Vegna fiskeldisins snýr unga fólkið aftur til Vestfjarða

Vegna fiskeldisins snýr unga fólkið aftur til Vestfjarða

 

Friðbjörg Matthíasdóttir

Friðbjörg Matthíasdóttir starfandi bæjarstjóri í Vesturbyggð: „Fiskeldið skapar fjölbreytt störf á sjó og landi, meðal annars fyrir iðnmenntað fólk. Það skapar störf fyrir skrifstofufólk og fjölbreytt kvennastörf, sem einmitt skorti mikið. Það skapar líka mörg tækifæri í afleiddum störfum.“

Friðbjörg Matthíasdóttir starfandi sveitarstjóri í Vesturbyggð og Indriði Indriðason sveitatstjóri á Tálknafirði segja fiskeldi hafa gjörbreytt atvinnulífi svæðisins. Íbúum sé aftur tekið að fjölga. Þetta kemur fram í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.
Friðbjörg segir atvinnulífið hafa breyst til batnaðar með tilkomu fiskeldis. Það hafi m.a. vegið upp samdrátt í hefðbundinni fiskvinnslu.
Fiskeldið skapar fjölbreytt kvennastörf
Hún segir að vegna fiskeldis hafi margt ungt fólk snúið aftur til Vestfjarða.
„Fiskeldið skapar fjölbreytt störf á sjó og landi, meðal annars fyrir iðnmenntað fólk. Það skapar störf fyrir skrifstofufólk og fjölbreytt kvennastörf, sem einmitt skorti mikið. Það skapar líka mörg tækifæri í afleiddum störfum.“

„Nú er börnum að fjölga í grunnskólum og leikskólum“
Spurð um þróun atvinnuleysis á svæðinu segir Friðbjörg slíkar tölur ekki segja allt. „Fólkið bara fór,“ segir hún. „Nú er börnum að fjölga í grunnskólum og leikskólum.“

Tekjur Vesturbyggðar aukast
Í fréttaskýringunni segir ennfremur:
Friðbjörg segir tekjur Vesturbyggðar hafa aukist með fjölgun íbúa og auknum umsvifum í atvinnulífinu. Hún segir að þótt fasteignaverð hafi hækkað með aukinni eftirspurn sé það enn undir byggingarkostnaði.

Fleiri egg í körfuna
Indriði Indriðason, oddviti Tálknafjarðarhrepps, segir að nú sem endranær sé lífið saltfiskur á Vestfjörðum. „Samfélögin hafa verið í takt við afkomu sjávarútvegs síðustu ár. Því miður hefur afkoman ekki verið nógu góð. Menn hafa verið í varnarbaráttu. Nú eru hins vegar komin fleiri egg í körfuna. Sem þýðir að það eru auknar væntingar hjá fólki um betri afkomu, húsnæðisverð hækkar og það er aukinn fjölbreytileiki í atvinnulífi. Það er búið að sá í jarðveginn upp á nýtt og hann er nokkuð frjór.“
Spurður hvaða nýju egg þetta séu segir Indriði að fiskeldið vegi þar langþyngst. Ferðaþjónustan sé að vaxa en sé ekki orðin heilsársgrein. Til þess þurfi betri samgöngur.

Indriði Indriðason, sveitarstjóri á Tálknafirði

Stjórnvöld greiði fyrir frekari uppbyggingu
Indriði skorar á stjórnvöld að greiða fyrir frekari uppbyggingu í fiskeldi.
„Við erum á réttri leið. Það þarf þó aðeins að slá í klárinn. Það eru gríðarleg tækifæri sem fylgja svona atvinnugrein. Það er mikið rætt um kosti og galla fiskeldis. Við erum matvælaframleiðsluþjóð. Tölur úr sjávarútvegi benda til að hann hafi staðið í stað síðustu 10-12 ár í magni af fiski upp úr sjó og að aukið framboð [af fiski] megi rekja til fiskeldis. Ætlum við að taka þátt í þeirri grein og framleiða matvæli, fisk til útflutnings, eða ætlum við að standa í stað?

