Uppbygging víkur – Fyrir hverju?

Uppbygging víkur – Fyrir hverju?

„Áætlað hefur verið að byggja upp í Djúpinu um 30 þúsund tonna laxeldi. Áætlað útflutningsverðmæti þess eldis er áætlað um 25 milljarðar á ári. Byggðastofnun telur að um 200 bein og afleidd störf skapist við hver tíu þúsund tonn laxeldis. Samtals gætu því 600 bein og óbein störf orðið til í byggðum við Ísafjarðardjúp vegna laxeldis. Því er um gríðarlega beina fjárhagslega og byggðalega hagsmuni að ræða. Ráði áhættumat Hafrannsóknarstofnunar munu þessir hagsmunir víkja.“

H

Halldór Jónsson: „Þarna ráða ekki hagsmunir íbúanna“

Þannig kemst Halldór Jónsson rekstrarstjóri á Ísafirði og fyrrverandi bæjarfulltrúi á Ísafirði að orði í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið 8. ágúst sl. undir fyrisögninni: Takast á sveinar tveir.  Í greininni fjallar hann um þau þrjú helstu baráttu – og hagsmunamál Vestfirðinga sem hæst ber um þessar mundir; uppbyggingu laxeldis, vegagerð í Austur Barðastrandarsýslu og virkjanaáform í Hvalá á Ströndum.  Hér fer á eftir sá hluti greinarinnar sem fjallar um fiskeldismál.

 Uppbygging víkur
Atvinnulíf á Vestfjörðum hefur á síðustu árum rétt úr kútnum, einkum vegna uppbyggingar laxeldis. Laxeldi á Vestfjörðum er byggt á ákvörðun sem tekin var 2004 um að loka stærstum hluta strandlengju Íslands fyrir laxeldi, en beina því í staðinn á þau svæði þar sem litlar sem engar laxveiðiár eru. Íbúum er tekið að fjölga á sumum svæðum Vestfjarða, nokkuð sem fyrir örfáum árum var talið ómögulegt. Þegar laxeldið var að komast á legg kom fram félagsskapur veiðirétthafa sem kvaðst beita öllum tiltækum ráðum til þess að koma í veg fyrir þessa atvinnuuppbyggingu, þrátt fyrir að hverfandi laxveiði sé í ám á Vestfjörðum. Þeir hafa svo sannarlega staðið við þá hótun og eru nú með færustu lagatækna landsins í vinnu.

Þá munu þessir hagsmunir víkja
Á dögunum birti Hafrannsóknarstofnun svo áhættumat þar sem lögð var til stöðvun uppbyggingar laxeldis í Ísafjarðardjúpi vegna laxveiða í þremur ám.
Áætlað hefur verið að byggja upp í Djúpinu um 30 þúsund tonna laxeldi. Áætlað útflutningsverðmæti þess eldis er áætlað um 25 milljarðar á ári. Byggðastofnun telur að um 200 bein og afleidd störf skapist við hver tíu þúsund tonn laxeldis. Samtals gætu því 600 bein og óbein störf orðið til í byggðum við Ísafjarðardjúp vegna laxeldis. Því er um gríðarlega beina fjárhagslega og byggðalega hagsmuni að ræða. Ráði áhættumat Hafrannsóknarstofnunar munu þessir hagsmunir víkja.
Fyrir hverju?
Tekjur af umræddum þremur ám í Ísafjarðardjúpi, Hvannadalsá, Laugardalsá og Langadalsá eru í besta falli 20-25 milljónir á ári. Ekkert starf hefur skapast á Vestfjörðum vegna þessarar starfsemi, svo vitað sé. Hver eru hin náttúrulegu verðmæti í þessum ám sem í hættu geta verið vegna hugsanlegra slysa við laxeldi? Engin þeirra státar af sínum upprunalega náttúrlega stofni heldur hefur um árabil verið stunduð þar skipuleg laxarækt með stofnum annars staðar frá. Ein þessara áa, Laugardalsá, er í grunninn ekki laxveiðiá. Hún varð það ekki fyrr en hún var sprengd upp og í hana byggður mikill laxastigi. Ekki er hér lagt til að slík á skuli flokkuð sem manngert leiktæki, en fráleitt er hún náttúruverðmæti. Veiði í þessum ám er hverfandi. Á síðasta ári voru dregnir úr ám laxar um þrjú hundruð sinnum, sumir oftar en aðrir. Það eru hagsmunir um tylftar veiðirétthafa þessara laxa sem eiga að ganga framar hagsmunum þúsunda íbúa svæðisins. Þarna ráða ekki hagsmunir íbúanna.
Halldór Jónsson, rekstrarstjóri á Akranesi

Stóra myndin í uppbyggingu fiskeldis

Stóra myndin í uppbyggingu fiskeldis

Mikilvægt er að Hafrannsóknarstofnun fái ráðrúm til þess að klára sína rannsóknar og þróunarvinnu. Í dag er ekki hægt að leggja þær rannsóknir til grundvallar ákvarðanatöku um framtíð fiskeldis.

