Norskt eldisfyrirtæki kaupir meirihluta í Löxum ehf

Norskt eldisfyrirtæki kaupir meirihluta í Löxum ehf

Måsøval Fiskeoppdrett AS hefur keypt 53,5% hlutafjár í fyrirtækinu Laxar ehf.  Laxar hafa leyfi til 6.000 tonna framleiðslu í Reyðarfirði og eiga og reka tvær seiðastöðvar á suðurlandi þar sem nú þegar er hafin seiðaframleiðsla til undirbúnings eldisins fyrir austan.  Håvard Johannes Grøntvedt, stjórnarformaður Måsøval segir í viðtali við iLaks.no að fyrirtækið sjái mikil tækifæri í fiskeldi á Íslandi og það hyggist taka þátt í þeirri uppbyggingu sem sé að eiga sér stað.  Markmiðið sé að slátra fyrsta laxi fyrirtækisins síðla árs 2018.

Arctic Fish undirbýr vinnslu á Ísafirði

Arctic Fish undirbýr vinnslu á Ísafirði

arcticfish

Arctic Fish (áður Dýrfiskur) hefur ákveðið að færa eldisfiskvinnslu sína til Ísafjarðar, nánar tilekið í Íshúsfélagshúsið.  Verið er að undirbúa uppsetningu nótaþvottastöðvar á vegum Ísfells í hluta húsnæðis fyrirtækisins á Flateyri, auk þess sem Eldisþjónustan verður þar með aðstöðu sína.   Nánar um málið á bb.is

Lindarfiskur í Vík – Innlit

Lindarfiskur í Vík – Innlit

Í Fréttablaðinu 2. júní er að finna skemmtilegt viðtal við Drífu Bjarnadóttur sem rekur fyrirtækið Lindarfisk í Vík í Mýrdal ásamt fjölskyldu sinni.  Lindarfiskur framleiðir bleikju ásamt því að reka fiskvinnslu og litla fiskbúð í Vík.  Lindarfiskur er aðili að LF og dæmi um að ekki þarf allt fiskeldi að vera risavaxið til að ganga vel!  Greinina í Fréttablaðinu er að finna hér.

Arnarlax og Fjarðalax sameinast

arnarlaxfjardarlax

Með sameiningu Arnarlax og Fjarðalax undir merkjum Arnarlax verður til langstærsta fiskeldisfyrirtæki á Íslandi.    Sameinað félag mun búa yfir samtals 21.000 tonna eldisleyfi í þrem fjörðum; Arnarfirði, Tálknafirði og Patreksfirði. Félagið er auk þess með umsóknir í ferli og gerir ráð fyrir að tvöfalda þessi leyfi innan árs og stefnir á rúmlega 20.000 tonna framleiðslu 2020. Félagið hefur þegar lagt fram umsókn um leyfi í Ísafjarðardjúpi með fyrirhugaða starfsstöð á Bolungarvík og er sú framkvæmd þegar komin í umhverfismatsferli.  Þá hefur fyrirtækið hafið undirbúning að rannsóknum vegna mögulegs sjókvíaeldis í Eyjafirði og Mjóafirði.

Fjarðalax, sem fram að sameiningunni var stærsta og sjókvíaeldisfyrirtæki á Íslandi,  hefur stundað laxeldi í Tálknafirði, Patreksfirði og Arnarfirði með kynslóðaskipt eldi síðan 2010 og er því á sinni 7. eldiskynslóð.  Fyrirtækið rekur fjóra vinnubáta auk sláturskips og pökkunarstöð á Patreksfirði.  Arnarlax hóf sjókvíaeldi í Arnarfirði 2014 og rekur tvo vinnubáta og brunnbát, auk pökkunarstöðvar á Bíldudal.  Ljóst er að samlegðaráhrifin af sameiningunni eru mikil og uppbygging atvinnugreinarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum verður nú öll markvissari í kjölfarið.   Norska laxeldisfyrirtækið Salmar verður kjölfestufjárfestir í hluthafahóp Arnarlax með stofnendum fyrirtækisins feðgunum Matthíasi Garðarssyni og Kristian Matthíassyni frá Bíldudal, auk núverandi eigenda Fjarðalax. Forstjóri félagsins verður Kristian Matthíasson og aðalaðsetur félagsins verður á Bíldudal.   Kjartan Ólafsson er stjórnarformaður Arnarlax og verður það áfram í hinu sameinaða fyrirtæki þar sem nálægt 100 manns munu starfa.

“Við erum ánægð með samkomulag við eigendur Fjarðarlax og teljum að þessi félög eigi mjög vel saman.  Stærðarhagkvæmni er mikilvægt í laxeldi þar sem samkeppnin getur verið hörð þegar harðnar á dalnum, þá geta stærð og hagkvæmni eininganna skipt miklu máli.  Sá árangur sem harðdulegt og metnaðarfullt starfsfólk á sunnanverðum Vestfjörðum hefur þegar lagt í uppbyggingu greinarinnar vekur með okkur þá von að með tíð og tíma munum við styrkja stoðirnar ennfrekar og þar með blómlega byggð á svæðinu”, sagði Kjartan aðspurður um sameininguna.