Vandamál okkar er miðstýringin“
Vandamál okkar er miðstýringin sem virðist vera orðin svo mikil í þessu öllu. Við erum alltof háðir ákvörðunum annarra, eftirlitstofnana og fleiri aðila, suður í Reykjavík, hvað varðar uppbyggingu í fiskeldi. Því miður erum við orðin áhorfendur að því sem á að gerast í okkar lífi og bíðum þess að mega gera hlutina í stað þess að geta farið og framkvæmt.“

„Kerfið er alltaf nokkrum skrefum á eftir“
Spurður um birtingarmyndir aukinnar miðstýringar segist Indriði vísa til fiskeldisleyfa og „hvernig hið opinbera er í forsvari fyrir útgáfu leyfa og fleira. Svo virðist sem grunnvinnan og grunnþekkingin sé ekki komin það langt að menn geti staðið í lapirn¬ar og gert þetta faglega. Þetta tekur mjög langan tíma. Fiskeldi er búið að vera á prjónunum í mörg, mörg ár. Ef hið opinbera hefði verið í takt allan tímann hefðu menn sjálfsagt verið farnir að undirbúa að efla þekkingu í þeim stofnunum sem eiga að taka að sér þennan málaflokk og sjá um hann. Það er eins og kerfið sé alltaf nokkrum skrefum á eftir,“ seg¬ir Indriði Indriðason sveitarstjóri á Tálknafirði. Kerfið sé svifaseint.

Laxeldi er mikilvægasta útflutningsgreinin á sviði matvæla í Skotlandi

Laxeldi er mikilvægasta útflutningsgreinin á sviði matvæla í Skotlandi

Rekja má sögu skosks fiskeldis 50 ár aftur í tímann. Upphaflega var litið á fiskeldið í Skotlandi sem lið í því að auka fjölbreytni atvinnulífs og útflutnings. Í dag er staðan hins vegar sú að fiskeldið er orðið stærsta útflutningsgreinin á sviði matvæla í Skotlandi.
Þetta kemur fram í grein sem Scott Landsburgh formaður Landssambands fiskeldisstöðva í Skotlandi ritaði nýverið.

Scott Landsburg

Scott Landsburg: Mikilvægasti markaðurinn fyrir skoskt fiskeldi er heimamarkaðurinn í Bretlandi.

Stefnt að tvöföldun framleiðslunnar
Í grein Landsburg kemur ennfremur fram að lang mikilvægasti markaður fyrir skoskar fiskeldiafurðir er heimamarkaðurinn. Það er markaðurinn í Bretlandi. Útflutningsverðmæti laxafurðanna frá Skotlandi er nú um 500 milljónir sterlingspunda, eða tæpir 70 milljarðar íslenskra króna.
Heildarframleiðslan í skosku laxeldi nam um 170 þúsund tonnum í fyrra. Gert er ráð fyrir að heildarframleiðslan árið 2020 verði um 200 þúsund tonn. Markmiðið er að laxeldisframleiðslan tvöfaldist á næstu árum og verði þá að minnsta kosti um 350 þúsund tonn.

Átta þúsund störf – aðallega  í dreifbýlinu
Forsvarsmenn laxeldisfyrirtækjanna í Skotlandi leggja áherslu á að til þess að ná markmiðum sínum þurfi atvinnugreinin á að halda öflugu fólki með fjölþætta menntun og reynslu. Hafa fyrirtækin lagt sig fram um að kynna atvinnugreinina fyrir ungu fólki sem er að leggja út á menntabrautina. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar enda býður fiskeldisstarfsemi upp á fjölþætt atvinnutækifæri.
Talið er að skoskt fiskeldi skapi nú um átta þúsund störf, að lang mestu leyti í hinum dreifðari byggðum við ströndina á vestanverðu Skotlandi.

Hafa hlotið Label Rouge viðurkenninguna
Fyrir 25 árum hlutu skoskir laxeldisframleiðendur frösnku Label Rouge viðurkenninguna, „heiður sem er veittur fyrir afburða bragðgæði og gæðaframleiðslu“, segir Scott Landsburg í grein sinni. Skoskir laxaframleiðendur voru fyrstir til að fá þessa virtu viðurkenningu, utan Frakklands og enn þann dag í dag eru þeir einu skosku matvælaframleiðendurnir sem geta státað af henni.

