Tafir við leyfisveitingu eru farnar að bitna á uppbyggingu í Reyðarfirði

Tafir við leyfisveitingu eru farnar að bitna á uppbyggingu í Reyðarfirði

„Tafir við leyfisveitingu eru farnar að bitna mjög á þeirri starfsemi sem hefur verið í uppbyggingu í Reyðarfirði undanfarin ár. Fyrirhuguð 10.000 tonna viðbótarframleiðsla á laxi í Reyðarfirði hefur verið til meðferðar í stjórnsýslunni frá árinu 2012.“  – Þannig er komist að orði í nýrri  bókun bæjarráðs Fjarðarbyggðar og sem birtist  á heimasíðu sveitarfélagsins núna 11. september. Bókunin fer hér á eftir:

BÓKUN BÆJARRÁÐS VEGNA ÚTGÁFU LAXELDISLEYFA

Bæjarráð Fjarðabyggðar vill ítreka fyrri bókun sína um útgáfu leyfa í tengslum við laxeldi.

Tafir við leyfisveitingu eru farnar að bitna mjög á þeirri starfsemi sem hefur verið í uppbyggingu í Reyðarfirði undanfarin ár. Fyrirhuguð 10.000 tonna viðbótarframleiðsla á laxi í Reyðarfirði hefur verið til meðferðar í stjórnsýslunni frá árinu 2012. Það er óásættanlegt að fyrirtæki sem vill fjárfesta í atvinnuuppbyggingu sé búið að vera í umsóknarferli í sex ár án þess að niðurstaða sé í sjónmáli og virðist að greinin sitji ekki við sama borð hér og í öðrum landsfjórðungum. Eðlilegt er að sú umsókn taki mið af lögum og reglum sem í gildi eru og þeim gögnum sem þegar hefur verið aflað og lögð fram. Í samræmi við ályktun SSA 2018 leggur Fjarðabyggð áherslu á mikilvægi þess að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir fjölbreytta atvinnuuppbyggingu í fjórðungnum. Fiskeldi getur orðið ein af stoðum atvinnulífsins í Fjarðabyggð og þarf líkt og aðrar atvinnugreinar starfsumhverfi sem er skýrt og stöðugt til langs tíma. Bæjarráð Fjarðabyggðar hvetur stjórnvöld til þess að afgreiða þau mál sem beðið hafa afgreiðslu um árabil og hafa verið tafin ítrekað á grundvelli afturvirkni og jafnvel ólögmætra sjónarmiða. Jafnframt mun bæjarráð óska eftir fundi með Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um málefni laxeldis í Fjarðabyggð.

„Sem stangveiðimaður skil ég ekki þessa öskurumræðu um fiskeldi í sjó vestur á fjörðum“

„Sem stangveiðimaður skil ég ekki þessa öskurumræðu um fiskeldi í sjó vestur á fjörðum“

Efftirfarandi pistil skrifar Runólfur Ágústsson verkefnastjóri á facebooksíðu sína. Runólfur var ma rektor Háskólans á Bifröst, einn af stofnendum og fyrsti framkvæmdastjóri Keilis og  hefur verið einn helsti frumkvöðullinn  að stofnun Lýðháskólans á Flateyri og er stjórnarformaður hans:

„Sem stangveiðimaður skil ég ekki þessa öskurumræðu um fiskeldi í sjó vestur á fjörðum. Atvinnuuppbygging í laxeldi hefur gjörbreytt lífsskilyrðum fólks þar sem uppbygging hefur tekið við af vörn og hnignun. Við þá uppbyggingu er auðvitað nauðsynlegt að hafa í huga vísindalega ráðgjöf og mat okkar besta vísindafólks um áhættu af laxeldi.

Það er einmitt það sem við erum að gera, öfugt við það sem ætla má af umræðunni. Eldisfiskurinn sem veiddist í Vatnsdalsá staðfestir neðangreint mat Hafró. Hann er eini eldislax sumarsins sem veiðist utan Vestfjarða, af ca 40.000 veiddum löxum og hann var ófrjór.

