Góðar markaðsaðstæður fyrir lax og regnbogasilung

Góðar markaðsaðstæður fyrir lax og regnbogasilung

Markaðsaðstæður fyrir lax til lengri og skemmri tíma eru góðar, að mati Pareto, hins þekkta norska fjárfestingarbanka. Verð á regnbogasilungi er svipað. Bankinn telur að verð á laxi verði um 890 til 915 krónur á kíló út árið 2020. Þessu veldur aukin eftirspurn eftir laxi en einnig minni framboðsaukning en áður var talið. Allt bendir til að verð til lengri tíma, þ.e árin 2021 til 2022 verði nálægt 930 krónum á kíló.
Svipaða sögu að segja af regnbogasilungi
Svipaða sögu er að segja af regnbogasilungi, en framleiðsla á honum er aftur að vaxa hér á landi. Verð á honum hefur verið um 870 krónur á þriðja ársfjórðungi þessa árs og Pareto telur að verðið á honum stefni í 885 krónur að jafnaði á síðasta ársfjórðungi. Bendir bankinn á að verð á regnbogasilungi fylgi mjög heimsmarkaðsverði á laxi, enda svipaður að gæðum, útliti og bragðið áþekkt. Verðið er þó stöðugra enda meira um langtímasaölusamninga.
Framboð eykst og markaðurinn tilbúinn að greiða hækkandi verð
Það er mat bankans að framboð á laxi aukist um 5 til 6 prósent á komandi árum. En eins og segir í greiningu hans, kemur það þægilega á óvart að markaðurinn sé tilbúinn til að greiða hækkandi verð fyrir lax til frambúðar. Þetta á við um hefðbundna markaði í Bandaríkjunum og Evrópu en enn bíða ónýttir markaðsmöguleikar í vaxandi umsvifum í Asíu.
Aukin vitund um hollustu laxaafurða
Í greiningu bankans er bent á að sterkari vitund neytenda um hollustu fiskafurða, ekki síst laxaafurða, hafi stuðlað að aukinni neyslu. Þannig er vakin athygli á að innflutningur á laxi til Bandaríkjanna hafi aukist um 7 prósent á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Einnig er umtalsverð aukning á laxi í Suður Ameríku.
Stækkandi asíumarkaður
Asíumarkaður fyrir lax vex nú ár frá ári. Hlutur Norðmanna er þar lang mestur eða rúmlega helmingur. Vitund neytenda í álfunni um sjálfbærni framleiðslunnar og rekjanleiki varanna fer vaxandi og með því að æ stærri hluti íbúanna býr við batnandi lífskjör má búast við meiri eftitrspurn eftir laxi.
Góð verð um hátíðirnar
Mat bankans er að verð nú um jólahátíðarnar verði mjög gott. Framboð frá Chile og Noregi verður minna sem muni koma fram í háum verðum.

„Þetta er flott vinna“

„Þetta er flott vinna“

„.Ég fer reglulega á suðurhluta Vestfjarða vegna starfsemi okkar þar. Það hefur orðið gífurleg breyting á þessum byggðum á stuttum tíma vegna fiskeldisins. Þetta er flott vinna og gott fyrir fólk að eiga möguleika á ágætlega launuðum störfum“.
Þetta segir Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Grundarfirði í samtali við Morgunblaðið, sl fimmtudag, 25 október sl.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga er með framhaldsdeild á Patreksfirði og það var að áeggjan Vesturbyggðar og Arnarlax, stærsta laxeldisfyrirtækis landsins, að farið var að huga að fiskeldisbraut. Samstarf er einnig við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað um þróun námsins en þar er annað framtíðarfiskeldissvæði. Þessir tveir skólar starfa saman að fjarkennslu ásamt fleiri minni framhaldsskólum.

