Norsk rannsókn staðfestir íslenskar niðurstöður um heilnæmi laxeldisafurða

Norsk rannsókn staðfestir íslenskar niðurstöður um heilnæmi laxeldisafurða

Ný norsk rannsókn bendir til að meira sé af mengandi eiturefnum í villtum laxi heldur en eldislaxi. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Niðurstöðurnar hafa komið mörgum á óvart í ljósi umræðunnar og fullyrðinga ýmissa um óhollustu fiskeldisafurða. Þessi rannsókn staðfestir margar aðrar rannsóknir sem sýna fram á hollustu laxfiska, svo sem vegna mikils innihalds af omega 3.

Ólafur Sigurgeirsson lektor við Fiskeldis og fiksalíffræðideild Háskólans á Hólum hefur bent á að þessar rannsóknir staðfesti fyrri niðurstöður sem meðal annars voru gerðar hér á landi. Vísar hann meðal annars til rannsókna sem voru hluti af stóru vöktunarverkefni sem Evrópusambandið stóð fyrir og náði yfir landbúnaðar- og sjávarafurðir og dýrafóður í aðildarlöndum sambandsins ásamt Noregi og Íslandi árið 2004.

Þar var niðurstaðan á sömu lund. Minna af díoxínum, díoxínlíkum PCB efnum og bendi-PCB efnum fannst í eldislaxi og bleikju en villtri bleikju og laxi. Engu að síður var magn þessa efna í báðum tilvikum langt undir þeim viðmiðunarmörkum sem kveðið er á um. Eða eins og segir í greinargerð rannsóknarinnar:

„Miðað við íslensku aðskotaefnareglugerðina, sem er ein sú strangasta í heimi er varðar bendi-PCB-efni, er styrkur í þessum afurðum langt undir leyfilegum mörkum eða meira en tífalt lægri en þau kveða á um.“

Sjá fréttina á Stöð 2. : http://www.visir.is/g/2017170419230

Sjá niðurstöður íslenskrar rannsóknar: http://www.angling.is/files/Skra_0010620.pdf

 

Skipuleg uppbygging fiskeldis

Skipuleg uppbygging fiskeldis

Þorbjórn Þórðarson fetar villigöturnar í leiðara sínum í Fréttablaðiðinu um fiskeldi hér á landi. Í leiðaranum er því haldið fram að uppbyging eldisins hafi einkennst af fyrirhyggju- og skipulagsleysi. Þannig er það þó ekki. Byggt er á nýlegum lögum, frá árinu 2014 sem undirbúin voru vandlega. Í meðförum Alþingis tók frumvarp þar að lútandi verulegum breytingum, ekki síst til þess að bregðast við ábendingum þeirra sem efasemdir hafa um eldi í sjókvíum hér við land. Með löggjöfinni var afmarkaður skýr rammi og eftirlits- og vísindastofnunum ætlað veigamikið hlutverk við undirbúnings að útgáfu leyfa til fiskeldis.

Varúðarnálgun við burðarþolsmat
Forsenda fiskeldis er að Hafrannsóknarstofnun vinni svo kallað burðarþolsmat á þeim fjörðum þar sem ætlunin er að ala fisk. Ljóst er að stofnunin beitir mikilli varúð við mat á burðarþolinu. Þannig segir í greinargerð með nýjasta burðarþolsmatinu, þ.e í Ísafjarðardjúpi:

„Tillit er tekið til stærðar fjarðarins og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk. Í þessu mati er gert ráð fyrir að hámarkslífmassi verði aldrei meiri en 30 þúsund tonn og að nákvæm vöktun á áhrifum eldisins fari fram samhliða því. Slík vöktun er forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt væri á raungögnum.“

