
Að bera saman gjaldtöku vegna eldisleyfa á Íslandi og í Noregi er óraunsætt og lýsir mikilli vanþekkingu á leyfaumhverfi og stöðu greinarinnar hérlendis og erlendis. Í Noregi er hefð fyrir laxeldi þar sem öflugir innviðir hafa byggst upp á áratugum en Norðmenn framleiða um 1,3 milljónir tonna af eldislaxi á ári á meðan u.þ.b. 15.000 eru framleidd á ári á Íslandi.
Í Noregi eru eldisleyfi varanleg en ekki tímabundin afnotaréttur eins og á Íslandi
Í Noregi geta fyrirtæki með auðveldum hætti leigt margvíslegan búnað tímabundið af sérstökum þjónustuaðilum. Á Íslandi er veruleikinn allt annar þar sem fyrirtæki þurfa helst að eiga allan búnað eða sækja þjónustu til annarra landa með tilheyrandi umframkostnaði. Jafnframt má benda á að leyfafyrirkomulag er annað í Noregi þar sem eldisleyfi eru varanleg en ekki tímabundinn afnotaréttur líkt og gerist hér. Að jafna saman eldisleyfum í Noregi og á Íslandi án þess að taka inn í grundvallarforsendur er líkast því að bera saman fasteignaverð á Langanesi við það sem tíðkast í miðborg Óslóar
Sala eldisleyfa hófst ekki í Noregi fyrr en iðnaðurinn hafði byggst upp
Mikilvægt er að halda því til haga í umræðunni að norsk yfirvöld hófu ekki sölu eldisleyfa fyrr en á þessari öld þegar iðnaðurinn hafði byggst upp og sannað sig þar í landi eftir áratuga þróun. Fyrstu fjörutíu árin greiddu fyrirtæki í Noregi aðeins fyrir starfs- og rekstrarleyfi. Hérlendis hefur hins vegar strax verið lagt á gjald sem rennur til umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Gríðarlega kostnaðarsamt verkefni bíður íslenskra eldismanna við að byggja upp trausta innviði greinarinnar.
Mikill kostnaður vegna sérfræðivinnu og greiðslur í Umhverfissjóð sjókvíaeldis
Kostnaður eldisaðila við kaup á sérfræðivinnu og gagnaöflun vegna leyfisumsókna hleypur á tugum milljóna króna. Verði niðurstaða Skipulagsstofnunar á leyfisumsókn sú að framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, þá fyrst opnast leið til að sækja um starfs- og rekstrarleyfi. Í rekstrarleyfi er gerð krafa um að leyfishafi kaupi tryggingu, kr. 3.000 fyrir hvert tonn, sem heimilt er að framleiða. Fyrirtæki með stór leyfi þurfa því að greiða umtalsverðar fjárhæðir. Að auki er gerð sú krafa í starfsleyfum að framkvæmdaraðili kaupi tryggingar vegna starfsemi sinnar. Þar með er ekki öll sagan sögð því rekstrarleyfishafa ber að greiða árlegt gjald að fjárhæð 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og rennur það óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Þetta þýðir að greiddar eru tæplega tvær milljónir króna fyrir hver þúsund tonn árlega. Laxar Fiskeldi ehf., greiðir 11,5 milljónir króna fyrir rekstrarleyfi félagsins á ári. Gjaldið er innheimt burt séð frá því hvort rekstur sé hafinn eða ekki.
Umsóknarferli Laxa hefur staðið yfir frá árinu 2012
Þá er nauðsynlegt að benda á þann málsmeðferðarhraða sem er á afgreiðslu leyfisumsókna. Ferlið er gríðarlega tímafrekt og kostnaðarsamt, t.a.m. hefur umsóknarferli Laxa vegna 10.000 tonna framleiðsluaukningar í Reyðarfirði staðið yfir frá því árið 2012. Það krefst þolinmóðs fjármagns að miða fjárfestingar við mögulega framleiðsluaukningu sem háð er svo tímafreku umsóknarferli.
Fögnum opinberri umræðu
Við fögnum opinberi umræðu um rekstrarumhverfi og starfsemi laxeldisfyrirtækja. Mikilvægt er þó að umræðan sé byggð á staðreyndum og taki mið af því rekstrarumhverfi sem við störfum í en ekki gjörólíku umhverfi eins og er í Noregi.

