Villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi

Villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi

„Sú staðreynd að villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi og að hrun varð einna mest í laxastofnum í þeim löndum þar sem ekkert laxeldi er ætti að segja einhverja sögu.“
Þetta kemur fram í facebook-færslu Ólafs Sigurgeirssonar lektors við Háskólann á Hólum. Færsla hans er í framhaldi af umræðu sem skapaðist á facebókarþræði LF þar sem vísað var í viðtal við Ólaf í landsmálablaðinu Feyki. Hér að neðan fer færsla Ólafs í heild sinni með millifyrirsögnum LF.

Ólafur Sigurgeirsson: Sú staðreynd að villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi og að hrun varð einna mest í laxastofnum í þeim löndum þar sem ekkert laxeldi er ætti að segja einhverja sögu.

Það er fráleitt að allir líffræðingar eða vísindastofnanir séu samdóma eða einróma um áhrif eldislaxa á villta laxastofna.
„Ekki hefur enn tekist að sýna fram á að sú kenning sé rétt“
Á árunum 1985-1987 varð mikið hrun í laxastofnum í N-Atlantshafi, eins og sjá má á aflatölum. Svo víðtækt hrun er eðlilega helst útskýrt með því að krappar og
afdrífaríkar breytingar hafi orðið á lífsskilyrðum í hafi, en ekki er mikið um beinar mælingar sem sína orsakirnar. Þeir sem nenna geta skoðað hvað laxeldið var mikið þá. Árið 1991 koma Ketil Hindar, Ryman og Utter fram með þá kenningu að eldislax muni útrýma villtum laxastofnum sleppi hann úr haldi, m.a vegna þess að erfðabreytileiki stofna myndi minnka og einnig „fitness“ (lífgirni). 27 árum og mörgum milljörðum síðar hefur ekki enn tekist að sýna fram á að sú kenning sé rétt. Það hefur hvergi verið hægt að sýna fram á að eldislax hafi útrýmt villtum laxastofnum (ekki einu sinni í Voss). Við svo dramatíska fullyrðingu hefur víðast hvar verið auðvelt að afla fjár til slíkra rannsókna, og kannski er það mergurinn málsins? Hluti af rannsóknarstarfinu hefur verið að útbúa líkön til að lýsa hugsanlegum áhrifum erfðablöndunar og hlutfalli eldislaxa af hrygningarfiski á afdrif erfðasemsetningar villtra stofna. Í því ljósi er athygisvert að skoða saman greinar Hindar et al. 2006 og Castellani et al 2018, en í hinni síðari er niðurstaða módelsins að 5-10% innblöndun eldisfisks verði vart merkjanleg og afturkræf á stuttum tíma. Hindar et al. sjá það svartara. Í því samhengi er einnig vert að nefna að rauða strik áhættumats Hafrannsóknarstofnunar í sínu reiknidæmi er 4%! (Og úr því minnst er á þann reiknigjörnig er einnig vert að nefna að þar er reiknað með 15% kynþroska fiska í síðbúnu stroki – þrátt fyrir að mælingar og allar reynslutölur, endurtek-MÆLDAR NIÐURSTÖÐUR- sýni að kynþroski eldislaxa sé á bilinu 0-3%!!)
Eldislax hefur verulega slakari æxlunarárangur
Nokkrar megin rannsóknir hafa verið mikilvægastar um lífslíkur. Árnar Imsa í Noregi og Burrishool á Írlandi voru útbúnar á níunda áratugnun sem rannsóknartæki hvar reynt var að skapa eins náttúruleg skilyrði og hægt var, með annmörkum þó, í þeim tilgangi að skoða áhrif erfðablöndunar milli villtra laxa og eldislaxa, einkum afdrif og lífslíkur afkvæma þeirra og blendinga þar á milli. Niðurstaðan er að eldislax hefur verulega lakari æxlunarárangur, lífslíkur seiða í ánni fram að sjógöngubúningi eru mun minni og ratvísi úr hafi er skert, hvort sem seiðum er sleppt eða hrogn eru grafin. Seiði af eldisuppruna sem lifa geti þó vaxið hraðar er hrein villiseiði þó lífslíkur séu í heild skertar. Þeir sem gerðu þessar tilraunir og mest hafa skrifað um þær (McGinnity ofl. 1998/2003, Fleming, ´96, ´97, ´00; og Bror og Nina Jonson) ræða í diskussjón hvort það geti leitt til þess að seiði af eldisuppruna geti þar með haft ruðningsáhrif á villt seiði, og eins og það er gjarnan orðað: ….it may have effect on the wilde…Athyglisvert er að í seinni tíma greinum annara höfunda er orðinu -may- sleppt þó engar staðfestar mælingar sýni að það eigi rétt á sér.
Mestar lífslíkur ef lax sleppur smár að vori
Önnur mikilvæg rannsóknarsería var gerð undir forystu Ove Skilbrei og náðu fram á siðasta áratug. Þær miðuðu að því að meta hver afdrif eldislaxa yrðu töpuðust þeir úr kvíum,- á ýmsum stigum eldis og á ýmsum árstíma. Niðurstöðurnar sýna að mestar líkur eru á að lax lifi af í villtri náttúru og eigi möguleika á að verða kynþroska og ganga upp í ár, ef hann sleppur smár að vori (nýútsett smolt). Lax yfir 200g á afar litla möguleika á að komast af og verða kynþroska. Þetta er í samræmi við fjölda annara rannsókna sem sýna að það eitt að lifa einhvern tíma í eldisstöð (af villtum- eða eldisuppruna) hefur veruleg áhrif á lífslíkur og ratvísi. Það þekkjum við vel hér á endurheimtuhlutfalli framleiddra gönguseiða.
Laxastofnar standa einna sterkast í Noregi
Vert er að hafa í huga að Imsa- og Burrishool tilraunirnar voru gerðar 1994-2000. Síðan þá eru nokkrar kynslóðir kynbóta á eldislaxi sem hafa gert hann að enn meira húsdýri, sem án efa hafa áhrif á lífslíkur í náttúrunni, ratvísi og æxlunarárangur. Ágætt dæmi sem er býsna skýr vísbending er fjöldi stangveiddra eldislaxa í 6 ám í Þrándheimsfirði. Þó tillit sé tekið til fjölda sloppinna eldislaxa í Noregi er þróunin býsna brött niðurávið. Myndin sem fylgir sýnir þessa þróun (heimild:https://www.vetinst.no/…/samarbeidsprosjektet-elvene…).