Ítarlegt umhverfismat
Fyrst eftir að burðarþolsmatinu lýkur tekur við næsti kafli. Umhverfismat sem Skipulagsstofnun framkvæmir á grundvelli laga um umhverfismat. Fyrirtækin leggja fram frummatsskýrslu í samræmi við umhverfismatslögin. Aflað er mikilla gagna og leitast við að svara spurningum er lúta að umhverfisaðstæðum. Lögin um umhverfismat opna leiðir mjög margra til þess að gera athugasemdir eða leggja fram spurningar í umhverfismatsferlinu. Reynslan sýnir að sú er og reynslan. Bregðast þarf við þessum spurningum/athugasemdum og kallar það oft á mikla gagnaöflun og ítarleg svör. Fyrst að þessu loknu gefur Skipulagsstofnun út álit sitt.
Þáttur Umhverfisstofnunar og MAST
Þá hefst annað vers. Til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar, MAST. Matvælastofnun skal framsenda umsókn um starfsleyfi fyrir eldi ferskvatns- og sjávarlífvera til Umhverfisstofnunar til meðferðar. Umsóknir um starfsleyfi og rekstrarleyfi skal afgreiða innan sex mánaða frá því að þær berast. Matvælastofnun skal tilkynna umsækjanda hvort umsókn telst fullnægjandi innan mánaðar frá því að umsóknin berst stofnuninni. Á þessu stigi eru einnig kæruleiðir. Umhverfisstofnun auglýsir starfsleyfið og á þeim tíma er unnt að koma að athugasemdum. Þegar Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi skal það sent Matvælastofnun. Ef umsóknir eru samþykktar skulu starfsleyfi og rekstrarleyfi afhent umsækjanda samtímis.
Vinna við fiskeldisleyfi haldi áfram
Af þessu má sjá að starfræksla fiskeldis lýtur mjög ströngum skilyrðum og reglum, enda sýnir reynslan að frá því að fiskeldisfyrirtæki tilkynna áform sín um að hefja starfsemi á tilteknu hafsvæði líða misseri og ár þar til að hægt er að setja seiði í kvíar. Hér á landi er og stuðst við ströngustu reglur sem þekkjast um allan búnað og reynslan sýnir að hefur skilað miklum árangri. Eðlilegt er því að áfram sé haldið við vinnu að þeim fiskeldisleyfum sem sótt hefur verið um til viðkomandi eftirlits og sérfræðistofnana eins og lög kveða á um. Leyfa til fiskeldis verður ekki aflað nema að undangengnum löngum tíma og þau gilda einvörðungu tímabundið. Því er nægur tími til að bregðast við álitaefnum, ábendingum og ákvörðunum sem kunna að verða teknar í þeirri faglegu vinnu sem nú fer fram að frekari stefnumótun í fiskeldismálum hér á landi.
Stærstum hluta strandlengjunnar lokað fyrir fiskeldi
Þó rétt sé að fiskeldi hér á landi hafi notið góðs af reynslu annarra þjóða, svo sem Norðmanna, er ljóst að reglur hér við land eru á margan hátt strangari en í öðrum löndum. Þar má ekki síst nefna þá ákvörðun sem tekin var árið 2004 um að loka stærstum hluta strandlengjunnar fyrir fiskeldi. Þetta var gert í varúðarskyni og var almennt fagnað á sínum tíma. Og þegar menn bera saman aðstæður í Noregi og hér er nauðsynlegt að minnast þessa. Norska laxeldið hófst beinlínis við ósa helstu laxveiðiánna og enginn hafði neitt við það að athuga fyrstu 20 – 30 árin. Í Noregi fer enn fram eldisframleiðsla nálægt helstu búsvæðum villtra laxastofna. Þessu er þveröfugt farið á Íslandi þar sem hér er beinlínis bannað að ala lax í sjókvíum nálægt náttúrulegum villtum laxastofnum.
Leiður misskilningur
Og að lokum þetta: Í leiðaranum kemur sá leiði misskilningur fram að fiskur í kvíum hér við land sé „genetískt breyttur lax.“ Það er einfaldlega rangt. Þessi misskilningur er skiljanlegur, svo oft hefur þessi ranga fullyrðing verið vakin upp og hún svo gengið aftur í umræðunni æ ofan í æ.

Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva.

Fiskeldi í heiminum er í sókn

Fiskeldi í heiminum er í sókn

Lífsseig er hún sú flökkusaga, en jafn kolröng, að fiskeldi sé á undanhaldi í heiminum og ekki síst í okkar heimshluta. Oft hefur mátt lesa þetta hér í Fréttablaðinu og síðast nú alveg nýverið. Þó er þessu alveg öfugt farið. Fiskeldi er almennt að aukast í veröldinni. Í þeim löndum á okkar slóðum sem geta stundað fiskeldi hefur það vaxið og áform stjórnvaldanna standa til þess auka það enn frekar.
Allt er það að vonum. Það er alveg ljóst – og raunar óumdeilt – að vaxandi fæðuþörf mannkyns verður ekki mætt nema með auknu fiskeldi. Bágt ástand margra villtra fiskistofna gerir það að verkum að því fer fjarri að fiskveiðar geti núna mætt vaxandi fæðuþörf; og alls ekki í framtíðinni. Jafnvel þó betur væri staðið að málum við fiskveiðar í heiminum hrykki það ekki til. Fiskeldi er því svarið við þeirri staðreynd.
Fiskeldi er margbreytilegt. Skel og krabbadýr, fjölbreytileg flóra fiskitegunda og áfram má telja. Mismunandi náttúrulegar aðstæður í heiminum ráða því. Sumt fer fram á landi en annað í sjó. Aðstæður í hverju landi og hverjum heimshluta stýra þeirri þróun.
Þess vegna er fiskeldi í heiminum í stöðugri sókn og stöðugum vexti. Meira en helmingi allrar fisk og sjávardýraneyslu í heiminum er mætt með fiskeldi. Eldisfiskur í heiminum er framleiddur í meira mæli en nautakjöt. Og ef laxeldi er skoðað sérstaklega þá blasa við athyglisverðar tölur. Laxeldi í heiminum nemur um 2,1 milljónum tonna, sem svarar til um 15 milljarða máltíða á ári. Framleiðsluverðmætið er um 10 milljarðar dollara, 1.1100 milljörðum íslenskra króna.
Það er því ekki að undra að stofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar hvetji til aukins fiskeldis og sama á við um stjórnvöld um víða veröld, svo sem eins og í löndunum í kring um okkur. „Fiskeldi skiptir sköpum til þess að mæta fæðuþörf heimsins næstu 50 árin“, sagði til að mynda Kofi Annan fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Það er ástæða fyrir okkur Íslendinga sem og aðra að leggja við hlustir og svara þessu ákalli.
Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva

Ótrúlega fjölbreytt störf unnin í fiskeldi

Ótrúlega fjölbreytt störf unnin í fiskeldi

Anna Vilborg Rúnarsdóttir mannauðsstjóri hjá Arnarlaxi á Bíldudal vakti athygli á því í erindi á ráðstefnu Strandbúnaðar í síðasta mánuði hversu fjölbreytt þau störf eru sem fiskeldið útheimtir. Hún brá upp á skjá yfirliti yfir ýmis þau sérfræðistörf sem unnin eru í fiskeldi. Hér er alls ekki um tæmandi lista að ræða, heldur dæmi um þann margbreytileika sem einkennir fiskeldisstarfsemina.
Til viðbótar við þessa miklu upptalningu má vitaskuld bæta við störfum í vinnslu á laxinum, störf við kvíar, fóðrun, akstur, og margt fleira. En upptalningin er fróðleg og kemur ábyggilega ýmsum á óvart, sem hafa mátt sitja undir þeim úrtöluröddum sem lítill skortur er á þegar kemur að umræðunni um fiskeldið.
En hér fer á eftir upptalning á nokkrum þeim sérfræðistörfum, sem unnin eru í nútímafiskeldi, eins því sem nú er að byggjast upp á Austfjörðum og Vestfjörðum.

Viðskiptafræðingar
Bókari
Náms og starfsráðgjafi/mannauðsstjórnun
Matvælafræðingur
Sjávarútvegsfræðingur
Líffræðingur
Fiskeldisfræðingar
Sölu og markaðsfræðingar
Dýralæknir-fisksjúkdómafræðingur
Gæðastjórar
Eldisstjóri-ferskvatns
Eldisstjóri-sjó
Framleiðslustjóri
Lögfræðingar

Fæðuframboð úr fiskeldi er meira en frá fiskveiðum

Fæðuframboð úr fiskeldi er meira en frá fiskveiðum

Um heim allan, þar með talið í okkar heimshluta, er áhersla lögð á aukið fiskeldi. Það er eina leiðin til að mæta aukinni próteinþörf mannkyns. Samt er reynt að halda því á lofti hér á landi að fiskeldi sé á undanhaldi, ekki síst eldi í sjó. Gögn frá FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna segja  okkur annað. Fiskeldi fer vaxandi í heiminum  og mun enn aukast.
Meðfylgjandi mynd varpar skýru ljósi á þetta. Þegar skoðuð er skipting á framboði á fiski í heiminum blasir þetta við:
Árið 1980 var hlutdeild fiskeldisins í heildarframboði á fiski í heiminum 8 prósent, en hlutur fiskveiðanna 92 prósent.
Árið 2014 var hlutdeild fiskeldisins og fiskveiðanna jöfn, 50 prósent hjá hvorum um sig.
Árið 2024 verður fiskur úr fiskeldi, hins vegar orðin mun meiri en veiddur afli, eða 56 prósent a móti 44 prósentum.
Þessar tölur eru byggðar á gögnum frá FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Við blasir að þessi þróun er óhjákvæmileg. Íbúum heimsins fjölgar, lífskjör í flestum heimshlutum fara batnandi og eftirspurnin eftir fjölbreyttri fæðu eykst því ár hvert.

Aqua-Nor fiskeldissýningin 2017

Aqua-Nor fiskeldissýningin 2017

Aqua-Nor fiskeldissýningin í Þrándheimi í Noregi er vafalítið ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum ( sjá http://www.aqua-nor.no/ ensk síða undir fánanum). Vafalaust ætlar margt fiskeldisfólk frá Íslandi sér að heimsækja sýninguna og tengda atburði. Sýningin er fjölsótt af fagfólki víða að úr heiminum og iðulega er áskorun að finna hótelherbergi í borginni og því ráðlegt að gera ráðstafanir í fyrra fallinu ef það er ekki þegar frágengið. Sýningin er haldin annað hvert ár (á móti Nor-Fishing sjávarútvegssýningunni) og verður í ár haldin dagana 15. – 18. ágúst nk. Dagskráin var gerð opinber í dag og lítur svona út ( http://www.aqua-nor.no/program-2017/ enska undir fánanum). Vert er að vekja athygli á að daginn fyrir opnun sýningarinnar skipuleggur Innovasjon Norway (Nýsköpunarmiðstöð Noregs) dagsferð frá Þrándheimi með báti þar sem fiskeldi í Þrándheimsfirðinum er heimsótt (sjá í dagskránni um skráningu).

Sjá tengla á ensku og norsku inn á heimasíðu Aqua-Nor fiskeldissýninguna.

http://www.aqua-nor.no/?lang=en

http://www.aqua-nor.no/

http://www.aqua-nor.no/program-2017/

 

Síða 30 af 41« Fyrsta...1020...2829303132...40...Síðasta »