Hér á eftir fer frétt Morgunblaðsins í heild sinni:
Fjölbrautaskóli Snæfellinga í Grundarfirði býður nú upp á nám í fiskeldisfræðum á framhaldsskólastigi. Byrjað var í haust en skólameistarinn segir að fáir nemendur séu byrjaðir enda sé eftir að fá verknámshlutann samþykktan. Vonast hún til að kennsla hefjist fyrir alvöru eftir áramót.
Samstarf framhaldsskóla á Austfjörðum og Vestfjörðum
Fjölbrautaskólinn er með framhaldsdeild á Patreksfirði og það var að áeggjan Vesturbyggðar og Arnarlax, stærsta laxeldisfyrirtækis landsins, að farið var að huga að fiskeldisbraut. Samstarf er einnig við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað um þróun námsins en þar er annað framtíðarfiskeldissvæði. Þessir tveir skólar starfa saman að fjarkennslu ásamt fleiri minni framhaldsskólum.
Tveggja ára nám
Nám á fiskeldisbraut er tveggja ára nám, 120 eininga, með námslokum á öðru hæfnisþrepi. Meginmarkmið námsins er, samkvæmt upplýsingum Sólrúnar Guðjónsdóttur aðstoðarskólameistara, að undirbúa nemendur undir sérhæfð störf á sviði fiskeldis og er lögð áhersla á að þjálfa nákvæmni í vinnubrögðum, áreiðanleika og hæfni til að vinna sjálfstætt undir stjórn yfirmanns. Að loknu námi á nemandi að geta skipulagt og forgangsraðað störfum sínum, veitt jafningjum ráðgjöf og leiðbeiningar í samvinnu við yfirmann.
Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari segir að skólinn muni útskrifa sérhæfða fiskeldisstarfsmenn sem geti hafið störf við eldið eða haldið áfram námi til stúdentsprófs og farið í háskólanám í fiskeldi við Háskólann á Hólum.
Námsbrautin er í staðfestingarferli
Námsbrautin er í staðfestingarferli hjá Menntamálastofnun og segir Hrafnhildur að leyfi sé komið fyrir bóklega hlutanum. Verknámið sé í vinnslu hjá starfsgreinaráði.
Einn nemandi hóf nám í haust og sjö til viðbótar sem lokið hafa bóklega hlutanum sóttu um verknámið en það verður væntanlega hafið um áramót. Þá verður einnig bætt við nemendum.
„Gífurleg breyting á þessum byggðum vegna fiskeldisins“
Hrafnhildur segir að það taki tíma að byggja upp nýja námsbraut og kynna hana. Hún nefnir að ekki hafi verið mikil spurn eftir starfsnámi en vonandi sé það að breytast. Þá hafi óvissan sem vofði yfir fiskeldisfyrirtækjunum á sunnanverðum Vestfjörðum fyrr í vetur ekki hjálpað. Nemendur hafi haldið að sér höndum.
„Ég fer reglulega á suðurhluta Vestfjarða vegna starfsemi okkar þar. Það hefur orðið gífurleg breyting á þessum byggðum á stuttum tíma vegna fiskeldisins. Þetta er flott vinna og gott fyrir fólk að eiga möguleika á ágætlega launuðum störfum“.

Hlutfallsleg aukning atvinnutekna er mest í fiskeldi

Hlutfallsleg aukning atvinnutekna er mest í fiskeldi

Atvinnutekjur frá fiskeldi þrefölduðust ríflega á tímabilinu 2008 til 2016. Fóru úr um 800 milljónum króna í tæplega 2,7 milljarða. Af einstaka atvinnugreinum var þessi aukning hlutfallslega hvergi meiri.
Þetta kemur fram í fréttaskýringu sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 12. október. Hér á eftir verða raktar nokkrar tölulegar staðreyndir úr fréttaskýringunni:
Útflutningsverðmæti og fjárfestingar  