Þeir sem hafa áhuga á faglegri umfjöllun um þetta mál ættu að lesa þessa skýrslu okkar færustu vísindamanna:“

https://www.hafogvatn.is/static/research/files/hv2017-027pdf

Fiskeldi getur orðið ein af burðarstoðum atvinnulífsins í Fjarðabyggð

Fiskeldi getur orðið ein af burðarstoðum atvinnulífsins í Fjarðabyggð

„Fisk­eldi get­ur orðið ein af burðarstoðum at­vinnu­lífs­ins í Fjarðabyggð og mik­il­vægt að stjórn­völd skapi heil­brigt og hvetj­andi um­hverfi til upp­bygg­ing­ar í grein­inni. Öflugt at­vinnu­líf er for­senda fram­fara og und­ir­staða vel­ferðar­kerf­is­ins.“ Þetta kemur fram í ályktun fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Fjarðabyggð. – Hér á eftir fer ályktunin í heild sinni:

Full­trúaráð Sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Fjarðabyggð lýs­ir yfir undr­un sinni á að ekki hafi feng­ist heim­ild­ir fyr­ir auknu lax­eldi í Reyðarf­irði eins og burðarþols­mat seg­ir til um og unnið hef­ur verið að á und­an­förn­um árum. Fyr­ir­huguð 10.000 tonna viðbótar­fram­leiðsla á laxi í Reyðarf­irði sem ætti að taka und­ir eðli­leg­um kring­um­stæðum um það bil tvö ár hef­ur verið til meðferðar í stjórn­sýsl­unni frá ár­inu 2012. Ástæður taf­anna verða ekki rakt­ar til fram­kvæmd­araðila held­ur sí­breyti­legs reglu­verks, aft­ur­virkni og yfi­r­álags á stofn­un­um rík­is­ins.

Það er óá­sætt­an­legt að fyr­ir­tækj­um sem vilja fjár­festa í at­vinnu­upp­bygg­ingu sé haldið í spennitreyju stjórn­kerf­is­ins. Fyr­ir­hugaðar fram­kvæmd­ir hafa ít­rekað verið sett­ar í upp­nám og nú síðast á afar ómál­efna­leg­um sjón­ar­miðum þar sem þekkt haf­beitará er skil­greind rang­lega sem laxveiðiá þrátt fyr­ir að ritaðar heim­ild­ir hundruð ára aft­ur í tím­ann sýni með ber­um hætti að eng­an laxa­stofn hef­ur nokkru sinni verið að finna í ánni.

Fisk­eldi get­ur orðið ein af burðarstoðum at­vinnu­lífs­ins í Fjarðabyggð og mik­il­vægt að stjórn­völd skapi heil­brigt og hvetj­andi um­hverfi til upp­bygg­ing­ar í grein­inni. Öflugt at­vinnu­líf er for­senda fram­fara og und­ir­staða vel­ferðar­kerf­is­ins. All­ar at­vinnu­grein­ar þurfa starfs­um­hverfi sem er skýrt og stöðugt til langs tíma. Mik­il­vægt er að ein­falda op­in­bert eft­ir­lit og tryggja að það hamli ekki framþróun.

Full­trúaráð Sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Fjarðabyggð skor­ar á Kristján Þór Júlí­us­son sjáv­ar­út­vegs­ráðherra að höggva á þann hnút sem um­sókn­ar­ferlið er í inn­an ís­lenska stjórn­kerf­is­ins.

Seyðisfjörður með 10 þúsund tonna burðarþol vegna fiskeldis á grundvelli varúðarnálgunar

Seyðisfjörður með 10 þúsund tonna burðarþol vegna fiskeldis á grundvelli varúðarnálgunar

Hafrannsóknastofnun ráðleggur í samræmi við lög um fiskeldi (nr 71/2008 m.s.br.) að hámarklífmassi fiskeldis í Seyðisfirði verði 10.000 tonn. Af þessum ástæðum sem stofnunin tilgreinir í mati sínu gefur varúðarnálgun ástæðu til þess að mæla með því að hámarks lífmassi verði ekki meiri en 10.000 tonn í Seyðisfirði.

Þetta kemur fram í tilkynningu stofnunarinnar sem birtist á vef hennar, https://www.hafogvatn.is/

Í greinargerðinni kemur eftirfarandi ma fram:

„Við breytingu á lögum um fiskeldi (nr. 71/2008) árið 2014 voru sett inn ný ákvæði um að rekstrarleyfi skuli fylgja burðarþolsmat sem framkvæmt sé af Hafrannsóknastofnun. Í lögunum er mat á burðarþolisvæða skilgreint sem mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagián þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmiðsem sett eru samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að metaóæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.
Forsendur
Niðurstaðan byggir á mati á áhrifum eldisins á ýmsa umhverfisþætti strandsjávarvatnshlota eins og lýst er í reglugerð 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Einkum er horft til álags á lífríki botnsins, súrefnisstyrks og styrks næringarefna.
Ekki liggur fyrir matskerfi til að nota við mat á ástandi líffræðilegra gæðaþátta í
strandsjávarvatnshlotum en hér er stuðst við aðrar skuldbindingar eins og t.d. OSPAR samninginn. Til vatnshlota í strandsjó, sem hafa gott eða mjög gott ástand, er gerð sú krafa að ástand þeirra skuli ekki hnigna þrátt fyrir fiskeldi eða aðra starfsemi.
Tillit er tekið til stærðar fjarðarins, dýpis og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk. Í þessu mati er gert ráð fyrir að hámarkslífmassi verði aldrei meiri en 10.000 tonn og að nákvæm vöktun á áhrifum eldisins fari fram samhliða því. Slík vöktun er forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt væri á raungögnum. Jafnframt er bent á að æskilegra er að eldismassi sé frekar utar í firðinum en innar.“
Burðarþolsmat á grundvelli varúðarnálgunar
Þá segir í greinargerð sem fylgir burðarþolsmatinu:
„Margir aðrir líffræðilegir, vistfræðilegir og hagrænir þættir geta líka legið til grundvallar burðarþoli varðandi fiskeldið, t.d. skólplosun, smithætta, lyfjanotkun, erfðablöndun við villta stofna og veiðihagsmunir. Þessu til viðbótar hefur komið í ljós að laxalús og fiskilús geta valdið meiri skaða en áður var talið. Fyrir fjörð sem er jafn lítill og Seyðisfjörður hefur skortur á plássi einnig áhrif á burðarþolið og getur magnað mögulegan lúsavanda. Ljóst er að hér eru fyrir hendi aðstæður sem setja verulegt mark á burðarþol fjarðarins.
Af þessum sökum gefur varúðarnálgun ástæðu til þess að mæla með því að hámarks lífmassi verði ekki meiri en 10.000 tonn í Seyðisfirði.
Í þessu mati er gert ráð fyrir að heildarlífmassi verði aldrei meiri en 10.000 tonn í Seyðisfirði og að nákvæm vöktun á áhrifum eldisins fari fram samhliða því. Slík vöktun er forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt væri á raungögnum.
Jafnframt er bent á að æskilegra er að meiri eldismassi sé frekar utar í firðinum en innar. Þá telur Hafrannsóknastofnun að ástæða sé til að halda þau lágmarks fjarlægðarmörk milli eldisvæða sem reglugerð nr 1170/2015 setur.

Sjá nánar: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/mat-a-burdartholi-seydisfjardar-mtt-sjokviaeldis

Óraunsætt að bera saman gjaldtöku vegna eldisleyfa á Íslandi og í Noregi

Óraunsætt að bera saman gjaldtöku vegna eldisleyfa á Íslandi og í Noregi

Fyrirtækið Laxar fiskeldi á Reyðarfirði birti á heimasíðu sinni fróðlega samantekt í tilefni
af umræðu sem hefur orðið um gjaldtöku í fiskeldi á Íslandi og í Noregi. Þar kemur ma eftirfarandi fram:

1. Norðmenn framleiða 1,3 milljónir tonna af eldislaxi, Íslendingar 15 þúsund tonn
2. Eldisleyfi í Noregi eru varanleg, á Íslandi eru þau tímabundinn afnotaréttur.
3. Sala á eldisleyfum í Noregi hófst ekki fyrr en fiskeldi hafði byggst upp
4. Fyrstu 40 árin greiddu fyrirtæki í Noregi aðeins fyrir starfs og rekstrarleyfi.
5. Mikill kostnaður er við kaup á sérfræðivinnu og gagnaöflun hér á landi.
6. Fyrirtækjum á Íslandi er skylt að kaupa tryggingar fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða.
7. Umsóknarferli Laxa vegna 10.000 tonna framleiðsluaukningar í Reyðarfirði hefur staðið yfir frá því árið 2012.

Frá fiskeldi Laxa í Reyðarfirði: Eldisleyfi í Noregi eru varanleg, á Íslandi eru þau tímabundinn afnotaréttur. – Sala á eldisleyfum í Noregi hófst ekki fyrr en fiskeldi hafði byggst upp

