Norðmenn stefna á 5 milljón tonna framleiðslu af eldislaxi árið 2050!

Í umræðunni um fiskeldið á Íslandi er oft horft til Noregs og er það vel.  Sumir hafa haldið því fram að ástæða þess að norsk fiskeldisfyrirtæki séu nú að fjárfesta í íslensku fiskeldi sé sú að þau hafi fullnýtt eldissvæðin í Noregi og leita því fanga hér.  Er því þá jafnframt slegið fram að umhverfisáhrif af eldinu þar séu það mikil að sjókvíaeldi í núverandi mynd muni hreinlega  leggjast af.  Ekki er það nú alveg sannleikanum samkvæmt, en skýrsla unnin af Hinu Konunglega Norska Vísindafélagi (DKNVS) og norsku Tækni Vísindaakademíunni (NTVA) árið 2012,  sýnir að norðmenn stefna á allt af 5 milljón tonna framleiðslu af laxi og silungi árið 2050.  Vissulega þurfa margir þættir tengdir sjókvíaeldi að vera í lagi eigi svo mikil framleiðsluauking að verða að veruleika og ýmsar áskoranir verða á þeirri vegferð.  En ljóst má þó vera að spár um endalok sjókvíaeldis í Noregi eru ekki á rökum reistar, þvert á móti verður áframhaldandi vöxtur þar eins og annarsstaðar enda mun fiskeldi allstaðar í heiminum verða í lykilhlutverki við þá prótínframleiðsluaukningu sem þarf að eiga sér stað til að mæta mannfjöldaaukningu næstu áratuga í heiminum.

Umrædd skýrsla er afar fróðleg en hana má nálgast hér.

Fiskeldið áberandi á Sjávarútvegsráðstefnunni 2017

Sjávarútvegsráðstefnan 2017 fór fram í Hörpu í síðustu viku.  Að þessu sinni átti fiskeldið nokkuð stóran sess, tvær málstofur sem teygðu sig yfir heilan dag.  Um 200 manns sátu málstofurnar og ljóst að mikill áhugi er á fiskeldi á Íslandi og vexti þess um þessar mundir.  Fyrirlesarar voru bæði innlendir og erlendir og voru afar athyglisverð erindi flutt og umræður voru fjörlegar.  Hermann Kristjánsson, forstjóri Vaka stjórnaði málstofunni af röggsemi.

Erindi fluttu:

Höskuldur Steinarsson, Landssambandi fiskeldisstöðva

Peder Strand, Arctic Securities (NO)

Heather Jones, Scottish Innovation (SCO)

Gunnar Davíðsson, Fylkesmannen i Troms (NO)

Ragnar Joensen, Marine Harvest (FO/NO)

Jostein Refsnes, Triton (NO)

Benedikt Hálfdánarson, Vaki

Roger Halsebakk, Sölvtrans (NO)

Kristján Matthíasson, Arnarlax

Erindin eru öll aðgengileg hér.

 

Einar K. Guðfinnsson taki við sem formaður stjórnar LF – Fréttatilkynning frá LF

Einar K. Guðfinnsson taki við sem formaður stjórnar LF

 

Stjórn Landssambands fiskeldisstöðva samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að leggja til við aukaaðalfund LF að Einar Kristinn Guðfinnsson verði kjörinn í stjórn sambandsins og taki þar við formennsku í stjórn þess. Aukaaðalfundurinn verður haldinn fimmtudaginn 24. þessa mánaðar.

Einar Kristinn lét af þingmennsku við nýliðnar alþingiskosningar eftir óslitna setu á Alþingi í ríflega aldarfjórðung, eða frá árinu 1991. Hann var sjávarútvegsráðherra á árunum 2005-2007 og ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála frá 2007-2009. Þá var hann forseti Alþingis frá árinu 2013 þar til hann lét af þingmennsku. Hann hefur lengi bundið vonir við að fiskeldi geti svarað ákalli byggðarlaga sem hafa átt undir högg að sækja í atvinnumálum og hefur í málflutningi sínum sem þingmaður sýnt fiskeldi áhuga og skilning og stutt dyggilega við uppbyggingu þess. Stjórn Landssambands fiskeldisstöðva mat það svo að fengur yrði af því fyrir atvinnugreinina féllist Einar á að ganga til liðs við landssambandið, nú að lokinni þingmennsku. Ákvað stjórn LF því að leita til hans um þátttöku í stjórn sambandsins sem stjórnarformaður. Á það hefur Einar fallist.

Í máli Einars Kristins á stjórnarfundi LF sem haldinn var í gær kom fram að  honum þætti spennandi að fá tækifæri til að hafa bein áhrif á þróun þessarar mikilvægu atvinnugreinar, sem þegar hefur valdið straumhvörfum á einstökum landssvæðum, eins og kunnugt er og getur orðið burðarás í atvinnulífi fleiri byggðarlaga sem staðið hafa höllum fæti. „Ég hef ávallt litið á mig sem erindreka fjölþættra atvinnutækifæra í landsbyggðunum og sem stjórnarformaður LF fæ ég kærkomið tækifæri til þess að halda þeirri vegferð áfram. Ég er sannfærður um að hægt sé að vinna að uppbyggingu fiskeldis í sátt við umhverfi og lífríki náttúrunnar og hef  skynjað mikinn metnað hjá fiskeldisfólki á því sviði. Fiskeldi á Íslandi er á ákveðnum tímamótum. Þegar hafa verið lagðir miklir fjármunir í uppbyggingu þess með góðum árangri. Framundan er frekari uppbygging til hagsbóta fyrir þjóðarbúið allt. Það er áhugavert að þessi uppbygging fer að lang mestu leyti fram á landsbyggðinni og þá ekki hvað síst í byggðarlögum sem hafa háð erfiða varnarbaráttu undanfarin ár.“