8. boðorðið

8. boðorðið

Laxeldi á ófrjóum laxi er hvergi stundað á hagrænum forsendum, en einvörðungu í tilraunaskyni og hefur verið mótmælt af dýraverndurarsamtökum. Hafró hefur sýnt fram á að erfðablöndun íaf völdum kvíalaxeldi er sáralítil og staðbundin. „Ekkert hefur heldur heyrst um að Gunnlaugur (Stefánsson í Heydölum)  sé á móti laxeldi, sé það stundað í engum kvíum, í hafbeit, eins og gert hefur verið í Breiðdalsá um áratugaskeið.“ Þetta kemur fram í grein sem Kristján Þ. Davíðsson framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva skrifar í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni 8. boðorðið. Hér á eftir fer grein Kristjáns í heild sinni.

Kristján Þ. Davíðsson

Kristján Þ. Davíðsson: Lax í hafbeitarám, ræktaður í áratugi með seiðum víða af landinu, teljast seint meðal verndarþurfi villtra stofna og erfðablöndun löngu orðin.

Séra Gunnlaugur í Heydölum fer með himinskautum í predikun sinni í Fréttablaði þriðjudagsins 25. júlí. Heit trú hans á málstað sinn og þeirra af safnaðarbarna hans, sem eru handhafar laxveiðiréttinda í ám, hitar honum svo í hamsi að hann gleymir meira að segja einu boðorðanna.
Í predikun hans eru norskir laxabændur ljótu karlarnir, langt komnir með að leggja náttúru Noregsstranda í rúst og hérlend handbendi þeirra fara nú sem landafjendur um strandlengju Íslands, blindaðir af skærum loga Mammons, tilbúnir að selja náttúru landsins svo rækilega undir sömu örlög og Noreg, að nærtækasta samlíkingin sem honum kemur í hug er ekkert minna en kjarnorkuváin.
Eins og góðum kennimanni sæmir boðar hann reyndar lausnina, eldi ófrjós lax í lokuðum kerfum, sem hann freistast til að skrökva að sé víða krafist, en það er hvergi gert. Hann lætur þess ógetið að eldi á ófrjóum laxi er hvergi í heiminum stundað á hagrænum forsendum. Eina eldið á ófrjóum laxi er í tilraunaskyni og hefur verið mótmælt af dýraverndarfólki og stöðvað af yfirvöldum vegna siðfræðilegra- og dýraverndunarsjónarmiða. En kannski helgar tilgangurinn meðalið hjá sóknarprestinum. Er honum minna annt um velferð laxa en aurana sem má fá fyrir veiðiréttindin?
Ekkert minnist hann á nýkomið áhættumat sjókvíaeldis sem segir hættu á erfðablöndun í kvíalaxeldi, við þann litla hluta strandlengju Íslands sem er opinn fyrir eldi, sáralitla og staðbundna við eldissvæði, sem eru fjarri öllum helstu laxveiðiám landsins. Lax í hafbeitarám, ræktaður í áratugi með seiðum víða af landinu, teljast seint meðal verndarþurfi villtra stofna og erfðablöndun löngu orðin.
Ekkert hefur heldur heyrst um að Gunnlaugur sé á móti laxeldi, sé það stundað í engum kvíum, í hafbeit, eins og gert hefur verið í Breiðdalsá um áratugaskeið. Það er honum kannski efni í aðra predikun? Kannski hann líti samt í bók bókanna áður, svona rétt til að rifja upp 8. boðorðið.