Útflutningur eldisafurða hefur aldrei verið meiri en um þessar mundir. Verðmætið eru tæpir 9 milljarðar á fyrstu átta mánuðum ársins.
 Útflutningsverðmæti eldisafurða í fyrra nam um 14 milljörðum sem var 7% af útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild árið 2017
 Fjárfestingar í fiskeldi hafa aldrei verið meiri en síðustu tvö árin.
Fjöldi starfa og atvinnutekjur
 Árið 2008 störfuðu 166 við fiskeldi.
 Á fyrri hluta þessa árs störfuðu að jafnaði 457 við fiskeldi.
 Atvinnutekjur frá fiskeldi þrefölduðust ríflega á tímabilinu 2008 til 2016, skv. samantekt Byggðastofnunar frá því í fyrra.
 Atvinnutekjur í fiskeldi voru 800 milljónir árið 2008. Voru 2,7 milljarðar árið 2016.
Fiskeldið og landsbyggðin
 Um 80 prósent atvinnutekna í fiskeldi voru á landsbyggðinni árið 2016.
 34% atvinnutekna frá fiskeldi má rekja til Vestfjarða.
 Atvinnutekjur frá fiskeldi á Vestfjörðum fjórtán földuðust á árunum 2008 til 2016.
 Fram hefur komið að atvinnutekjur vestfirsku fiskeldisfyrirtækjanna voru í fyrra um 1,5 milljarður.

ÚTILOKAÐ AÐ BYGGJA LAXELDI EINGÖNGU UPP Á LANDI

ÚTILOKAÐ AÐ BYGGJA LAXELDI EINGÖNGU UPP Á LANDI

Eldisframleiðsla á laxi í heiminum er um 2,5 milljónir tonna. Það svarar til um 17 milljarða máltíða. Hlutur landeldisins er um 0,1 prósent, eins og fram hefur komið m.a. í grein eftir Helga Thorarensen prófessor við Háskólann á Hólum. Þetta sýnir í hnotskurn hversu fráleitt það er að unnt sé að flytja allt það laxeldi upp á land sem nú fer nánast að öllu leyti fram í sjó. Þó er þessu haldið fram af fullri alvöru, að ætla má, í opinberri umræðu.

FÁEIN HUNDRUÐ TONN
Rétt er það að ýmis dæmi má nefna um áform um frekara landeldi. Það er hins vegar alveg jafn ljóst að þó öll hin ítrustu áform gangi eftir, sem þó má telja ólíklegt, mun það ekki breyta heildarmyndinni. Laxeldisframleiðslan verður í fyrirsjáanlegri framtíð að langmestu leyti í sjó en ekki á landi. Landeldisframleiðslan sem stundum er vísað til sem sérstakrar fyrirmyndar fyrir okkur Íslendinga, svo sem í Kanada, Póllandi og Sviss, hleypur á fáeinum hundruðum tonna á ári í hverjum stað. Það gefur augaleið að eldi af þeirri stærðargráðu stendur ekki undir fjárfestingu og rekstrarkostnaði sem fylgir nútíma fiskeldi.

Einar K. Guðfinnsson: Nýlega kom út skýrsla nokkurra virtra vísindastofnana í Noregi sem ætlað er að varpa ljósi á stöðu og möguleika landeldisins í samanburði við sjókvíaeldið. Þar getur margt fróðlegt að líta. Meðal annars það að framleiðslukostnaðurinn í landeldinu þar í landi væri nær 50 prósent hærri en í hefðbundnu eldi í sjókvíum.

KOSTNAÐURINN 50% MEIRI
Vitaskuld á landeldi á laxi sem og öðrum tegundum fullan rétt á sér og gerir ekkert annað en að auka fjölbreytni í þeirri mikilvægu starfsemi sem fiskeldið er. Því ber að fagna að menn vilji stunda fiskeldi á landi til viðbótar við þá starfsemi sem fer fram í sjókvíum og verður auðvitað ráðandi um ókomin ár.

Nýlega kom út skýrsla nokkurra virtra vísindastofnana í Noregi sem ætlað er að varpa ljósi á stöðu og möguleika landeldisins í samanburði við sjókvíaeldið. Þar getur margt fróðlegt að líta. Meðal annars það að framleiðslukostnaðurinn í landeldinu þar í landi væri nær 50 prósent hærri en í hefðbundnu eldi í sjókvíum.