Sé horft til þess, mögulegra mótvægisaðgerða og hinna jákvæðu samfélagsáhrifa eru engar forsendur fyrir því að loka Djúpinu.

Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson alþingismaður, oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi  og fyrrverandi ráðherra í aðsendiri grein á BB.is. Sem sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra setti Gunnar Bragi af stað vinnu við stefnuótun fyrir fiskeldi, sem nú stendur yfir.

Grein Gunnars Braga birtist í heild sinni hér að neðan.

Gunnar Bragi Sveinsson alþingismaður og fyrrverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Hann setti af stað stefnumótunarvinnu varðandi fiskeldið í landinu

Síðastliðið haust setti ég af stað sem sjávarútvegsráðherra, vinnu við stefnumótun fyrir fiskeldi en þar var lagt upp með að taka tillit til allra þeirra þátta sem varða uppbyggingu fiskeldis hér á landi. Erfðablöndun er mikilvægur þáttur af þeirri heildarmynd en alls ekki sá eini. Árið 2004 var megnið af strandlengju landsins lokað fyrir fiskeldi til þess að passa uppá íslenska laxastofninn og þá sérstaklega gagnvart erfðablöndun. Í ráðherratíð minni var ég spurður útí þá aðgerð af ráðherrum annarra landa, sem fannst mikið til koma hve langt Íslendingar væru að ganga til þess að vernda íslenska laxastofninn.

Áhættumatið er ágætt fyrsta skref

Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun er ágætt fyrsta skref til þess að meta áhrifin af fiskeldi betur, stofnunin nefnir hinsvegar sjálf að óvissa sé mikil um niðurstöður enda verið að beita þessari aðferðafræði í fyrsta sinn. Fram hafa komið greinargóðar athugasemdir um að ekki sé tekið tillit til fyrirbyggjandi aðgerða í skýrslunni. Auðvitað verður að gera þá kröfu að sú þekking og tækni sem sem er til staðar sé nýtt til þess að fyrirbyggja mögulegan skaða og eðlilegt að taka tillit til þess er kemur að ákvöðrun um framhald fiskeldis í Djúpinu. Nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina, a.m.k. var það markmið mitt er vinnan var sett af stað. Það þýðir að taka þarf einnig inn samfélagslega- og byggðalega þætti. Ekki er hægt að komast að niðurstöðu án þess að samfélagsleg áhrif séu metin.

Engar forsendur fyrir því að loka Djúpinu

Mikilvægt er að Hafrannsóknarstofnun fái ráðrúm til þess að klára sína rannsóknar og þróunarvinnu. Í dag er ekki hægt að leggja þær rannsóknir til grundvallar ákvarðanatöku um framtíð fiskeldis.

Sé horft til þess, mögulegra mótvægisaðgerða og hinna jákvæðu samfélagsáhrifa eru engar forsendur fyrir því að loka Djúpinu.

Við sem sjávarútvegsþjóð getum ekki setið eftir

Þegar ég tók þá ákvörðun að fiskeldissvið Hafrannsóknarstofnunar skyldi staðsett á Ísafirði frá og með árinu 2018 og að eftirlit Matvælastofnunar yrði staðsett á Vestfjörðum og Austfjörðum, var það m.a. til að sýna í verki áherslu stjórnvalda á mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir landsbyggðina. Hlakka ég til að sjá starfsemi þessara stofnana vaxa og eflast á Vestfjörðum í nálægð við uppbygginguna.

Í stærra samhengi er svo fiskeldi að verða sífellt stærri hluti af fiskneyslu í heiminum og við sem sjávarútvegsþjóð getum ekki setið eftir. Mikil verðmætasköpun fylgir eldinu sem þjóðarbúið og byggðir landsins njóta, viðsnúningurinn á sunnanverðum Vestfjörðum er lifandi dæmi þess.

Við erum í forréttindastöðu

Við erum í þeirri forréttindastöðu að vera að byggja eldi hér upp nánast frá grunni, þannig getum við lært af mistökum okkar og annarra eldisþjóða og tryggt að gera þetta rétt og vel. Vestfirðingum hefur fækkað um 25% á síðustu 30 árum og þeir eru ekki að biðja um álver eða stóriðju, þeir eru að biðja um sanngirni ríkisvaldsins, að það leggist ekki í veg fyrir umhverfisvæna matvælaframleiðslu með boðum og bönnum heldur finni lausnir á þeim vandamálum sem fylgt geta slíkri starfsemi. Fyrir því mun ég berjast inní umhverfisnefnd þingsins og á þinginu sjálfu.

Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður og oddviti Framsóknarflokssins í Norðvesturkjördæmi

Heimsendaspámenn og afneitunarsinnar

Heimsendaspámenn og afneitunarsinnar

Þegar kemur að byggðaáhrifum fiskeldisins er hið sama uppi á teningnum. Tölurnar tala sínu máli; staðreyndirnar liggja fyrir. Uppbygging fiskeldis hefur eflt byggðir þar sem það er hafið hér á landi. Um það verður ekki deilt og auðvelt að reiða fram talnaleg gögn þar að lútandi.