„Þá vill fólk heldur ekki að búið sé á Vestfjörðum“

„Þá vill fólk heldur ekki að búið sé á Vestfjörðum“

„Hvað viltu segja við þá sem hafa áhyggjur af umhverfinu varðandi laxeldi í íslenskum fjörðum?“. Þannig spurði Heimir Már Pétursson fréttamaður á Stöð 2 Atla Gregersen einn reyndasta laxeldismann Færeyinga og forstjóra fyrirtækisins Hiddenfjord í viðtali á Stöð 2. Og svar Gregersen var skýrt:

„Þá vill fólk heldur ekki að búið sé í fjörðunum. Ef ekki má hafa athafnalíf á Vestfjörðum, hvernig á fólk að búa þar, myndi ég segja ef ég væri Vestfirðingur.“

Þetta kom fram í viðtali við Atla Gregersen og frétt um fiskeldi í Færeyjum á Stöð 2 í gærkvöldi. Hér fer fréttin í heild, eins og hún birtist á Vísi, visir.is

Atli Gregersen, Færeyjum

Atli Gregersen: Ef ekki má hafa athafnalíf á Vestfjörðum, hvernig á fólk að búa þar?

Hvetur Íslendinga til að læra af reynslu Færeyinga í laxeldismálum

Einn reyndasti laxeldismadur Færeyja segir margt að varast í greininni og hvetur Íslendinga til að læra af reynslu Færeyinga. En þeim hefur tekist að vinna færeyska eldislaxinum gott orðspor á alþjóða vísu.

Færeyingar eru komnir mun lengra í laxeldi en við Íslendingar, en þeir hafa líka glímt við erfiðleika í gegnum tíðina. Þó hefur allt gegnið vel frá árinu 2006 eins og til dæmis hjá fyrirtækinu Hiddenfjord sem eru með kvíar í Hestfirði.

Svipuð framleiðsla og á Íslandi í dag

Hiddenfjord framleiðir um 13 þúsund tonn af slátruðum laxi á ári sem er um 18 prósent af heildarframleiðslunni í Færeyjum en nálgast að vera svipað magn og framleitt er af eldislaxi á Íslandi. Atli Gregersen hefur mikla reynslu af laxeldi í sjó en fyrirtæki hans og bræðra hans hóf laxeldi árið 1982. En það hefur ýmislegt plagað færeysk laxeldisfyrirtæki í gegnum áratugina.

Byrjuðum með of mörg fyrirtæki

„Já, við byrjuðum með allt of mörg fyrirtæki. Það voru um sextíu fyrirtæki í þeim tuttugu fjörðum sem eldi var leyft í. Það leiddi líka til ófriðar þar sem hver kenndi öðrum um það sem afvega fór og smit barst milli stofna fyrirtækjanna. Síðan var lögum breytt þannig að aðeins væri einn framleiðandi í hverjum firði. En áfram var fiskur allt árið um kring í hverjum firði þar til lögum var breytt árið 2003 þannig að í hverju sinni væri bara ein kynslóð af fiski í hverjum firði og þeir hvíldir milli kynslóða. Síðan þá hefur allt verið sólarmegin í Færeyjum.“

Fiskeldi í Færeyjum

„Já, við byrjuðum með allt of mörg fyrirtæki.  Síðan var lögum breytt þannig að aðeins væri einn framleiðandi í hverjum firði. En áfram var fiskur allt árið um kring í hverjum firði þar til lögum var breytt árið 2003 þannig að í hverju sinni væri bara ein kynslóð af fiski í hverjum firði og þeir hvíldir milli kynslóða. Síðan þá hefur allt verið sólarmegin í Færeyjum.“

Kynslóðaskipt eldi, eins og á Íslandi

Lögum og reglugerðum hefur verið breytt í gegnum árin til að stuðla að umhverfisvænni og skilvirkari framleiðslu. Fyrir árið 2006 voru allt upp í þrír framleiðendur í hverjum þeim tuttugu fjarða sem laxeldi er leyft í en eftir það má aðeins einn framleiðandi vera í hverjum firði. Og með því að hvíla firðina milli kynslóða hafi tekist að útrýma nær öllum sjúkdómum og standa alþjóðlega mjög vel að þessu leyti.

Fá hrognkelsi frá Íslandi í baráttunni við laxalúsina

Og í baráttunni við laxalúsina hefur ykkur borist liðsauki frá Íslandi?