„En við segjum pass“

„En við segjum pass“

 Daníel Jakobsson formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar skrifar á facebooksíðu sína:

Daníel Jakobsson, Ísafirði

Daníel Jakobsson: „Hér á Vestfjörðum eru amk. fimm fyrirtæki að þróa fiskeldi. Nú þegar er framleiðslan yfir 10.000 tonn og útflutningsverðmætin eru meiri en af vestfirskum þorski.“

„Vinir mínir á Facebook vita að ég er áhugamaður um að Ísland verði fiskeldisþjóð.
Við erum stöðugt að leita að nýjum tækifærum til að standa undir velferð okkar.
Hér á Vestfjörðum eru amk. fimm fyrirtæki að þróa fiskeldi. Nú þegar er framleiðslan yfir 10.000 tonn og útflutningsverðmætin eru meiri en af vestfirskum þorski.
Þessi fyrirtæki mæta ótrúlegu mótlæti. Stjórnmálin segja pass. Vísindamenn og stofnanir reyna að tefja málin að því er virðist af því að þau vita ekki í hvorn fótinn þær eiga að stíga og halda að ef engin ákvörðun sé tekin sé ekkert hægt að gagnrýna.
Á meðan eru vinir okkar í Færeyjum á fullri ferð. Stærsta fyrirtækið þeirra Bakkafrost sem er að framleiða rúmlega helming af því sem Vestfirðir bera er metið á um 300 milljarða og ætlar að fjárfesta fyrir tugi milljarða á næstu árum.
Sama er að segja um norsku fyrirtækin þau hækka og hækka í verði.
En við segjum pass. Samt er ekkert augljósara vaxtartækifæri fyrir Ísland. Við kunnum að verka, selja og flytja fisk. Þetta er vaxandi grein, matvælaiðnaður sem m.a. Sameinuðu þjóðirnar hvetja lönd til að taka upp.
Hættum nú þessari vitleysu. Stjórnmálamenn látið ykkur þetta varða og stefnum að því að verða jafn góð í fiskeldi og öllu öðru sem við gerum.
Áfram.“

„Hægt verði að skapa fiskeldinu sterka lagaumgjörð“

„Hægt verði að skapa fiskeldinu sterka lagaumgjörð“

Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður atvinnuveganefndar Alþingis.

Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi er í viðtali við vefritið BB.is. Þar er hún spurð um hvaða mál snúi helst að henni, sem formanni atvinnuveganefndar, nú þegar þing hefst að nýju í spetember. Frásögn vefmiðilsins um það atriði fer hér á eftir:
Þingmennirnir eru farnir að tínast suður aftur og Lilja Rafney er þar engin undantekning. Það eru mörg og stór verkefni sem bíða úrlausnar og Lilja segir að það sem snúi helst að henni í upphafi þings sem formanni atvinnuveganefndar, sé lagafrumvarpið um fiskeldið. „Það er gífurlega stórt verkefni sem við kláruðum ekki í vor vegna þess að mér og fleirum fannst að það væri ekki fullþroskað og ekki hægt að afgreiða það í einhverjum flýti. Vonandi næst góð samstaða um þetta mikilvæga mál og að hægt verði að skapi greininni sterka lagaumgjörð sem tryggir sjálfbærni og framtíðaruppbyggingu og sátt gagnvart öðrum atvinnugreinum sem og að staðið verði vörð um villta laxastofninn. Það verður að ná sem bestri sátt milli ólíkra sjónarmiða í þessum málum og ég tel að það eigi að vera hægt, vilji er allt sem þarf.“

„Nýtur nú vaxtar samhliða uppbyggingu í laxeldi“

„Nýtur nú vaxtar samhliða uppbyggingu í laxeldi“

Bíldudalur

Bíldudalur var á sínum tíma „brothætt byggð“, skv skilgreiningu Byggðastofnunar, en nýtur nú vaxtar vegna uppbyggingar fiskeldis.

„Ísland er strjálbýlasta land Evrópu og dreifist byggð í borgir, bæi og sveitir. Það er ekki sjálfgefið að búseta á hverjum stað sé stöðug eða fari vaxandi jafnvel þó saga byggðarlaga spanni árhundruð. Með breytingum á atvinnuháttum og samfélagsgerð fylgja fólksflutningar sem hafa áhrif á tækifæri og möguleika svæða til vaxtar. Dæmi um þetta er Bíldudalur sem um tíma átti undir högg að sækja vegna samdráttar í sjávarútvegi en nýtur nú vaxtar samhliða uppbyggingu í laxeldi.“
Þetta kemur fram í grein sem Kári Joensen, Háskólanum á Bifröst og Kristján Þ. Halldórsson, Byggðastofnun skrifuðu á vef Byggðastofnunar og hefur einnig birst á ýmsum héraðsmiðlum
Í grein sinni vísað þeir til greiningar á þeim áskorunum sem dreifðari byggðalög standa frammi fyrir. Litið var til svæða sem hafa ýmist glímt við fólksfækkun, fábreytt atvinnulíf eða skort á uppbyggingu innviða. Einnig verða kynnt þau tækifæri til þjálfunar og samfélagsþátttöku sem unnið er að með verkefninu.
Undangengin ár hefur staðið yfir verkefnið Brothættar byggðir og er það undir forræði Byggðastofnunar. Byggðalög sem hafa staðið höllum fæti hafa fallið undir þetta viðfangsefni. Hefur verið leitast við, með virkri þátttöku heimamanna, að setja fram tillögur og leita leiða til þess að snúa neikvæðri byggðaþróun við.
Á sínum tíma var Bíldudalur í hópi þessara byggðarlaga, en er það nú ekki lengur. Ástæðan er sú sem nefnd er í grein þeirra Kára og Kristjáns; byggðarlagið „nýtur nú vaxtar samhliða uppbyggingu á laxeldi.“