Þetta er ekki sér íslensk reynsla. Skoðum reynsluna frá Noregi eða Skotlandi. Lítum til Færeyja. Alls staðar er sömu sögu að segja. Þveröfugt við það sem afneitunarsinnarnir íslensku halda fram.
Og svo langt var gengið á dögunum í fullyrðingunum að því var haldið fram að fiskeldisuppbyggingin skaðaði byggðirnar bókstaflega! Þegar þessi speki barst út um landsins byggðir var hlegið hátt svo undir tók í fjöllunum.
– Hversu langt er eiginlega hægt að ganga fram í dellumakaríinu?

Einar K. Guðfinnsson

Einar K. Guðfinnsson, formaður LF

Heimsendaspámenn og afneitunarsinnar hafa farið mikinn hér á síðum blaðsins upp á síðkastið í viðleitni sinni til að mótmæla uppbyggingu fiskeldis hér við land. Heimsendaspámenn eru þeir þegar þeir lýsa afleiðingum fiskeldis sem eins konar ragnarrökum fyrir lífríkið í hafinu. Og svo birtast þeir sem afneitunarsinnar þegar þeir reyna að færa fyrir því rök að uppbygging fiskeldis verði til ógagns fyrir byggðirnar í landinu.
Staðbundin áhrif
Helstu deilurnar um uppbyggingu fiskeldis hafa staðið um það hvort fiskeldi hér við land gæti grandað villtum laxastofnum. Það var af þeirri ástæðu sem ákveðið var fyrir meira en áratug að loka lang mestum hluta strandlengjunnar fyrir sjókvíaeldi. Fiskeldisfyrirtækin sjálf hafa gripið til sinna ráða til þess að tryggja að laxastofnarnir verði ekki fyrir tjóni af völdum starfsemi sinnar, svo sem með virku eftirliti og besta fáanlega búnaði, sem nú er búið að kveða á með reglugerð. Og áfram mætti telja. Það er hafið yfir allan vafa að bættur búnaður hefur skilað árangri. Reynslan sem er jafnan ólygnust sýnir það og það hefur líka verið mat vísindastofnana okkar, svo sem Hafrannsóknarstofnunar.
Tilhæfulausar dómsdagsspár
Nú hefur það síðan gerst að Hafrannsóknarstofnunin hefur lagt fram áhættumati sem varpar ákaflega athyglisverðu ljósi á þessa miklu deilu. Í áliti stofnunarinnar segir: „Þrátt fyrir verulega aukið umfang laxeldis spáir líkanið innblöndun ( langt undir þröskuldsmörkum) í öllum helstu laxveiðiám landsins ( nema Breiðdalsá). Helsta ástæðan fyrir þessari niðurstöðu er sú að eldissvæðin eru í mikilli fjarlægð frá helstu laxveiðiám og laxeldi er bannað á mjög stórum hluta strandlengjunnar. Í Noregi og Sktolandi eru eldissvæðin hins vegar oft í mikilli nálægð við helstu laxveiðiár og því verða blöndunaráhrifin mun meiri í þessum löndum“. Áhrifin eru sem sagt staðbundin að mati stofnunarinnar, en ekki almenn, eins og margir hafa þó talið.
Hér er það sem sagt svart á hvítu. Dómsspárnar hafa reynst tilhæfulausar. En þó þetta liggi nú fyrir á grundvelli mats láta þeir sem klifað hafa á þeim, eins og ekkert sé. Enn eru rangfærslurnar reiddar fram eins og ekkert sé, þvert ofan í mat Hafrannsóknarstofnunarinnar.
Fiskeldið eflir byggðirnar
Þegar kemur að byggðaáhrifum fiskeldisins er hið sama uppi á teningnum. Tölurnar tala sínu máli; staðreyndirnar liggja fyrir. Uppbygging fiskeldis hefur eflt byggðir þar sem það er hafið hér á landi. Um það verður ekki deilt og auðvelt að reiða fram talnaleg gögn þar að lútandi. Það er ekki nóg með að fiskeldið skapi bein störf, heldur sýnir reynslan að margfeldisáhrifin af starfseminni eru mjög mikil og margvísleg. Í kjölfar fiskeldisuppbyggingar verða til störf í ferðaþjónustu, nýsköpun, margbreytilegri þjónustu og sprotastarfsemi. Ungt fólk flytur í byggðirnar, skólarnir sem áður voru að dragast uppi eru fullsetnir. Tekjur sveitarfélaganna hafa aukist sem hefur gefið færi á nýrri og aukinni þjónustu og lægri gjaldheimtu. Fyrir vikið hafa byggðirnar eflst þar sem fiskeldið er til staðar.
Hverslu langt er eiginlega hægt að ganga fram í dellumakaríinu?
Þetta er ekki sér íslensk reynsla. Skoðum reynsluna frá Noregi eða Skotlandi. Lítum til Færeyja. Alls staðar er sömu sögu að segja. Þveröfugt við það sem afneitunarsinnarnir íslensku halda fram.
Og svo langt var gengið á dögunum í fullyrðingunum að því var haldið fram að fiskeldisuppbyggingin skaðaði byggðirnar bókstaflega! Þegar þessi speki barst út um landsins byggðir var hlegið hátt svo undir tók í fjöllunum.
– Hversu langt er eiginlega hægt að ganga fram í dellumakaríinu?

Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva

Hagsmunir íbúa við Ísafjarðardjúp að engu hafðir.

Hagsmunir íbúa við Ísafjarðardjúp að engu hafðir.

Margskonar lífstofnar búa um sig við Ísafjarðardjúp. Stofn manna hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár og áratugi á þessu svæði, og á Vestfjörðum í heild.

Það er ófrávíkjanleg krafa okkar þessi stofn njóti skilnings, fagmennsku og sanngjarnrar meðferðar þegar kemur að því að ákveða næstu skref framtíðar-atvinnuuppbyggingar Vestfjarða, fiskeldis. Til þess að svo verði þarf megin útgangspunktur þeirrar ákvörðunar vera félagslegt samfélag og sjálfbær vöxtur þess.

Það er réttur fólksins við Ísafjarðardjúp að það sé sett í forgang atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Af þeirri kröfu gefum við engan afslátt. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sveitar- og bæjarstjórum Súðavíkurhrepps, Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar. Yfirlýsingin fer hér í heild sinni.

Gísli Halldór Halldórsson

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísfjarðarbæjar.

Nefnd sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldismálum hefur verið að störfum síðan haustið 2016 þegar þáverandi ráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, setti nefndina á fót.

Snemma á þessu ári sendi nefndin út spurningalista til sveitarfélaga þar sem spurt var um áhrif fiskeldis á sveitarfélögin. Spurningarnar virtust reyndar fyrst og fremst miða við sveitarfélög þar sem uppbygging í fiskeldi hefur þegar átt sér stað en var engu að síður svarað ítarlega og samviskusamlega, þar sem fram kom hvaða áhrif hefðu þegar átt sér stað, hvaða áhrifa væri að vænta í framtíðinni og hvaða uppbygging þyrfti að eiga sér stað.

Fundur með stefnumótunarnefndinni

Sveitarstjórar fiskeldissveitarfélaga á Vestfjörðum áttu svo fund með sjávarútvegsráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, á Þingeyri 10. júlí síðastliðinn. Það kom ráðherra mjög á óvart að nefndin skildi ekki þegar hafa átt fund með fulltrúum sveitarfélaganna á Norðanverðum Vestfjörðum, Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkurkaupstaðar og Súðavíkurhrepps – enda ætlar nefndin að skila af sé áliti þann 15. ágúst næstkomandi. Í þessum sveitarfélögum búa nærri 5.000 íbúar, eða meginhluti Vestfirðinga, og þótti furðu sætta ef hagsmunir þeirra íbúa ættu ekki að komast að borðinu með skýrum hætti.

Jón Páll Hreinsson

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.

Fyrir íhlutun ráðherra fengu Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur loks áheyrn nefndarinnar í dag, 1. ágúst, ásamt einnig Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Reyndum við sveitar- og bæjarstjórar á Norðanverðum Vestfjörðum að koma á framfæri mikilvægi þess að hagsmunir allra þessara íbúa væru hafðir að leiðarljósi í störfum nefndarinnar.

Olli vonbrigðum

Það verður að segjast eins og er að fundurinn með nefndinni olli okkur verulegum vonbrigðum. Svo virðist sem ætlun nefndarinnar sé að ná einhvers konar samkomulagi milli eldisfyrirtækja og veiðiréttarhafa um svæðaskiptingu fyrir laxeldi – að mestu án tillits til hagsmuna íbúa svæðanna – en minna horft til raunverulegrar stefnumótunar í fiskeldismálum þar sem samfélög og sjálfbærni yrðu lögð til grundvallar. Það er því varla að sjá að frá nefndinni muni koma eiginlega stefnumótum um hvernig uppbyggingu fiskeldis skuli háttað á Íslandi, heldur sé fyrst og fremst verið að úthluta fyrirtækjum svæðum fyrir starfsemi sína.

Hagsmunir íbúanna virtir að vettugi

Pétur G. Markan

Pétur G. Markan, sveitarstjóri í Súðavík og formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga.

Svo var að heyra sem ein skýrsla Hafró – sem er umdeild í þokkabót – eigi að verða hornsteinn einhverskonar sáttar milli þessara hagsmunaaðila, laxeldisfyrirtækja og veiðiréttarhafa, án þess að íbúarnir og hagsmunir þeirra eigi sæti við borðið. Einungis tvo mánuði tók að setja saman skýrslu Hafró. Ef það var svona veigalítið verk að slá laxeldisáform í Ísafjarðardjúpi út af borðinu, hvers vegna var þessi skýrsla þá ekki unnin fyrir mörgum árum síðan þegar áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpi voru fyrst kynnt. Það er algerlega óásættanlegt að skýrsla Hafró fái að ráða því að hagsmunir íbúanna séu virtir að vettugi og hagsmunum þeirra jafnvel fórnað fyrir tvær veigalitlar laxveiðiár í Djúpinu.