Sú staðreynd að villtir laxastofnar standa einna sterkast í Noregi þrátt fyrir gríðarlegt laxeldi og að hrun varð einna mest í laxastofnum í þeim löndum þar sem ekkert laxeldi er ætti að segja einhverja sögu. Hvernig ætla gagnrýnendur laxeldis í kvíum að útskýra þá staðreynd? Vekur það engar spurningar í þeirra hugum?

„Eldislaxinn á litla möguleika á að komast af í villtri náttúru“

„Eldislaxinn á litla möguleika á að komast af í villtri náttúru“

„Sá norski laxastofn sem notaður er hér í eldi hefur þegar verið kynbættur í tólf kynslóðir. Kynbæturnar hafa einkum verið með vali fyrir auknum vaxtarhraða en gegn ótímabærum kynþroska. Eldislaxinn er því orðinn þróað húsdýr sem á litla möguleika á að komast af í villtri náttúru.“
Þetta kemur fram í viðtali sem landsmálablaðið Feykir í Skagafirði átti við Ólaf Sigurgeirsson leiktor í fiskeldis og fiskalíffræðideild háskólans á Hólum. Viðtalið við Ólaf fer hér á eftir:

Ólafur Sigurgeirsson, lektor við háskólann á Hólum: Eldislaxinn er því orðinn þróað húsdýr sem á litla möguleika á að komast af í villtri náttúru

Feykir hafði samband við Ólaf Sigurgeirsson, lektor í fiskeldis- og fiskalíffræðideild Hólaskóla og forvitnaðist um hans álit á aðgerðum landsliðsmannanna og hvort hann teldi að sjókvíaeldi Arnarlax sé hættulegt íslenskri náttúru með yfirvofandi hruni íslenska laxastofnsins.