 

Sjá greinina í heild: https://www.byggdastofnun.is/is/frettir/category/1/throun-byggda-samfelagsthatttaka-og-frumkvodlastarf

Úr 200 tonna eldi á regnbogasilungi í 1200 tonna framleiðslu

Úr 200 tonna eldi á regnbogasilungi í 1200 tonna framleiðslu

Fiskeldisfyrirtækið ÍS-47, sem er með starfsemi sína í Önundarfirði hefur sótt um 1.200 tonna leyfi til eldis á regnbogasilungi. Burðarþolsmat fjarðarins er 2.500 tonn. Fyrirtækið er nú að endurnýja eldisbúnað sinn með nýjum kvíum sem uppfylla staðalinn NS 9415.

Kvíar frá Færeyjum af fullkomnustu gerð
„Þetta eru kvíar sem standast norska staðalinn, sem er krafa um að við sem erum í eldinu uppfyllum,“ segir Gísli Jón Kristjánsson, framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins ÍS 47, en það fyrirtæki hefur undanfarin ár verið með eldi á regnbogasilungi í Önundarfirði. Þetta kemur fram í viðtali bb.is við Gísla.
Fyrirtækið keypti nýverið tvær nýjar kvíar sem uppfylla staðalinn NS 9415, en hann er forsenda fyrir sjókvíaeldi samkvæmt íslenskum reglugerðum.
Kvíarnar sem hér um ræðir koma frá fyrirtækinu Vónin  og KJ í Færeyjum og undanfarna daga hafa Færeyingar unnið hörðum höndum við samsetningu þeirra. Gísli Jón er búinn að draga kvíarnar á flot og er þess nú beðið að Kjartan J. Hauksson kafari og hans menn frá Fiskeldisþjónustunni, mæti á staðinn til þess að festa þær niður og koma þeim endanlega fyrir.

1.200 tonna framleiðsla í umsóknarferli
Þær kvíar sem ÍS-47 er með eru 60 metrar að þvermáli, en nýju kvíarnar tvær eru hvor um sig 90 metrar. „Það þykir ekki stórt því menn eru með 160 metra kvíar annarsstaðar“, segir Gísli Jón.
ÍS 47 er núna með leyfi fyrir 200 tonna framleiðslu á regnbogasilungi í Önundarfirði og er gert ráð fyrir að í vetur verði slátrað 150 tonnum af regnbogasilungi úr eldinu í Önundarfirði.
-„Ég er með 1.200 tonn í umsóknarferli því núna er burðarþolsmatið komið í firðinum og það er 2.500 tonn. Ég er að undirbúa að stefna á það í framtíðinni með því að sækja um og ná mér í seiði en þetta er nýtilkomið. Og ég stefni á 2.500 tonn í framtíðinni“, segir Gísli Jón Kristjánsson í samtali við bb.is

Nýt fóðurskip getur fóðrað í 16 kvíar í einu

Nýt fóðurskip getur fóðrað í 16 kvíar í einu

Nýtt og öflugt fóðurskip á vegum Fiskeldis Austfjarða kom til heimahafnar á  Djúpavogi í gær 16. ágúst Hið nýja skip er afar glæsilegt og búið nýjustu tækni við fóðrun. Frá skipinu er fóðraður lax í fiskeldi fyrirtækisins í Berufirði. Þetta nýja skip er mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið og vaxandi laxeldi á Djúpavogi.

Nýja fóðurskipið ber um 600 tonn af fóðri.Með hinu nýja skipi opnast sá möguleiki að fóðra í 16 kvíar í einu, Er þetta fyrsta skip sinnar tegundar sem er afhent þannig. Um borð í skipinu er mjög góð vinnuaðstaða  fyrir áhöfn og aðra þá sem þar starfa.

Nýja fóðurskipið ber heitið Hvaley.  Fyrir er á vegum Fiskeldis Austfjarða, fóðurskipið Úlfsey.

Síða 5 af 41« Fyrsta...34567...102030...Síðasta »