Fleiri þættir verði lagðir til grundvallar

Það er krafa okkar að skýrsla um hagræn, lýðfræðileg og menningarleg áhrif fiskeldis á byggðir við Ísafjarðardjúp verði höfð til grundvallar, rétt eins og áhættumat hafrannsóknarstofnunnar, við ákvörðun um fiskeldisuppbyggingu í Ísafjarðardjúpi.

Fiskleldi í Ísafjarðardjúpi með hertum reglum

Sveitar- og bæjarstjórarnir á Norðanverðum Vestfjörðum kynntu fyrir nefndinni þann möguleika að laxeldi yrði leyft í Ísafjarðardjúpi og að árnar yrðu varðar með bestu fáanlegu aðferðum og tækni þannig að engu þyrfti að fórna til þess að leyfa laxeldi að þróast þannig að það geti lifað í sátt og samlyndi við laxveiðiár. Sá málflutningur virtist ekki eiga upp á pallborðið hjá formanni nefndarinnar og var að heyra sem hann væri sannfærður um að mótvægisaðgerðir til varnar ánum gætu aldrei orðið fullnægjandi. Slík afstaða er undarleg enda væri mönnum í lófa lagið að frysta genamengið og varðveita til að útiloka alla áhættu – fyrir utan allar þær óteljandi aðferðir sem mögulegar eru til að fullverja árnar.

Frá Ísafjarðrdjúpi

Sveitar- og bæjarstjórarnir á Norðanverðum Vestfjörðum kynntu fyrir nefndinni þann möguleika að laxeldi yrði leyft í Ísafjarðardjúpi og að árnar yrðu varðar með bestu fáanlegu aðferðum og tækni þannig að engu þyrfti að fórna til þess að leyfa laxeldi að þróast þannig að það geti lifað í sátt og samlyndi við laxveiðiár.

Verði ekki gerð að skiptimynt

Ef raunin verður sú að tillaga nefndarinnar um stefnumótun í fiskeldi verður á þeim nótum sem við upplifðum á fundinum þá getur slík tillaga aldrei orðið meira en innlegg í málið og undirbúningur að víðtækari og heildstæðari stefnumótun þar sem hagsmunir íbúa, bæði Vestfirðinga og annarra landsmanna, verði settir í fyrsta sæti. Þeir gríðarlegu þjóðarhagsmunir sem geta legið í laxeldi í Ísafjarðardjúpi eru alltof miklir til að verða skiptimynt í hrossakaupum.

Stofn manna hefur átt erfitt uppdráttar á þessu svæði

Margskonar lífstofnar búa um sig við Ísafjarðardjúp. Stofn manna hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár og áratugi á þessu svæði, og á Vestfjörðum í heild.

Það er ófrávíkjanleg krafa okkar þessi stofn njóti skilnings, fagmennsku og sanngjarnrar meðferðar þegar kemur að því að ákveða næstu skref framtíðar-atvinnuuppbyggingar Vestfjarða, fiskeldis. Til þess að svo verði þarf megin útgangspunktur þeirrar ákvörðunar vera félagslegt samfélag og sjálfbær vöxtur þess.

Það er réttur fólksins við Ísafjarðardjúp að það sé sett í forgang atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Af þeirri kröfu gefum við engan afslátt.
Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar

Áhættumat og Breiðdalsá

Áhættumat og Breiðdalsá

 

Það væri virkilega óábyrgt að ætla að láta þessa skýrslu ráða ferðinni í uppbyggingu fiskeldis við Ísland vegna þess að hún er ekki nægilega vel unnin en í henni er farið á svig við grundvallarþætti vísindalegra vinnubragða og verklags og stuðst við getgátur og sögusagnir án heimilda.
Mikið er í húfi, orðspor Hafró, hagsmunir sveitarfélaga á svæðum sem hafa átt undir högg að sækja, lífsviðurværi fjölda fjölskyldna, auk þess sem upp-byggingu sem kostað hefur milljarða er teflt í tvísýnu. Þetta kemur fram í grein eftir Svein Kristján Ingimarsson fiskeldisfræðing, sem birtist í Morgunblaðinu í gær,  í tilefni af áhættumatsskýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar. Greinin fylgir hér á eftir í heild sinni.

 

Sveinn Kristján Ingimarsson

Sveinn Kristján Ingimarsson: Í titli skýrslunnar er hún sögð vera áhættumat en það er rangnefni af því að í henni er ekki framkvæmt eiginlegt áhættumat.