Hvatt til aukins fiskeldis um heim allan

„Já, þetta er sérkennilegt upphlaup kokkalandsliðsins og stenst eiginlega ekki neina skoðun. Það er ljóst að öll matvælaframleiðsla hefur umhverfisáhrif, sérstaklega dýrapróteinframleiðslan, með beinum og óbeinum hætti. Nærtækast er að opna augun og horfa í kringum okkur á landið sem við lifum í. Ef kokkaupphlaupið hefur einhverja merkingu hjá þeim sjálfum hljóta þau að þurfa að skoða vistspor og umhverfisáhrif við framleiðslu alls þess hráefnis, innlends og erlends, sem þau ætla sér að nota. Það gildir auðvitað ekki aðeins um kokkalandslið heldur okkur öll. Um þetta er vaxandi vitund víðast, einkum hjá ungu fólki, og hefur áhrif á neysluvenjur þess. Þörfin fyrir þeirri hugsun er staðfest í ótal skýrslum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og tengdum stofnunum sem fjalla um umhverfismál. Í því ljósi hefur verið hvatt til aukins fiskelds um heim allan. Það er sú aðferð dýrapróteinframleiðslu sem hefur vaxið hraðast undanfarna áratugi og nauðsyn að svo verði áfram. Við verðum einfaldlega að framleiða meira í sjónum, afli frá veiðum hefur ekki vaxið í áratugi“ segir Ólafur og útskýrir hvað þessi formáli komi spurningum blaðamanns við.

Ein umhverfisvænasta dýrapróteinframleiðsla sem við þekkjum

„Tilfellið er að laxeldi í kvíum er ein umhverfisvænsta dýrapróteinframleiðsla sem við þekkjum og skilur eftir sig einna minnst vistspor. Gagnrýnendur kvíaeldis á laxi hvetja til að framleiðslan verði flutt á land. Það er reyndar að gerast að hluta, á þann hátt að fiskurinn er alinn stærri á landi áður en hann fer í kvíarnar. Uppbygging fiskeldis á landi er hinsvegar mjög kostnaðarsöm í samanburði við kvíaeldið og hefur einnig umhverfisáhrif og skilur eftir sig vistspor eins og annað. Orkuþörfin í landeldisstöð með gegnumrennsli hefur verið metin 5-8x meiri en í kvíaeldi fyrir hvert tonn framleitt og 10-14x meiri í endurnýtingarstöðvum og þetta er örugglega varlega áætlað. Hvaða fallvötn eigum við t.d. að virkja til að framleiða orku fyrir umfangsmikið laxeldi á landi?“ spyr Ólafur.

Eitt hrogn af hverjum þúsund hafa það af
Hann segir að það muni alltaf gerast að fiskur sleppi úr kvíum út í náttúruna þó mjög hafi dregið úr slíkum uppákomum síðustu ár, m.a. vegna traustari búnaðar og vandaðri verkferla. En er það ekki ógn við villta íslenska laxastofna?