„Já, við fáum hrognkelsi frá Íslandi. Íslenska hrognkelsið er sólgið í færeysta laxalús. Þannig að það hefur gengið mjög vel,“ segir Atli.

Mjög gott orð fer af færeyska laxinum á alþjóðamarkaði sem Færeyingar flytja út um allan heim en mest fer þó til Rússlands, eða um 48 prósent, og 35 prósent fara á Bandaríkjamarkað.

„Ef ekki má hafa athafnalíf á Vestfjörðum hvernig á fólk að búa þar“

Hvað viltu segja við þá sem hafa áhyggjur af umhverfinu varðandi laxeldi í íslenskum fjörðum?

„Þá vill fólk heldur ekki að búið sé í fjörðunum. Ef ekki má hafa athafnalíf á Vestfjörðum, hvernig á fólk að búa þar, myndi ég segja ef ég væri Vestfirðingur,“ segir Atli.

Þess í stað eigi að setja strangar umhverfisreglur, til dæmis um að mjög reglulega fari fram lúsatalning hjá öllum ræktendum.

Og í þeim heitu umræðum sem nú eiga sér stað vegna fiskeldis á Vestfjörðum er margt vitlausara sem Íslendingar geta gert en að hlusta á Færeyinga.

Fiskeldi 53% – fiskveiðar 47%

Fiskeldi 53% – fiskveiðar 47%

Fiskeldi verður orðið tæp 53% af heildar framleiðslu á fiski í heiminum árið 2026. Fiskveiðar verða á hinn bóginn um 47% heimsframleiðslunnar á fiski. Fiskeldi er talið aukast að meðaltali um 2,6% á ári, verða stærri hluti fiskframleiðslunnar en fiskveiðar árið 2021, fiskneysla aukist úr tæpum 150 milljónum tonna í tæpar 180 milljónir innan áratugar, eða um 20%  og að fiskverð hækki að jafnaði um tæpt prósent á ári. næsta áratuginn.

Frá fiskeldi í Arnarfirði

Fiskneysla mun aukast um 20 prósent næstu 10 árin. Því þarf að mæta með auknu fiskframboði. Ljóst er að það verður ekki gert nema með auknu fiskeldi. Enda er ljóst að fiskeldi verður stærri og vaxandi hluti fiskframleiðslunnar á komandi árum í heiminum.

Þetta kemur fram í Fiskifréttum og byggir fréttin á gögnum Alþjóðaefnahagsstofnunarinnar OECD og Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna FAO. Hér á eftir fer fréttin í heild sinni.

OECD og FAO segja allt stefna í að árið 2025 verði framleiðsla í fiskeldi á heimsvísu í fyrsta sinn orðin meiri en 100 milljón tonn
Búast má við því að eitthvað muni hægja á hinum hraða vexti í fiskeldi á heimsvísu næstu árin, þannig að vöxturinn fari úr því að vera 5,3 prósent á ári niður í 2,6 prósent. Fyrri talan er meðaltalsvöxtur á ári tímabilið 2007 til 2016 en sú seinni er áætlaður meðalvöxtur á ári tímabilið 2017-2026.

Engu að síður er reiknað með því að fiskeldi fari fram úr fiskveiðum á árinu 2021. Samtals verði framleiðslan orðin 193,9 milljón tonn árið 2026. Þar af verði hlutur fiskeldisins orðinn 102 milljón tonn, en reiknað er með að hann fari í fyrsta sinn í sögunni yfir 100 milljón tonn á árinu 2025.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna um horfurnar í landbúnaði og sjávarútvegi á heimsvísu næsta áratuginn.

Þar kemur einnig fram að fiskverð muni að öllum líkindum hækka að meðaltali um 0,8 prósent á ári næsta áratuginn og verði árið 2026 orðið 7,3 prósentum hærra en á viðmiðunartímabilinu 2014-16. Ekki er þó talið að fiskverð muni hækka neitt að ráði fyrr en árið 2020 en þá taki það við sér og fari hækkandi árlega fram til 2026.