Nú nýlega lét Hafrannsóknastofnun Íslands vinna fyrir sig skýrslu sem kallast „Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi“ og hefur skýrslan verið birt á heimasíðu stofnunarinnar www.hafogvatn.is.
Það þarf ekki að rýna lengi í skýrsluna til þess að sjá að á henni eru fjölmargir vankantar. Í titli skýrslunnar er hún sögð vera áhættumat en það er rangnefni af því að í henni er ekki framkvæmt eiginlegt áhættumat.
Þegar áhætta er reiknuð er formúlan í sinni einföldustu mynd margfeldi líkinda og afleiðinga sem eru stuðlar sem fundnir eru út með ýmsum leiðum, allt eftir því hvert viðfangsefnið er.
Í skýrslunni er aðeins annar liður jöfnunnar, þ.e. líkindi, reiknaður út og afar hæpnar forsendur notaðar til þess og má segja að um sé að ræða reiknireglu. Inn í jöfnuna eru valdir stuðlar sem eru ekki í neinu samhengi við raunveruleikann eða fyrirliggjandi rannsóknir og jafn¬vel án þess að heimilda sé getið.
Þessi hugmynd að líkani er heimatilbúin og engar tilraunir hafa verið gerðar til að sannreyna það. Það verður því að skoðast eins og áður segir sem svokölluð „reikniregla“ sem hefur ekkert vísindalegt gildi og væri því mjög svo óábyrgt að ætla að hafa skýrsluna til hliðsjónar við stefnumótun í fiskeldi.
Síminnkandi sleppingar
Sem dæmi um stuðla sem notaðir eru í reiknireglunni eru gamlar norskar tölur um slysasleppingar sem aukinheldur eru margfaldaðar með stuðlinum 4. Höfundar reiknireglunnar ákveða að velja stuðulinn 4 fremur en 3, 2 eða 1 nú eða einhverja allt aðra tölu en engan rökstuðning er að finna fyrir þessu vali.
Fram kemur í skýrslunni að fjöldi laxa sem sleppur úr kvíum sé á stöðugri niðurleið en skýrsluhöfundar kjósa þrátt fyrir það að taka ekki tillit til þeirrar staðreyndar við útreikninga sína þó að tölurnar séu afgerandi. Miklar framfarir hafa orðið á búnaði sem notaður er í fiskeldi eftir að gæðastaðlar voru teknir upp og slysasleppingum hefur fækkað verulega
Í lok maí sl. höfðu t.d. aðeins borist tilkynningar til norskra yfirvalda um að 24 laxar hefðu sloppið.

Breiðdalsvík: Og hverjar yrðu svo afleiðingarnar fyrir Breiðdalsá? Svarið er litlar sem engar nema ef til vill jákvæðar. Áin er hafbeitará en eldisfiski hefur verið sleppt í ána frá árinu 1967 og hefur verið notast við nokkra mismunandi stofna við þá starfsemi. Í ánni er því ekki villtur stofn sem getur orðið fyrir áhrifum enda virðist lax eiga erfitt með að klekja út hrognum sínum þar hvort sem um er að kenna hve köld áin er eða öðrum óhagstæðum skilyrðum

Furðuleg niðurstaða
Hið svokallaða líkan gefur því einhverja furðulega niðurstöðu eða líkindi á að atburður geti gerst. Til þess að klára dæmið og reikna út áhættuna þarf að finna stuðul fyrir afleiðingarnar en þann lið vantar inn í útreikningana en meta þyrfti áhættuna fyrir hverja á eða svæði fyrir sig ef nákvæmni í vinnu-brögðum er óskað.
Afleiðingar fyrir Breiðdalsá
Og hverjar yrðu svo afleiðingarnar fyrir Breiðdalsá? Svarið er litlar sem engar nema ef til vill jákvæðar.
Áin er hafbeitará en eldisfiski hefur verið sleppt í ána frá árinu 1967 og hefur verið notast við nokkra mismunandi stofna við þá starfsemi. Í ánni er því ekki villtur stofn sem getur orðið fyrir áhrifum enda virðist lax eiga erfitt með að klekja út hrognum sínum þar hvort sem um er að kenna hve köld áin er eða öðrum óhagstæðum skilyrðum. Það er því falskur tónn í því að vilja koma í veg fyrir fiskeldi með það í huga að verja einhvern ímyndaðan sér-stakan laxastofn í Breiðdalsá sem ekki er lengur til en sú spurning vaknar hvað hefur orðið um náttúrulegan bleikjustofn sem eitt sinn var í ánni eftir að sleppingar á laxi í ána fóru að aukast?
Hagræn neikvæð áhrif verða engin af því að menn munu eftir sem áður koma í Breiðdalsá til þess að veiða.
Ef til vill má leiða líkum að því að áhrifin yrðu jákvæð með sterkari samfélögum á Austfjörðum.
Skýtur óneitanlega skökku við…
Það skýtur óneitanlega skökku við að verndargildi eldisár vegi meira en lífsviðurværi íbúa á Austfjörðum. Árið 2004 var ákveðið með lögum að aðeins mætti stunda fiskeldi á ákveðnum svæðum við landið og var gert ráð fyrir að hugsanlegum áhrifum laxeldis mundi gæta á svæðum sem voru talin síður viðkvæm og ekki hafa til að dreifa þekktum og stórum veiðiám. Breiðdalsá tilheyrir ekki þeim ám.
Ekki vísindalegt plagg
Á Djúpavogi vinna nú um 50 manns beint og óbeint við fiskeldi og allir hljóta að sjá að það yrði mikið áfall ef þau störf hyrfu vegna þessarar skýrslu. Ábyrgð þeirra sem ráða er mikil. Það væri alls ekki faglegt að nota skýrsluna sem tæki til þess að ákvarða framtíðarfyrirkomulag fiskeldis á Austfjörðum og svo sannarlega væri verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni á röngum forsendum af því að hér er ekki um vísindalegt plagg að ræða. Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að laxveiði og laxeldi geti blómstrað hlið við hlið hér á landi sem annars staðar, landi og þjóð til heilla.
Mikið er í húfi
Það væri virkilega óábyrgt að ætla að láta þessa skýrslu ráða ferðinni í upp-byggingu fiskeldis við Ísland vegna þess að hún er ekki nægilega vel unnin en í henni er farið á svig við grundvallarþætti vísindalegra vinnubragða og verklags og stuðst við getgátur og sögusagnir án heimilda.
Mikið er í húfi, orðspor Hafró, hagsmunir sveitarfélaga á svæðum sem hafa átt undir högg að sækja, lífsviðurværi fjölda fjölskyldna, auk þess sem uppbyggingu sem kostað hefur milljarða er teflt í tvísýnu.