Hér á eftir fer samantekt Laxa fiskeldi í heild sinni:
Í tilefni af umfjöllun um gjaldtöku vegna starfs- og rekstrarleyfa í laxeldi í Fréttablaðinu laugardaginn, 25. ágúst sl. vilja Laxar fiskeldi koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem dregin er upp einföld og röng mynd af kostnaði og gjöldum varðandi laxeldi á Íslandi og hún borinn saman við rekstrarumhverfi laxeldisfyrirtækja í Noregi.
Óraunsætt að bera saman gjaldtöku vegna eldisleyfa á Íslandi og í Noregi
Að bera saman gjaldtöku vegna eldisleyfa á Íslandi og í Noregi er óraunsætt og lýsir mikilli vanþekkingu á leyfaumhverfi og stöðu greinarinnar hérlendis og erlendis. Í Noregi er hefð fyrir laxeldi þar sem öflugir innviðir hafa byggst upp á áratugum en Norðmenn framleiða um 1,3 milljónir tonna af eldislaxi á ári á meðan u.þ.b. 15.000 eru framleidd á ári á Íslandi.
Í Noregi eru eldisleyfi varanleg en ekki tímabundin afnotaréttur eins og á Íslandi
Í Noregi geta fyrirtæki með auðveldum hætti leigt margvíslegan búnað tímabundið af sérstökum þjónustuaðilum. Á Íslandi er veruleikinn allt annar þar sem fyrirtæki þurfa helst að eiga allan búnað eða sækja þjónustu til annarra landa með tilheyrandi umframkostnaði. Jafnframt má benda á að leyfafyrirkomulag er annað í Noregi þar sem eldisleyfi eru varanleg en ekki tímabundinn afnotaréttur líkt og gerist hér. Að jafna saman eldisleyfum í Noregi og á Íslandi án þess að taka inn í grundvallarforsendur er líkast því að bera saman fasteignaverð á Langanesi við það sem tíðkast í miðborg Óslóar
Sala eldisleyfa hófst ekki í Noregi fyrr en iðnaðurinn hafði byggst upp
Mikilvægt er að halda því til haga í umræðunni að norsk yfirvöld hófu ekki sölu eldisleyfa fyrr en á þessari öld þegar iðnaðurinn hafði byggst upp og sannað sig þar í landi eftir áratuga þróun. Fyrstu fjörutíu árin greiddu fyrirtæki í Noregi aðeins fyrir starfs- og rekstrarleyfi. Hérlendis hefur hins vegar strax verið lagt á gjald sem rennur til umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Gríðarlega kostnaðarsamt verkefni bíður íslenskra eldismanna við að byggja upp trausta innviði greinarinnar.
Mikill kostnaður vegna sérfræðivinnu og greiðslur í Umhverfissjóð sjókvíaeldis
Kostnaður eldisaðila við kaup á sérfræðivinnu og gagnaöflun vegna leyfisumsókna hleypur á tugum milljóna króna. Verði niðurstaða Skipulagsstofnunar á leyfisumsókn sú að framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, þá fyrst opnast leið til að sækja um starfs- og rekstrarleyfi. Í rekstrarleyfi er gerð krafa um að leyfishafi kaupi tryggingu, kr. 3.000 fyrir hvert tonn, sem heimilt er að framleiða. Fyrirtæki með stór leyfi þurfa því að greiða umtalsverðar fjárhæðir. Að auki er gerð sú krafa í starfsleyfum að framkvæmdaraðili kaupi tryggingar vegna starfsemi sinnar. Þar með er ekki öll sagan sögð því rekstrarleyfishafa ber að greiða árlegt gjald að fjárhæð 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og rennur það óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Þetta þýðir að greiddar eru tæplega tvær milljónir króna fyrir hver þúsund tonn árlega. Laxar Fiskeldi ehf., greiðir 11,5 milljónir króna fyrir rekstrarleyfi félagsins á ári. Gjaldið er innheimt burt séð frá því hvort rekstur sé hafinn eða ekki.
Umsóknarferli Laxa hefur staðið yfir frá árinu 2012
Þá er nauðsynlegt að benda á þann málsmeðferðarhraða sem er á afgreiðslu leyfisumsókna. Ferlið er gríðarlega tímafrekt og kostnaðarsamt, t.a.m. hefur umsóknarferli Laxa vegna 10.000 tonna framleiðsluaukningar í Reyðarfirði staðið yfir frá því árið 2012. Það krefst þolinmóðs fjármagns að miða fjárfestingar við mögulega framleiðsluaukningu sem háð er svo tímafreku umsóknarferli.
Fögnum opinberri umræðu
Við fögnum opinberi umræðu um rekstrarumhverfi og starfsemi laxeldisfyrirtækja. Mikilvægt er þó að umræðan sé byggð á staðreyndum og taki mið af því rekstrarumhverfi sem við störfum í en ekki gjörólíku umhverfi eins og er í Noregi.

Síða 5 af 42« Fyrsta...34567...102030...Síðasta »