Málþing um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi

Málþing um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi

Landssamband Fiskeldisstöðva stóð fyrir opnu málþingi um sjókvíaeldi í Ísafjarðadjúpi þann 10. maí sl.  Málþingið var mjög vel sótt af heimamönnum og góður rómur gerður af framsöguerindum.  Líflegar umræður spunnust um málefnið enda margir áhugasamir um uppbyggingu sjókvíaeldis á þessu landssvæði.  Jafnframt eru ýmis sjónarmið um samspil sjókvíaeldis við aðrar atvinnugreinar og voru málin því rædd frá ýmsum vinklum.

Öll erindi málþingsins eru vistuð og aðgengileg á vef ATVEST.

Arctic Fish hlýtur umhverfisvottun ASC

Arctic Fish hlýtur umhverfisvottun ASC
– Fyrsta eldisfyrirtækið hér á landi til að hljóta vottunina

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur hlotið eftirsótta alþjóðlega umhverfisvottun Aquaculture Stewardship Council (ASC), fyrst íslenskta fyrirtækja. Stjórnendur og starfsfólk Arctic Fish og dótturfélaga þess, seiðaeldisins Arctic Smolt á Tálknafirði, sjóeldisstöðvarinnar Arctic Sea Farm (Dýrfiskur) í Dýrafirði og vinnslufyrirtækisins Arctic Odda á Flateyri, hafa unnið að því undanfarin ár að undirbúa og uppfylla kröfur umhverfisstaðalsins sem vottunin byggir á og var hún staðfest af stjórn ASC í síðustu viku.

Vottun ASC er hliðstæð alþjóðastaðlinum MSC, sem er þekktasti umhverfisstaðall sjávarafurða, en ASC er frábrugðinn MSC að því leyti að hann hefur verið aðlagaður sérstaklega að eldisafurðum. Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish, er afar stoltur af sínu fólki sem unnið hefur markvisst að aðlögun verkferla í samræmi við kröfur ASC undanfarin ár. Hann segir umhverfisaðstæður á Vestfjörðum með hreinan sjó, lágt hitastig, lítinn þéttleika í kvíjum hindra viðgang sjúkdóma og því engin lyfjanotkun í eldi félagsins ólíkt því sem getur gerist í heitari sjó. Ísland sé laust við þau vandamál sem þekkt eru erlendis auk þess sem mjög markvissar starfsaðferðir Arctic Fish til að hámarka hreinleika og gæði afurðanna veiti fyrirtækinu ákveðið forskot. „Vottun ASC er staðfesting á þeim árangri sem við höfum náð í þessum efnum og vottunin mun án efa hjálpa okkur í frekari sókn á erlendum mörkuðum þar sem kröfuharðir neytendur með mikla umhverfisvitund líta til afurða á borð við þær sem við framleiðum. Sá markhópur fer sífellt stækkandi og hann er tilbúinn til að greiða hærra verð fyrir vottaðar afurðir,“ segir Sigurður.

Aquaculture Stewardship Council
ASC eru óháð samtök, rekin án hagnaðarsjónarmiða (non-profit) sem byggja umhverfisstaðalinn á fullkomnum rekjanleika allt frá hrognum til þess er afurðir eldisfyrirtækjanna berast á borð neytanda, sem samræmist því vel eðli starfseminnar hjá Arctic Fish sem rekur allt í senn seiðaeldisstöð, sjóeldi og framleiðslu þar sem möguleiki er á fullvinnslu afurða.

Arctic Fish
Arctic Fish hóf starfsemi sína í silungseldi undir nafni Dýrfisks í Dýrafirði árið 2011. Þar er fyrirtækið enn með meginstarfsemi sjóeldisins sem nú er rekið undir nafni Arctic Sea Farm. Verið er að byggja upp nýja og fullkomna seiðaeldisstöð hjá systurfélaginu Arctic Smolt í Tálknafirði og er móðurfélagið einnig að undirbúa frekari vöxt, m.a. í laxeldi, sem gert er ráð fyrir að verði meginsvið félagsins í framtíðinni í stað silungseldisins þar sem aðaláherslan hefur legið hingað til. Fyrsta skrefið í laxeldi Arctic Fish verður stigið í haust þegar fyrstu laxaseiðin verða sett út og verða þau framleidd í samræmi við umhverfisstaðla ASC.

Fréttatilkynning frá Arctic Fish 17. maí 2016.

Frekari upplýsingar veitir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish, í síma 777 3123. Netfang: sp@afish.is.

Síða 41 af 41« Fyrsta...102030...3738394041