Miklar ályktanir dregnar af fátæklegum gögnum

Miklar ályktanir dregnar af fátæklegum gögnum

Að mínu mati er þessi rannsókn ákaflega rýr og miklar ályktanir dregnar af fátæklegum gögnum. Vaknar því sú spurning hvaða tilgangi slík vinnubrögð eiga að þjóna. Þetta segir Jón Kristjánsson fiskifræðingur í meðfylgjandi grein sem hér birtist. Jón segir  að verið sé að vinna úr rannsóknargögnum, 701 laxaseiði úr 16 ám, að meðaltali 43 seiðum frá hverri á, en ekki er getið í hvaða ám sýnin eru tekin.Varðandi Botnsá í Tálknafirði segir hann að greind hafi verið 12 laxaseiði en enginn fullorðinn lax. Og um Botnsána segir Jón:

Botnsá er innst í Tálknafirði, stutt, köld, næringarsnauð með kvikulum malarbotni og ákaflega illa fallin, jafnvel óhæf, til uppeldis laxaseiða og viðhalds sérstaks laxastofns. Í ánni var ekki lax áður fyrr en í seinni tíð hafa veiðst í henni 5-6 laxar á ári. Í ósi árinnar hefur verið starfræk fiskeldisstöð í um 30 ár og þar framleitt laxaseiði ásamt eldi á regnbogasilungi í innikerjum og útitjörnum. Þar gætir flóðs og fjöru og óhjákvæmilega lekur fiskur út úr eldisstöðum.

Því verður að telja líklegt að seiðin sem fundust í Botnsá hafi komið úr eldisstöðinni og að þeir örfáu laxar sem þar hafa veiðst séu af svipuðum uppruna. Það er því nokkuð víst að í Botnsá hefur ekki verið neinn sérstakur laxastofn, sem hafi erfðablandast norskum laxi.

Hér á eftir fer greinin í heild sinni

Jón Kristjánsson fiskifræðingur

Jón Kristjánsson: Botnsá er innst í Tálknafirði, stutt, köld, næringarsnauð með kvikulum malarbotni og ákaflega illa fallin, jafnvel óhæf, til uppeldis laxaseiða og viðhalds sérstaks laxastofns

Mikil umræða hefur sprottið upp vegna fiskeldsisáforma víða um land. Takast þar á veiðiréttareigendur og stangveiðimenn annars vegar og fiskeldismenn hins vegar. Nýlega kom úr skýrsla frá Hafró um hættu af erfðamengun:

„Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi“

Þessi skýrsla hefur síðan verið notuð af báðum deiluaðilum til að styðja sitt mál. Minnir þetta mig á á deilur um smábátahöfn við Elliðaárósa á áttunda áratugnum. Veiðimálastjóri gaf umsögn um áhrif hafnarinnar á Elliðaárlaxinn og umsögnin var svo loðin að báðir deiluaðilar, sem voru annað hvort með eða á móti höfninni, notuðu umsögnina máli sínu til framdráttar. Höfnin var svo byggð en ekkert skelfilegt gerðist.
Úr skýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar
En aftur að skýrslu Hafró en þar segir:
„Í yfirstandandi rannsókn á vegum Hafrannsóknastofnunar (Leó Alexander Guðmundsson o.fl., óbirt gögn) hafa í fyrsta sinn fundist vísbendingar um erfðablöndun úr eldisfiski af um þessar rannsóknir en helstu bráðabirgðaniðurstöður eru birtar hér með góðfúslegu leyfnorskum uppruna yfir í náttúrulega íslenska laxastofna. Verið er að vinna að skýrslu i höfunda. Í rannsókninni voru erfðagreind sýni úr 701 laxaseiði úr 16 vatnsföllum á tímabilunum ágúst 2015 og ágúst/október 2016. Auk þess voru erfðagreind sýni úr tveimur kynþroska eldislöxum sem veiddust í Mjólká í ágúst 2016.“
Ekki getið um  úr hvaða ám sýnin eru tekin