MIKIL ANDSTAÐA VIÐ LANDELDI Í BANDARÍKJUNUM
Því var slegið upp í fjölmiðlum að mikil áform væru nú í Bandaríkjunum um landeldi og vísað til þess að það væri til marks um breyttar áherslur í heiminum í fiskeldismálum. Í þessu sambandi er athyglisvert að fylgjast með harðvítugri umræðu sem á sér stað t.a.m. í Maine-fylki þar sem slík áform hafa verið kynnt og þar sem gagnrýnin beinist mjög að umhverfisþáttum, svo sem landrými, vatnsnotkun, úrgangi og fleiri þáttum. Því fer þess vegna víðs fjarri að úti í hinum stóra heimi sé eintóm ánægja með þessa þróun og eftirtektarvert er að að sumu leyti er beitt sama málflutningi og gert er í gagnrýninni á fiskeldi hér á landi.

LANDELDI NÆRRI MÖRKUÐUM – FJARRI ÍSLANDI
Þau áform sem helst eru núna til umræðu varðandi landeldi eru á svæðum sem liggja nærri helstu mörkuðum, svo sem í Bandaríkjunum. Þannig horfa fjárfestarnir á að fjárhagslegt óhagræði af landeldi í samanburði við sjókvíaeldi megi að nokkru vega upp með nálægð við markaðina. Þegar af þeirri ástæðu gefur það augaleið að landeldi hér á landi gæti aldrei staðist þessum keppinautum snúning og svo sem ekki heldur í Noregi ef út í það er farið, nema þá ef til vill í litlum mæli hlutfallslega. Hugmyndir um landeldi á laxi á svæðum hér á landi þar sem nú er stundað sjókvíaeldi, á Austfjörðum og Vestfjörðum, eru því gjörsamlega óraunhæfar.

HVAR Á AÐ VIRKJA?
Fiskeldi á landi í stórum stíl kallar á mikla orku. Það er því ljóst að ef menn ætla að stunda landeldi á laxi svo um munar kallar það á virkjanir til viðbótar því sem fyrirhuguð stóraukin orkuþörf, m.a. vegna orkuskipta, hefur í för með sér. Ætla menn að um það gæti orðið almenn sátt í samfélaginu? – Við vitum öll svarið við því.

VATNSNOTKUN, ÚRGANGUR, LANDNÝTING OG DÝPRA KOLEFNISFÓTSPOR
Landeldi hefur einnig í för með sér mikla vatnsnotkun sem ekki er endilega alls staðar auðvelt að verða við, jafnvel hér á landi, þó það komi kannski á óvart. Endurnýtingarkerfi á hinn bóginn sem unnt væri að nota til að draga úr vatnsnotkun krefst viðbótarorku sem í dag er ekki til staðar. Þá er ljóst að úrgangsmál frá landeldi sem fram fer í stórum stíl er alls ekki einfalt úrlausnarefni. Ofan á þetta allt saman bætist síðan að kolefnisfótspor slíkrar starfsemi er mun dýpra en í sjókvíaeldi, sem er kannski ekki beinlínis það æskilegasta þegar við heyrum bókstaflega neyðaróp um alla heimsbyggðina um að draga úr slíku. Loks er að nefna að landeldi af nægjanlegri stærðargráðu útheimtir gríðarleg landsvæði nærri þéttbýli.

„ÚTILOKAÐ AÐ BYGGJA LAXELDI EINGÖNGU UPP Á LANDI“
Á Íslandi hefur verið stundað laxeldi á landi í takmörkuðum mæli um árabil og verið til mikillar fyrirmyndar. Hér er því til staðar reynsla og samanburður við aðra kosti. Það eru þess vegna hæg heimatökin að kalla eftir áliti þeirra sem reynsluna hafa. Það vill svo vel til að slíkt hefur verið gert og niðurstaðan er einföld og skýr: „Ef þetta er allt tekið saman má segja að útilokað sé að byggja laxeldi eingöngu upp á landi,“ segja þeir sem tala af langri eigin reynslu.