„Því getur auðvitað enginn svarað en ég tel að ógnin sé lítil og get fært rök fyrir því. Sá norski laxastofn sem notaður er hér í eldi hefur þegar verið kynbættur í tólf kynslóðir. Kynbæturnar hafa einkum verið með vali fyrir auknum vaxtarhraða en gegn ótímabærum kynþroska. Eldislaxinn er því orðinn þróað húsdýr sem á litla möguleika á að komast af í villtri náttúru. Lífsmöguleikarnir í náttúrunni velta á hversu lengi fiskurinn hefur verið við eldisaðstæður. Þannig eru mestar líkur á að nýútsett gönguseiði (50-100g) sem sleppur og syndir til hafs geti lifað af, nái að verða kynþroska og gangi upp í ár til að hrygna. Lífslíkur stærri fiska sem sleppa eru hverfandi litlar. Norskar reynslutölur sýna að sífellt færri eldislaxar ganga upp í árnar, sem eru skýr merki þess hve mikið húsdýr eldislaxinn er orðinn. Gangi kynþroska eldislax upp í á sýna niðurstöður að æxlunarárangur hans er mjög skertur, 1-3% hjá hængum og um 30% hjá hrygnum. Takist fiskinum að hrygna sýna niðurstöður einnig að afkvæmi eldislaxa og blendinga eldislaxa og villtra hafa mjög skerta afkomumöguleika í náttúrunni. Náttúruvalið lemur látlaust á og er gríðarleg þvottavél. Hjá villtum fiski nær aðeins eitt hrogn af hverjum þúsund að ljúka lífsferlinum, verða að fiski sem hrygnir.“ Ólafur segir að því séu hverfandi líkur á erfðablöndun eða ef hún verður að það hafi einhver sérstök áhrif á villta laxastofna eftir því sem hann fær séð.

Ólafur bendir á að ný rannsókn, sem reynir að meta áhrif erfðablöndunar, komist að þeirri niðurstöðu að þó hlutfall eldislax í á væri 5-10% af heildar klakfiskafjölda hefði það vart mælanleg áhrif á erfðasamsetningu stofnsins og ef einhver eru þau afturkræf.

Hrun laxastofna í N- Atlantshafi hófst áður en laxeldi var orðið svo nokkru nam

„Við skulum hafa í huga að norskur eldislax og villtur íslenskur lax er sama tegundin en með ólíka samsetningu erfðasamsæta sem henta mis vel í villtri náttúru. Að villtir laxastofnar muni hrynja eða hafi hrunið vegna innblöndunar við eldisfisk er ekki rétt. Hrun laxastofna í N-Atlantshafi hófst áður en laxeldi var orðið svo nokkru nam, og varð sérstaklega mikið um miðjan 9. áratuginn. Hrunið hefur einnig orðið mest í þeim löndum þar sem ekkert laxeldi er. Náttúrulegar breytingar í hafi auk margskonar athafna manna og afleiðingar þeirra, svo sem framræsla lands, stíflugerð, súrt regn og önnur mengun eiga sinn þátt í því. Villti laxinn stendur einna sterkast í Noregi. Þar, og reyndar víðar, eru urriðastofnar einnig aftur á uppleið, þrátt fyrir að Norðmenn framleiði um 1,3 milljónir tonna af laxi í kvíum. Menn þurfa því að leita betri skýringa á sveiflum eða hnignun laxa í villtri náttúru.“

Villta laxastofninum stafar meiri ógn af öðru sem innblöndun við eldislax

Hann segir að þróun kvíaeldisins hjá Arnarlaxi og raunar hvarvetna í Atlantshafi sé í þá átt að setja fiskinn stærri í kvíarnar og eru Færeyingar komnir einna lengst í þeim efnum og reynslan góð að mati Ólafs.

„Tilgangurinn er að stytta framleiðslutímann í sjó og draga úr framleiðsluáhættu í kvíaeldinu. Þessi aðgerð leiðir einnig til þess að hverfandi líkur eru á að fiskur sem sleppur komist af í villtri náttúru. Auðvitað mun einn og einn eldislax ganga upp í ár,- jafnvel geldhrygnur eins og sagt var að hafi veiðst í Vatnsdalsá, sem er reyndar afar óvenjulegt að geldur fiskur geri. Villta laxinum stafar hinsvegar örugglega meiri ógn af öðru en innblöndun við eldislax virðist mér. Við þurfum hins vegar að vanda okkur í fiskeldinu, setja skynsamlegar reglur út frá raunverulegri þekkingu og reynslu og fara eftir þeim.“

„Það skyldi nú bara vanta…“

Að mati Ólafs eiga Íslendingar mikil ónýtt tækifæri í fiskeldi og kvíaeldi á laxi sé eitt þeirra. „Engum dylst hvað núverandi laxeldi hefur orðið mikil lyftistöng fyrir byggðirnar þar sem það fer fram. Það skyldi nú bara vanta í íslenskt samfélag að við berðumst gegn ó-ríkisstyrktri, afkastamikilli, hollri og vistvænni matvælaframleiðslu sem fram fer í hinum dreifðu byggðum landsins,“ segir Ólafur að lokum.