Hér segir að verið sé að vinna úr rannsóknargögnum, 701 laxaseiði úr 16 ám, að meðaltali 43 seiðum frá hverri á, en ekki er getið í hvaða ám sýnin eru tekin, niðurstöður enn óbirtar, en ástæða þykir til að birta helstu niðurstöður, sem gefa sterkar vísbendingar um erfðablöndun norskra laxa og íslenskra. Það sem Hafró finnst bitastæðast birtist í kaflanum hér að neðan:
Sýnatakan var ekki umfangsmikil

„Bráðabirgðaniðurstöður gefa sterkar vísbendingar um að strokulaxar af norskum eldisuppruna hafi sloppið úr eldiskvíum, hrygnt og blandast villtum löxum í nágrenni eldissvæða. Skýr merki um erfðablöndun mátti sjá í tveimur laxastofnum, í Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostansfirði, sem er einn af innfjörðum Arnarfjarðar. Í Botnsá fundust fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði, öll af árgangi 2014. Sýnatakan var ekki umfangsmikil en það er athyglisvert að helmingur greindra seiða úr Botnsá reyndist vera af eldisuppruna. Höfundar skýra blendingana með því að eldislax hafi hrygnt í ánni og æxlast með villtum löxum (sennilega eldishrygnur og villtir hængar). Hrein eldisseiði hafa hugsanlega verið afrakstur innbyrðis æxlunar strokulaxa en einnig er mögulegt að þarna hafi verið um að ræða strokuseiði úr seiðastöðinni í botni Tálknafjarðar. Höfundar leiða að því líkur að þarna hafi verið um að ræða afkvæmi strokulaxa úr slysasleppingunni í Patreksfirði í nóvember 2013“.

Patreksfjörður

Enn fráleitari eru getgátur Hafró um að fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði séu afkvæmi strokulaxa úr slysasleppingunni í Patreksfirði í nóvember 2013. Þetta er ævintýraleg túlkun á fátæklegum gögnum og hrein ágiskun.

Miklar ályktanir dregnar af ákaflega takmörkuðum gögnum

Hér eru miklar ályktanir dregnar af ákaflega takmörkuðum gögnum og það láist að geta aðstæðna við Botnsá.Svo virðist sem greind hafi verið 12 laxaseiði en enginn fullorðinn lax.

Áin er stutt, köld, næringarsnauð og illa farin

Botnsá er innst í Tálknafirði, stutt, köld, næringarsnauð með kvikulum malarbotni og ákaflega illa fallin, jafnvel óhæf, til uppeldis laxaseiða og viðhalds sérstaks laxastofns. Í ánni var ekki lax áður fyrr en í seinni tíð hafa veiðst í henni 5-6 laxar á ári. Í ósi árinnar hefur verið starfræk fiskeldisstöð í um 30 ár og þar framleitt laxaseiði ásamt eldi á regnbogasilungi í innikerjum og útitjörnum. Þar gætir flóðs og fjöru og óhjákvæmilega lekur fiskur út úr eldisstöðum.

Í Botnsá var ekki neinn sérstakur laxastofn

Því verður að telja líklegt að seiðin sem fundust í Botnsá hafi komið úr eldisstöðinni og að þeir örfáu laxar sem þar hafa veiðst séu af svipuðum uppruna. Það er því nokkuð víst að í Botnsá hefur ekki verið neinn sérstakur laxastofn, sem hafi erfðablandast norskum laxi.
Ævintýraleg túlkun
Enn fráleitari eru getgátur Hafró um að fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði séu afkvæmi strokulaxa úr slysasleppingunni í Patreksfirði í nóvember 2013. Þetta er ævintýraleg túlkun á fátæklegum gögnum og hrein ágiskun.

Þá er óskiljanlegt og óleyfilegt að höfundar þessara getgáta hafi ekki greint frá því að eldisstöð, með norskum seiðum, hafi verið staðsett í ósi Botnsár í 30 ár. Einnig gleyma þeir því að seiðaeldisstöð, og áframeldisstöð hefur verið starfrækt á Gileyri, um 2 km frá Botnsá í áratugi og þaðan hafa vafalaust lekið seiði. Þá voru kvíar í firðinum á níunda áratugnum auk þess sem laxeldisstöðin Sveinseyrarlax var fyrir utan oddann.

Að mínu mati er þessi rannsókn ákaflega rýr og miklar ályktanir dregnar af fátæklegum gögnum. Vaknar því sú spurning hvaða tilgangi slík vinnubrögð eiga að þjóna.

Jón Kristjánsson, fiskifræðingur

Síða 21 af 41« Fyrsta...10...1920212223...3040...Síðasta »