Einar K. Guðfinnsson, stjórnarformaður Landssambands fiskeldissstöðva

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 11. október 2018

Fagnaðarefni úrskurðarnefndar

Fagnaðarefni úrskurðarnefndar

Ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á dögunum um að fella úr gildi starfsleyfi laxeldisfyrirtækja á sunnanverðum Vestfjörðum er að nokkru leyti fagnaðarefni. Hann færir ákveðna tilhneigingu stjórnsýslunnar sem átt hefur sér stað gagnvart landsbyggðinni á liðnum árum, einkum Vestfjörðum, á endastöð. Tilhneigingu sem hefur varað hefur verið við um margra ára skeið við litlar undirtektir og viðbrögð löggjafans. Loksins hefur verið kveðinn upp úrskurður sem gekk rækilega fram af almenningi. Svo mjög að löggjafinn mun bregðast við. Hvort og þá hvernig og hversu hratt og örugglega það verður á eftir að koma í ljós.

Tilhneiging stjórnsýslunnar

Tilhneigingin sem hér um ræðir er sú að gerðar hafa verið meiri kröfur til framkvæmda í fámenninu en í fjölmenninu. Gengið harðar fram og lagabókstafurinn túlkaður bókstaflega. Um leið látið undan óbilgjörnum og um margt fráleitum hugmyndum, sem settar hafa verið í búning samtaka, sjaldnast fjölmennari en sem nemur einum eða tveimur mönnum. Flest hefur þetta verið gert undir nafni náttúruverndar. Náttúruverndar sem enginn í fjölmenninu vill ástunda heima hjá sér en landsbyggðin, oft Vestfirðir, eiga að fullnusta. Daglegt líf og hagsmunir íbúa hafa engu máli skipt.

Dæmin fjölmörgu

Dæmin eru fjölmörg og ærir auðvitað óstöðugan að fara að nefna þau enn einu sinni. Það skal samt gert. Sjálfsögð vegagerð um Teigsskóg hefur frestast um áratugi vegna lagaþrætu eiganda tveggja sumarskýla. Vegagerð sem þykir sjálfsögð á öðrum stöðum á landinu. Í þeim málarekstri hefur stjórnsýslan algjörlega brugðist og látið allt meðalhóf lönd og leið. Fellt úrskurði sem óhugsandi er að muni nokkurn tímann falla í fjölmenninu. Hámarkinu hingað til var þó náð þegar tveir auðjöfrar gátu í krafti fjármagns komið í veg fyrir eðlilega afgreiðslu skipulagsvaldsins í héraði.

Sjálfbærni í raforkuframleiðslu hefur þótt sjálfsagður réttur hvar sem er á landinu. Á Vestfjörðum er hins vegar ennþá stuðst við olíuframleidda raforku stóran hluta ársins. Virkjun, sem í áraraðir hefur verið í nýtingaflokki og farið í gegnum nálarauga fremstu umhverfissinna landsins, varð allt í einu bitbein þegar hún var því sem næst komin á framkvæmdastig. Reynt var að hafa áhrif á skipulagsvald í héraði bæði í krafti fjármagns og ólöglegra búferlaflutninga fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Áform í fiskeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum á grundvelli 14 ára gamallar vísindalegrar ákvörðunar urðu skyndilega orustuvöllur fámenns hóps veiðirétthafa sem stofnað hafa um þá herferð svokölluð umhverfissamtök. Málflutningur andstæðinga fiskeldis undir ströngu vísindalegu eftirliti virðist engum takmörkunum háður og í litlu samræmi við raunveruleikann. Þar er slegið fram fullyrðingum sem henta hverju sinni í trausti þess að almenningur átti sig ekki á staðreyndum máls hverju sinni. Þáttur Hafrannsóknarstofnunar í málinu er ámælisverður og gert það að verkum að áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpi eru í fullkomnu uppnámi. Svokölluð stefnumótun milli eldisfyrirtækja og veiðirétthafa á síðasta ári, sem í raun fól í sér mismunun á milli eldissvæða og fyrirtækja, hefur sýnt sig að var mikið óhappaverk. Sú stefnumótun er auðvitað ekki pappírsins virði því veiðirétthafar hafa aldrei virt hana.