Þá er því spáð að fiskneysla á heimsvísu muni aukast úr 148,8 milljón tonnum upp í 177,7 milljón tonn árið 2026. Hins vegar muni neyslan aukast hægar eftir því sem líður á tímabilið, bæði heildarneyslan og meðaltalsneyslan á mann. Þannig verði meðaltalsneyslan á mann orðin 21,6 kíló árið 2016 og hafi þá aukist um 0,4 prósent að meðaltali á ári þennan áratug.

Hætta á erfðablöndun algjörlega staðbundin

Hætta á erfðablöndun algjörlega staðbundin

Kjarni málsins er þá þessi: Þó að laxeldi yrði heimilað í samræmi við fyrirliggjandi burðarþolsmat, um 130 þúsund tonn, gætti erfðablöndunar miðað við 4% þröskuldinn sem Hafrannsóknarstofnunin setur, einvörðungu í þremur til fjórum ám sem næstar væru staðsetningu laxeldiskvíanna.
Viðfangsefnið er því staðbundið, en ekki eins og oft hefur mátt ráða af umræðunni um land allt. Ekki er hægt að heimfæra reynsluna frá Skotlandi og Noregi upp á íslenskar aðstæður vegna þess að hér er laxeldi einvörðungu heimilt á ákaflega takmörkuðu landfræðilegu svæði. Tillaga Hafrannsóknarstofnunarinnar gengur út á að setja miklu strangari viðmiðunarmörk en þau sem gilda í Noregi. Væru norsku viðmiðunarmörkin notuð þá mætti stunda hér laxeldi af þeirri stærðargráðu sem burðarþolsmetið setur. Verkefnið framundan snýr því að þessum tveimur til þremur ám. Sú niðurstaða markar algjör þáttaskil og beinir vonandi umræðunni inn á nýjar og uppbyggilegri brautir.

Fiskeldi Austfjarða

Þrátt fyrir verulega aukið umfang laxeldis spáir líkanið innblöndun ( langt undir þröskuldsmörkum) í öllum helstu laxveiðiám landsins ( nema Breiðdalsá).

Stærstu tíðindin úr nýrri skýrslu um „áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi“, eru þau að laxeldi hefur lítil áhrif á náttúrlega stofna fyrir utan nokkrar ár. Nokkur áhrif verða á Laugardalsá, Hvannadalsá/Langadalsá í Ísafjarðardjúpi og Breiðdalsá í Breiðdalsá. „Þessar ár þarf að vakta sérstaklega“, segir í skýrslunni.
Á grundvelli áhættumatsins leggja skýrsluhöfundar til að 71 þúsund tonna laxeldi verði leyft; 50 þúsund tonn á Vestfjörðum og 21 þúsund tonn á Austfjörðum.
Ólíkar aðstæður á Íslandi
Síðan segir í skýrslunni: „Þrátt fyrir verulega aukið umfang laxeldis spáir líkanið innblöndun ( langt undir þröskuldsmörkum) í öllum helstu laxveiðiám landsins ( nema Breiðdalsá). Helsta ástæðan fyrir þessari niðurstöðu er sú að eldissvæðin eru í mikilli fjarlægð frá helstu laxveiðiám og laxeldi er bannað á mjög stórum hluta strandlengjunnar. Í Noregi og Sktolandi eru eldissvæðin hins vegar oft í mikilli nálægð við helstu laxveiðiár og því verða blöndunaráhrifin mun meiri í þessum löndum“.
Þetta er mjög athyglisvert. Þarna er sem sagt vakin athygli á því að aðstæður í Noregi og Skotlandi séu frábrugðnar því sem hér er. Laxeldissvæði, núverandi og fyrirhuguð, eru hér á landi fjarri ánum, en í Skotlandi og Noregi er því öðruvísi farið. Af þessu má ráða að samanburður og skírskotun til inblöndunar ( erfðablöndunar) í þeim löndum verður ekki heimfært á Ísland þar sem aðstæður eru svo gjörólíkar.
„Lítill hluti strokulaxa nær að synda upp í ár til að hrygna