Tafir við leyfisveitingu eru farnar að bitna á uppbyggingu í Reyðarfirði

Tafir við leyfisveitingu eru farnar að bitna á uppbyggingu í Reyðarfirði

„Tafir við leyfisveitingu eru farnar að bitna mjög á þeirri starfsemi sem hefur verið í uppbyggingu í Reyðarfirði undanfarin ár. Fyrirhuguð 10.000 tonna viðbótarframleiðsla á laxi í Reyðarfirði hefur verið til meðferðar í stjórnsýslunni frá árinu 2012.“  – Þannig er komist að orði í nýrri  bókun bæjarráðs Fjarðarbyggðar og sem birtist  á heimasíðu sveitarfélagsins núna 11. september. Bókunin fer hér á eftir:

BÓKUN BÆJARRÁÐS VEGNA ÚTGÁFU LAXELDISLEYFA

Bæjarráð Fjarðabyggðar vill ítreka fyrri bókun sína um útgáfu leyfa í tengslum við laxeldi.

Tafir við leyfisveitingu eru farnar að bitna mjög á þeirri starfsemi sem hefur verið í uppbyggingu í Reyðarfirði undanfarin ár. Fyrirhuguð 10.000 tonna viðbótarframleiðsla á laxi í Reyðarfirði hefur verið til meðferðar í stjórnsýslunni frá árinu 2012. Það er óásættanlegt að fyrirtæki sem vill fjárfesta í atvinnuuppbyggingu sé búið að vera í umsóknarferli í sex ár án þess að niðurstaða sé í sjónmáli og virðist að greinin sitji ekki við sama borð hér og í öðrum landsfjórðungum. Eðlilegt er að sú umsókn taki mið af lögum og reglum sem í gildi eru og þeim gögnum sem þegar hefur verið aflað og lögð fram. Í samræmi við ályktun SSA 2018 leggur Fjarðabyggð áherslu á mikilvægi þess að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir fjölbreytta atvinnuuppbyggingu í fjórðungnum. Fiskeldi getur orðið ein af stoðum atvinnulífsins í Fjarðabyggð og þarf líkt og aðrar atvinnugreinar starfsumhverfi sem er skýrt og stöðugt til langs tíma. Bæjarráð Fjarðabyggðar hvetur stjórnvöld til þess að afgreiða þau mál sem beðið hafa afgreiðslu um árabil og hafa verið tafin ítrekað á grundvelli afturvirkni og jafnvel ólögmætra sjónarmiða. Jafnframt mun bæjarráð óska eftir fundi með Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um málefni laxeldis í Fjarðabyggð.

„Sem stangveiðimaður skil ég ekki þessa öskurumræðu um fiskeldi í sjó vestur á fjörðum“

„Sem stangveiðimaður skil ég ekki þessa öskurumræðu um fiskeldi í sjó vestur á fjörðum“

Efftirfarandi pistil skrifar Runólfur Ágústsson verkefnastjóri á facebooksíðu sína. Runólfur var ma rektor Háskólans á Bifröst, einn af stofnendum og fyrsti framkvæmdastjóri Keilis og  hefur verið einn helsti frumkvöðullinn  að stofnun Lýðháskólans á Flateyri og er stjórnarformaður hans:

„Sem stangveiðimaður skil ég ekki þessa öskurumræðu um fiskeldi í sjó vestur á fjörðum. Atvinnuuppbygging í laxeldi hefur gjörbreytt lífsskilyrðum fólks þar sem uppbygging hefur tekið við af vörn og hnignun. Við þá uppbyggingu er auðvitað nauðsynlegt að hafa í huga vísindalega ráðgjöf og mat okkar besta vísindafólks um áhættu af laxeldi.