Halldór Jónsson: Öll matvælaframleiðsla er mengandi. Laxeldi í sjó er sú grein sem hvað minnst mengar. Við hvaða kosti þurfa mjólkurbændur og nautgripabændur að bera sína framleiðslu saman við þegar kemur að umhverfismati.

Mengandi matvælaframleiðsla

Ákvörðun úrskurðarnefndar á dögunum dugir ekki að skoða undir þröngu sjónarhorni. Að því gefnu að eitt skuli yfir alla ganga í úrskurðum nefndarinnar verður fróðlegt að sjá hvernig ganga mun hjá öðrum fyrirtækjum í matvælaframleiðslu í framtíðinni þegar kemur að skipulagsmálum. Öll matvælaframleiðsla er mengandi. Laxeldi í sjó er sú grein sem hvað minnst mengar. Við hvaða kosti þurfa mjólkurbændur og nautgripabændur að bera sína framleiðslu saman við þegar kemur að umhverfismati. Eigi náttúran að njóta vafans, eins og úrskurðarnefndin kallar nú eftir, er borðleggjandi að hætt verði mjólkur- og nautakjötsframleiðslu. Hvað þá kjúklinga- og svínarækt.

Ákvörðun úrskurðarnefndar á dögunum er nefnilega ekki einkamál laxeldisfyrirtækja. Hún snertir alla matvælaframleiðslu og að því leyti er hún fagnaðarefni.

Mannfyrirlitningin og rasisminn

Úrskurðurinn hefur kallað fram ótrúlega framkomu forystumanns veiðirétthafa og umhverfissamtaka gagnvart íbúum þeirra landssvæða er í hlut eiga. Fyrirlitning gagnvart hagsmunum íbúa er algjör. Forystumaður þeirra grípur til ósanninda um starfsmannafjölda fyrirtækja og fjölda íbúa er í hlut eiga. Steininn tók þó úr þegar hann bar fyrir sig í sjónvarpsviðtali fullkomnum rasisma þegar hann lýsti því yfir að íbúarnir skiptu ekki máli því þeir væru flestir pólverjar. Þetta gerist á sama tíma og þjóðin á erfitt með að trúa sögum um framkomu við erlent verkafólk.

Úrskurðurinn er því eins og áður sagði að mörgu leyti fagnaðarefni. Hann hefur staðfest ójafna stöðu íbúa gagnvart stjórnsýslunni og því miður talsverða mannfyrirlitningu. Nú hlýtur botninum að vera náð. Löggjafinn getur ekki annað en dregið gluggatjöldin þungu frá og hleypt hreinu lofti og birtunni inn.

Halldór Jónsson

„Undir þeim mörkum að erfðasamsetningu villtu stofnanna sé hætta búin“

„Undir þeim mörkum að erfðasamsetningu villtu stofnanna sé hætta búin“

„Þessi fjöldi eldislaxa í ám á þessum svæðum, er í samræmi við það sem áhættumat um erfðablöndun gerir ráð fyrir miðað við núverandi umfang sjókvíaeldiseldis hér við land. Hlutfall eldislaxa í þessum ám er, miðað við þennan fjölda laxa, vel undir þeim mörkum að erfðasamsetningu villtu stofnanna sé hætta búin.“

Þetta segir á vef Hafrannsóknastofnnar í framhaldi af  tilkynningum um 4 laxa í ám sem „voru hugsanlega taldir ættaðir úr eldi“.

Sjá umfjöllun Hafrannsóknastofnunar í heild: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/voktun-a-laxveidiam

Síða 3 af 4112345...102030...Síðasta »