„Það verður (þó) að hafa í huga að aðeins lítill hluti strokulaxa nær að synda upp í ár til að hrygna.“

Í skýrslunni er vikið að innblöndun í villta laxastofna vegna strokufisks úr kvíum. Þar segir: „Það verður (þó) að hafa í huga að aðeins lítill hluti strokulaxa nær að synda upp í ár til að hrygna. Langflestir strokulaxar eiga í erfiðleikum með að afla sér fæðu í villtri náttúru eða forðast afræningja. Afkomumöguleikar þeirra ráðast verulega af nálægð sleppistaðar við árósa og einnig aldri við strok. Almennt má þó segja að langflestir strokulaxa hverfi í hafi og syndi aldrei upp í ár til að hrygna“.
Önnur og sveigjanlegri viðmiðunarmörk í Noregi en á Íslandi
Niðurstaða skýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar er sú að viðmiðunarmörkin eru sett við 4%. Í Noregi hefur verið unnið áhættumat, á vegum Hafrannsóknarstofnunarinnar þar. Athyglisvert er að viðmiðunarmörkin sem unnið er með í Noregi eru mun rýmri en íslenska áhættumatsskýrslan gengur út frá. Þessi mörk eru sveigjanleg og er lýst svo í í áhættumati Hafrannsóknarstofnunarinnar: „Þröskuldsgildið fyrir enga eða nær enga hættu á erfðablöndun var því valið með tilliti til lægri marka náttúrulegs flakks sem er um 4% en 10% fyrir mikla hættu á erfðablöndun sem efri mörk áhættudreifingar“.
Hvað ef við værum með norska áhættumatið?
Ef beitt væri hinni norsku aðferð í stað þeirrar sem íslenska Hafrannsóknarstofnunin leggur til, er ljóst að Langadalsá/Hvannadalsá, Laugardalsá og Breiðdalsá væru vel fyrir innan þau mörk. Og það jafnvel þó að laxeldi væri í 130 þúsund tonnum, eins og burðarþolsmatið kveður á um. Væri norska matið lagt til grundvallar hér á landi mætti því framleiða 30 þúsund tonn af laxi í Ísafjarðardjúpi í stað eldisbanns eins og áhættumatið felur í sér og 52 þúsund tonn á Austfjörðum í stað 21 þúsund tonna sem íslenska áhættumatið leyfir.
Einfaldara að fylgja eftir mögulegri erfðablöndun
Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar segir ennfremur: „Íslenskar áru eru lítið sem ekki erfðablandaðar af manna völdum auk þess sem framfarir í erfðatækni og efnatækni gera það mögulegt að fylgjast með fari og blöndun fiska frá einstökum fyrirtækjum. Því verður mun einfaldara að fylgja eftir mögulegri erfðablöndun.“
Kjarni málsins
Kjarni málsins er þá þessi: Þó að laxeldi yrði heimilað í samræmi við fyrirliggjandi burðarþolsmat, um 130 þúsund tonn, gætti erfðablöndunar miðað við 4% þröskuldinn sem Hafrannsóknarstofnunin setur, einvörðungu í þremur til fjórum ám sem næstar væru staðsetningu laxeldiskvíanna.
Viðfangsefnið er því staðbundið, en ekki eins og oft hefur mátt ráða af umræðunni um land allt. Ekki er hægt að heimfæra reynsluna frá Skotlandi og Noregi upp á íslenskar aðstæður vegna þess að hér er laxeldi einvörðungu heimilt á ákaflega takmörkuðu landfræðilegu svæði. Tillaga Hafrannsóknarstofnunarinnar gengur út á að setja miklu strangari viðmiðunarmörk en þau sem gilda í Noregi. Væru norsku viðmiðunarmörkin notuð þá mætti stunda hér laxeldi af þeirri stærðargráðu sem burðarþolsmetið setur. Verkefnið framundan snýr því að þessum tveimur til þremur ám. Sú niðurstaða markar algjör þáttaskil og beinir vonandi umræðunni inn á nýjar og uppbyggilegri brautir.

Síða 22 af 41« Fyrsta...10...2021222324...3040...Síðasta »