Það er einmitt það sem við erum að gera, öfugt við það sem ætla má af umræðunni. Eldisfiskurinn sem veiddist í Vatnsdalsá staðfestir neðangreint mat Hafró. Hann er eini eldislax sumarsins sem veiðist utan Vestfjarða, af ca 40.000 veiddum löxum og hann var ófrjór.

Þeir sem hafa áhuga á faglegri umfjöllun um þetta mál ættu að lesa þessa skýrslu okkar færustu vísindamanna:“

https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2017-027pdf

Fiskeldi getur orðið ein af burðarstoðum atvinnulífsins í Fjarðabyggð

Fiskeldi getur orðið ein af burðarstoðum atvinnulífsins í Fjarðabyggð

„Fisk­eldi get­ur orðið ein af burðarstoðum at­vinnu­lífs­ins í Fjarðabyggð og mik­il­vægt að stjórn­völd skapi heil­brigt og hvetj­andi um­hverfi til upp­bygg­ing­ar í grein­inni. Öflugt at­vinnu­líf er for­senda fram­fara og und­ir­staða vel­ferðar­kerf­is­ins.“ Þetta kemur fram í ályktun fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Fjarðabyggð. – Hér á eftir fer ályktunin í heild sinni:

Full­trúaráð Sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Fjarðabyggð lýs­ir yfir undr­un sinni á að ekki hafi feng­ist heim­ild­ir fyr­ir auknu lax­eldi í Reyðarf­irði eins og burðarþols­mat seg­ir til um og unnið hef­ur verið að á und­an­förn­um árum. Fyr­ir­huguð 10.000 tonna viðbótar­fram­leiðsla á laxi í Reyðarf­irði sem ætti að taka und­ir eðli­leg­um kring­um­stæðum um það bil tvö ár hef­ur verið til meðferðar í stjórn­sýsl­unni frá ár­inu 2012. Ástæður taf­anna verða ekki rakt­ar til fram­kvæmd­araðila held­ur sí­breyti­legs reglu­verks, aft­ur­virkni og yfi­r­álags á stofn­un­um rík­is­ins.

Það er óá­sætt­an­legt að fyr­ir­tækj­um sem vilja fjár­festa í at­vinnu­upp­bygg­ingu sé haldið í spennitreyju stjórn­kerf­is­ins. Fyr­ir­hugaðar fram­kvæmd­ir hafa ít­rekað verið sett­ar í upp­nám og nú síðast á afar ómál­efna­leg­um sjón­ar­miðum þar sem þekkt haf­beitará er skil­greind rang­lega sem laxveiðiá þrátt fyr­ir að ritaðar heim­ild­ir hundruð ára aft­ur í tím­ann sýni með ber­um hætti að eng­an laxa­stofn hef­ur nokkru sinni verið að finna í ánni.

Fisk­eldi get­ur orðið ein af burðarstoðum at­vinnu­lífs­ins í Fjarðabyggð og mik­il­vægt að stjórn­völd skapi heil­brigt og hvetj­andi um­hverfi til upp­bygg­ing­ar í grein­inni. Öflugt at­vinnu­líf er for­senda fram­fara og und­ir­staða vel­ferðar­kerf­is­ins. All­ar at­vinnu­grein­ar þurfa starfs­um­hverfi sem er skýrt og stöðugt til langs tíma. Mik­il­vægt er að ein­falda op­in­bert eft­ir­lit og tryggja að það hamli ekki framþróun.

Full­trúaráð Sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Fjarðabyggð skor­ar á Kristján Þór Júlí­us­son sjáv­ar­út­vegs­ráðherra að höggva á þann hnút sem um­sókn­ar­ferlið er í inn­an ís­lenska stjórn­kerf­is­ins.