Að mati Einars Kristins er einnig nauðsynlegt að huga að fleiri þáttum svo sem  samgöngumálum og menntunarmálum í samhengi við þessa ört vaxandi atvinnugrein sem þarf á sífellt fleira starfsfólki að halda með fjölbreytta menntun af ýmsu tagi. Segir Einar mikilvægt að skapa vel menntuðu fólki aukin atvinnutækifæri og búsetuskilyrði á landsbyggðinni með sama hætti og t.d. hefur tekist á Austurlandi á undanförnum tíu árum þar sem ný kjölfesta varð til í Reyðarfirði.

„Það er svo ekki síður brýnt að eiga náið og gott samstarf við stjórnvöld og eftirlitsstofnanir um þróun greinarinnar og stuðla að góðri samvinnu við landeigendur og veiðiréttarhafa um vernd og viðgang villtra laxastofna. Vonandi verður unnt að skapa vettvang þar sem allir hagsmunaaðilar sjá sér hag í að snúa bökum saman og standa þannig sem best að uppbyggingu fiskeldisins. Að því vilja fiskeldismenn vinna og þess vegna er það í senn sómi og tilhlökkunarefni fyrir mig að slást í þann hóp,“ segir Einar Kristinn Guðfinnsson.

 

 

Reykjavík 17. nóvember 2016.

Hefja samstarf um tilraunaeldi á ófrjóum laxi – Fréttatilkynning frá LF

Landssamband fiskeldisstöðva hefur komið á samstarfi um tilraun til að ala ófrjóan lax  (þrílitna) í sjókvíum við Ísland, í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og Háskólann á Hólum. Aðilar að verkefninu eru, auk framangreindra, Stofnfiskur sem framleiða mun ófrjó hrogn fyrir verkefnið og Arctic Fish sem mun ala seiðin í samvinnu við Hólaskóla í seiðastöð sinni í Tálknafirði og síðar í sjókvíum í Dýrafirði. Nýr eignaraðili Arctic Fish, Norway Royal Salmon (NRS) hefur stundað rannsóknir á eldi á ófrjóum laxi með hrognum frá Stofnfiski í Noregi og mun tilraunin hér á landi byggja á þeirri reynslu þó að umhverfisskilyrði við Ísland séu önnur en í Noregi.

Um er að ræða spennandi tilraun sem ætlað er að varpa ljósi á hvort aðstæður við Ísland séu fýsilegar til eldis ófrjórra laxfiska. Tilraunin verður samanburðartilraun þar sem ófrjói laxinn verður alinn samhliða frjóum laxi við sömu aðstæður og á sama tímabili.  Með aðkomu vísindamanna Hafró og Hólaskóla og þátttöku eldisfyrirtækjanna tveggja er hægt að koma þessu verkefni á og verður athyglisvert fyrir atvinnugreinina og hagsmunaaðila að fylgjast með framvindu þess.

Samstarfið á sér langan aðdraganda og var í vikunni gengu ofangreindir aðilar frá samkomulagi um verkefnið. Undirbúningur er þegar hafinn og verið er að undirbúa hrogn sem klakin verða í byrjun næsta árs þannig að ef allt gengur samkvæmt óskum ættu fyrstu ófrjóu laxaseiðin að vera tilbúin til sjósetningar sumarið 2018. Fyrir hönd Hafrannsóknarstofnunar hefur Agnar Steinarsson verið skipaður verkefnastjóri í tilrauninni.

Ljóst er að margar áskoranir eru við eldi ófrjórra laxfiska umfram eldi frjórra samkvæmt reynslu erlendis, m.a. vegna mikilla affalla á eldistímanum og annarra þátta. Til dæmis er vansköpun nokkuð algeng á ófrjóum laxi auk þess sem reynslan sýnir að hann er bæði viðkvæmari fyrir súrefnisskorti og hærri sjávarhita. Vonir standa þó til að síðast talda atriðið falli réttum megin á vogarásnum með eldinu á Vestfjörðum þar sem sjór er kaldari en víðast hvar annars staðar þar sem sjókvíeldi er stundað. Það ásamt mati á eldi ófrjórra laxa við íslenskar umhverfisaðstæður eru meginrannsóknarþættir tilraunarinnar.

Af þessum ástæðum er mikilvægt að tilraun af þessu tagi fari fram hér á landi til að afla reynslu út frá raunverulegum aðstæðum. Þá er ósvarað mörgum spurningum um hærri fóðurkostnað auk siðferðis- og markaðsfræðilegra spurninga sem vakna við þessa framleiðslu.  Því er engan veginn ljóst á þessari stundu hvort eldi ófrjórra laxfiska við Ísland sé framkvæmanlegt, óháð því hvernig þessari tilraun reiðir af.

 

Reykjavík 27. október 2016.

Nánari upplýsingar veitir Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri LF, í síma 699 2691, netfang Hoskuldur@lf.is.

Síða 2 af 712345...Síðasta »