Seyðisfjörður með 10 þúsund tonna burðarþol vegna fiskeldis á grundvelli varúðarnálgunar

Seyðisfjörður með 10 þúsund tonna burðarþol vegna fiskeldis á grundvelli varúðarnálgunar

Hafrannsóknastofnun ráðleggur í samræmi við lög um fiskeldi (nr 71/2008 m.s.br.) að hámarklífmassi fiskeldis í Seyðisfirði verði 10.000 tonn. Af þessum ástæðum sem stofnunin tilgreinir í mati sínu gefur varúðarnálgun ástæðu til þess að mæla með því að hámarks lífmassi verði ekki meiri en 10.000 tonn í Seyðisfirði.

Þetta kemur fram í tilkynningu stofnunarinnar sem birtist á vef hennar, https://www.hafogvatn.is/

Í greinargerðinni kemur eftirfarandi ma fram:

„Við breytingu á lögum um fiskeldi (nr. 71/2008) árið 2014 voru sett inn ný ákvæði um að rekstrarleyfi skuli fylgja burðarþolsmat sem framkvæmt sé af Hafrannsóknastofnun. Í lögunum er mat á burðarþolisvæða skilgreint sem mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagián þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmiðsem sett eru samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að metaóæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.
Forsendur
Niðurstaðan byggir á mati á áhrifum eldisins á ýmsa umhverfisþætti strandsjávarvatnshlota eins og lýst er í reglugerð 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Einkum er horft til álags á lífríki botnsins, súrefnisstyrks og styrks næringarefna.
Ekki liggur fyrir matskerfi til að nota við mat á ástandi líffræðilegra gæðaþátta í
strandsjávarvatnshlotum en hér er stuðst við aðrar skuldbindingar eins og t.d. OSPAR samninginn. Til vatnshlota í strandsjó, sem hafa gott eða mjög gott ástand, er gerð sú krafa að ástand þeirra skuli ekki hnigna þrátt fyrir fiskeldi eða aðra starfsemi.
Tillit er tekið til stærðar fjarðarins, dýpis og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk. Í þessu mati er gert ráð fyrir að hámarkslífmassi verði aldrei meiri en 10.000 tonn og að nákvæm vöktun á áhrifum eldisins fari fram samhliða því. Slík vöktun er forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt væri á raungögnum. Jafnframt er bent á að æskilegra er að eldismassi sé frekar utar í firðinum en innar.“
Burðarþolsmat á grundvelli varúðarnálgunar
Þá segir í greinargerð sem fylgir burðarþolsmatinu:
„Margir aðrir líffræðilegir, vistfræðilegir og hagrænir þættir geta líka legið til grundvallar burðarþoli varðandi fiskeldið, t.d. skólplosun, smithætta, lyfjanotkun, erfðablöndun við villta stofna og veiðihagsmunir. Þessu til viðbótar hefur komið í ljós að laxalús og fiskilús geta valdið meiri skaða en áður var talið. Fyrir fjörð sem er jafn lítill og Seyðisfjörður hefur skortur á plássi einnig áhrif á burðarþolið og getur magnað mögulegan lúsavanda. Ljóst er að hér eru fyrir hendi aðstæður sem setja verulegt mark á burðarþol fjarðarins.
Af þessum sökum gefur varúðarnálgun ástæðu til þess að mæla með því að hámarks lífmassi verði ekki meiri en 10.000 tonn í Seyðisfirði.
Í þessu mati er gert ráð fyrir að heildarlífmassi verði aldrei meiri en 10.000 tonn í Seyðisfirði og að nákvæm vöktun á áhrifum eldisins fari fram samhliða því. Slík vöktun er forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt væri á raungögnum.
Jafnframt er bent á að æskilegra er að meiri eldismassi sé frekar utar í firðinum en innar. Þá telur Hafrannsóknastofnun að ástæða sé til að halda þau lágmarks fjarlægðarmörk milli eldisvæða sem reglugerð nr 1170/2015 setur.

Sjá nánar: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/mat-a-burdartholi-seydisfjardar-mtt-sjokviaeldis

Síða 4 af 41« Fyrsta...23456...102030...Síðasta »